Er þýðing Helga Hálfdanarsonar á Love’s Labour’s Lost hans verstu glöp?
Þá er ég auðvitað að meina þýðinguna á nafninu. Ástarglettur?! Hvað á það að þýða? Væri „Ástarbrall í óskilum“ ekki skárra? „Ástin sigrar ekki“? Eða kannski „Ástarþrautin þyngri?“ „Labour’s“ vísar víst til þrauta Herkúlesar segir formálinn, og Herkúles kemur allnokkuð við sögu hjá hinum lærðu vitleysingum sem fylla persónugalleríið.
Annars finnst mér líklegt að Helgi hafi hér komist í hann nokkuð krappan, svo stútfullt sem verkið er af orðaleikjum, latínu og obskjúr mælsku. Í Ardenformálanum fer H. R. Woudhuysen rækilega í saumana á því hvernig Shakespeare NOTAR mælskubrögð og skrúð í verkinu, og hvernig það er að einhverju leyti UM þess háttar – um samband máls og heims. Og aldrei þessu vant fær lesandinn ekki á tilfinninguna að hér sé fræðingur að reyna að „fræða upp“ aldeilis græsku- og dýptarlausan gamanleik, heldur einmitt að hjálpa lesandanum leiðina inn í þykknið.
HOLOFERNES
This is a gift that I have, simple, simple; a foolish extravagant spirit, full of forms, figures, shapes, objects, ideas, apprehensions, motions, revolutions: these are begot in the ventricle of memory, nourished in the womb of pia mater, and delivered upon the mellowing of occasion. But the gift is good in those in whom it is acute, and I am thankful for it.
4.2.75–71
Inngangur Woudhuysens er algert afbragð, skýr og skemmtilegur og gerir mann tilkippilegan í það sem til stendur. Meðal fróðleiksmola sem má demba fram strax er að Love’s Labour’s Lost er rímaðasta verk Shakespeares. Tæpur þriðjungur textans er þannig bundinn. Annar moli er sá að hér er hirðlíf í fyrsta sinn vettvangur gleðileiks hjá Shakespeare, en ekki ástir og örlög kaupmanna og lágaðals. Líklega var skáldið komið nær lifnaðarháttum þessháttar fólks undir verndarvæng jarlsins unga af Southampton sem hann hafði tileinkað kvæðin um Venus og Lúktretíu.
Love’s Labour’s Lost er með minnst þekktu verkunum, og kannski ekki úr vegi að gera aðeins grein fyrir hvað gerist. Það er nú ekkert svo mikið. Hinn ungi konungur Navarra (svona sirka þar sem Baskaland er núna) og þrír vinir hans sverja í upphafi leiks að helga sig heimspekinámi í þrjú ár við strangan aga og án nokkurs samneytis við stelpur. Og það er eins og við manninn mælt, Frakklandsprinsessa og þrjár hirðmeyjar hennar eru mættar við hallarhliðið og heimta áheyrn, enda komnar til að ganga frá óuppgerðum skuldamálum milli konunganna (gott hjá honum að treysta stelpum fyrir svoleiðis). Og að sjálfsögðu verða drengirnir skotnir í stelpunum og byrja umsvifalaust að ganga á bak orða sinna með laumulegum viðreynslum, við hæfilega hrifningu meyjanna. Á meðan þessu fer fram er tilvonandi kennari strákanna, spænski orðhákurinn Armado, að glíma við sína eigin ást á alþýðustúlkunni Jaquenettu, umkringdur álíka glórulausum lærdómsmönnum og launvitrum kjánum. Undir lokin ákveða drengirnir að gangast við tilfinningum sínum, við nokkuð hófstilltar undirtektir, en í miðju kafi stöðvar sendiboði frá Frakklandi gleðskapinn: konungurinn er dáinn. Alvara lífsins tekur við. Stúlkurnar snúa heim og setja strákunum fyrir að reyna að mannast í eins og eitt ár og svo muni þær sjá til. Lokasöngur og tjaldið.
