AUGNSVIPUR
augnsvipur
reiddar til höggs
og bráðum ætti að heyrast í þeim
hviss hviss
bíddu aðeins lengur
það eru fjögur skref í kaffipásu
fjögur skref fyrir mínútukarlinn
tvö hundruð fyrir Sekúndu
stofan er of björt fyrir janúarmorgun
svefninn nuggast ekki úr kennaranum
fyrr en hún áttar sig á stírunum
pískur
í lofti
einhver hefur tússað
jing og jang á næsta borð
munurinn á myndhverfingu
og viðlíkingu, segir kennarinn
munurinn er að vera asni og asnaleg
hviss hviss
bíddu aðeins lengur
Sekúnda fetar sig að pásunni
þú í kringum myllusteininn
Í SANDKASSANUM
við sjúgum sígaretturnar
eins og vaxliti
við erum í mömmó
fallegi strákurinn er með rauðan tóbaksklút
fallega stúlkan er óræð yfirlitum
við sláum skjaldborg um þau
til að hlæja betur
kannski kyssast þau í kvöld
kannski fer hún að gráta á mánudaginn
þarna kemur rektorinn
með bleikan miða
kominn til að klukka okkur
kominn til að sekta
við skömmum hann
við erum í mömmó
bannað að koma hingað, litli rektor
hér er ó ó
við réttum honum sneið
af stubbum og tjöru og sandi
hér er kaka
sem er bannað að borða
ó ó, en þú mátt segja
takk fyrir og fara
Sandkassinn er fullur
segjum við og blásum út í loftið
Sandkassinn er bara
fyrir fullorðna fólkið
Fríða Ísberg er ein af Svikaskáldunum sem gáfu út Ég er ekki að rétta upp hönd. Slitförin ný ljóðabók eftir Fríðu Ísberg kemur út hjá Partus brátt.