Frá félagsheimilinu á Egilsstöðum.

Hin líkamlega menning, rúnturinn og hláturmenning

Eitt af því sem er athyglisvert varðandi við næturlífsmenningu eða drykkjumenningu íslendinga er viðsnúningur borgaranna frá ýmsum gildum og reglum sem virðast tímabundið sett til hliðar meðan á skemmtuninni stendur.

Í heimildamyndinni Rúntinum, sem tók mig 17 ár að vinna, var ég að fást við hugmyndir um fegurð og ljótleika, líkt og margir aðrir sem á undan hafa komið.

Rúnturinn I fjallar, eins og nafnið bendir til kynna, um jaðarmenninguna rúntinn. „Sjoppumenning“, „bílamenning“ og einnig drykkjumenning var yfirleitt flokkuð sem lágmenning og stundum ruslmenning eða í öllu falli sem menning sem ekki var talin hafa mikla þýðingu. Fyrir þjóð sem hefur í tímanna rás byggt sjálfsmynd sína á menningararfi Íslendingasagna, Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, rómantískum ljóðum íslenskra stórskálda og ægifagurri náttúru Íslands þá eru menningarkimar sem endurspegla fyllerí, óbeislaða kynhvöt og grillaðar majonessamlokur ekki fýsilegur kostur til alvarlegrar umfjöllunar. Það er nánast eins og um þöggun sé að ræða. Ég velti fyrir mér hvort að sú þöggun, ef hún sé fyrir hendi, endurspegli valdastrúktúrinn þar sem rúnturinn var og er í raun skemmtanahald fólksins (alþýðunnar). Vissulega hefur afstaðan breyst síðustu áratugina og félagsvísindin hætt að greina einhver afmörkuð skil á milli lágmenningar og hámenningar. Þannig að ef til vill má segja að slík gagnrýni sé þar með óþörf. Ég tel þó að enn eimi af þessari lágmenningarlegu flokkun og það megi greina það í umræðunni (eða ef til vill skort á umræðu) um vissa þætti menningar okkar. Aðferðafræði Rúntsins I var observational kvikmyndahefð undir áhrifum dogma stefnu (Dogme 95) Lars Von Triers og Thomas Vinterbergs (Idioterne og Festen).  Hlutverki hins oftast glæsta og valdamikla fréttamanns var snúið á hvolf  með því að birtast á ljótum bíl í ljótum fötum með fátæklegan kvikmyndabúnað og umsjónarmennirnir máttu vera drukknir að auki. Þannig var gerð tilraun til að færa völd þess sem skoðar til þess sem er skoðaður.

Karnívalið

Bakhtín fjallar um karníval miðalda í bók sinni um François Rabelais, Rabelais og heimur hans (e: Rabelais and his world) (1968), einkum í kaflanum Ímyndir veislunnar. Bakhtin skoðar meðal annars skáldsöguna Gargantua og Pantagrúll frá 17. öld. Hann veltir fyrir sér karnívali, alþýðumenningu og skopstælingu í skáldskap miðalda og sér það sem form ákveðinnar útrásar frá því hversdagslega, ákveðna uppreisn gegn harðri lífsbaráttu og striti. Skyndilega er hið grófa (gróteska) orðið normið, alþýðumanninum leyfist að gera grín að valdhafanum og jafnvel helgisiðir verða að gríni. Framar öllu er upphafning hins líkamlega áberandi þar sem fullnæging líkamlegra þarfa er upphafin og sett á stall. Og á sama hátt og karnívalið frelsar fólkið tímabundið frá óttanum við lífsafkomu og yfirvald frelsar veisluímynd miðaldabókmenntanna orðræðu hins ritaða máls (Bakhtín 2005).

Það er alls staðar svo – hvort sem um er að ræða kvöldmáltíð Kýpríans, predikun Zenons eða annað þar á milli, allt til satíra og skopverka 15. og 16. aldar – að veisluímyndirnar frelsa orðlistina og gefa öllu verkinu frjálslegan og óttalausan tón. … Frjáls leikur að hinu helga er megininnihald miðaldasamdrykkjunnar. Hann stafar þó ekki af tómhyggju eða frumstæðri ánægju af því að niðurlægja hið háa.

