Hávaði, húmor og mýkt

Ég ætla ekki að þykjast vera sérfræðingur um pönk, hvað þá áhugamaður um pönk. Ég er varla áhugasöm um tónlist. Ég er hins vegar ung kona á Íslandi og því finnst mér ég eiga fullt erindi til að spá og spekúlera í nýútkominni plötu feminísku pönkhljómsveitarinnar Hórmóna „Nananana Búbú“. Ég hafði ekki heyrt eitt einasta lag með hljómsveitinni fyrr en fyrir stuttu. Þá heyrði ég lagið Kynsvelt í fyrsta skipti og satt best að segja greip það mig ekki. Síðan þá hef ég komst að því að það er nauðsynlegt að spila tónlist Hórmóna með allt í botni og auma gaulið í iPhone 7 dugar ekki til að gera tónlistinni góð skil. Fyrir hálfgerða tilviljun, samt ekki, fór ég á útgáfutónleika hljómsveitarinnar á Gauknum 24. ágúst síðastliðinn. Hórmónar stigu á svið. Þrjár ljóshærðar og svartklæddar, kraftmiklar og glæsilegar konur á framlínunni. Tveir karlar alveg jafn ljóshærðir, svartklæddir og heillandi, héldu sig til hlés og eftirlétu konunum sviðsljósið (viðeigandi fyrir feminíska hljómsveit). Fimm töffarar sem gáfu ekkert eftir. Feimin við hávaðann og þétta þvöguna stóð ég aftarlega og fylgdist með úr fjarlægð. En tónarnir soguðu mig smám saman til sín í hringiðu róttækni, viðkvæmni og húmors. Ég hef ekki hlustað á annað en Hórmóna síðan. 

Hljómsveitin samanstendur af Brynhildi Karlsdóttur sem syngur og semur texta hljómsveitarinnar, Urði Bergsdóttur sem spilar á bassa og syngur, Katrínu Guðbjartsdóttur á gítar, Erni Gauta Jóhannssyni á trommur og Hjalta Torfasyni á saxafón. Ólíkt hugmyndum mínum um pönkara er þetta viðkunnanlegt ungt fólk sem ég væri alveg til í að mæta í dimmu húsasundi. En þegar ljósin slokkna, kastaranir lýsa upp sviðið og þau byrja að spila umbreytast þau í eitthvað annað. Það er kannski einmitt þetta sem gerir þau vinsæl. Þau eru aðgengileg og geðþekk en um leið og þau stíga á svið verða þau hrikaleg og heillandi. „Nananana Búbú“ er fyrsta plata Hórmóna í fullri lengd og hefur bæði að geyma þau lög sem hafa gert hljómsveitina vinsæla undanfarið og ný lög. Hljómsveitin vann Músíktilraunir árið 2016 og EP plata hljómsveitarinnar kom út í október sama ár. „Nananana Búbú“ var gefin út í litlu upplagi á geisladiskum 24. ágúst síðastliðinn en er einnig aðgengileg á tónlistarveitunni Spotify.

Þar sem ég hef ekki hundsvit á tónlist verður þessari umfjöllun að mestu beint að lagatextum „Nananana Búbú“. Flest lögin eru róttæk, pólitísk og feminísk en sum hafa rólegri undirtón. Oft fær einhver glettni að fylgja með. 

Kynsvelt 

Platan hefst af krafti með laginu Kynsvelt. Lagið er kynferðislegt og er líklegt til að stuða íhaldssama og viðkvæma hlustendur. „Ég er kynsvelt og þurfandi“ er öskrað, „greddan er ríkjandi“. Í laginu segir kona frá vilja sínum og þrám. Hún syngur opinskátt um þörf sína fyrir kynlíf. Konan brýst fram sem kynvera og neitar að skammast sín fyrir langanir sínar. Kynsvelt kallast á poppkúltúr samtímans þar sem alveg eðlilegt þykir að karlmenn tjái sig um þrár sínar í kynlíf og hlutgeri oft konur þar með. Feminíska hlið Hórmóna sést hvað skýrast í þessu lagi. Þau eru óhrædd við að fara gegn ríkjandi viðhorfum um hvað sé við hæfi.  