Ég átti frekar von á að verða lítið hrifinn af LLL, sem ég las í Helgagerð fyrir meira en tuttugu árum og hef ekki hugsað um síðan. Mælskugrín eldist ekki svo óskaplega vel, og svo eru til þær raddir (ekki alveg ósannfærandi) sem vilja meina að Shakespeare hafi verið margt betur gefið en fyndni. Svo fór samt að ég sogaðist algerlega inn í þessa sérkennilegu gerfiveröld.
Það er eitthvað mjög krúttlegt við hirð þessara þriggja vina, og að næsta fólk við hana séu sveitalubbar og lágstéttaglópar. Minnir pínu á gamansemi Jónasar Hallgrímssonar með drottninguna af Englandi, eða morgunbjástur Napóljóns og Jósefínu í Heljarslóðarorustu Gröndals. Hér er konungurinn að kljást við kjánann Costard, sem hefur gerst fjölþreifinn við Jaquenettu i garði konungsins:
KING
Sir, I will pronounce your sentence: you shall fast a week with bran and water.
COSTARD
I had rather pray a month with mutton and porridge.
1.1.285–287
Eins og hjá Jónasi og Gröndal er stutt í lókal vísanir þó sviðið sé erlendis:
BIRON
I could put thee in comfort. Not by two that I know:
Thou makest the triumviry, the corner-cap of society,
The shape of Love’s Tyburn that hangs up simplicity.4.3.50–53
Hér grípur franskur hirðmaður til helsta aftökustaðar Lundúna til að skreyta mál sitt í orðaskiptum við baskneskan hirðmann.
Það er líka smá Tsékovskt, tíðindaleysið, og svo harkaleg innkoma raunveruleikans í lokin. Og þó yfirborðið glansi óneitanlega þá tekst Shakespeare að gefa tilfinningu fyrir holdi og blóði með því að láta persónurnar sjálfar vera meðvitaðar um hvað þær eru uppteknar af yfirborðinu. Mjög Elísabetanskt og mjög nútímalegt, enda hefur vegur verksins vaxið frá því upp úr miðri síðustu öld, eftir að hafa verið eitt þeirra sem Shakespeare-æði rómantíkurinnar horfði framhjá.
Hér eru ALLIR uppteknir af því hvernig þeir hljóma. Á köflum er eins og allir séu John Cleese að reyna að kaupa sér ost í frægu atriði úr Monty Python. Þetta fólk er líka fljótt að dæma ef einhverjum verður fótaskortur. Fyrir vikið er rímið ekki framandgervandi á sama hátt og stundum – þessu fólki er eðlilegt að ríma, meðvitað um að það er töff að ríma, en pínu fyndið líka. Þetta eru rapparar. Hér er kóngurinn t.d. að segja vinum sínum frá lærimeistaranum Armado:
Ay, that there is. Our court, you know, is haunted
With a refined traveller of Spain;
A man in all the world’s new fashion planted,
That hath a mint of phrases in his brain;
One whom the music of his own vain tongue
Doth ravish like enchanting harmony;
A man of complements, whom right and wrong
Have chose as umpire of their mutiny:
This child of fancy, that Armado hight,
For interim to our studies shall relate
In high-born words the worth of many a knight
From tawny Spain lost in the world’s debate.
How you delight, my lords, I know not, I;
But, I protest, I love to hear him lie
And I will use him for my minstrelsy.1.1.160–174
Algerlega hversdagslegur upplýsingatexti. Nema undir sonnettuhætti! Af því bara. Það er líka aldeilis svipur á þessari miklu varnarræðu um ástina hjá Berowne þegar hann hefur orðið uppvís af ástarbralli, eins og félagar hans allir:
A lover’s eyes will gaze an eagle blind;
A lover’s ear will hear the lowest sound,
When the suspicious head of theft is stopp’d:
Love’s feeling is more soft and sensible
Than are the tender horns of cockl’d snails;
Love’s tongue proves dainty Bacchus gross in taste:
For valour, is not Love a Hercules,
Still climbing trees in the Hesperides?