Við getum ekki skilið anda grótesku samdrykkjunnar ef við tökum ekki tillit til djúpstæðrar gleði sigurhátíðarinnar, sem er eiginleg hverri veisluborðsímynd sem er upprunnin í þjóðháttum. Meðvitund um hinn hreina mannlega kraft hins holdlega gegnsýrir hina grótesku samdrykkju. Maðurinn óttast ekki heiminn, hann hefur sigrað hann, neytir hans.

(Bakhtín 2005, 110).

Það er athyglisvert í lýsingu Bakhtíns að ofan að maðurinn sem óttast ekki lengur og hefur sigrað heiminn neytir hans að lokum.

Seinna lýsir Bakhtín senu í bókinni Gargantúi og Pantagrúll (frá 16. öld) með grófum lýsingum (alltaf í skopstíl þó) á áti, ofbeldi og líkamlegri virkni óæðri líkamshluta sem magnast upp uns það verður viðsnúningur frá regluverkinu, nokkurs konar algleymi sem allir sammælast um (Elliot 1999, 130).

Af þessu má ráða að það er ekki fráleitt að bera íslenska drykkjumenningu saman við karníval miðalda. Þessi lýsing á þeirri sameiginlegu ákvörðun alþýðu og valdhafa að það sé í lagi að „snúa heiminum á hvolf“ í dágóða stund (kannski til að fólk haldi geðheilsu) lýsir mjög glöggt áhugaverðri hliðstæðu við viðhorf sem Íslendingar hafa almennt til þess að detta í það, fara á fyllerí, „flippa út“ og „gera allt brjálað“. Hinn greinilegi viðsnúningur borgaranna frá ýmsum gildum og reglum sem virðast tímabundið vera sett til hliðar meðan á skemmtuninni stendur líkist hugmyndinni um karníval miðalda að vissu leyti.

Rúnturinn á Egilsstöðum

Í fyrrgreindri bók Rabelais og heimur hans (1968) fjallar Bakhtín enn um skáldsöguna Gargantúi og Pantagrúlll:

Rabelais og heimur hans lýsir á ítarlegan hátt fagurfræði sveitamenningar á miðöldum, sem vísað er til hliðstæðna eins og fólkið, mannskapurinn, hinn heimurinn, óopinberi heimurinn og alþýðu-skemmtanamenning, skilgreint andstætt opinbera heiminum sem stjórnast af borgaralegu og kirkjulegu valdi.

(Elliot 1999, 130) þýð. höf.

Bakhtín heldur því fram að lesandinn geti einungis skilið heimspekilegt mikilvægi bókar Rabelais með því að skoða hana með augum 17. aldar mannsins, þar sem áherslan var á fagurfræði hins grófa (ógeðslega). Hugmyndirnar sem tengjast grófum myndum af áti, ofbeldi og virkni hinna óæðri líkamshluta er ekki hægt að skilja út frá hefðbundnum sjónarmiðum. Hið grófa lýsir viðsnúningi siðlegra og rökvísra viðhorfa:

Viðsnúningur karnivalsins lýsir breytingu frá fastmótuðum reglum stöðugleikans til óþrjótandi möguleika.

(Elliot 1999, 130)

Á sömu nótum mætti skoða menninguna, eða athæfið sem rúnturinn er, sem uppbrot, sem undankomuleið út úr hversdeginum þar sem siðferðilegar kröfur um hegðun og talsmáta hafa breyst og hið grófa og líkamlega verður norm.