Glussi

Glussi er fjörugt lag líkt og Kynsvelt. Lagið fjallar um sviðsetningu sjálfsins í samtímanum. Lagið er háðsádeila um þá sem tala í mótsögn og lifa lífinu í mótsögn. Glussi er ádeila á fólk sem stærir sig af yfirborðskenndri góðmennsku og pólitískum skoðunum sínum. 

ég kaupi föt í rauða krossinum
ég þykist berjast fyrir réttindum
ég er fokking grænmetisæta
er samt oftast minna hagsmuna að gæta

Í Glussa montar röddin sig af hræsni sinni og endar hvert erindi á „nananana búbú“ – þaðan er titill plötunnar kominn. Með verkinu gera Hórmónar stólpagrín að kynslóð sinni og sjálfum sér í leiðinni. Með því að beina gríninu að sjálfum sér verður ádeilan á samtímafólkið ekki jafn predikandi. Titilinn ‘Glussi’ er furðulegur. Glussi er smurolía, einhvers konar þykkur seigfljótandi vökvi sem notaður er í vélum á borð við lyftara eða það skilst mér (ég veit álíka lítið um vélar og um pönktónlist). Tengsl titilsins við lagið eru óljós. Er maður glussi ef maður er athyglissjúkur hræsnari? Erum við nútímafólkið eins og glussi? Er hegðun okkar slepjuleg, seigfljótandi, olíukennd? Eða kannski er þessi titill bara þarna af tilviljun.

Þess má geta að nýtt myndband var gefið út við lagið Glussi. Alma Mjöll Ólafsdóttir sá um gerð þess. Myndbandið er í takt við lagið, bæði í takt við umfjöllunarefni þess og bókstaflega klippt í takt við tónlistina. Sjálfhverfa og sviðsetning sjálfsins eru greinileg viðfangefni. Myndbandið tengir lagið við það hvernig margir lifa glanslífi á samfélagsmiðlum. Þeir setja fram falska útgáfu af sjálfum sér, þar sem allt það besta kemur fram en annað er falið. 

Vökuvísa 

Lagið Vökuvísa er óvenjuleg vögguvísa enda hlýtur pönkvögguvísa að vera það. Vögguvísa Hórmóna er á köflum vel til þess fallin að halda fyrir einhverjum vöku og því er titilinn vel við hæfi. Til að byrja með minnir Vökuvísa á hefðbundnar vögguvísur á borð við Sofðu, unga ástin mín. Söngkonan kyrjar „farð’að sofa, ástin mín“ sem minnir óneitanlega á texta vögguvísu Jóhanns Sigurjónssonar. Smám saman breytast sefandi huggunarorðin í örvæntingarfull og tryllingsleg öskur sem ná hápunkti undir lok lagsins. Textinn fjallar um fátækt. Móðir eða réttara sagt foreldri af ónefndu kyni (þetta er jú feminísk hljómsveit) reynir að svæfa barn sitt í dapurlegum aðstæðum. Það er ekki til peningur á heimilinu til helstu nauðsynja og áhyggjurnar hrannast upp. Foreldrið reynir að sefa barnið um leið og það sjálft vonast til að geta gleymt erfiðum aðstæðunum í örstutta stund. Það má velta fyrir sér hvort vögguvísur séu ef til vill jafnt gerðar til þess að sefa örvæntingarfulla foreldra og til þess að svæfa börn þeirra. 

Költ 

Nú bjóða Hórmónar hlustendum að gerast borgarar í samfélagi þar sem allt er fullkomið: 

velkomin til okkar
við höfum beðið þín svo lengi
hér er engin hægristjórn
og allt í góðu gengi

Hugsjónirnar á bak við þetta nýja költ hljóma bara ágætlega. En eftir því sem á líður kemur smám saman í ljós að hugmyndirnar sem eru boðaðar í laginu eru öfgakenndar og jafn vel fáránlegar. Hugmyndin um nýja samfélagið verður hérumbil óhugnanleg. Þar sem um költ er að ræða er líklegt að ekki sé allt með felldu í þessu samfélagi sem hlustendur eru hvattir til að taka þátt í. Líklegra er að þar séu öfgafullar skoðanir við lýði og frelsi takmarkað. Til að byrja með hljómar boðskapurinn sakleysislega, Brynhildur kyrjar möntru sem hvetur hlustendur til að fylgja henni í þetta fullkomna samfélag. En þegar Urður tekur undir möntruna með öskrum virðist falleg hugmyndafræðin víkja fyrir grimmd, heilaþvotti og ofbeldi. 

