Að gefast ekki upp. Gegn bönkunum.

Íslandsbanki átti internetið á mánudaginn síðasta – nánar tiltekið stóðu þeir að baki auglýsingaherferðinni sem allir voru að tala um. Þeir brýndu fyrir okkur að gefast ekki upp þótt það væri verið að mola velferðar- og húsnæðiskerfið að innan, heldur bara að herða okkur upp og búa í tjaldi í Öskjuhlíðinni í nokkur ár á meðan við söfnuðum fyrir hinum heilaga gral – okkar eigin íbúð. Flestir voru að vísu á því að herferðin hefði mistekist hrapalega og bankinn hafi orðið sér til skammar. En ég trúi því einfaldlega ekki.

Sem auglýsingaherferð er hún of vond  til að vera sönn – getur verið að þessi auglýsingaherferð sé barasta ekkert misheppnuð? Einhver auglýsingastofa, langþreytt á þjónkun við kapítalismann, hefur fengið hellings pening frá Íslandsbanka og ákveðið að afhjúpa hugsunarhátt íslenskra kapítalista í eitt skipti fyrir öll. Svo þarf bara að sannfæra bankamennina; „jú, einlægni selur. Felldu bara grímuna.“ Og bankamönnunum hlýnar öllum að innan þegar einhver segir þeim að fólkið geti elskað þá eins og þeir raunverulega eru og þeir leyfa auglýsingastofunni að leika lausum hala.

Enn hef ég þó ekki séð neina auglýsingastofu lýsa gjörningnum á hendur sér. Enda sjálfsagt undir áhrifum frá nafnleysingjum eins og Banksy – eða kannski fylgist ég bara ekki nógu vel með í auglýsingabransanum? Markaðsstjóri Íslandsbanka, Guðmundur Arnar Guðmundsson, hefur þó varið herferðina opinberlega en ekki kemur þó í ljós í viðtalinu hvort hann sé hugmyndasmiðurinn.

En nóg um það – rýnum í þennan gjörning og hvernig hann afhjúpar afturhaldssinnaðan kapítalisma okkar daga.

Planið

„Ekki gefast upp. Það er hægt. Ef þú hefur plan.“ Svona kynntust flestir verkinu fyrst – þetta slagorð vafði mest lesna dagblað landsins örmum í forsíðuauglýsingu, mögulega þéttasta og ástríðufyllsta faðmlagi markaðs og fjölmiðla sem hingað til hefur sést á Íslandi. Símskeytastíllinn gefur til kynna hversu reyfarakenndar sumar sögurnar muni verða – já, eða ljóðrænar ef þú hefur smekk fyrir óhóflega þunglyndislegri ljóðlist.

Skilaboðin eru líka kitsuð á nánast Orwellískan hátt – þeir hefðu alveg eins getað sett upp bíótjald á Austurvelli og látið ábúðafullan leikara benda á áhorfendaskarann á stórabróðurlegan hátt og rymja: „Þetta er allt þér að kenna.“

Strax í inngangstextanum kemur svo skýrt fram að gjörningalistamennirnir átta sig á gildi mótsagna í list: „Plönin eru auðvitað ólík, því ekki geta allir bætt við sig vinnu, selt bílinn eða flutt tímabundið heim til tengdó.“ Samt virðast öll plönin vera einmitt svona.

Niðurlæging gegn sanngjarnri greiðslu

Ég tók einu sinni viðtal við spænska listamanninn Santiago Sierra. Hann er sannarlega umdeildur, enda snýst list hans oft um að borga fólki fyrir að niðurlægja sig og sýna þannig fram á ofurvald peningana í heiminum. Meðal slíkra verka hans var að borga 80 manns fyrir að dvelja inní pappakassa í Gvatemala, borga hermönnum fyrir að standa úti í horni í galleríi, borga heróínfíklum í Puerto Ríkó með dópi fyrir að láta raka strik í hárið á þeim og borga fólki í Havana bæði fyrir að fróa sér og fyrir að fá sér húðflúr.

