Þýðing: Kári Páll Óskarsson

Starfsumsóknin


Háæruverðugu herrar!

Ég er fátækur, ungur, atvinnulaus viðskiptaþjarkur, Wenzel að nafni, í leit að mér samboðinni stöðu og tek mér hérmeð það leyfi að spyrja yður, af fyllstu kurteisi og þægð, hvort nokkur slík sé laus í yðar rúmgóðu, björtu og vinalegu salarkynnum. Ég veit að yðar góða fyrirtæki er stórt, stolt, gamalt og ríkt og því hef ég ánægjulegt hugboð um að hjá yður kunni að leynast létt, indælt og huggulegt pláss sem ég gæti smeygt mér í, líkt og í hlýjan felustað. Ég er einstaklega hæfur, megið þér vita, til að vera skákað í þess háttar fábrotið fylgsni, þar eð ég er allur viðkvæmrar náttúru og í eðli mínu hljóðlátt, vel upp alið og draumlynt barn sem kemst í gott skap við að fólk telji það lítilþægt og leyfi því þess vegna að hreiðra um sig á pínu-pínulitlum bút af tilverunni, þar sem það getur komið að gagni á sína vísu og þar með liðið vel. Kyrrlátt, snoturt, lítið pláss í skugganum hefur alla tíð verið hið blíða inntak allra minna drauma og ef tálvonir þær, sem ég geri mér um yður, magnast nú svo mjög að þær veki von um að sá nýi og gamli draumur minn gæti umbreyst í undursamlegan, lifandi raunveruleika þá eigið þér í mér hinn ákafasta og dyggasta þjón sem mun samviskusamlega rækja allar sínar ómerkilegu kvaðir af nákvæmni og stundvísi. Stór og erfið viðfangsefni get ég ekki leyst og umfangsmikil skylduverk eru kollinum á mér ofviða. Ég er ekkert sérstaklega vel gefinn og aðalatriðið er að mér líkar ekki að láta hugann strita; ég er draumóramaður frekar en hugsuður, núll frekar en afl, heimskur frekar en skarpur. Án efa fyrirfinnst við yðar viðamiklu stofnun, sem ég ímynda mér yfirfulla af deildum og undirdeildum, einhvers konar starf sem maður getur unnið eins og í draumi. Ég er í hreinskilni sagt Kínverji, það er að segja maður sem finnst allt gott og ljúft sem er smátt og lítilfjörlegt en stendur ógn og skelfing af öllu stóru og krefjandi. Eina þörfin sem ég þekki er sú að láta mér líða vel, svo að ég geti á hverjum degi þakkað Guði fyrir þessa kæru, blessunarríku tilvist. Löngun til að ná langt í heiminum hef ég aldrei haft. Afríka með eyðimerkur sínar er mér ekki meira framandi. Jæja, svo nú vitið þér hvaða mann ég hef að geyma. Eins og þér sjáið hef ég fíngerða og lipra rithönd og þér þurfið ekki að halda að ég sé alveg skyni skroppinn. Hugur minn er skýr, en neitar þó að skilja margt og það allmarga sem hann hefur óbeit á. Ég er heiðarlegur og geri mér grein fyrir að í þessum heimi sem við búum í er það afskaplega lítils virði og því, háæruverðugu herrar, ætla ég nú að bíða þess að sjá hverju yður þóknast að svara.

Yðar, drukknandi í djúpri virðingu og framúrskarandi auðsveipni,

Wenzel.


Rober Walser (fæddist 1878, lést 1956) var alla tíð fátækur á stöðugum flækingi milli leiguherbergja en frumlegur stílisti og ólíkindatól.

Þýðandinn Kári Páll Óskarsson (f. 1981) leigir í Berlín og hefur getið sér gott orð sem ljóðskáld.