Heimspeki eymdarinnar

tilvistarkreppa og jaðarsetning í Bláu könnunni

Síðast tók ég fyrir Græna hattinn, sem í raun er sjálfstætt framhald á fyrri bók Alice Williamson um Bláu könnuna. Eins skelfileg og Græni hatturinnn er, þá er ljóst að Williamson hefur þurft að draga af sér þar enda hefur fyrri bók hennar þótt einum of óhugnanleg. Í lok Græna hattsins hefur lesandanum verið fengin óljós von, en vonleysi einkennir Bláu könnuna.

Í upphafi sögu er lesandi ávarpaður, „Hér sjáið þið litlu, bláu könnuna,“ svo veggurinn milli söguheims og lesanda er rofinn og lesandi gerður þátttakandi í framvindunni, hann er beinlínis gerður ábyrgur því hann situr undir atburðarásinni og aðhefst ekkert: „Hún stendur uppi á hillu. Henni leiddist og langaði niður.“ Hér er tíma verksins sömuleiðis breytt; fyrst er lesanda talin trú um að atburðir sögunnar eigi sér stað frammi fyrir augum hans, en svo er hann sviptur þeirri falsvon þegar ljóstrað er upp um að atburðir sögunnar hafa þegar gerst. Raunar er einkennandi fyrir verkið hvernig umbroti þess er markvisst beitt til að ýta undir falska von lesandans um úrlausn á vanda könnunnar en brjóta hana jafnharðan niður aftur, á meðan crescendo væntinganna ýfir upp spennu textans uns allt hrynur að lokum.

 

Sjáið bara! Sjáið þessa könnu hvað hún er leið! Hún hefði betur bara sætt sig við tilveruna!

Þannig er lesandi tældur áfram til þátttöku og fyrr en varir hefur hann gerst meðsekur í hatursglæp. Það er erfitt að segjast ekki hafa tekið þátt í raun heldur aðeins unnið þarna þegar öskunni úr ofnunum rignir yfir þig, svo þegar kannan liggur brotin að leikslokum er ansi billegt að segjast ekki hafa vitað í hvað stefndi. Allt í bókinni stefnir að þessu lokamarki, bæði fyrir atbeina könnunnar og annarra. Heimspeki eymdarinnar í verkinu er þessi: Þér líkar ef til vill ekki staða þín í lífinu, en hún getur aðeins versnað því meir sem þú reynir að bæta hana.

Aðrar persónur sögunnar eru ekki kynntar, þær bara eru og þær eru sjálfsagðar, og þær birtast hver á fætur annarri á einhverjum óljósum stað þar sem er hilla og blá kanna. Gerist sagan í verslun? Við vitum það ekki. Það eina sem við vitum er að hillan er notuð sem mise-en-scène fyrir heiminn; hvað liggur handan hillunnar er ekkert nema óskilgreind von, innantóm hugmynd um ytri veröld.

Von byggist upp:

Litla bláa kannan sagði við litla, gamla manninn: „Ég er lítil, blá kanna og mér leiðist svo mikið hérna uppi á hillunni. Viltu vera svo góður að taka mig niður, því annars hoppa ég sjálf niður á gólf?“

Það er svo margt sem gerist hér í einni sviphendingu og kemur lesandanum að óvörum: kannan getur talað! Frá fyrstu síðu vissum við að hún væri tilfinningavera sem byggi yfir hugsun. Þetta er kanna með andlit, en að vísu þarf það ekki að þýða neitt; amma mín á blómavasa með auga en þó vitum við ekki til þess að vasinn geti séð. En nú tekur kannan af allan vafa og talar við „litla, gamla manninn“ eins og við eigum að vita hver það er. Kannan finnur sig knúna til að skilgreina sjálfa sig innan tilveru sögunnar: hún er lítil, blá kanna. Þetta ætti litli, gamli maðurinn að geta sagt sér sjálfur, en ítrekaðar tilraunir könnunnar til að skilgreina stöðu sína í heiminum benda einmitt til þess að þær séu mikilvægar: staða hennar er ekki viðurkennd, tilvist hennar er hafnað. Ennfremur birtist afleiðing þessarar jaðarsetningar könnunnar í hótun hennar um að fremja sjálfsvíg á staðnum ef litli, gamli maðurinn hjálpar henni ekki niður þangað sem henni virðist tilveran grænni. Óhugnaðurinn rífur í lesandann frá fyrstu sitúasjón. Upplausn er í vændum, ógnin er komin í spilið.

 

Litli, gamli maðurinn veitir könnunni falsvon.

