Fólk, sem er ekki að yrkja, er ekki brjálæðislega áhugasamt um ljóð

Viðtal við Ægi Þór Jahnke

Að drepa tímann

Förum hina leiðina, við spörum tíma.

Sjóðum kartöflur á meðan við stundum kynlíf.
Hitum ofninn á meðan við skolum af okkur.
Eignumst tvíbura og spörum níu mánuði!
Kennum þeim báðum að taka tröppurnar
tvær og þrjár í einu og flýtum fyrir deginum
þegar það þarf aldrei framar að sóa meira
en þremur skrefum til að komast á milli hæða.

Höldum öllum þessum sparnaði til haga
líkt og síðustu vatnsdropunum
undir lok okkar eyðimerkurgöngu;
eins og bestu bitunum af steikinni
sem við geymum þangað til síðast
en erum þá orðin of södd til að njóta.

Á meðan er tíminn orðinn bústinn og pattaralegur
eins og sýnidæmi framan á lýðheilsuskýrslu
um offitufaraldur barna á leikskólaaldri.
Við þuklum gráðum á holdugum lærunum
fáum vatn í munninn við tilhugsunina
um fitusprengda purusteik allra þessara
þurrkuðu, söltuðu, sýrðu, niðursultuðu augnablika.

Einn daginn verður haldin veisla.
Einn daginn bregðum við betri dúk á borðið
drögum fram góða postulínið, silfurskeiðarnar
og kristalkaröflu undir allt blóðið, svitann og tárin
sem við úthelltum til að komast hingað.
Svo hengjum við tímann upp á ökklunum
skerum hann á háls með þaulæfðri hreyfingu
og bíðum þolinmóð meðan hver einasti dropi
drýpur niður um ristina í bílskúrsgólfinu.

Þegar veisluhöldum er lokið og tíminn þrotinn
veljum við fljótlegustu leiðina inn í borgina
gefum okkur fram á tröppum hæstaréttar
og kunngerum alvarleg í bragði:

Tíminn er allur! Hann féll fyrir okkar hendi.

Ægir Þór Jahnke er 30 ára heimspekimenntað skáld. Hann er fyrrum meðlimur Fríyrkjunnar og hefur birt ljóð í Stínu og hefur undanfarið staðið fyrir nokkuð vel heppnuðum upplestrakvöldum á Gauknum (19.september næstkomandi er næsta ljóðakvöld.Meira um það hér), þar sem yfir 50 skáld hafa tekið þátt. Í haust kemur út hans fyrsta ljóðabók.

Þú ert fyrrum meðlimur Fríyrkjunnar, segðu okkur frá henni. Var einhver ákveðin ráðandi fagurfræði í hópnum?

Upphaflega voru það þær Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir og Megan Auður Grímsdóttir sem stofnuðu félagsskapinn sem átti að vera kollektív, opið öllum. Planið var að koma út þremur bókum og þær stóðu við það, en ég kom inn stuttu eftir að önnur bókin kom út og á fyrir vikið bara efni í þriðju bókinni. Þá var hópurinn eiginlega orðinn of stór og of margir óvirkir einstaklingar innan hans til þess að hann væri að virka sem skyldi. Þetta var frábært framlag hjá þeim stelpum og hefur hjálpað mörgum að koma ljóðunum sínum úr skúffunum, en hins vegar segir sig sjálft að þegar hver sem er getur „joinað“ grúppuna á feisbúk þá getur starfið ekki verið sérlega skilvirkt. Eftir að þriðja bókin kom út ákváðu stofnendurnir svo að kúpla sig út og gefa öðrum kost á að halda áfram ef áhugi væri fyrir hendi. Það var þá sem ég tók fyrst upp á því að skipuleggja upplestrarkvöld, með það að markmiði að ung skáld hefðu enn kost á að koma fram í svona afslöppuðu umhverfi. Það gerðu líka fleiri fyrrum Fríyrkjumeðlimir, þannig hefur Ólafur Sverrir Traustason staðið fyrir open mic ljóðakvöldum á Húrra, Soffía Lára hefur haldið einhver, og svo hefur Vigdís Howser staðið fyrir reglulegum kvöldum á Loft.

Þetta var alltaf svo fjölbreyttur félagsskapur að það er erfitt að tala um ákveðna fagurfræði. En það var klárlega ákveðinn stíll, sem eflaust mætti helst kenna við paunk og rokk og ról. Hins vegar voru skörp skil milli þeirra sem tóku virkan þátt og annarra sem annað hvort tók varla þátt eða voru bara að gera sína eigin hluti en notuðu hópinn til að koma sínu á framfæri (ég tilheyrði sennilega síðasta flokknum).

Þú ert búinn að vera duglegur að standa fyrir upplestrarkvöldum. Hvernig finnast þér upplestrarsenan vera núna? Reynirðu að blanda saman ólíkum upplesurum eða eru þetta mestmegnis vinir þínir og/eða gamlir meðlimir úr Fríyrkjunni?

