Stéttastríð og heimsendir

Samfélagið er óheilbrigt, fökkt. Ég var í sturtu um daginn, lét heita vatnið gusast yfir mig og hallaði mér að gluggasillunni sem er svo heppilega staðsett á baðherberginu mínu. Á meðan hálfstíflaða niðurfallið erfiðaði svo ég var kominn í óundirbúið fótabað meðfram sturtunni horfði ég á fingurna á mér. Á þeim voru slatti af litlum skrámum og sárum og eitthvað sem ég vissi ekki og veit enn ekki hvað er. Eitthvað sem er að brjótast fram. Hugsanlega vörtur, einhver sýking eða eitthvað. Mín fyrsta hugsun var að ég þyrfti að láta kíkja á þetta, finna húðlækni í símaskránni. Önnur hugsunin var að ég ætti að bíða með það fram að næstu mánaðarmótum.

Tveimur mínútum síðar var ég orðinn reiður. Þetta er stéttastríð. Nóta bene þá er ég einhvers konar lufsa, aumingi. Ég er í hálfu starfi (þótt mér finnst það nú eiginlega vera mjög heillegt) og ég er nýfluttur í leiguhúsnæði með þremur jafnöldrum. Og já, ég var að drekka bjór í sturtunni, og ég drakk meiri bjór þegar ég var búinn að þurrka mér. Og ég fór niður í bæ (en keypti samt ekkert þar) og var til lokunar.

Mér til varnar: Þetta var mjög ódýr bjór. Maður þarf stundum (oft?) að djamma. Það er að koma heimsendir. Mér finnst eins og nánast allar dýrategundir séu í útrýmingarhættu. Ég veit ekki hvar ég verð eftir 5, 10, 15 ár því ég hef ekki hugmynd um hvernig heimurinn verður. Það er að koma annað hrun. Og þá þarf maður stundum (oft) að drekka og dansa og reyna við fólk sem maður þekkir ekki og finnast maður vera töff.

Ég er ekki reiður fyrir mína hönd. Að vera kannski að fá vörtur er ekki akút, það skiptir svo að segja engu máli. Það fer kannski í taugarnar á mér, en ekkert til að fara í stéttarstríð yfir. Ég er ekkert sérstaklega illa stæður og mínar aðstæður eru að mestu sjálfvaldar. Fyrir utan hátt leiguverð, dýran mat og framtíð sem er svarthol þá er ég bara nokkuð sáttur.

Ég er reiður af því að ég veit að það er mjög mikið af fólki sem hefur það skítt. Mun verra en ég. Fólk sem skoðar sig í speglinum og tekur eftir blettum sem gæti verið krabbamein, finnur verki sem gætu verið guð veit hvað og lifir við kvíða og þunglyndi sem það hefur ekki efni á að fá hjálp við.

Fólk sem þarf að spara til að geta farið til læknis. Sem hefur ekki einu sinni efni á ódýrum bjór og dansi fram á nótt.

Þetta er ekki samfélagsmein, eða spurning um forgangsröðun eða hagræðingu á heilbrigðisstofnunum eða spurning um að fá réttu stjórnmálamennina til að segja réttu hlutina á réttu fundunum. Þetta er stéttastríð.

Þegar íslendingar voru fátæk þjóð voru kennarar og læknar hálaunafólk og samt var hægt að reka heilbrigðis- og menntakerfi. Þegar konur voru mun minna á vinnumarkaði dugðu laun einnar fyrirvinnu. Það var basl, og ekkert internet og lengri vinnutími. Samt ekki tvöfalt lengri.

Sennilega voru menn bara ekki orðnir eins góðir í arðráni, eins góðir í að skjóta undan. Viðleitnina skorti alveg örugglega ekki, hæfnina kannski.

