Dregið verður um röð atburða


Lífið er að fæðast, lífið er að nærast, þroskast og hlæja, dýrka pabba sinn, finna vonda lykt, kasta upp og plokka hor úr nefinu. Lífið er að elska, missa tönn, passa lítil börn, hopp‘ í parís, fara í sund með systrunum.

            Ekki sleikja handriðið í frosti

Lífið er að kveljast, vera á blæðingum, fara í klippingu, tapa í handbolta, verða bumbult á jólunum, hata bíómynd og elska Bieberinn. Lífið er að skrópa í skólanum, skemmta skrattanum án þess að meiða neinn, fara á fyllerí og gefa dauðann í allan djöfulinn.

            Ekki kasta steini í gróðurhús í Hveragerði

Lífið er að vita að maður er til og veðrið skánar, fara til Færeyja, pæla í pólitík, vera í frænkuklúbb, fara fjandans til, að lokum finna sig, klára námið sitt, vinna yfir sig. Lífið er að segja upp kærasta, finna nýjan, missa fóstur, finna mann sem lyktar vel án ilmefna, taka lán og eignast íbúð.
Ekki gleyma ljósunum á Trabbanum

Lífið er að þrauka um stund, kjósa forseta, verða gjaldþrota, eiga son og eignast dóttur. Skipta um skoðun, hætta að reykja, brjóta veggi, elska náungann og nesta barnið sitt. Lífið er að hugsa um umhverfið, flokka ruslið sitt, rækta kanínur, læra tungumál, eiga lítinn garð, kaupa í Ikea.

            Ekki gleyma að skrúfa fyrir baðvatnið

Lífið er að finna æxli í vinstra brjóstinu, seinna hinu, vera hætt komin, horfa á sjónvarpið, kveðja gamalt fólk, rek‘ inn nefið, lesa bókmenntir og gamla reyfara. Lífið er að halda matarboð, fara í fótbolta, njóta stundanna, drekka eðalvín, fara í skíðafrí og skanna útsölur.

            Ekki henda eldspýtu í þurra sinu í Borgarfirði

Lífið er að lifa dauðann af og líka verkföllin, ala upp börn og kannski barnabörn, sækj‘ um sumarhús og setja öðrum mörk. Lífið er að grafa foreldra og líka systkini, vita allt og vita ekkert. Lífið er að vera maður sjálfur, vera saman, vera sundur, vera til, þar til…

            Ekki plana jarðarför í gríni