Mynd: Shiraz Chakera.

Ljóð

Við erum saman komin, ég og þú og svo margir aðrir, til að fagna því að við vitum ekkert í okkar haus. Hausinn okkar er þó fullur af alls konar hugmyndum og vitleysu og staðreyndum um tilgangslausa hluti, en engan þeirra virðumst við geta notað okkur til framdráttar í þessum heimi, eins og hann er orðinn. Við værum til í að vera bara dýrategund og éta, drepa, ríða, annast afkvæmin þar til þau eru nógu stór til að gera það sjálf, og drepast svo, en samt finnst okkur það líka eitthvað svo glatað. Við erum því í eilífri mótsögn við okkur sjálf. Við elskum að vera einföld en svo leiðist okkur það og þá flækjum við allt líf okkar fram úr öllu valdi og svo þegar lífið er orðið óviðráðanlega flókið, þá þráum við einfaldleikann. Já, við bókstaflega förum fram úr okkur við að reyna að einfalda líf okkar aftur. Við sjáum einfalda lífið í nostalgísku ljósi, en það ljós er alltaf litað af snjallsímunum okkar sem við heimtum að nota til að taka myndir af allri einfölduninni sem okkur tekst, með ærinni fyrirhöfn, að kalla fram. Mínímalíski lífsstíllinn okkar er svo drullu-flókinn að fæstir nenna honum. Það er léttara að henda hlutum en gera við þá. Það er léttara að henda hlutum en gefa þá. Það er léttara að kaupa nýtt þegar það gamla fer úr tísku, því þá þarftu ekki í alvörunni að mynda þér skoðun á því hvað þér sjálfum finnst fallegt. Hefur þú yfir leitt einhverja skoðun á því hvað er fallegt? Erum við ekki öll bara endurvarp gamalla minninga, og kunnum að meta eitthvað af því það kallar á einhverja stemningu úr lífi þar sem allt var einfaldara? Nostalgían er hinn nýji mínímalíski lífsstíll, þar sem við reynum að framkalla einhvers konar gleði, sem er þó ekki glöð í alvörunni, því hún er svo mikið að reyna að vera glöð. Gleðin er einhvern vegin þvæld eins og gömul innkaupataska á hjólum sem þú fékkst að eiga frá systur ömmu þinnar í föðurætt. Henni, sem átti þessa innkaupatösku því hún þurfti að labba langa leið útí búð á hverjum degi, en þú notar hana af því hún minnir þig á gamla tíð, og sú tíð kemur aldrei aftur og þú veist það. Það er ekkert svo slæmt að lifa þannig lífi, en svo man maður stundum að allt þetta er bara yfirborð. Raunverulega lífið á að vera fullt af einhverju sem skiptir máli, ekki einhverju sem lætur allt vera þolanlegt og kallar fram brosviprur á uppþornaðar varir. Þú og ég og við öll erum laus við allt erfiði og ströggl fyrri tíma en við náum samt ekki að gleyma okkur. Náum ekki að vera til, því við erum svo upptekin af því að vera glöð. Hvað er gleði? Hvaða máli skiptir nokkuð, nema að það sé ekki fýla af manni þegar maður fer í vinnuna? Sæmilega hreint hár og hrein föt, er það ekki bara eina viðmiðið sem við eigum eftir? Allt annað hefur klárast.
Internetljóð, samið í kommenti, Berlín, 1. maí 2017.