Ofursýningar austan Atlantsála: Edda – Jóhannesarpassían – Afturgöngur

Síðari marspistill um leikhús

Bandaríski leikhúsmaðurinn Robert Wilson hefur undanfarna áratugi sviðsett slík ógrynni sýninga um heim allan að vart verður tölu á komið. Snemma í mars frumsýndi Det Norske Teatret í Osló Eddu, uppfærslu Wilsons á útleggingu Jons Fosse á norrænni goðafræði, en textann sækir Fosse í ýmis Eddukvæði; í Völuspá og Hávamál að ógleymdri Þrymskviðu, Eddu Snorra Sturlusonar og sjálfsagt víðar. Vissulega umorðar Fosse þessa norrænu miðaldatexta í sinni nýnorsku versjón en sögunum breytir hann lítið sem ekki neitt – ef ég þá man þær rétt. Hitt er þó kannski ennnþá merkilegra að Eddutexti Fosse skuli gefa svona sterkt til kynna hversu mjög þetta verðlaunaskáld hefur sótt sér fyrirmyndir í öðrum verkum sínum í norræna miðaldatexta og ekki síst Eddukvæðin.

Efniviður Eddu Wilsons og Fosse er kunnuglegur; sköpun heims og skipan hans í þrennt með Ásgarði, Miðgarði og Útgarði, bústöðum guða, manna og jötna. Skáldskaparmjöðurinn kemur við sögu, Óðinn lætur sig hanga níu dægur í Yggdrasli og sagt er frá tilurð bænda, þræla og jarla. Rifjaðar eru upp sögur af Miðgarðsormi og Fenrisúlfi og hundinum Garmi sem geltandi og ýlfrandi boðar Ragnarök. Allir þessir mýtólógísku karakterar birtast reyndar á sviðinu í líki ofurleikbrúðna. Ásum og jötnum kemur ekkert sérstaklega vel saman og heimsslit eru óumflýjanleg. En eins og í Völuspá má í sýningu Norska leikhússins á Eddu eygja von um að upp úr Ægi muni að loknum eyðandi ófriði rísa ný jörð og annað tækifæri gefast fyrir æsi, menn og tröll.

Nýnorsk vin

Glæst og gríðarlega fúnksjónell leikhúsbygging Det Norske Teatret stendur við Götu Kristjáns fjórða í Osló. Á þessum slóðum er enn þann dag í dag nýnorsk vin í fyrrum hálfdanskri borg og minnir á þá tíma þegar þjóðræknissinnaðir Norðmenn gerðu hvað þeir gátu til þess að hrista af sér og sínum dansksmitað tal- og ritmál og endurreisa norsku sem sjálfstætt tungumál. Eitt merki um þetta er Kaffistova sú sem enn stendur á næsta götuhorni við Norska leikhúsið en þar eru allir réttir á matseðlinum nefndir að nýnorskum hætti og engin enska hefur enn sem komið er rutt sér til rúms á matseðlinum á þessum gamlagróna kaffi- og matsölustað.

Nýnorskan – tungumál gert úr tilbúnum samruna norskra mállýska – varð flaggskip þjóðræknissinna í menningarmálum á nítjándu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu. Úr varð mikið tungumálastríð milli þeirra og annars hóps Norðmanna sem halda vildi í dansknorskuna sem hin skólagengna yfir- og valdastétt í landinu talaði. Skáldkonan Hulda Garborg stóð framarlega í flokki nýnorska liðsins og var fyrirliði í baráttunni fyrir því að stofnað yrði leikhús þar sem töluð yrði norska á sviðinu en ekki danska eða hálfnorska eins og sú sem Ibsen skrifaði. Barátta Huldu Garborg bar ávöxt og fyrir rúmum hundrað árum var Norska leikhúsið í Osló stofnað en húsakostur þess við Christian IVes Gate reis ekki fullbúinn fyrr en 1985. Það er agnarlítið kaldhæðnislegt að þetta musteri nýnorskunnar skuli standa við götu sem kennd er við Kristján konung hinn fjórða af Danmörku. Að frátöldu fráhvarfi frá pápísku hafði trúlega fátt annað en konungstíð hans og stjórnarhættir jafnmikil áhrif í þá átt að útrýma norsku algerlega sem ritmáli og laska norska menningu með dönskum imperíalisma sautjándu aldar.

