Árið 1971 gaf hljómsveitin Mánar frá Selfossi út sína fyrstu breiðskífu sem iðulega er kölluð „Svarta platan“. Fjörtíu og fimm árum síðar gaf hljómsveitin svo út sína aðra breiðskífu, Nú er öldin önnur. Á báðum þessum plötum eru lög sem er vel við hæfi að rifja upp á baráttudegi verkalýðsins.
„Svarta platan“ verður að teljast meðal bestu rokkplatna Íslandssögunnar og sannaralega meðal þeirra bestu frá þessu tímabili í kringum 1970. Hún einkennist af framsæknu og þungu rokki og margir textarnir eru rammpólitískir á fremur beinskeyttan og einfaldan hátt.
Á „Svörtu plötunni“ frá 1971 er að finna sannkallaðan óð til verkamannsins í laginu „Villi verkamaður“. Þetta er kröftugt rokklag með einföldum texta Ómars Halldórssonar, kannski svolítið næfum, en djúpur skáldskapur er auðvitað óþarfur þegar skilaboðin eru skýr og tónlistin bætir við merkinguna með þunga sínum og tilfinningu: „Þó ég þræli, alla mína ævi / hef ég hvorki ofan í mig né á […] Oní skurðum, ég hef atazt blautur / þó það gefi ekkert í aðra hönd.“
https://www.youtube.com/watch?v=gkvPebO1dig
Þegar næsta plata sveitarinnar kom út árið 2016 er Vilhjálmur ekki gleymdur. Platan opnar á titillaginu „Nú er öldin önnur“ sem kallast á við „Villa verkamann“: „Nú er öldin önnur og enn er stiginn dans / þó ekki breytist hagur hins hrjáða verkamanns / Í lífeyri hans seildist siðblint valdalið / sem engu lífi eyrir og engum gefur grið.“
https://www.youtube.com/watch?v=3AX06bKCZGA