Eitt af einkennum Hórmóna er húmorinn og hér er hann ríkjandi. Með laginu Költ gera Hórmónar grín að því sem þau standa fyrir sem hljómsveit. Hugmyndafræðin bak við þetta nýja költ er hugmyndafræðin sem Hórmónar gefa sig út fyrir að fylgja; niður með feðraveldið, niður með kapítalisma. Með þessu afbyggja Hórmónar sig sjálfa sem pólitíska hljómsveit og draga eigin hugmyndir í efa. Þessi endurskoðun hljómsveitarinnar á eigin gildum gerir boðskap þeirra trúverðugri.

Hamskipti 

Segja má að Hamskipti sé óhugnanlegasta lagið á plötunni. Það er myrkt og drungalegt, taktfast og dularfullt. Textinn er ljóðrænni en aðrir textar á plötunni og glettnin sem sést í flestum öðrum lögum er horfin. Lagið er ekki beinskeitt ádeila heldur er umfjöllunarefnið óljósara. Það má færa rök fyrir því að hamskiptin standi fyrir geðveiki eða fíkn sem hefur ekki aðeins slæm áhrif á mann sjálfan heldur líka alla í kringum mann. Hamskiptin geta líka staðið fyrir annars konar skapsveiflur eða innri baráttu sem bitnar á þeim sem maður elskar. 

frásögum færandi
færi ég þér
sjúka og særandi
sálina í mér

Eitthvað myrkt og dularfullt gerist innra með þeim sem verður fyrir hamskiptunum og hefur það áhrif á samskipti hans við aðra. 

Nína systir 

Hórmónar hafa húmorinn að vopni í laginu Nína systir. Það fjallar um afar óvenjulegar systkinaerjur. Nína systir reynist nefnilega vera nýnasisti sem væri að vísu ekkert fyndið nema vegna orðaleiksins sem er af bestu gerð. „Nína systir er nýnasisti“ er sungið endurtekið. Lagið er að mínu mati skemmtilegasta eða að minnsta kosti fjörugasta lagið á plötunni. Ég hef verið með það á heilanum í nokkra daga. Það er samt eitthvað óþægilegt við að söngla orð eins og ‘nýnasisti’ og ‘aríar’ daginn út og inn. Nýnasistar eru vægast sagt óhugnanlegt afl sem hefur sótt í sig veðrið í ýmsum nágrannalöndum okkar undanfarið þar sem þeir beita sér gegn innflytjendum og flóttamönnum. Hórmónar hneyksla líklega ýmsa hlustendur með því að fjalla um þetta alvarlega mál með glettni að leiðarljósi. Hneykslaðir hlustendur væru þó vísir til að vera farnir að taka undir sönginn með Hórmónum áður en við yrði litið. Með laginu Nína systir boða Hórmónar það að hatur fæðir yfirleitt alltaf af sér meira hatur. Það sést skýrt þegar systir Nínu systur grípur til ofbeldis til þess að sporna gegn ofbeldi systur sinnar. Hún segir: „fyrst nú sé ég líkindi okkar / því að myrða mannfólk fokking rokkar“. Af lokaöskrunum, orðið ‘nýnasisti’ síendurtekið, má ætla að systir Nínu systur sé sjálf orðin nýnasisti.

Ekki sleppa 

Ekki sleppa er eina ástarlag plötunnar. Pólitísk ádeila fyrri laga víkur fyrir áköfum tilfinningum. Mjúk harmónía kallast á við tryllt öskur og lýsir það vel því hugarástandi sem laginu er ætlað að lýsa: hringrás og togstreitu hamingju og þjáningar. „Komdu til mín aftur elskan. Komdu til mín þjáumst smá“. Textinn lýsir átökum, jafn vel ofbeldi. Ástin minnir á fíkn og er skemmandi fyrir báða aðila. Þau sækja í hvort annað og „þykjast vera ástfangin“ þrátt fyrir að þau kveljist um leið. Ljóðmælandinn vill frekar þjást með elskhuga sínum frekar en að leyfa honum að sleppa af sér takinu. Tilfinningarnar eru órökréttar, tryllingslegar en þó afar kunnuglegar. Það mætti vel yfirfæra merkingu lagsins á hvers konar fíkn sem er eins og gera má með lagið Hamskipti. 