Í greininni Úr forsögu orðlistarinnar í skáldsögum fjallar Bakhtín enn um grótesku og skop í orðlist og tengingu þess við karnívalið á miðöldum. Grein hans fjallar um sögu hláturmenningar og hlutverk skoplistar (Bakhtín 2005). Í þriðja kafla ofangreindrar greinar kemur Bakhtín inn á skopstælingar og hlátur bókmennta á miðöldum:

Bókmenntir hláturs og skopstælingar voru framúrskarandi auðugar á miðöldum. Auðlegð og fjölbreytni skopsins sýna ættartengsl miðalda við Róm. Það er nauðsynlegt að taka það fram, að hlátursköpun á miðöldum er um margt beinn arftaki hinnar rómversku, þetta á einkum við um hefð satúrnusarhátíðanna, sem lifði áfram í breyttri mynd. Hlæjandi Róm Satúrnusarhátíðanna, skrýdd fíflahatti – „pileata Roma“ (Martialis) – , hélt krafti sínum og töfrum á myrkustu skeiðum miðalda. En nýjar afurðir hláturlistarinnar sem spruttu úr jarðvegi staðbundinna þjóðhátta Evrópuþjóða, voru einnig þýðingarmiklar.

(Bakhtín 2005, 75-76)

Bakhtín telur alveg víst að í fornöld hafi öll orðræða og bókmenntir á öllum sviðum átt sér skop- og stælingartvífara, sem hann lýsir sem andstæðu í formi gríns og hæðni. Hann kemur inn á Forngrikki og Rómverja og nefnir sem dæmi satýrleikinn Beinasafnarann eftir skáldið Æskýlos sem er skopstæling á atburðum og hetjum Trójustríðsins (Bakhtín 2005, 61). Skopstælingin hafði tilgang en hún var aðhald og stöðug gagnrýni og afhjúpaði takmarkanir hinnar hámenningarlegu og alvarlegu orðlistar, Bakhtín kallaði þetta leiðréttingu raunveruleikans sem væri alltaf mun fátækari í hinni hámenningarlegu orðlist án þessarar gagnrýni og mótsagnar í formi skopstælingarinnar (Bakhtín 2005, 63).

Bakhtín segir að við megum ekki yfirfæra hugmyndir okkar eigin tíma um orðlist hláturmenningar og skops miðalda og jafnvel fornaldar. Á okkar tímum sé hlutverk skopsins þröngt og veigalítið. „Skoplistin hefur visnað og henni hefur verið úthýst úr nýrri bókmenntum“ (Bakhtín 2005, 78). Hann segir að þær hræringar sem maðurinn upplifði frá miðöldum til okkar tíma, eins og endurreisnartímabilið og hugmyndafræðilegar stefnur sem fylgdu í kjölfarið hafi breytt orðræðunni á þann veg að þessi einstæða menning hafi vikið. Það er mikilvægt að þessi skoplistarmenning miðalda var tengd helgisiðum og kirkjunni. „helgiskop“ miðalda (parodia sacra) er skopstæling helgisiða og helgra texta (Bakhtín 2005, 78). Bakhtin kallar þá hláturleysingja, agelasta sem sáu til þess að hin ríka hláturmenning Rómverja skilaði sér ekki í orðlist nútímans, hláturspeglunin var úthrópuð sem helgispjöll (Bakhtín 2005, 66).

Saturnalia

Ritið Saturnalia er talið samið af Rómverjanum Macrobius (sem hugsanlega var af egypskum uppruna) á fimmtu öld. Í inngangi bókarinnar segir þýðandinn Davies að verkið sé tileinkað syni hans Eustachiusi. Verkið er nokkurs konar ímynduð orðræða sem inniheldur upplýsingar sem Macrobius skrifaði að ættu að gagnast syni hans sem umfjöllun um siði, venjur og fleira (Macrobius 1969). Verkið er mjög mikilvæg heimild um siði Rómverja þessa tíma. (Þetta er viðbót við umræðuna um karnívalið en Bakhtín vísar til Satúrnusarhátíða í Róm í síðustu beinu tilvitnun að ofan).