Subtle as Sphinx; as sweet and musical
As bright Apollo’s lute, strung with his hair:
And when Love speaks, the voice of all the gods
Makes heaven drowsy with the harmony.
Never durst poet touch a pen to write
Until his ink were temper’d with Love’s sighs;
O, then his lines would ravish savage ears
And plant in tyrants mild humility.4.3. 308–323
Sumt af gríninu er auðvitað orðið ónothæft í tímans rás. Margt af því kallar á inngróinn aðgang að hugmynda- og tilvísanaheimi sem er nútímalesanda/áhorfenda lokaður. Svo er sannleikskorn í því sem Douglas Adams sagði um húmoristann Shakespeare, og kallaði gamanmálin „desperate stuff“. það er líka fyndið að þeim mikla lærdómsmanni og Shakespeare-ista prófessor Vambrace í Tempest-Tost eftir Robertson Davies þótti vissara að halda ræðu yfir leikfélaginu sínu um að gamanleikir þurfi ekki endilega að vera fyndnir á fyrsta samlestri á Ofviðrinu. (Tempest-Tost er sjálf einhver fyndnasta leikhússkáldsaga sem skrifuð hefur verið, hvað allir athugi).
En svo er hin hliðin: grín sem virkar banalt á blaði en lifnar á sviði. Mig grunar t.d. að þessi hundómerkilegu orðaskipti svínvirki í meðförum snjallra leikara:
KING
Peace!
COSTARD
Be to me and every man that dares not fight!
KING
No words!
COSTARD
Of other men’s secrets, I beseech you.
1.1.222–225
LLL hefur sérstöðu í höfundaverkinu en það á líka skyldmenni. Woudhuysen verður tíðrætt um All’s Well that Ends Well, og Royal Shakespeare Company setti verkið upp fyrir tveimur árum í samkrulli við Much Ado About Nothing, og tengdu það við titilinn „Love’s Labour’s Won“, sem minnst er á í einni samtímaheimild, en ekkert meira er vitað um. Óneitanlega má sjá ávæning af hinum frægu fjandvinum Beatrice og Benedict í fyrirferðarmesta parinu hér, Rosaline og Berowne.
Hér er líka upptaktur, finnst mér, að As You Like It. Þó við séum stödd í hallargarði er nálægð náttúrunnar áberandi, sem og samkrull hins háa og lága. Einkum og sér í lagi eru hér málsnjallar og vitrar konur að reyna að stýra ástsjúkum strákum inn í raunveruleikann. Gera þá sambúðarhæfa, með öllu mildari og „kvenlegri“ meðölum en Petrútsíó tamdi sína sneglu 3–4 árum fyrr.
Þær eru miklir töffarar, þessar stelpur. Þær eru til í að taka þátt í kynferðislegum orðaskylmingum við hirðmann sinn (4.1.) og eru með öll tromp á hendi í samskiptum við strákana, jafnvel þó erindi þeirra sé að semja um lúkningar skulda við Navarrakóng. Þær eru meira að segja til í að kalla hvora aðra feita í hita orðaleiksins, án þess að allt fari um koll í vináttunni!
ROSALINE
Look what you do, you do it still i’ the dark.
KATHARINE
So do not you, for you are a light wench.
ROSALINE
Indeed I weigh not you, and therefore light.
KATHARINE
You weigh me not? O, that’s you care not for me.
ROSALINE
Great reason; for ‘past cure is still past care.’
5.2.24–28
Nútímasviðssaga Love’s Labour’s Lost hefst 1946, þegar tvítugur Peter Brook kom að því er virðist fyrstur auga á dramatíska möguleika lokaatriðisins. John Barton kveikti á hinu tsékovska í verkinu og kom því á framfæri í uppfærslum í Stratford 1965 og 78. Þetta hefði verið gaman að sjá, en ekki hefði síður verið spennandi að berja augum uppfærslu Michael Kahn fyrir American Shakespeare Festival frá 1968 þar sem Navarrakóngur var jóginn Maharishi, hirðmennirnir byggðir á Bítlunum og vísað í Truman Capote, Gandhi og Hemingway í öðrum persónum. Eins væri ég alveg til í að sjá óperu Nicolas Nabokov (frænda Vladimirs) við librettó Audens og Kallmans sem frumsýnd var 1973 en virðist ekki hafa öðlast framhaldslíf eða verið tekin upp.