Íslenska útgáfan er vissulega mun lágstemmdari – en um margt líka lúmskari. Herferðinni fylgja nefnilega ótal reynslusögur – merktar með látlausum hætti sem kynning, nógu látlausum til þess að auðvelt sé að ruglast á þeim og alvöru fréttum. Ólíkt verkum Sierra kemur ekki fram að þeim hafi verið borgað – en ég ætla rétt að vona það, ef ekki sting ég uppá að þau sendi öll feitan reikning, jafnvel sem nemur einni mánaðarlegri afborgun, á Íslandsbanka fyrir hlutverk sitt í þessu leikriti.

En mögulega eru þau öll í sama hlutverki og betlarinn sem Sierra hitti í Birmingham, en hann fékk betlarann til að segja eftirfarandi orð í myndavélina: „Þáttaka mín í þessu verkefni gæti skilað 72 þúsund dollara hagnaði. Ég fékk fimm dollara borgaða.“

Litla ógeðslega íbúðin

Mynd: Arngrímur Vídalín.

Fyrst skulum við bregða okkur í heimsókn til Berglindar Pétursdóttur, en íbúðin hennar er litli ljóti andarunginn í þessa ævintýri. Fyrirsögnin er: „Fjárfesti í íbúðinni sem allir gerðu grín að.“ Seinna er íbúðin kölluð „Litla ógeðslega íbúðin“ og tekið fram að það hafi tekið sex mánuði að gera hana fokhelda. Þetta er falleg saga, hefðbundið ævintýri sem stundum rætist, duglegt fólk sleppir því að kaupa dýra tilbúna íbúð og kaupir þess í stað hræódýrara íbúð og gerir hana upp með stæl. Nema það er tvist í sögunni – íbúðin kostaði 25 milljónir. Mögulega ágætis verð fyrir venjulega íbúð – en varla fyrir íbúð sem er ógeðslegt ófokhelt aðhlátursefni.

Og samt höfðu þau varla efni á henni, sbr. fjármögnunina: „Kaupin voru fjármögnuð með íbúðaláni hjá Landsbankanum, yfirdrætti og spurningaspili.“

Berglind lýsir þessu svona:

„Ég og fyrrum sambýlismaður minn vorum bæði í fullri vinnu á daginn og á kvöldin unnum við saman að verkefni, en við gerðum spurningaspil saman. Tekjurnar af því gerðu okkur kleift að eiga fyrir útborgun, ásamt hellings yfirdrætti. En ég hef svo sem alltaf verið í þúsund aukavinnum og verkefnum,“ segir Berglind.

Sambýlismaðurinn er annars snyrtilega skrifaður út úr sögunni en kannski birtist hann aftur í næstu reynslusögu, að safna sér fyrir íbúð í annað skiptið á stuttum  tíma. En þarna birtist íslenska vinnusiðferðið afskaplega vel – vinna sem mest í sem flestum vinnum, helst segja góðar tröllasögur af þeim líka, góðar ýkjur til að vera nú örugglega að ganga í augun á auglýsingablaðamanninum sem er að taka viðtal við þig.

Rauði þráðurinn í verkum áðurnefnds Santiago Sierra virðist einmitt vera gagnrýni á vinnusiðferði nútímans og dýrkun vinnunar. Þegar ég spurði hann um hvaða réttlætingin hann hefði fyrir því að láta fólk niðurlægja sig í nafni listarinnar þá svaraði hann: „Þetta er mjög algengt. Að upplifa niðurlægingu í vinnu – að vinna er niðurlæging í sjálfu sér. Þú þarft að sannfæra sjálfan þig um að það sem þú ert að gera sé yndislegt, merkingarbært … mögulega er ömurlegt fyrir þig að rúnka þér fyrir framan myndavél en margir gera miklu verri hluti og kalla þá vinnu.“

Spurningaspil er örugglega ekki dæmi um slíkt og vonandi hefur engin af þessum þúsund vinnum Berglindar verið svo slæm – en henni virðist að minnsta kosti hafa tekist ágætlega að sannfæra sjálfa sig um að allt hennar strit sé yndislegt og merkingarbært, en ekki bara strit til að halda algóryþmanum í netbanka Íslandsbanka gangandi.