Það getur vel verið að það sé flókið að eiga peninga á íslandi, en ég er nokkuð viss um að það sé flóknara að eiga þá ekki. Og þótt sumir kunni að halda að það sé ódýrt að vera öryrki þá held ég að það sé enn ódýrara að vera þingmaður. Dýrara að vera fátækur. Það er mjög dýrt að hafa ekki efni á að fara til læknis, dýrara að verða veikur en að koma í veg fyrir veikindi.

Stjórnmálamenn í neyslufylleríissiðrofi benda á að það sé ekkert ólöglegt við að eiga peninga. Að fyrirtæki séu af hina góða og frjáls markaður og bla bla bla. Og jú jú, eflaust eru til mörg fyrirtæki sem eru voða fín. Og það eru örugglega líka til nýnasistar sem eru ágætis fólk inn við beinið.

Ég gæti gert lista yfir illsku fyritækja, en það væri tilgangslaust. Fyrirtæki eru ekki rotin af því að stjórnendurnir eru asnar. Fyrirtæki eru rotin af því að tilgangur þeirra er að stækka sig endalaust, safna saman peningum hvað sem það kostar. Og það passar ekki við náttúruvernd (lesist: sjálfsvörn), nema þá einhvers konar sýndarnáttúruvernd. Gera umbúðirnar grænar á litinn, hampa sjálfum sér fyrir að nota minni pappír (sem var hvort sem er óhjákvæmileg afleiðing tölvuvæðingar) og láta sem minnkun sorps sé af náttúruverndarsjónarmiðum en ekki eingöngu til þess að minnka kostnað.

Náttúruvernd er líka stéttastríð. Stéttastríð sem er að tapast. Það er búið að umorða allt yfir í fjárhæðir og skella ábyrgðinni niður. Alveg eins og það er útlendingum, öryrkjum og eldri borgurum að kenna að fólk þurfi að velta því fyrir sér hvort það hafi efni á læknisþjónustu, þá er það almenningi að kenna að við stefnum fram af brúninni og ofan í hyldýpi. Þetta er ekki spurning um að allir geri sitt besta, heldur að við komum í veg fyrir að tiltölulega fámennur hópir fái að halda áfram að gera sitt allra versta.
Það er bara alls ekki nóg að ég og þú og allir sem við þekkjum noti taupoka, versli umbúðarlaust (nema í þynnkunni) og flokki og endurvinni. Ég dáist vissulega að fólki sem getur lifað heilu árin án þess að fylla meira en eina niðurbrjótanlega skyrdollu af rusli, en sú aðdáun líkist frekar þeirri aðdáun sem maður gæti fundið fyrir gagnvart kappsömu íþróttafólki en til hetju sem bjargar heiminum.

Það er ekki á ábyrgð minni að bjarga heiminum, og í raun mjög ósanngjörn markaðsherferð að láta sem svo sé. Sérstaklega þar sem flokka skila taupokaverkefnið virðist mun frekar snúast um viðleitni heldur en árangur. Það virðist miklu betur til þess fallið að róa mig niður en að breyta einhverju sem skiptir máli; „Það er kannski allt í fokki en ég breytti nú að minnsta kosti rétt með því að muna eftir taupokanum og fara með þetta plast í grenndargáminn“.

Það er ekki hægt að suða í mér endalaust um að fara þangað, kaupa þetta, að segja mér aftur og aftur að ég eigi skilið Thule, að ég sé þess virðis að nota svona sjampó og þrýsta stöðugt á mig að neyta meira og meira, og á sama tíma ætlast til þess að ég bjargi heiminum með því að vera skynsamur neyslulítill samfélagsþegn. Það gengur ekki upp að ætla sér að keyra áfram kerfi þar sem allir mega hegða sér samkvæmt kapítalisma nema neytandinn.

Ábyrgðin er ekki mín, nema að svo miklu leyti sem ég leyfi mér að vera samdauna ógeðslegri samfélagsmynd; ömurlegu kerfi sem framleiðir fátækt, vanlíðan, einnota drasl og heimsenda í notendavænum umbúðum.


Pistillinn birtist fyrst í Stundinni 1. maí 2016