Saturnalia var hátíð í Rómaveldi haldin í janúar ár hvert. Macrobius segir að fyrst hafi þetta verið einn dagur, 14. desember, en eftir að Julius Caesar hafi bætt tveimur dögum við dagatal desembermánaðar hafi dagsetningin ekki bara færst til 16. desember heldur hafi hefðin breyst til þess að vera nokkurra daga hátíð. Hins vegar bendir Macrobius einnig á eldri heimildir sem tala um 7 daga hátíð og sem byrjaði á köldustu dögum vetrarins (Macrobius 1969, 70). Macrobius segir að Saturnalia hafi tengst og runnið saman við hátíðisdag til dýrðar Ops en sá dagur var kallaður Opalia. Ops var eiginkona Satúrnusar og táknaði himnaríki en Satúrnus táknar vöxt, enda sé nafnið komið af Satus sem þýðir fræ. Á þessum degi skyldi húsráðandinn, eftir að hafa komið uppskerunni í hús, snæða við sama borð og þrælar hans sem tákn um að á borðum voru afurðir sameiginlegs strits húsráðanda og þræla hans. Þessi hátíð þróaðist smám saman í að spanna sjö daga samkvæmt Macrobiusi (Macrobius 1969, 72-73) og má leiða að því getum að hún sé undanfari karnívalsins.

Í framhaldi af þessari umræðu um hvernig karnívalið tengist frjósemishátíð Rómverja þá gef ég mér að jólin eigi einhvern fjarlægan skyldleika við frjósemishátíðir fornmanna.  Þannig væri áhugavert að velta fyrir sér hinu trúarlega gildi hringsins í rúntinum. Að atferlið að keyra í hringi tengist mögulega trúariðkun eins og að ganga í kringum líkneski eða jafnvel jólatré. En það eru getgátur og eru settar hér fram einungis til gamans.

Karnívalið og Rúnturinn

Það er ljóst að framangreindu að þörf mannsins fyrir hlátur er honum eðlileg, sérstaklega þegar tilveran er hvað erfiðust og lífsbaráttan hörð. Hláturmenningin sem Bakhtin fjallar um (sú líkamlega; karnívalið) á sér skírskotun í íslenska næturlífsmenningu, að mati höfundar, því hún er andsvar við alvarleika hversdagsins. Þó svo að þessi merkilega hefð sem má rekja frá fornöld til miðalda sé að vissu leyti aflögð, hefur þörf mannsins fyrir hlátur að sjálfsögðu ekki breyst.  Orðræðu- og textagreining Bakhtins á hláturmenningu fyrri tíma sýnir fram á það. Einnig er umhugsunarvert að jaðarmenningin rúnturinn endurspeglar þessa þrá fólks eftir því að komast frá hinum hefðbundnu gildum og gleyma sér um stund.

Næturlífsmenningin sem blasir við manni á rúntinum og annars staðar í íslenskum bæjum og borgum um helgar, virðist mun skiljanlegri og rökréttari skoði maður hana í ljósi hláturmenningar Bakhtíns. Upptökuaðferðin og tjáning heimildarmyndagerðarinnar í Rúntinum öðlast á sama hátt dýpri merkingu og fær jafnvel tilgang sem helst í hendur við gróteska og jafnframt skoplega skemmtanamenningu.

Fagurfræði menningar og smekkur

Staðlaðar hugmyndir um fegurð geta heft tjáningu og frásögn af menningu og fólki og afbakað sannleikann um leið. Fagurfræði er hugtak sem ég hef velt mikið fyrir mér á mínu sviði sem kvikmyndagerðarmaður, eins og eðlilegt er. Í ritinu Rabelais og heimur hans lýsir Bakhtín á nákvæman hátt fagurfræði sveitamenningar á miðöldum þar sem vísað er til hliðstæðna eins og fólkið, mannskapurinn, hinn heimurinn, óopinberi heimurinn og alþýðuskemmtanamenning sem er skilgreint andstætt opinbera heimunum sem stjórnast af borgaralegu og kirkjulegu valdi (Elliot 1999, 130). Þannig má skoða menninguna, eða athæfið (e. practice) sem rúnturinn er, sem uppbrot, sem undankomuleið út úr hversdeginum þar sem siðferðilegar kröfur um hegðun og talsmáta hafa breyst og hið grófa og líkamlega verður norm.

Frásagnir af menningu sem þóknast valdhafanum þarfnast fallegra umbúða. Þess vegna er umræða um fagurfræði nauðsynleg í tengslum við menningu og fjölmiðla, að mati höfundar. Valdhafinn vill oftast hafa um það að segja hvað sé talið ljótt og hvað fallegt, sagan hefur kennt okkur það.