Gjörningurinn snýst þó ekki bara um  bankana, heldur þjóðfélagið allt – og ríkisstjórn sem er upptekinn við að mola menntakerfið og námslánakerfið að innan er líka tekin fyrir í þessum leikþætti þar sem Berglind segir: „Í dag sér ég  ekki eftir að hafa sett námið á frest og fjárfest í fasteign í staðinn,“

Bjarni Ben hefði ekki getað orðað forgangsröðun ríkisstjórnar sinnar betur.

Bjarna hefur vel að merkja ósjaldan verið legið á hálsi að vera fæddur með silfurskeið í munni og hafa komist í sinn stól vegna frændhygli. Aðalpersónur þessara leikþátta eru nær því að vera venjulegt fólk (en þar sem þau eru íbúðareigendur eru þau auðvitað sjálfkrafa þrautseig ofurmenni að hafa lifað þessar hrakfarir af) – en flestir leikþættirnir eru þó líka óður til fjölskyldunnar, samanber þessa ljóðlínu:

Það var gott að eiga húsasmíðameistara að í fjölskyldunni ásamt frændum.

Sjö kraftmiklir fermetrar

Víkur þá sögunni af næsta leikþætti, þar sem Marteinn Gauti Andrason kláraði háskólanám og flutti svo aftur í foreldrahús „heim til mömmu í 7 fm herbergi“ til að safna sér fyrir íbúð. Það vantar eiginlega að taka fram hve margir metrar Marteinn sjálfur er – en honum tókst þó að kaupa íbúðina og getur borgað af henni. Hann hefur bara ekki efni á að borða meðfram afborgunum: „Það er ekki verra að fjölskyldan búi rétt hjá. Best að búa nálægt mömmu þegar kemur að því að fá sér að borða.“

Marteinn gerir sér líka ágætlega grein fyrir innbyrðis þversögnum leikritsins, sem líkur á orðunum: „og sýnir sig alveg að það er hægt að kaupa sér íbúð á þessum markaði eins og hann er.“ En stuttu áður hafði hann þó sagt að hann hafi prófað leigumarkaðinn og „ákvað eftir einhvern tíma á honum að flytja frekar inn til mömmu og safna sér fyrir eigin íbúð en festast á leigumarkaðinum.“

Sumsé, leigumarkaðurinn er fangelsi og eina leiðin til að safna sér fyrir húsnæði er að búa einhvers staðar frítt og geta svo borðað einhvers staðar frítt á meðan maður er að borga afborganirnar.

Bárujárnsdraumurinn

Mynd fannst á Facebook.

Saga Símons Arnars Birgissonar er næsta átakalítil í samanburði við hinar (hann fær kannski nóg af dramatík sem handrits- og sýningardramatúrg Þjóðleikhússins). Hann keypti litla bárujárnshúsið sem hann dreymdi um án mikilla erfiðleika að því er virðist (en kannski er hann bara harðjaxl sem kveinkar sér aldrei) – en þar má þó finna fallegar ljóðlínur um einu leiðina til að byggja húsnæði í þessu landi frændseminnar:

Símon Örn vildi selja húsið, en Íris Anna hvatti hann til að fara í framkvæmdir. „Þegar maður fer í svona framkvæmdir á húsi þá er það eitthvað sem maður gerir ekkert einn,“ segir Símon Örn. „Öll fjölskyldan kemur inn í þetta, vinirnir, frændi minn smíðaði stiga með mér og pabbi kom á hverju kvöldi.“

Sem er fallegt – og auðvitað er enginn Íslendingur í veröldinni sem ekki á tugi ef ekki hundruði handlaginna frænda, right?

Góði bankinn

En hvað ef við erum að misskilja þetta allt saman, það séu ekki allir bankar svona slæmir, bara sumir?

