Mynd: Stéttabarátta, timarit.is.

Hann gekk nú samt

Hann hafði farið í allar 1. maí göngur. Allt frá því hann var 12 ára og byrjaði að beita hjá Bjössa graða; lærði handtökin fyrir hádegi, beitti eins og fljótustu karlarnir eftir vikuna. Hann skipti sér lítið af verkalýðsmálum en seldi þó alltaf merkið á 1. maí. Ef hægt var að tala um merki, alltaf þessi helvítis miði og títuprjónn með. Svo stakk hann þessu í karlana og krakkana, rétti konunum það; vildi ekki vera með lúkurnar í brjóstunum á þeim – eða svo gott sem. Þau tök hafði hann aldrei lært. Allur samt af vilja gerður – eða, hefði verið það; ef sú staða hefði komið upp. En aldrei kæmi til þess, það var dagljóst, því nú var hann dauður, lá á eldhúsgólfinu en hugsaði samt sinn gang; hann ætlaði ekki að sleppa göngunni. Verst ef Magga litla sem þreif hjá honum fyndi hann svona; dauðann á nærbuxunum einum fata. Hún var nú ekki, blessunin, á þeim laununum hjá sveitarfélaginu að hún ætti að þurfa að þess. Hann hafði farið þessi bévítans æðagúlpur við litlaheilann; það var ekki eins og þeir hefðu ekki vitað af honum – ótal andskotans rannsóknir og útgjöld. Danskur heilasérfræðingur og utanlandsferð og svo ekkert hægt að gera. Það hefði þá líka verið til einhvers. Það hefði nú verið vit í því að fara að kosta til milljónum svo 82 ára karl sem ekkert kunni og ekkert vissi gæti beitt í einhverjar vikur í viðbót – eða kannski ár. En hann var samt búinn að koma því þannig að björgunarsveitin og ungmennafélagið skiptu á milli sín þessum milljónum, sem hann hafði nurlað saman í einverunni. Það yrði þá til einhvers gagns, loksins. Reyndar fannst honum hann hafa lítið iðjað þegar hann heyrði í hádegisfréttunum um þennan manndjöful sem átti að fá bónusinn, það var sextán sinnum allt hans ævistrit í krónum og aurum. Og ekki lá sá fósi dauður á nærbuxunum heima hjá sér – nei, svoleiðis karlar drepast á terlínbuxum með fólk í kringum sig. Nú var ekki annað en að nudda sér í gönguna; samstaðan var mikilvæg. Hann stóð upp úr útslitnum líkamanum og horfði á sig eitt augnablik; buxurnar voru hreinar. Svo leið hann út um vegginn í átt að fólkinu sem var að hópa sig við samkomuhúsið. Hann hægði á sér við kirkugarðshornið sem skagaði út í götuna eftir að íhaldið breytti skipulaginu svo afastelpan hans Bjössa graða gæti látið bensínstöðina sína liggja samhliða bakhliðinni á frystihúsinu sínu, Fiskverkun Björns Sumarliðasonar / hf. Það var dautt og þreytt í garðinum, hann yrði líklega eini fulltrúi sinnar stéttar í þessari göngu. Það væri þá ekki í fyrsta sinn. En nú yrðu einhverjir aðrir að sjá um merkið – og það sem verra var; hann gat ekki séð að það yrði gerlegt að næla nokkrum sköpuðum hlut í sig. En, hann ætlaði samt að ganga og svo var hann líka óþreyttur. Loksins.