GARÐURINN MANNS
maður verður að rækta garðinn sinn
hafa trén svo tignarleg að þau teygi
sig yfir í næstu garða og skyggi
á útsýni nágrannanna
fá meindýraeyði
(þann dýrasta = blóðþyrstasta)
svo maður losni við rottur
leigja út herbergið í kjallaranum
til að safna fyrir heitum potti
og trampólíni
snöggslá grasið
spreða þykkum áburði á runnana
ráða ódýran útlending til að snyrta blómin
setja skilti:
Einkalóð, óviðkomandi
bannaður aðgangur
maður verður að rækta garðinn sinn
hringja óðamála í lögguna í hvert skipti sem flissandi unglingar
læðast berfættir yfir snöggslegið grasið
á heitri sumarnóttu
skrá sig á byssunámskeið, fá
byssuleyfi, sofa með byssuna
í seilingarfæri
stækka bílskúrinn þó að það bitni
á túninu við innkeyrsluna
maður verður að rækta garðinn sinn
maður verður að rækta garðinn sinn
þangað til hann er orðinn besti garðurinn
í öllu hverfinu, í allri borginni, á öllu landinu
kaupa þá fleiri hús og lóðir
og rækta fleiri garða
maður verður að rækta garðana sína
rækta bestu garða í heimi
eiga hús á Spáni
og í Flórída
og rækta þar garðana sína
og setja upp fleiri skilti:
Einkalóð
eiga reiðan hund
í görðunum – marga reiða hunda
sem gelta að ókunnugum
eiga ótal garða úti um allan heim
með ótal reiðum hundum
sem gelta á alla sem ganga hjá