Í fótspor Huldu Garborg fetuðu meðal annarra hjónin Ivar og Halldis Moren Vesaas sem lögðu Det Norske Teatret öflugt lið bæði með eigin verkum og ekki síður þýðingum Halldísar á Shakespeare og öðrum klassíkerum, ekki síst frönskum, á nýnorsku. Det Norske Teatret á líka heiðurinn að því að hafa orðið fyrst leikhúsa í heiminum til þess að sýna verk eftir Jon Fosse sem nú er margverðlaunaður leikritahöfundur, ljóðskáld og skáldsagnahöfundur. Og verk hans leikin um allan heim nema þá helst hérlendis.

Á Wilson sjens á Íslandi?

Rétt í þann mund sem leikslok og heimsslit eru að dynja á í Eddu fer Völvan sem er í lykilhlutverki í þessu verki allt í einu að tala íslensku og hefur mál sitt á því að segja: Fyrir óralöngu (í staðinn fyrir Ár vas alda). Mér fannst þetta tungumálatvist náttúrlega dáldið smart því einhvers staðar í sálarfylgsnunum er enn að finna eitthvert stolt yfir því að við hér á skerinu getum gumað af því að hafa varðveitt þann miðaldakveðskap sem Edda Jons Fosse og Bobs Wilson byggir á. Montið hríðminnkar hins vegar þegar maður er minntur á það að hérlendir fræðimenn eiga aðeins tvö prósent þeirra rannsókna sem nú um stundir eru birtar á þessum menningararfi. Ég hef þá tilfinningu að þeir sem fara með peninga- og þróunarvöld í menningarmálum á Íslandi hafi hvergi nærri áttað sig á þeim auði sem fólginn er í Eddukvæðum og öðrum miðaldaskáldskap á íslensku og fornnorrænu. Þeir og þær hafa líka flest meiri áhuga á einhverju allt öðru en því sem er klassískt og eyðist þess vegna ekki í einu andartaksappi snjallsímans.

Norðmenn eru miklu meðvitaðri um norrænan auð miðaldamenningar en Íslendingar. Vissulega hjálpar þar til að þeir eigna sér Snorra Sturluson enda skrifaði hann Heimskringlu, sögu norskra konunga, og það fer í taugarnar á okkur að Norsarar skuli þykjast eiga þennan okkar mann. Snorri bjó jú í Reykholti og þar var hann drepinn þótt hann lifi samt enn í verkum sínum sbr. ljóð Þórarins Eldjárn um frægasta Íslendinginn. En hvað sem eignarhaldi á Snorra líður þá leggja Norðmenn raunverulega rækt við menningararfinn frá miðöldum, segja börnum og unglingum frá honum í skólum og umskapa hann í nýjum verkum. Um það er Edda skýrt dæmi og ef ekki hefði verið fyrir nýlega Njálu í Borgarleikhúsinu hefði ég orðið býsna niðurlútur yfir þjóðerni mínu þar sem ég sat og horfði á glæsilega, hárnákvæma, feiknstílíseraða, bráðskemmtilega og dauðans alvarlega útleggingu fremstu listamanna heims á norrænni goðafræði.

Ég efast samt raunar um að það væri skynsamlegt að fá Bob Wilson til þess að gera sýningu áþekka Eddu í Borgarleikhúsinu. Reykjavík gæti þá samstundis umhverfst í þann smástað sem hún í raun og veru er og nánast enginn kæmi í leikhúsið til að horfa. Ef Wilson setti segjum Galdra-Loft Jóhanns Sigurðssonar á svið í Borgó er held ég næsta víst að aðsókn myndi klikka. Líklega væri betri hugmynd að fá hann til að umbreyta Eldborgarsal Hörpu í óperuhús með sviðsetningu á svo sem eins og einu verki hjá Íslensku óperunni. Wilson og hans samverkamenn færu létt með að rigga þar upp glæsisýningu á næstum hvaða óperu sem vera skal og við sem sækjum sýningar og viðburði í Hörpunni eigum slíkt skilið. Og má kannski minna á það í leiðinni að til er ópera um Galdra-Loft sem Jón Ásgeirsson samdi – að ógleymdri Þrymskviðu hans. Það gæti verið skemmtilegt og lærdómsríkt að sjá hvað Wilson myndi gera við þessi verk.