„Nei,“ sagði litli, gamli maðurinn.
„Ég vil ekki hjálpa þér niður, litla bláa kanna.“

NEI? Hvað er að? Kannan hótaði rétt í þessu að svipta sig lífi og litli, gamli maðurinn lætur eins og það að rétta fram litla fingur sé til merkis um meðvirkni. Hann vill ekki hjálpa henni. Hann hafnar könnunni um þátttöku í heiminum. Heimur könnunnar er hilla, og verður hilla, og fyrr má kannan deyja á gólfinu en að hann hjálpi henni. Hann reynir að firra sjálfan sig ábyrgð, en er í raun ábyrgur með aðgerðaleysi sínu, rétt eins og lesandinn: eins og við öll sem skellum skollaeyrum við þegar jaðarsetning fólks á sér stað frammi fyrir augum okkar. Þessi kanna talaði við hann, en hann viðurkennir ekki að hún sé fólk, hann sér aðeins könnu.

Og svona gengur sagan með risi og hnigi á víxl, þar sem ein opna birtir von um úrlausn en sú næsta kæfir niður vonina: Litla, gamla konan er beðin um aðstoð, en hún neitar að hjálpa könnunni. Litli drengurinn er beðinn um aðstoð, en hann neitar að hjálpa könnunni. Litla stúlkan er beðin um aðstoð, og allir sem hafa áður lesið Græna hattinn fyllast nú von því það var litla stúlkan sem keypti hann, en nei: litla stúlkan neitar að hjálpa bláu könnunni.

Næst birtist litli svarti kötturinn, sem er einnig persóna í sjálfstæðu verki eftir Alice Williamson, Svörtu kisu.

„Mjá, mjá,“ sagði litli svarti kötturinn.
„Ég skal hjálpa þér niður, litla, bláa kanna.“

Kannan er ómenntuð og hefur ekki áttað sig á því að kettir hafa ekki þumla, svo það er ógjörningur fyrir svörtu kisu að hjálpa könnunni niður. Hvort er hún samt öll af vilja gerð, eða hreinlega full af illsku og hatri í garð myndhverfðra jaðarhópa? Það er óvíst. Þó má draga vísbendingar af hræðilegum svip kattarins, rauðglóandi glyrnum hans, þegar hann hrindir könnunni fram af hillunni.

Svarta kisa myrðir bláu könnuna

Svo litla, bláa kannan féll niður á gólf.
Hún brotnaði í þúsund mola.

Og gólfið niðri er alveg eins og hillan: glóandi rautt, rautt eins og blóð könnunnar; í senn tákn um að dauðinn er ekki aðeins óhjákvæmilegur nú, heldur að hann hafi alltaf verið í nánd, jafnvel uppi á hillunni; táknrænt sömuleiðis fyrir það að tilveran var eftir allt saman engu skárri þegar af hillunni var komið. Hún var eins. Allt er eins. Eins og það á að vera. Kannan hefði betur sætt sig við það.

 

„Og þar með endar sagan af litlu, bláu könnunni.“

Eða svo segir sagan, en bókin heldur samt áfram á þrem öðrum tölusettum blaðsíðum. Á síðu 29 er bláa kannan brotin, en á næstu síðu er hún heil!

Hér er freistandi að túlka könnuna sem eins konar kristsmynd: fyrst er boðskap hennar tekið fálega meðal þeirra sem valdið hafa til að breyta heiminum (sem í þessu tilviki er hilla), síðan er kannan svikin og tekin af lífi, loks rís kannan aftur upp frá dauðum. Á næstu síðu hefur kannan verið hrifin upp til æðri tilveru:

Og við erum skilin eftir ein í tilverunni:

Hins vegar er öllu sennilegri túlkun að þetta séu hinstu hugrenningar hinnar deyjandi bláu könnu, þar sem hún óskar sér burt á einhvern annan og betri stað. Sennilega hefur Terry Gilliam haft þessi endalok Bláu könnunnar í huga þegar hann aðlagaði söguna í kvikmyndina Brazil. Tómhyggja sögunnar bendir til þess að hér sé á ferðinni enn ein falsvonin um einhvers konar upprisu, en tómu síðurnar í lokin sýna lesandanum að í heimi sögunnar er ekki smæsta tangarhald hafandi á voninni: speranza del mondo sögunnar er að allir haldi sig við þá hillu sem þeim hefur verið úthlutað, ellegar fari illa fyrir þeim. Dantelögmálið og Jantelögmálið sameinast í eitt: látið af allri von þegar í stað, því þið eruð ekki neitt. Hvítu síðurnar eru tómið og dauðinn. Litla, bláa kannan er ei meir og verður aldrei aftur. Við drápum hana.