Úr Vistarverum Hauks Ingvarssonar

Skrif um skrif um skrif

Ég gerðist skáldsagnaritstjóri Starafugls síðasta haust. Óvart. Boðið kom óvænt eins og elding af himni. Elding er útrás af rafmagni úr skýi sem oft fylgir þruma. Eins og Tesla eldingar. Eða bassalínueldingar Bjarkar sem komu úr Tesla spólu í Silfurbergi Hörpu á Biophilia-túrnum og gáfu ekki bara undirstöðu tónlistinni, heldur líka hugmyndinni um töfrandi afsprengi samstarfs milli þessa tveggja þjóðheima. Eins og eldingar sem hér á landi sjást oftast við eldgos. Gat ég sagt nei við því? Nei, auðvitað ekki. Náttúrukraftar eru ómótstæðileg kraftaverk, rétt eins og íslenskar bókmenntir. Eða réttara sagt, tengsl mín við þær og ekki síður, við tungumálið sjálft. Sjálf var ég um það tímabil nýflutt frá höfuðborg Íslands til annarrar höfuðborgar Íslands í annað skipti í tilefni rannsóknardvalar tengdu akademískum skrifum og þetta virkaði eins og dásamlegt tækifæri til að missa ekki innsýn í það sem er að gerast í íslenskum bókmenntaheimi og halda sér á tánum. Ekki að það væri annars líklegt að ske, en Kaupmannahafnartakturinn getur líka verið ansi tælandi.

En til hvers að skrifa um bókmenntir þegar hlýnun jarðar ógnar tilveru okkar og við erum í hættuástandi sem ætti að gera eitthvað við núna strax, þó að það sé kannski þegar of seint? Hvernig getum við eytt orkunni og dýrmætum tíma í að setja saman orð um önnur orð sem einhver annar hefur skrifað áður fyrr og sem voru prentuð á pappír búinn til úr tré úr skógi sem hjálpar mér og þér og háni að anda? Hvernig getum við leyft okkur að eyða fleiri andardráttum í að skrifa um skrif og láta aðra lesa skrif okkar um skrif okkar eða ennþá verra, skrif okkar um skrif okkar um skrif okkar? Er þessi metahugsun forsvaranleg og sjálfbær?

Spurningin er hvort það sé yfir höfuð mögulegt að skrifa um eitthvað annað en yfirvofandi heimsendir sem læðist að okkur hægt og rólega eins og Haukur Ingvarsson teiknar hann í Vistarverum. Svartur punktur á hvítu blaði. Olía á ís. Hvítur punktur á svörtu blaði. Ísbjörn á Sprengisandi. Svo einfalt er þetta. Og svo hratt koma afleiðingar og hnignun. En sama myndhverfing getur líka teiknað eitthvað allt annað. Hvítur punktur á svörtu blaði. Stjarna á himni. Svartur punktur á hvítu blaði. Sandkorn í lófa. Manneskja geymir allan geim í sér. Hún er bæði maur og risi og þaðan kemur þráin til að skrifa og skilja. Kannski er það ekki svo ólíkt því að setja súrefnisgrímu í flugvél á sjálft sig fyrst, áður en hægt er að hjálpa öðrum. Manneskja þarf að skrifa og lesa áður en hún bjargar heiminum. Að skrifa um eitthvað sem bersýnilega stendur okkur nær en ísbjörninn á Sprengisandi. Því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar / af aldamótakynslóðinni. / Þeir eru millennials. / Þeir vita ekkert hvað þeir vilja gera í lífinu. / Starfið hér í símaverinu / er bara millilending / í helvíti. / Þeir þjást af kvíða. / Við höfum hljóðritað mörg hundruð simtöl / þar sem þjónustufulltrúar okkar kvarta, / nei, fyrirgefðu: væla / yfir kvíða. Á þetta minnir Dagur Hjartarson í sinni sorgarþrungnu ljóðabók um kvalir nútímasamfélagsins viðeigandi nefnd Því miður. En til að geta mögulega andað eðlilega, þurfa skrifin, bókmenntir og listir líka að létta af okkur þessari þungu byrði á brjóstkassanum. Hvort sem það er útrás sem maður fær við lestur glæpasagna eða innblástur sem flæðir yfir mann við lestur ljóða. Ljóð til að lækna sálina og lækna heiminn. Elísabet Kristín Jökulsdóttir segir „ljóðin bera hana út úr eldinum“ í ljóðabókinni Ástin ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett. Það er enginn dans áður en kona er búin að losa sig við ofbeldismanninn og ofbeldissamfélagið. Tvímælalaust er eitthvert vit í því sem Sverrir Norland skrifar í Erfðaskrá á útdauðu tungumáli, einni af fimm bókum í sínu bókaknippi: Þú verður að lesa. Að öðrum kosti botnarðu aldrei neitt í neinu – ekki nema þú byrgir þig inn í orðveruleikanum og lesir. Lestu!!

En hver skrifar svo orð um orð á þessari litlu eyju þar sem samfélagið er lítið, bókmenntasamfélagið minna og höfundasamfélagið enn minna? Jú, fólk skrifar sín á milli. Hvað gerir maður þegar helmingur gagnrýnanda tekur þátt í jólabókaflóðinu með eigin verk, og hver fjallar um þau, þegar hinn helmingurinn er annaðhvort skyldur þeim, nágrannar eða fyrri bekkjasystkini? Hvað ef Ritstjóri gefur út bók sem snertir mikilvæg efni samtímans og engum menningarvef má yfirsjást? Eins gott að hafa einhvern utanaðkomandi um borð, sem er að minnsta kosti ekki fyrri leikskólafélagi. Eða kannski eru þetta einungis lúxusvandamál og maður með einstaklega góða penna. Einnig getur staðan verið góð æfing í fjarlægð og gagnrýninni hugsun. Hinsvegar er tilvalið að hrista upp í hlutunum og opna fyrir. Kíkja yfir hafið og taka til umfjöllunar ekki bara þýddar bókmenntir, en mögulega líka ennþá óþýddar og mæla með þeim. Ræða efni í ýmsum formum, gefið út á forlögum af allskonar gerðum. Vera algjörlega fordómalaus í garð eðlis og gæða bókmenntanna. Upplifa og ræða menninguna eins og hún er. Hvorki meginstraumur né jaðar. Hvorki há né lág. Hvorki innlensk né útlensk. Einfaldlega mennsk. Allavega áður en gervigreind tekur yfir skapandi greinar. Þá líka vélmennsk. Þangað til við rísum úr öskunni. Sameinuð sem eitt.

Hvítur punktur á svörtu blaði. Upphaf. Svartur punktur á hvítu blaði. Endir.