Topptúlkun á norrænum goðsagnaarfi

Sýning Wilsons á Eddu bar öll merki höfundar síns. Mikið bar á bláum lit í bakgrunni en þó var blái liturinn ekki eins áberandi og stundum áður í verkum hans. Lýsingin var hárnákvæm að hætti Wilsons og mikið um ferstrenda ljósfleti í ýmsum litum, þó mest hvítum, og skuggar sem féllu á sviðsgólf og veggi virkuðu sem úthugsuð blæbrigði en ekki eins og tilviljanakennt tækniklúður. Öll framganga leikaranna var mjög stílfærð, jafnt framsögn sem söngur og hreyfingar. Stílnum mætti líkja við það að á sviðinu hafi verið lifandi leikbrúður. Brúður af ýmsu öðru tagi komu víða við sögu í sýningunni. Meðal þeirra var Miðgarðsormur. Sá var mikill vexti en aðrar brúður á sviðinu voru smærri og tóku ekki eins mikið pláss. Skjaldbakan var samt dálítið stór um sig miðja sem vonlegt var en mikið hrikalega fannst mér hún vera skemmtileg fígúra. Kúrekastígvél og kúrekahattur skelltu á skeið í feiknaskemmtilegu atriði og skiptu litum í sífellu. Og hvalirnir í glansandi glimmerlitum voru eins og óvenju listræn neonauglýsing fyrir hvalaskoðunarferðir. Hugmyndaauðgin og léttleikinn voru aðalsmerki þessara margbreyttu innskota í heildarmynd sýningarinnar á Eddu sem flutti okkur þungbæran boðskap um fimbulvetur þann sem í aðsigi er.

Videoverk gegndu mikilvægu hlutverki í Eddu, ýmist ein og sér eins og í upphafi og milli þátta þegar magnþrungin tónlist Arvo Pärt dunaði undir þessari myndrænu túlkun á sköpun og þróun heimsins; eða þá að sjónlistamyndirnar voru fléttaðar inn í leiknu atriðin. Í leikatriðinum var allt annars konar músík því að þar var gripið til tónsmíða eftir systurnar Bianca (Coco) og Sierra (Rosie) Cassady – en þær kalla sig CocoRosie. Æsir og jötnar sungu melódíur þeirra systra allt hvað af tók og oftast var textinn á ensku. Kontrastinn sem CocoRosie myndar við Arvo Pärt undirstrikaði tón- og blæbrigði í áherslum Wilsons svo unun var að heyra og sjá. Þær CocoRosiesystur hafa áður unnið með Wilson – í Pétri Pan í Berlín árið 2013 og Ævintýrum Púshkíns í Moskvu árið 2015 – og það er greinilegt að hann er flinkur að velja sér samstarfsfólk.

Sviplíkar sýningar

Stundum er reynt að gera lítið úr fagurfræði Roberts Wilson og maður heyrir fullyrðingar eins þær að þetta sé nú allt saman alveg eins hjá honum – og svo geri hann þetta heldur ekki sjálfur, því að hann sé með aðstoðarmenn fleiri en tölu verði á komið.

