Samlokan

„Fljót, myndin hefst klukkan átta,“ ýlfraði Jónas stressaður. „Eða viltu kannski líka borða mexíkóska söluvagninn?“
„Ha ha.“ Sólveig var orðin svo pökkuð að hún gat varla hreyft sig. Fimm enchiladas!
Hún lötraði af stað á eftir Jónasi, leiðin að kvikmyndahúsinu var ekki sú fallegasta í New York, ótal flautandi og reykspúandi bílar þeyttust með leifturhraða eftir breiðgötunni á vinstri hönd, húsin til hægri handar voru grá og deyfðarleg undir gráum, deyfðarlegum himni.
Og Sólveig svo þung á sér eftir ofátið að hana langaði helst að leggjast á stéttina, breiða yfir sig teppi úr rusli og sofa í hundrað ár.
„Get … ekki … gengið … hraðar …“
„Æ, þú veist að ég þoli ekki að missa af byrjuninni í bíó,“ sagði Jónas örvæntingarfullur.
„Þú hefur séð þessa mynd skrilljón sinnum!“
„Já – og þeim mun meiri ástæða til að mæta tímanlega! Líkt og allar góðar bíómyndir verður hún betri með hverju skiptinu sem ég sé hana!“
Við götuhornið sáu þau loks grilla í hið langþráða Brooklyn Academy of Music-skilti, þar sem Rose Cinema var einnig til húsa. Nokkur spíruleg ungmenni sátu á tröppunum við innganginn og ýmist reyktu vafðar sígarettur, skrolluðu niður snjallsíma eða flettu gegnum hundseyrðar, notaðar bækur. Jónas herti ferðina og uggði ekki nógu vel að sér þegar hann sparkaði óvart í gráa stálfötu sem betlari uppi við húsið notaði undir skiptimynt. Aurarnir flugu yfir gangstéttina með gjöllum, skoppandi látum og Sólveig stökk til, stirð eins og hvalur, til að hjálpa við að safna þeim saman.
Maðurinn var á afar óræðum aldri – hann gat verið allt frá fertugu til sjötugs – og lá undir ábreiðu úr dagblöðum. Hann var með dökka húð, grásprengt hár og skegg, klæddur í upplitaða, blettótta bómullartreyju, gráar gallabuxur og götótta, snjáða strigaskó.
„Mér þykir þetta leitt,“ umlaði Jónas skömmustulegur.
„Ekkert mál, vinur,“ sagði betlarinn. „Þú ert ungur og þá liggur manni alltaf svoldið á. Ég man vel hvernig þetta var hjá mér.“ Hann beraði skakkar tennurnar í vinalegu brosi.
„Svona,“ sagði Sólveig og lét síðustu smápeningana plompa með málmkenndum skellum aftur oní fötuna.
„Þið getið ekki hjálpað mér um örfáa aura í viðbót?“ spurði sá gamli.
„Því miður, við erum orðin alltof sein,“ bunaði Jónas út úr sér og var þegar rokinn af stað. Eitt andartak varð Sólveigu hins vegar litið beint í augu þess heimilislausa og sá ekkert nema hlýju og velvilja skína úr brúnum sjáöldrunum. Um leið minntist hún þess að hafa einhvern tímann lesið á netinu að augun væru eini hluti líkamans sem héldist nær óbreyttur út ævina bæði hvað snerti stærð og útlit. Hún reyndi að sjá þennan sjúskaða, gamla mann fyrir sér sem lítið barn, með alveg nákvæmlega sömu augu, en það var ekki auðvelt.
„En þú, unga dama? Getur þú hjálpað mér, þó að ekki væri nema um eina litla máltíð? Ég hef ekki borðað neitt í sólarhring.“
„Því miður,“ heyrði Sólveig sig segja, „en ég er ekki með neina peninga á mér.“
„Við getum hoppað yfir í búðina og þú notað debetkort,“ sagði hann.
„Ég er að fara með kærastanum mínum í bíó og við erum orðin alltof sein,“ sagði Sólveig og heyrði hvað hún hljómaði asnalega. „Þarf að drífa mig. Gangi þér vel.“
„Huh.“

