Stemningin á Bókamessunni í Gautaborg er spes. Maður fær þau skilaboð hvaðanæva að að manni sé ekki óhætt að ferðast um borgina einn – sérstaklega ekki ef það sést á manni að maður sé ekki af norrænu kyni. Og samt eru allir svo ótrúlega óhultir hérna inni. Við bara lesum ljóð og tölum um bókmenntir einsog það ríki ekki hálfgerð óöld hérna fyrir utan. Og lesum ljóð um að það ríki óöld, tölum um mikilvægi þess að bókmenntirnar tali um það sem er að gerast hér fyrir utan: óöldina. Lögreglan vill að fólk á bókamessunni haldi sig þar og fari ekki út, en það er þó talsvert um flakk. Hér eru líka miklu færri gestir en venjulega – mannhafið á messugólfinu er gisið og illa mætt á upplestra og samtöl.
Þetta er svo helst að frétta: Mótmælendum og nasistum hefur lítið lent saman. Nasistarnir ætluðu hins vegar að fara upprunalegu leiðina – sem þeim hafði verið bannað – og réðust á lögregluna. Þeir ganga með sína eigin óeirðaskildi og gerðu einfaldlega áhlaup. Um 20 manns voru handteknir – þar á meðal einn af leiðtogum NMR. Lögreglan hefur króað nasistana af við Liseberg-lestarstöðina – handan við götuna frá tívolíinu og kannski 200 metrum frá messuhöllinni. Þeir neita að fara heim nema leiðtogum hreyfingarinnar verði sleppt úr haldi lögreglu. Þar eru einnig þúsundir mótmælenda sem standa bakvið lögregluhlið – maður kemst ekki nálægt nasistunum.
Inni á messunni er mikil öryggisgæsla og gáð í allar töskur. Það eru framdir symbólískir gjörningar á öllum hornum – upplestrar, ræður – fólk gengur um í antifa-bolum, með barmmerki o.s.frv.
Hér stóð ég fyrr í dag – milli viðburða – og fylgdist með. Strákur í hópi anarkista klifraði upp í umferðarljós með blys – var fyrst púaður niður af þeim sem vilja halda göngunni í skefjum og svo klappaður aftur upp af þeim sem vilja ógna nasistunum. Þá var talsvert sprengt af alls kyns knöllurum – og var verulega óþægilegt fyrir marga. Það eru allir á nálum, sérstaklega þeir sem eru ekki í kringum tvítugt, og fólk býst við hverju sem er. Fólk vill mæta nasistunum en margir óttast að verða undir í einhverjum ólátum. Það skapaðist ringulreið á tímabili og allir byrjuðu að hlaupa – en það var eiginlega löggunni að kenna sem var að ýta fólki aftur (sennilega út af knöllurunum). En maður hefur auðvitað mjög litla yfirsýn á staðnum yfir það sem er að gerast annars staðar í mannfjöldanum.
Að einhverju leyti er ágætt að göngunni skuli ekki ljúka. Því var spáð að allt færi fyrst af hjörunum þegar göngunni lýkur og þegar „hversdagurinn“ hefst á ný – með bæinn fullan af reiðum nasistum í bardagamóð. Í kvöld fer kúltúrliðið svo allt út á lífið.
Ég leit líka við á básnum hjá Nya Tider. Þar var frekar kósí stemning – einsog á hverjum öðrum bás – nema með dálitlu svona white-power væbi – krúnurakaðir karlmenn með vöðva og tattú og grannar aríastelpur með sílikonbrjóst og ljóst sítt hár. Maðurinn sem stóð á sviðinu hjá þeim var að kvarta undan því að fólk væri alltaf að kalla hann nasista, og fannst það greinilega mjög ósanngjarnt.
Hér eru svo nokkrar myndir.