Hvorug þessi ummæli eru alveg út í hött. Wilson hefur nefnilega skapað sér mjög auðþekkjanlega fagurfræði og stíl og vissulega hefur hann fjölda aðstoðarmanna sem sumir hverjir hafa fylgt honum í áraraðir. Um auðþekkjanlegan stíl Wilsons er það hins vegar að segja að eitthvað svipað mætti hafa á orði um texta Shakespeares, málverk Picasso og tónlist Jóhanns Sebastíans. Auga og eyra nema fljótt hver var að verki þegar þessir kallar eiga í hlut. Snilldin fellst auðvitað að hluta til í fagurfræðinni sjálfri en ekki síður í því hvernig blæbrigðarík smáatriðin í túlkuninni eru felld að hverju verki fyrir sig. Þetta á við um þá alla fjóra – Wilson, Shakesperae, Picasso og Bach. Og svo vikið sé að aðstoðarmönnum Wilsons þá man ég ekki betur en að Michelangelo hafi haft slatta af fólki í vinnu þegar hann var að koma sér á blað í listasögu heimsins. Hið sama á raunar við um Bertel Thorvaldsen – og svo mörg önnur stórmenni í listasögu aldanna.

Mikið og margt fleira mætti segja um Wilson og hans verk en lesendur eru sjálfsagt misáhugasamir um efnið. Eitt verður samt að koma fram fyrir þá sem ekki vita og það er að Wilson gerir allt í senn – að leikstýra, hanna leikmynd og segja fyrir um lýsingu. Og þeir sem vilja kynna sér Bob Wilson og fagurfræði hans eiga fleiri kosta völ en bara að gúggla hann almennt á netinu – sem reyndar getur leitt ýmislegt í ljós. Ég get nefnilega bent þeim sem vilja skoða vinnubrögð Wilsons nánar og vita hvaðan hann kemur og hvert hann hugsanlega er að fara á ágæta mastersritgerð Höllu Bjargar Randversdóttur við Háskóla Íslands um þennan fjöllistamann. Ritgerðin er varðveitt á rafrænu formi í Skemmunni ásamt öðrum prófritgerðum á háskólastigi hérlendis.

Píslar- og sigursaga

Sama dag og ég sá Eddu á miðdegissýningu í Norska leikhúsinu hlustaði ég um kvöldið á grípandi fagran og fagmannlegan flutning á Jóhannesarpassíu Jóhanns Sebastíans Bach í Dómkirkjunni í Osló. Þar voru að verki Balthasar-Neumann kór og hljómsveit frá Þýskalandi undir stjórn Thomasar Hengelbrock. Einsöngvararar í aðalhlutverkum voru Daniel Behle sem Guðspjallamaðurinn og Michael Nagy sem Kristur. Fjöldi kórfélaga steig svo fram og söng einsöngskafla í passíunni en hún einkennist meðal annars af því hversu margar og ólíkar persónur taka þar til máls.

Það er óralangt á milli Eddu Roberts Wilson og Jóhnnesarpassíu Bachs en efni beggja þessara verka er eigi að síður sótt í goðsagnir. Kristin og gyðingleg mýtólógía og sú heiðna norræna eiga raunar margar sameiginlegar tilvísanir og myndir; guðinn sem hangir á/í trénu, síðusárið, Yggdrasil og skilningstréð – et cetera et cetera et cetera et cetera.

En frásagnaraðferð Bachs og Wilsons eru gerólíkar. Dramatík Wilsons í Eddu er samlistaverk þar sem hið sjónræna er oft í augljósu öndvegi yfir tónum og orðum; dramatúrgía Bachs byggir að mestu beint á guðspjalli Jóhannesar með svolitlu ívafi úr Mattheusi en úrvinnsla hans öll og tjáning er tónræn – músíkölsk. En þvílíkt drama sem er sviðsett fyrir eyrað og hugann í þessari tónlist. Hljóðfæralínurnar grípa hver aðra á lofti og stökkva milli tóntegunda eins og ekkert sé. Þannig undirstrikar tónlistin ástríðuna og þjáninguna sem sagt er frá svo með því einu að hlusta kviknar sagan og lifnar á sviði hugans. Kórkaflar passíunnar eru einkar dramatískir og svo lifandi að þeir hrífa hvert hlustandi eyra frá fyrsta andartaki. Og eftir að Pílatus tók að yfirheyra Krist og skiptast á og takast á við múginn um líflát eða náðun Jesú frá Nasaret varð Oslódómkirkja beinlínis að leikhúsi. Pílatus stóð þá mitt í miðgangi kirkjunnar og hrópaði til kórsins fyrir altarinu – milli þess sem hann settist í sitt gullna rauðplussklædda hásæti.