Það er kannski eðli málsins samkvæmt að það er talsvert um að sama liðið sé að lesa, þetta er jú ekki fyrir alla. Þannig eru margir sem lesa einu sinni og aldrei aftur, meðan aðrir fíla þetta og koma aftur og aftur. Ég reyni þó að hafa alltaf allavega eina manneskju sem er að lesa í fyrsta sinn, auk þess sem ég reyni í það minnsta að hafa ekki mikið af sömu upplesurum oft í röð. Á móti kemur þó að ég á mín uppáhaldsskáld sem mig kannski langar að sjá, maður er jú að nota þessi kvöld fyrir innblástur og þá langar mann að sjá/heyra eitthvað innblásið.

Vel sótt ljóðakvöld er þegar fjöldi áhorfenda er jafn mikill og fjöldi upplesara. Hvernig gengur að fá skáld til að lesa upp? Hvernig gengur að auglýsa og fá fólk til að mæta og hlusta?

Eitt skemmtilegasta ljóðakvöld sem ég hef farið á var fyrsta upplestrarkvöld Orðsins, sem er (var?) útgáfumerki sem Soffía Lára stofnaði. Við vorum þrjú í kjallaranum á gamla Amsterdam og skiptumst á að lesa hvort fyrir annað þannig til við vorum öll uppiskroppa með efni.

Annars hefur iðulega gengið þokkalega að manna kvöldin. Ég byrja á að leita til þeirra sem mig langar að sjá, og fæ einhver þeirra jafnan til að mæla með 2-3 öðrum. Svo, eftir að event er komið á samfélagsmiðla, fæ ég yfirleitt einhver skilaboð frá fólki mér ókunnugu sem vill vera með, sem ég get þá valið úr ef uppá vantar. Annars við ég frekar hafa færri skáld og heyra meira frá hverjum og einum. Hvað áhorfendur varðar er það auðvitað upp og ofan. Fólk, sem er ekki að yrkja, er ekki brjálæðislega áhugasamt um ljóð – ég sjálfur tæli vini mína gjarnan til að mæta með loforði um ódýran bjór (kemur jafnvel fyrir að maður fái fjölskyldumeðlimi til að fylla sæti). Skáldin sjálf eru oft ekkert dugleg heldur við að auglýsa til sinna vina, þannig að ég býst aldrei við fullu húsi. En ég held að yfirleitt hafi tekist að hafa fleiri áhorfendur en skáld, allavega megnið af tímanum. Árstíð og veðurfar skiptir líka miklu (aldrei halda ljóðakvöld á sumrin).

Það er erfitt að fá umfjöllun almennt. Það er eitt þegar Þórdís Gísladóttir, Sjón eða einhver þannig kanóna stendur fyrir upplestri sem fær hálfa opnu í menningarumfjöllun Fréttablaðsins, en allt annað fyrir fólk sem er sjálft að kosta útgáfu sinnar fyrstu bókar. Sjálfur er ég orðinn þreyttur á að halda svona kvöld, þó það sé gaman, og væri gjarnan til í að aðrir tækju að sér svona fyrirtæki.

Þú hefur verið duglegur að taka þátt í slammljóðakvöldum — form sem virðist vera núna að ryðja sér til rúms á Íslandi. Hvað finnst þér helst munurinn á slam-ljóðum og hinum hefðbundnum ljóðum?

Já, ég hef nokkuð tekið þátt í slammkeppnum, meira segja unnið nokkrar, en satt best að segja er ég ekki mikill aðdáandi. Það sem ég elska hvað mest við ljóð er þetta algerlega frjálsa form, sem slammformið drepur. Auðvitað er allt leyfilegt í slammi, en í praxís vill það verða að flest ljóðin eru mjög svipuð. Allir eru að reyna að vera sem næst þessum þremur mínútum sem þú hefur, og reyna um leið að koma sem mestu inn í þann tíma. Niðurstaðan verður yfirleitt eitthvað sem nálgast meira að vera rapptexti en ljóð (ekki að það þurfi að vera himinn og haf þar á milli).

Sumir gera þetta betur en aðrir, geta leyft sér meira innan formsins, en niðurstaðan er samt svipuð. Ég væri til í að sjá slamm án tímamarka (innan skynsamlegra marka), og ég vil frekar hafa dómnefnd heldur en að hávaðamælir ráði öllu. Það myndi kannski frelsa formið aðeins og bjóða upp á fleiri möguleika fyrir skáldin. Svo hef ég líka tekið eftir því með mín eigin slammljóð að þau líta hörmulega út á prenti, þannig að ef maður vill virkilega stunda það form verður maður sennilega að gefa út plötu frekar en bók.

Hafa ljóðakvöld breyst við slammið?
Það er alltaf gaman inn á milli að fá nokkur aggresív slammskáld. Ljóðakvöld verða jú pínu þreytandi ef allir lesa upp við kertaljós. En eins og sagði að ofan þá finnst mér þessi stíll ekki duga einn og sér. Svo er líka hægt að vera skemmtilegur á annan hátt.