„Eru enn til miðar á Back to the Future?“ spurði Jónas í barnslegu ofvæni og gaurinn í miðasölunni, langur náungi með gríðarstórt, svart afró og stór, rauð týpugleraugu, í svartri hettupeysu og með hvít heyrnartól lafandi úr öðru eyra, svaraði í sömu andrá og hann reyndi að svæla burt ógurlegan geispa:
„Já, akkúrat tveir miðar eftir.“
Við þessa yfirlýsingu bölvaði fólkið að baki þeim og sá eftir að hafa ekki mætt fyrr.
Jónas brást hins vegar við með brossprengingu sem strekkti á öllu andlitinu: „Geggjað! Við fáum tvo miða á fyrstu myndina!“
„Þið verðið að kaupa miða á allar myndirnar þrjár,“ sagði afrógaurinn. „Þetta er maraþonsýning. Það er allt eða ekkert.“
„En þá verðum við hérna fram undir morgun,“ muldraði Sólveig á íslensku.
„Við pöntum bara uber heim. Plís! Þetta er algjörlega once in a lifetime séns til að sjá þær allar í röð í bíó.“
„Hm.“
„Þetta eru uppáhaldsmyndirnar mínar!“
„Sagðirðu ekki í gær að The Eternal Sunshine of the Spotless Mind væri uppáhaldsmyndin þín?“ (Sem var kannski tilgerðarlegasta mynd sem Sólveig hafði séð, þó að hún þyrði aldrei að viðurkenna það fyrir neinum.)
„Það er uppáhaldsmyndin mín! Þetta eru uppáhaldsmyndirnar mínar!“
„Bleh. Ókei … En þá förum við í Metropolitan-safnið á morgun.“
„Samþykkt!“

Þau fetuðu sig inn í dimman salinn og fundu loks einu lausu sætin, úti við enda í fremstu röð. Frábært. Það hálfsveif á Sólveigu í salt- og smjörlyktandi popp- og búkhitamollunni og hún var strax komin með hálsríg af því að reigja höfuðið upp að skjánum þó að enn væru bara að spilast háværir og hraðir trailer-ar. Hún missti strax athyglina og áhugann og týndi sér í handahófskenndum hugsunum um síðustu daga.
„Ég ætla að stökkva á klósettið,“ hvíslaði hún að Jónasi, yfir inngangstef Back to the Future.
„Suss,“ hastaði hann á hana. „Hvað segirðu?“
„Ég ætla að laumast á klósettið.“
„Suss … En myndin er að byrja!“
„Ég verð snögg …“