Royal Shakespeare Company er duglegt þessa dagana við að dæla út upptökum af sýningum sínum og ein þeirra er einmitt fyrrnefnd uppfærsla frá 2015 þar sem sem kallast er á við Much Ado. Hana horfði ég á og hún er frábær. Létt og leikandi, kannski aðeins of snyrtileg og „pen“, en mikið augnayndi og skrauti texta og persónusöpunar vel haldið til skila. Tíminn er 1914 og í lokin eru herramennirnir ekki fyrr búnir að lofa að nota næsta ár til að þroskast þannig að þeir verði stúlknanna verðugir en skotgrafirnar kalla. Mennirnir sverja og ákveða en skriðþungi sögunnar ræður. Yndisleg uppfærsla og ég hlakka til að sjá Love’s Labour’s Won, sem vinnur áfram með sama konsept og leikhóp.
Kenneth Branagh er ekki á alveg ólíkum slóðum með sína bíómynd upp úr verkinu frá 2000. Árið er 1939 og tónlistin er Cole Porter og fleiri amrískir söngleikjameistarar en ekki Sir Arthur Sullivan-líki eins og hjá RSC. Myndin þykir almennt ekki sérlega vel heppnuð og ég var að vona að það væri vanmat. Á pappírnum er þetta nefnilega góð hugmynd. Ærslafull „sófistikering“ millistríðsáranna ætti að harmónera við yfirborðsmennsku Navarrahirðarinnar. En því miður – tónlistin, eða öllu heldur textarnir, eru ekki nógu sannfærandi viðbót, nema þegar Branagh brestur í Dancing Cheek to Cheek beint úr ofanívitnaðri ræðu um ástina (4.3.). Jú og lokasöngurinn er pínu brilljant og eiginlega betri en bláendir Shakespeares. Newsreel-trikkið er skemmtilegt. En Don Armado er svo fáránlega over the top og leiðinlegur hjá Timothy Spall að mann langar að skalla hann. Og þó Nathan Lane sem Costard sé ágætlega fyndinn sem amerískur Marxbrotherlegur skemmtikraftur þá þarf karakterinn líka einfeldni og sakleysi sem sú lögn rústar. Og var alveg nauðsynlegt að hafa stelpurnar svona flissandi og heilalausar þó við séum á charleston-öld? Almennt er líka stílfært hreyfingamynstur og sviðsferð í uppfærslu Christopher Luscombe mun lífrænna – og kátlegra – en yfirkeyrt og kauðskt slapstikkið í mynd Branaghs. Sorrí Ken.
Mér hefur orðið tíðrætt um hvað þetta er skemmtilegt verk. Það er samt villandi að láta eins og Love’s Labour’s Lost sé meistaraverk. Persónusköpun yfirstéttarfólkins er einsleit, og reyndar er pupullinn það líka, þótt þar sé litríkara lið. Grobbarinn er pedant, pedantinn er trúður, trúðurinn er orðheppinn og skutilsveinninn er álíka snjall og þeir allir. Svo náttúrulega gerist fátt, og það sem gerist fylgir brautum plottsins og hefðarinnar frekar en að eiga sér trúverðugan drifkraft í persónunum.
En með því að láta þennan gerfiheim snúast um gerfimennsku málsnilldar og yfirborðslærdóms og gera íbúa hans meðvitaða um það þá snýr Shakespeare veikleikunum upp í styrkleika. Undir lokin hafa Berowne og félagar hans líka áttað sig á að þó þeir hafi gerst eiðrofar við að umgangast stúlkurnar þá hafa þeir opnað sér leið til að læra það sem meira er um vert. Þeir hafa komist að sömu niðurstöðu og Hamlet (nokkuð sem stelpurnar vissu reyndar fyrir): að það er meira milli himins og jarðar en það sem finna má í heimspekiskruddum.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.