Þú horfir á skjáinn dæla inn myndum, litum og orðum. Rennir niður skjáinn og horfir. Hlaðborð stafrænnar tilveru. Allir geta flett upp öllu og allt er til. Þú rennir niður skjáinn og horfir. Allt er til; heimspeki, fræðirit, vísindi, sjálfshjálp, fréttir og veðurspá – stjörnuspá. Ítarlegar, ritrýndar greinar um skipulagsmál og skýrslur IPCC um loftslagsbreytingar. Þú rennir niður skjáinn og við blasa Platón, Marie Curie, Andy Warhol, Hannah Arendt, Noam Chomsky og David Bowie. En þarna er líka grein um það hvernig á að elda máltíð fyrir fjóra bara með kveikjara, tannstöngli og tölvumús. Þarna er myndband af manni að stinga höfðinu ofan í örbylgjuofn fullan af blautri steypu.
Upplýsingaflæði. Hvaða merkingu hefur þetta allt? Vitum við ekki of mikið og skiljum of lítið?
Á hverri mínútu eru settar rúmlega 300 þúsund stöðuuppfærslur inn á Facebook. Vel yfir 300 klukkutímum af myndefni er hlaðið inn á Youtube. 350.000 tíst og 200 milljón tölvupóstar eru sendir. Frá því fyrir 12 þúsund árum og til ársins 2003 voru 5 exabæt af stafrænu efni, milljarður gígabæta, búin til. Í dag er slíkt magn búið til á tveimur dögum. Allar þessar töluupplýsingar fengust auðvitað með leitarvélinni Google.
Ein vinsælasta spurningin sem flett er upp á Google er aftur á móti: Hvað á ég að gera við líf mitt? Talsvert flóknari spurning, en það er af nógu að taka, nægar upplýsingar eru til – ekki satt?
Í rannsóknum mannsins á hans flóknasta og mikilvægasta líffæri, heilanum, mætti segja – til talsverðrar, næstum barnalegrar, einföldunar – að á virkni hans séu tvær hliðar. Til er svokallaður nýheili, nýjasti hluti heilans í þróunarsögunni, sem hefur meðal annars gefið okkur siðmenningu, tungumál, listir og tækni.
En svo er önnur virkni heilans, hinn svokallaði skriðdýrsheili, sem finna má bæði í spendýrum og skriðdýrum. Þar er að finna frumstæðasta og elsta hluta heilans, þann sem lætur okkur hugsa um afmarkaða ættbálka, vekur skammtímahugsun og síðast en ekki síst færir hann okkur óskhyggju; að forðast að horfast í augu við sjálf okkur en sækja fremur í afþreyingu, fantasíur og vímuefni.
Heilinn er þversagnakenndur, hann hefur dýrslegar og hvatvísar hliðar en einnig rökvísari hliðar. Þegar kemur að upplýsingum þurfum við að vera sérstaklega meðvituð um að í okkur búi skriðdýrsheili, frumstæðar skammtímahvatir. Til þess að skapa samfélag sem byggir ekki aðeins á þeim hvötum þurfum við að sporna við þeim. Við þurfum að gera uppreisn.
„Ég geri geri uppreisn – þess vegna erum við,“ sagði fransk/alsírski heimspekingurinn og rithöfundurinn Albert Camus í bók sinni Uppreisnarmanninum (fr. L’homme Révolté) frá 1951. Í henni leggur Camus út frá einni af þekktustu hugmynd sinni um að heimurinn sé absúrd eða fjarstæður, laus við allra innri merkingu. Camus segir uppreisn vera afurð misræmis sem ríkir milli óbilandi leit mannshugans að skýringum og hins fjarstæðukennda, merkingarlausa heims. Í kjölfarið gerir Camus kröfu um að við gerum okkur grein fyrir merkingarleysinu og tökum ábyrgð á því með því að gera okkur frjáls – svo frjáls raunar að sjálf tilvera okkar verður að uppreisn.
Kjarninn í hugmyndum bókarinnar er að við krefjumst frelsis með uppreisn, ekki til þess að traðka á frelsi annarra heldur fagna því. Við, í einingu. „Ég geri uppreisn – þess vegna erum við.“
Hugmyndirnar í Uppreisnarmanninum er vissulega litaðar af þeim tíma þegar hún kom út. Þegar mannkyn sleikti sárin eftir blóðuga heimstyrjöld og reyndi að raða brotunum saman. Einmitt í því stríði höfðu einstakir menn gert uppreisn gegn hinu fjarstæðukennda með allsherjar merkingu og brugðu sér í hlutverk guðs með valdi. Stalín, Maó, Hitler o.s.frv.
Frá útgáfu Uppreisnarmannsins eftir Camus höfum við auðvitað horft upp á ýmsar samfélagsbreytingar. Kommúnisminn leið undir lok og við héldum að vesturlönd hefðu sigrað heiminn með frjálslyndu lýðræði og kapítalisma. Francis Fukuyama var tilbúinn að setja punkt við mannkynssöguna, svo viss var hann um að spádómar Marx væru rangir. 1 Við vorum loks frjáls. Það frelsi miðaðist þó í raun að miklu leyti við að fólk fengi að velja milli tegunda af hamborgurum og gallabuxum. Frelsi markaðar og mannsins sem neytandi. Frelsi til að versla í Costco.
Við upplifum breytingar í bylgjum, byltingar koma og fara, stöðugleiki kemur og fer. Í dag, mætti segja að enn á ný ríki átök um hugmyndafræði, nú í alþjóðavæddum heimi. Það hefur risið ný valdastétt sem daðra við allsherjar merkingu, ættbálkahyggju og óskhyggju (hina þrjá meginlesti skriðdýraheilans). Merkingunnar er leitað í þjóðríkinu, verndarstefnu, ákveðnum kynþáttum eða formótuðum gildum. Hún fagnar einföldum lausnum, vel merktum boxum fyrir hugmyndir okkar. Það er þessi tilhneiging – heildarlausnir fyrir mannlegar hugmyndir – sem veldur því að fólk er tilbúið til að uppreisn á endanum.
Gegn hverju þurfum við uppreisn í dag? Samtími okkar, sítengdur á netinu og í stöðugri merkingarleit í upplýsingaflæðinu. Upplýsingaflæðið hefur aldrei verið meira en það hefur aldrei verið auðveldara að vera hjarðdýr. 300 þúsund stöðuuppfærslur inn á Facebook. 300 klukkutímum af myndefni inn á Youtube. 350.000 tíst og 200 milljón tölvupóstar sendir. Við erum of upptekin af því að hlaða inn upplýsingum fremur en að finna þær.
Við verðum að gera uppreisn í absúrd heimi en líka að koma upplýsingum betur á framfæri. Við verðum að velja upplýsingar, ekki bara horfa á þær og fagna magninu. Við verðum eftir bestu getu að reyna að finna réttustu upplýsingarnar hverju sinni.
Á tímum Uppreisnarmanns Camus var það frelsi frá kúgun og ofríki. Í dag er það frelsi til staðreynda og til einlægni. Frelsi til þess að skipuleggja til framtíðar með rökrænum hætti (og færa nauðsynlegar fórnir í því skyni) og til þess þarf samkennd fyrir náungnum, sérstaklega náungum framtíðar sem við munum aldrei fá að hitta.
„Þú gerir uppreisn – þess vegna erum við.“
Skrifað í Reykjavík, júní 2017
1. | ↑ | https://en.wikipedia.org/wiki/The_End_of_History_and_the_Last_Man |