Hún steig guðslifandi fegin út úr salnum einmitt í sömu andrá og Marty McFly birtist á skjánum og áköf fagnaðarlæti brutust út meðal dyggra aðdáendra myndarinnar – klapp og hróp og blístur. Gólfið frammi var lagt mjúku, rauðu teppi og Sólveig stikaði eftir því ákveðnum skrefum, í átt að baðherberginu. Án þess að spekúlera neitt sérstaklega í því tók hún hins vegar snarpa u-beygju hjá sjoppunni og stóð skyndilega á tröppunum fyrir utan kvikmyndahúsið, í eggjahvíturauðri ljósastaurabirtunni við aðalinnganginn. Það var enn hlýtt og þægilegt veður og hún fann þessa mögnuðu stórborgarorku, sem alltaf fylgir náttrökkrinu, fylla upp í líkamann.
Betlarinn lá enn við götuhornið í sirka fimmtán metra fjarlægð. Hann hallaði sér værðarlega að húsveggnum og góndi upp í svart himinhvolfið yfir þeim.
Sólveig rankaði við sér inni í kjörbúðinni hinum megin við götuna. Hafði hann ekki sagst vera svangur? Samloka með kjúkling … Drykkur? … Eitthvað óáfengt … Vitamin Water með sítrónubragði … Banani … Og eftirréttur? Voru karlmenn ekki meira fyrir Mars en Snickers? Eða var það öfugt? … Deli búðin var troðin af heilsuspillandi sælgæti, skyndibita og snakki og hún smeygði sér hratt og fumlaust milli rekka og týndi til uppistöðu í eina seðjandi máltíð. Arabískt ættaði gaurinn við afgreiðsluborðið skannaði hlutina áhugalítið og þreytulega og hún fleygði þessu oní þunnan og ómerkilegan, hvítan plastpoka, áður en hún stökk aftur út úr búðinni og beið við gangstéttarbrúnina eftir grænu ljósi, meðan strætó og nokkrir svartir jeppar snigluðust sína leið. Það kom grænt og hún kreppti gripið um skrjáfandi plasthaldið á pokanum. Hvað ætti hún að segja? This is for you, now I have to go, enjoy …
Hún var svo djúpt sokkin í að semja þetta handrit í huganum að hún fattaði ekki fyrr en hún var komin nær alveg að götuhorninu að gamli maðurinn var horfinn.
Hann hafði augljóslega haft dagblöðin og stálfötuna með klinkinu á brott með sér, engin ummerki um veru hans þarna á stéttinni voru lengur sjáanleg.
Sólveig starði á gráa og yfirgefna gangstéttina – tyggjóklessur, sprungur í malbikinu – og leið svoldið svipað sjálfri.
Grá, hörð, útbíuð, sprungin tilfinning.

Nokkrum mínútum síðar fetaði hún sig aftur inn í bíósalinn og reyndi að láta skrjáfa sem allra minnst í plastpokanum. Hún dunkaði klaufalega niður óþægilega löng þrepin í myrkrinu og settist úti við enda fyrstu raðar, hjá Jónasi sem starði opinmynntur á framvindu kvikmyndarinnar.
„Er allt í lagi?“ hvíslaði hann. „Þú slóst Norðurlandamet í að vera lengi á klósettinu.“
„Fór út í búð,“ sagði hún. „Var svöng.“
Hún tók samlokuna upp úr pokanum og fletti af henni umbúðunum.
„Svöng? Ertu ekki að djóka? Þú borðaðir fimm enchiladas …“
„Það er þessi borg, hún magnar svo upp í mér matarlystina.“
Á skjánum þaut Marty McFly niður götu á hjólabretti, teikandi rauðan pikköppbíl, á flótta undan fantinum Bill og meðreiðarsveinum hans. Áhorfendur héldu glaðir niðrí sér andanum meðan Sólveig tók fyrsta bitann af samlokunni, skrúfaði tappann af Vitamin Water-flöskunni. Henni var ennþá óglatt en hún píndi sig samt sem áður til að klára kjúklingasamlokuna. Kannski myndi hún kasta upp í frægasta atriði myndarinnar, þegar æstur tónlistarmaður hringir í frænda sinn, Chuck Berry, og lætur hann hlusta á Marty McFly „finna upp“ rokktónlistina?
Næst seildist hún eftir banananum. Það er ekki á allra vitorði að flestir apar opna banana með því að fletta upp „stutta endanum“. Sólveig hafði séð nokkra apa gera þetta í heimildarmynd á YouTube og fylgdi ævinlega þessari aðferð síðan; það var miklu skilvirkara og þægilegra. Bananinn var ofþroskaður og aðeins brúnn en hún át hann samt til enda og tók síðan fyrsta bitann af Mars-inu, fann fann hvernig súr spýjan þrýsti sér upp kokið í henni, eins og hún hefði þegar innbyrt aðeins of stóran hluta af heiminum. En hún ætlaði sér samt ekki að gefast upp, jafnvel þó að það myndi kosta hana ælukast yfir grátt gólfteppið og hálfgert uppþot hjá áhorfendum Back to the Future, uppáhaldsmynda kærastans hennar.