Es ist vollbracht – Það er fullkomnað

Sýningin á Eddu var vissulega afarnákvæm og fagleg en Balthasar-Neumannáhöfnin gaf í því efni hreint ekkert eftir nema ef vera skyldi að flutningur kórs og hljómsveitar hafi verið ennþá fullkomnari en listamanna Norska leikhússins. Það er ekki sjálfgefið að sitja í tæpar tvær klukkustundir á hörðum kirkjubekk og vita ekki af því hvernig tíminn flýgur en setan reyndist auðveld þetta kvöld. Hin mikla dramatík passíunnar þar sem þverstæði sigursins er fólginn í þjáningu og kvöl eins og undirstrikað er í nokkrum síðustu köflum Jóhannesarpassíunnar – allt frá altaríunni Es ist vollbracht (það er fullkomnað) – virkar fullkomlega í þessu listaverki hverju sem áheyrandinn kýs svo að trúa í hversdagsveruleika sínum.

Jóhann Sebastían var afburðatónskáld og þess njótum við enn mörg hundruð árum eftir að hann lést. En þótt Bob Wilson sé toppmaður okkar tíma þá er hans sviðslist augnablikinu háð og mun ekki lifa nema í skrásetningum að honum gengnum. Hitt er annað að áhrif Wilsons á sviðslistir samtímans eru orðnar svo margvíslegar að brot úr fagurfræði hans má nú sjá í hverri uppfærslu annarra leikstjóra og leikmyndahöfunda á fætur annarri um allan heim. Það var slæmt að missa af sviðsetningu Wilsons á Jóhannesarpassíunni í París árið 2007 – fyrir utan allar hinar sýningarnar sem hann hefur sett á svið. Því að listinn er langur og viðfangsefnin mjög fjölbreytt.

Ibsen endurunninn

Henrik Ibsen er næstmest leikna leikskáld heimsins nú um stundir og hefur svo verið undanfarin mörg ár. Shakespeare einn er oftar leikinn á sviði. Brúðuheimili – 1879 – er trúlega þekktasta leikrit Ibsens nema Pétur Gautur hafi tekið fram úr í því kapphlaupi. Mikið hefur verið úr því gert að Ibsen hafi í Brúðuheimili gerst málsvari kvenréttindabaráttu fyrst og fremst og það getur orðið fólki dýrkeypt að halda einhverju öðru fram, að minnsta kosti í fræðaheiminum. Skiptir þar engu þótt leikskáldið hafi sjálft margsagt að kvenfrelsi hefði ekki verið sitt aðalviðfangsefni í þessu leikriti heldur hafi hann viljað skrifa samtíma harmleik um hjónabandið.

Þetta er rifjað upp hér vegna þess að sýning Norska þjóðarballettsins á Ghosts – Ibsens Gengangere– dansverki eftir Marit Moum Aune (leikstjórn og sviðsetning) og Cina Espejord (kóreógrafía) sem þær byggja á samnefndu leikriti Ibsens gefur tilefni til að álykta að GengangereGhosts Afturgöngur sé kannski femínískasta verk sem nokkur karlmaður hefur skrifað – og að minnsta kosti mun femínískara en Brúðuheimili. Afturgöngur var næsta leikrit sem Ibsen samdi eftir frægðina sem hann hlaut fyrir Brúðuheimili. Hann lauk við að skrifa það árið 1881 og eins og svo oft kemur fyrir í leikritum hans kallast efni Afturgangna á við næsta verk á undan – og í þessu tilviki semsé leikritið um Helmershjónin.