Frumeymd 

Síðasta lagið á plötunni, Frumeymd, kallast á við fyrsta lagið Kynsvelt. Í báðum lögunum tekst hljómsveitin á við stöðu konunnar innan feðraveldis. Í Kynsvelt tekur konan völdin yfir líkama sínum og kynlífi en í Frumeymd er andrúmsloftið allt annað. Ólíkt Kynsvelt er feminískur boðskapurinn í Frumeymd ekki agressívur heldur angurvær, tregafullur og dapur. Vonleysi einkennir stöðu konunnar sem hefur misst tökin á líkama sínum og þar með misst stjórnina á eigin tilveru. Frumeymd lýsir einmanaleika, þjáningu, skömm og þöggun. Lagið fjallar um samfélagslegan þrýsting sem hvílir á konum. Þrýstingur á konuna að þegja yfir þeim vandamálum sem hún glímir ein við vegna áhrifa feðraveldisins. Laginu líkur á tregafullum og tryllingslegum öskrum:

ekki gráta svona
ekki segja neinum
ekki láta svona
ég get ekki
get ekki
get ekki
get ekki

Örvæntingin skín af orðunum sem og öskrum söngkonunnar sem lýsa einlægri þjáningu. Hér sést einna best hve góður miðill pönkið er til að tjá erfiðar tilfinningar.

Hórmónar hafa margt að segja, vilja mótmæla og koma skoðunum sínum á framfæri. Þau hafa kosið óvenjulegan miðil til þess – pönkið. Hórmónar taka sig ekki alvarlega, með lögum á borð við Költ, Nína systir og Glussi, og hvetja þar með hlustendur sína til að gera slíkt hið sama. Það kveður við annan tón í lögum á borð við Frumeymd, Vökuvísu og Ekki sleppa. Þau eru skýrustu dæmin um mjúka hlið Hórmóna. Þótt hljómsveitin gefi sig út fyrir að hafa hátt eru þau merkilega ljúf og sakleysisleg inn á milli. Þetta samspil mýktar og harðneskju gefur þeim sérstöðu. Hórmónar blanda saman hávaða, húmor, ádeilum og mýkt. Úr verður skrautleg blanda sem tekur tíma að venjast en verður ávanabinandi þegar hún loks venst. Það er alltaf mikil hugsun á bakvið lögin og hljóð og texti spila vel saman til að koma þeirri hugsun til skila. Hormónar fara víða í umfjöllunarefni sínu. Feminismi, stjórnmál og ást ásamt ýmsum vandamálum sem ung fólk glímir við er meðal þess sem ber á góma. Ádeilur og tilfinningar takast á og því má segja að tónlistin á plötunni „Nananana búbú“ fjalli um samspil sálarlífs og samfélags. 

Röddin sem heyrist í lögum „Nananana Búbú“ er kvenmannsrödd. Ekki vegna þess að Brynhildur, söngkona Hórmóna, er kona heldur vegna þess hvaða sýn textarnir gefa í skyn. Hórmónar leggja áherslu á að þeir séu feminísk hljómsveit. Þeir gefa konunni rödd sem hún hefði kannski ekki annars. Pönkið veitir kvenröddinni vettvang til að vera reið, viðkvæm, stolt, glettin og snjöll. Hún fær tækifæri til þess að tjá allar þær ólíku tilfinningar sem safnast saman í flóknu sálarlífi hennar. En þrátt fyrir að Hórmónar séu feminískt pönkband hafa þeir víða skírskotun og nær hljómsveitin til mun fleiri en sú skilgeining gefur til kynna. Allir geta grætt á því að hlusta á Hórmóna, ekki aðeins reiði feministinn eða pólitíski pönkarinn. Við getum öll lært að hafa húmor fyrir sjálfum okkur, endurskoða eigin viðhorf og verið umburðarlyndari gagnvart öðrum í kringum okkur. Við getum líka öll grætt á því að sleppa okkur í smá stund, öskra af öllu hjarta og finna áhrifin af því umlykja okkur. Ég mun í það minnsta ekki hætta að hlusta á Hórmóna fyrr en ég fer að missa heyrn og ég býð öllum sem vettlingi geta valdið með mér í költið.