Pierre Bourdieu fjallaði um fagurfræði og smekk en hann hélt því fram að fyrir fólk úr alþýðustétt þá gegndi sérhver mynd (listaverk) ákveðnu hlutverki og það dæmdi oftast myndir út frá siðferði eða nytsemi:

Andstætt fjarlægð og yfirvegun sem fagurfræðikenningar telja einu leiðina til að viðurkenna listaverkið sem slíkt, þ.e. sem sjálfstætt (selbstandig), þá leiðir alþýðleg fagurfræði hjá sér eða afneitar afneituninni á „beinni“ hlutdeild og „óheftri“ ánægju, en smekkur fyrir formtilraunum byggist a.m.k. með óbeinum hætti á síðarnefndu afneituninni.

(Bourdieu 2007, 39-40).

Bourdieu var að bera saman alþýðusmekk við fagurfræðikenningar Kants, sem hann taldi í raun skarast á sem andstæður. Bourdieu taldi að fólk úr alþýðustétt gerði þær væntingar að sérhvert listaverk gegndi ótvírætt einhverju hlutverki og að dómar þess skírskotuðu oft til siðferðis eða nytsemi. Hvort sem það teldi listaverkið gott eða vont þá byggðist mat alþýðufólks á sjónarmiðum sem hefðu alltaf siðferðilegan grundvöll. Þannig taldi hann alþýðlegan smekk bera með sér barnslega einlægni sem einkenndi innlifun hennar í skáldverk og myndir. Hann taldi hana (alþýðuna) sjá listaverk með sömu viðmiðum um innlifun, sem giltu í hinu hversdagslega lífi og að það skapaði reglubundna „afturfærslu“ listarinnar til lífsins (Bourdieu 2007, 40).

Með þessari umfjöllun er ég að brydda upp á umræðu um fegurð í kvikmyndagerð og hvað sé fallegt eða ljótt. Á svipaðan hátt og karníval miðalda var upphafning hins grófa og líkamlega þá felur „rúntmenning“ og eða „sjoppumenning“ í sér ákveðinn ljótleika eða öllu heldur grófleika.

Mér hugnast kenningar Bourdieus um smekk og fagurfræði og hvernig það helst stundum í hendur við notagildi. Um leið hafna ég öllum fyrirfram gefnum hugmyndum um hvað sé fagurt, eða í tilviki kvikmyndagerðarinnar, hvað sé fagmannlegt. Þegar ég vann Rúntinn vildi ég frekar halda í þá hugmynd að ég væri að framleiða lélega kvikmynd fremur en góða. Á svipaðan hátt og karnívalið er uppreisn gegn fagurfræðilegum viðmiðum „opinbera heimsins“ er hin fagurfræðilega fjarlægð kannski fremur leið til að aftengja sig frá tilhneigingunni að þóknast fegurðarskyni og „pólitískri rétthugsun“ nútíma síns, að þóknast almennum hugmyndum um hvað sé fagurt og siðlegt. Tilgangur þess er ekki til að spyrna á móti, ekki eingöngu, heldur kannski fyrst og fremst til að vernda innihald verksins.

Heimildaskrá

Bakhtin, M. M. (1940/2005). Úr forsögu orðlistarinnar úr skáldsögum. (Jón Ólafsson þýddi). Í Benedikt Hjartarson (ritstjóri), Orðlist Skáldsögunnar (bls 48-91). Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.

Bakhtin, M. M. (1965/2005). Ímyndir veislunnar hjá Rabelais. (Jón Ólafsson þýddi). Í Benedikt Hjartarson (ritstjóri), Orðlist Skáldsögunnar (bls 91-118). Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.

Bourdieu, P. (1979/2007). Aðgreining-félagsleg gagnrýni smekkvísinnar. (Gunnar Harðarson þýddi). Í Davíð Kristinsson (ritsjóri), Almenningsálitið er ekki til (bls 33-43). Reykjavík: Omdúrman – Reykjavíkur Akademían.

Macrobius. (1969). Saturnalia. (P. Vaughan þýddi). New York: Columbia University Press.