Frú Helena Avling í Afturgöngum er kona sem fór öndvert að við það sem Nora Helmer gerir í Brúðuheimili. Frú Alving lét ekki hurðina og garðshliðið skellast að baki sér heldur ákvað að sitja áfram í vonlausu hjónabandi sínu með kammerherranum og kapteininum sem hún var gift og kúgaði hana, hélt framhjá henni með vinnukonunni og ótal öðrum konum af ýmsu sauðahúsi. Það má jafnvel gera því skóna að kammerherrann hafi misnotað son þeirra Helenu kynferðislega áður en hann endaði loks á því sjálfur að drepast úr sárasótt. Sem var reyndar mjög algengt banamein karlmanna í Norður-Evrópu á ofanverðri nítjándu öld. Þótt allt þetta sé ekki sagt alveg beinlínis í leikriti Ibsens þá urðu efnisval hans og efnistök hans í Afturgöngum til þess að almennar sýningar á verkinu voru bannaðar áratugum saman víða í Evrópu. Það lék hins vegar mjög stórt hlutverk í risi natúralismans í evrópsku leikhúsi í kringum 1890 og var á verkefnaskrá frjálsra leikhúsa í mörgum helstu borgum álfunnar á þessu skeiði – og ævinlega undir því yfirskini að sýningarnar væru ekki fyrir almenning heldur lokaðan hóp klúbbfélaga.

Undirtextinn dansaður

Hafi eitthvert verk gengið í endurnýjun lífdaganna í nýjum búningi þá gerist það í sýningu Norska þjóðarballettsins á Afturgöngum. Við tónlist Nils Petters Molvær bókstaflega dansa dansarar flokksins leikrit Ibsens – eða öllu heldur undirtexta þess og allt hið ósagða – og það er gert með því að fylgja leikritinu frá hendi höfundar nær óbreyttu frá atriði til atriðis. Af þeim vinnubrögðum má margt læra. Það er nefnilega ekki endilega víst að sjálfskipaðir dramatúrgíusnillingar samtímans séu mestu leikskáldum fortíðar fremri í því að byggja upp leiksýningu.

Eins og önnur svokölluð nútímaleikrit Ibsens – lesist módernísk leikrit – þá gerast Afturgöngur á stuttum tíma eða rétt rúmum sólarhring og allt á sama stað. Ibsen fylgir hér hinum klassísku reglum Aristótelesar og frönsku nýklassísistanna um einingu í tíma og stað – en kannski skiptir enn meira máli að hann fylgir líka klassísku reglunni um einingu í atburðarás. Hér er fyrst og fremst ein saga sögð og þess vegna losnum við allan vandræðaganginn sem Frú Kristín Linde og skúrkurinn Krogstad og þeirra ástabrall valda í Brúðuheimili.

Yngri versjónir aðalpersóna

Í stuttu máli þá fannst mér sýningin á Afturgöngum á aðalsviði Norsku óperunnar einstakt listaverk. Aðferð danshöfundar og leikstjóra felst meðal annars í því að kalla til leiks yngri versjón af frú Helenu og yngri gerð Manders prests og fá börn til þess að dansa Regínu og Ósvald Alving í þeirra bernsku. Ósvaldur bregður sér svo augnablik í hlutverk dauðs föður síns en Jakob Engstrand, smiðurinn með halta klumbufótinn, á sér engan tvífara. Enda er hann ómenni sem ekki tekur út neinn þroska. Þetta virkar svolítið flókið þegar frá því er sagt en á sviðinu var aldrei erfitt að átta sig á því á hvaða tímaplani dansað var né heldur að fylgja því eftir þegar eilífðartráma í sál persónanna tók yfir og tíminn hvarf þeim.

Aðferðin til þess að skilja á milli ólíkra tíma í sýningunni var afar einföld. Litur búninganna einn nægði til þess að skera úr þar um. Hin ungu og ástríðufullu Helena Alving og Manders klerkur voru klædd ljósdrapplitum klæðum og börnin tvö voru í fötum í sömu litatónum eða þá nær hvítum – eins og raunin var með Ósvald. Allir hinir voru íklæddir búningum í dekkri litum, gráum, hálfsvörtum eða mjög dökkbláum. Þetta á þó ekki að öllu leyti við um Frú Alving sem gekk á svið og dansaði í byrjun sýningar í fögrum hvítum silkisloppi sem síðan vék fyrir dökkblágrásvörtum kjól.

