ótitlað


við erum þetta unga fólk
sem neitum að bera harm okkar í hljóði
hrópum hann frekar út í eilífðina
fyrir okkur og ykkur
sem komuð á undan
lifum samt á kósý
krakkavíni og kókómjólk (úr höfrum)
grátum
jafnvel grenjum
það er í lagi
segjum síðan nei þetta er ekki í lagi þegar það á við
svo allt of oft búið að þagga
kenna ranga lexíu í rétt og rangt

við eigum okkur sjálf
samt ekki heiminn
erum bara leigendur svo passa
skilja allt eftir í góðu
forréttindanaggar
viljum næs viljum auðvelt viljum nýtt
meta næstu manneskju út frá pósi
byggjum eigin ímynd út frá hrósi
flexa a myndforritum 
miðlun á sjálfi
játa losta með like
ástina með þögn
sífellt föst í brennandi von
samkeppnin við hvort annað

stefna hátt svo hærra jafnvel hærra
horfa síðan tilbaka og sjá að gildi gleymdust
kunnum vel að meta
fyrir formúgu auðvitað
annað er tap
ekkert minna en 100 í bekk
húðlitur í plastdollu
flöskuborð helst tene þrisvar á ári
skipta svo yfir í umhverfisvænni húðvörur
fyrir samvisku
á sama tíma hrúgan af augnglimmer í hafsjó
eftir hverja helgi
kokteilrör og einnota skraut
í bland við einnota ástir
(muna að njóta)

eiga vini eiga flest sem að ég
fatta bara að mig langar í þegar ég sé næsta mann
hugsa pólitískt rétt
má ekki neitt lengur
eða hvað
má klæða mig eins og ég vil
tjá mig eins og vil vera aldrei dæmd
samt að eilífu dæmd
gægjuhneigðin og samanburður
gerð auðveldari með símiðlun
vil sjá vil vita allt
á sama tíma vil ég ekki vita neitt

elskum glundroðann og glundrið
glápið og girndina
elskum samt mest okkur sjálf
á sama tíma og við elskum minnst okkur sjálf