Ég mótmæli allur – öllu

Ég mótmæli:
meðferð yfirvalda á flóttamönnum,
ofstopa stöðumælavarðanna,
aðförinni að einkabílnum,
skortinum á umburðarlyndi,
undanlátsseminni,
verðinu á erlendum osti,
því að flytja eigi flugvöllinn,
niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu,
því að langa í eitthvað en fá það síðan ekki,
ferðamannasprengingunni í miðborginni,
sjálftökunni í kerfinu,
hótelvæðingunni,
verðtryggingunni,
flösu,
staðsetningu flugvallarins,
tilvist flugvalla yfirleitt,
hugmyndinni um öldrun,
fáskiptni yfiralda í garð vanda
landsbyggðarinnar í heild sinni,
skortinum á skyndbitastöðum í dreifbýli,
því að hafa ekki vald yfir löngunum mínum og þrám,
flötum bjór,
ríkisafskiptum,
því að týndi sonurinn sé meira virði
en hinn sem heima beið,
upphafningu ljóðsins,
birtingu ljóða á internetinu,
hugmyndinni um eign (sem er rán),
hugmyndinni um skatt (sem er eignaupptaka),
innheimtukerfi LÍN,
breytingunum á innheimtukerfi LÍN,
skeytingarleysi ráðamanna í garð útigangsfólks,
þeim sem af kaldlyndi gera grín að Lúkasarmálinu,
hvernig les bobos snobba fyrir le prolétariat,
því að vegir guðs séu órannsakanlegir,
sjálftökunni í kerfinu,
kvótakerfinu auðvitað,
arðránstilburðum 1%,
frekjunni í 99%,
tilætlunarseminni,
afætunum á samfélaginu,
aumingjavæðingunni,
óraunsæum væntingum til sumarsins,
flóði og fjöru,
hverfulleika allra hluta.

Ég mótmæli:
aðgerðum ríkisstjórnarinnar,
aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar,
ríkisbákninu sem tútnar út,
því að vegir Guðs séu órannsakanlegir,
trúnni á blágresi sem alsherjarlausn í landgræðslu,
skortinum á kærleika í garð náungans,
Því að eignast eitthvað og týna því síðan
(þrátt fyrir að fylgja öllum varúðarráðstöfum).
– Var ég búinn að segja: meðferð flóttamanna? –

Ég mótmæli:
því að vera boðið uppá að opna augun
og sjá að baki mér fæðingu mína
sem orðinn hlut – gefna staðreynd –
og framundan: dauða minn – ómflýjanlegan.

Ég mótmæli því að vera til í heild sinni.
Ég mótmæli hinu mannlega hlutskipti.
Ég mótmæli allur – öllu.