Inn í merg áhorfandans

Sýningin hófst með því að nokkrir leikarar/dansarar fluttu leiksviðslýsingar Ibsens á myndbandi og brugðu við það fyrir sig þremur tungumálum – norsku, ensku og þýsku. Þetta var ekki bara afar snjöll hugmynd heldur svo vel útfærð að áhorfandinn var leiddur áreynslulaust inn í heim leikritsins, veröldina sem Ibsen dró upp fyrir eitthundrað og fjörutíu árum og enn fokking virkar. Undir lestrinum birtist Helena Alving úr undirdjúpum forsviðsins og trompettleikarinn og tónskáld sýningarinnar í einum og sama manninum blés svo við hennar fyrsta sólódans. Hér var kominn lúðraþytur Opinberunarbókarinnar í öllu sínu veldi og ljóst að þung örlög voru í vændum. Smám saman fjölgaði fólki á sviðinu og undir lokin voru þar allir dansararnir á mörgum mismunandi hæðarplönum samtímis svo frásögn dansins streymdi um allt sviðið, fram í salinn og inn í merg áhorfandans.

Goðsagnablandað raunsæi

Tvö atriði í þessum ballett voru þess háttar í allri sinni ótrúlegu estetísku fegurð að erfitt var að horfa á þau. Í bæði skiptin var um að ræða dans hinna fullorðnu við og með börnin, Jakobs smiðs við Regínu og Alvings kapteins við Ósvald son sinn. Jafnbrútal og grimmdarleg gjörð sem kynferðisleg misnotkun barna verður tæpast tjáð á jafnafburða vandaðan listrænan hátt og þarna var gert. Annað ógleymanlegt atriði er þegar Jakob Engstrand hefur Regínu á brott með sér og tekur hana með sér niður á við – til Heljar – þar sem hann hyggst gera hana að drottningu sinni. Engin tilviljun að Ibsen kallar þessa persónu Regínu því að drottning Hadesar skal hún verða í ríki skugganna. Hér eins og svo víða í Ibsen ganga goðsagnaminnin aftur á svo lifandi hátt að þau birtast á sviðinu að því einu tilskildu að dramatúrgarnir séu ekki að fokka í því sem skáldið skrifaði.

Sýning Norska þjóðarballettsins á Afturgöngum var frumsýnd árið 2014 og útnefnd besta nýja dansfrumsýning þess árs í Evrópu af tímaritinu Dance Europe. Í fyrra fór Norski þjóðarballettinn með sýninguna í sýningasigurför til Parísar, Vínar og Berlínar og nú á vormisserinu var blásið til nokkurra sýninga á verkinu á stóra sviði Norsku óperunnar. Ég á ekki endilega von á því að þessi sýning komi hingað til lands og er raunar ekki viss um að leiksvið Borgarleikhússins sé nógu fullkomið tæknilega til þess að taka við henni. En ef það skyldi gerast þá geta dans- og listunnendur átt von á afbragðs sýningu á verki sem virðist – því miður og svo sorglegt sem það í raun og veru er – ætla að eiga við mannskepnuna eilíft erindi. Og það er full ástæða til þess að fylgjast vel með verkum þeirra Marit Moum Aune og Cina Espejord í framtíðinni.

Ég veit ekki um hvort þær stöllur hafa haft einhver bein kynni af Robert Wilson eða átt við hann samstarf en það hafði hins vegar Kristin Bredal sem er ljósameistari Ghosts – Ibsens Gengangere. Hún var um skeið í Wilsonliðinu og þess sér vissulega stað í lýsingunni á þessu verki, ekki síst ljósaferstrendingunum sem kvikna æ ofan í æ á mismunandi stöðum leiksviðsins og afmarka aksjónina sem þar á sér stað. Hvað mig sjálfan varðar þá fannst mér þó enn skemmtilegra að sjá hvað margar hugmyndirnar í sviðsetningunni á Eddu í Norska leikhúsinu minntu á leikmynd og lýsingu í Pétri Gaut á Akureyri í árslok 1998. Kristin Bredal gerði leikmynd og ljós í þeirri uppfærslu og það var mér í senn unun og heiður að vinna að dramatúrgíu sýningarinnar með henni.