Auðvitað þurfa allir góðir gjörningar eina hetjusögu og hana fáum við sannarlega í sögunni af Guðbjörgu Hermannsdóttur. Hún þurfti að stytta fæðingarorlofið og mæta með barnið í vinnuna, var komin með massífar skuldir og fasteign sem hún gat ekki borgað af, fasteign sem var svo frábær að þar var hvorki bað né sturta. „Og ég var baðlaus þar í tvo mánuði með nýfætt barn. Ég lét mig hafa það og fór í bað hjá mömmu og pabba í næstu götu eða hjá nágrannanum á móti,“ segir Guðbjörg.“

Hún kom svo að lokuðum dyrum hjá öllum bönkum. Þangað til öll sund virtust lokuð: „Ég var komin með yfirdrátt til að halda mér og börnunum uppi. Að lokum ákvað ég að láta reyna á þann síðasta, Íslandsbanka, þar sem ég hafði jú engu að tapa að fá eitt nei í viðbót. Og ég gekk þar inn með þau skilaboð að ég væri með það svartasta sem þau hefðu séð.“

En Íslandsbanki gafst ekki upp og bjargaði móður í vanda: „Þar var hinsvegar tekið vel á móti mér og mér sýnt hvernig ég gat endurfjármagnað dæmið sem ég gerði og ég náði að laga allar skuldir sem ég var komin í og færði öll mín viðskipti yfir í Íslandsbanka. Mér finnst ég ekki bara kennitala þar og ég get leitað til þeirra með allt sem varðar fjármálin mín.“

Fjölskyldugildin koma einnig við sögu hjá Guðbjörgu: „ […] en ég og Árni sambýlismaður minn erum með gott bakland í okkar fjölskyldum og ég nýtti mér tengslin í fjölskyldunni og fólkið sem kunni til verka til að koma húsinu í stand. Ég til dæmis keypti allar innréttingar ósamsettar og svo voru karlmennirnir í fjölskyldunni fengnir til að setja þær upp,“ segir Guðbjörg.“ Seinna kjarnar hún þetta prinsipp ágætlega: „Maður græðir á því að eiga góða að, það er bara staðreynd.“

Sem býður upp á ágætis framhaldsherferðir: „Ekki gefast upp. Nema þú eigir ekki laghentan frænda eða ríkan pabba. Þá geturðu alveg eins hætt þessu.“

Hin heilaga klöpp

Íslandsbanki sem miskunnsami samverjinn, jú, þessir gjörningalistamenn þekkja sannarlega sínar Biblíuvísanir. Og rétt eins og Jesú breytti vatni í vín þá breyttu þeir Jóri og Arnar klöpp og mold í kjallaraíbúð.

Já, þetta er fyrirsögnin í næsta leikþætti „Klöpp og mold verða að kjallaraíbúð.“ En þeir eru nú samt ekki Jesúar endurfæddir og þurftu vitaskuld hina hefðbundnu fjölskylduaðstoð til að komast að, bæði fyrir og eftir. Þegar þeir voru að leigja var það hjá ættingja í Hafnarfirði þar sem þeir nutu „fjölskylduafsláttar frá almennu leiguverði,“ en samt „sáu þeir fram á að það gæti tekið langan tíma að safna fyrir eigin íbúð.“

Þannig að þeir fluttu inná foreldra Jóra, en samt ekki. „Foreldrar Jóra voru á sama tíma að skipta um húsnæði í Grindavík og var því ákveðið að útbúa íbúð í húsnæðinu fyrir Jóra og Arnar.“

Sumsé, frí lóð, eða a.m.k. á fjölskylduafslætti, og aðstoðarmennirnir líka á fjölskyldudíl. „Við vorum öll fjögur allt síðasta sumar að moka út og græja,“ segir Jóri. En íbúð var gerð frá grunni í húsnæðinu, „þarna var bara klöpp og mold, þegar við byrjuðum. Þetta var gert fyrir okkur, svo að við gætum flutt hingað til foreldra minna,“ segir Jóri.

Jóri og Arnar virðast þó óvenju miklir draumóramenn, sem getur verið hættulegt í svona ástandi: „Við erum að leggja fyrir, en erum ekki búnir að gera neitt excelskjal,“ Það er vonandi að drottinn miskunni sig yfir þá fyrir slíkt skeytingarleysi.

Fermingarhúsið

Þau Sunna og Sighvatur virðast sjálf frummynd hins sparsama nútímapars. Hér er saga frá námsárum þeirra í Danmörku. „Við skömmtuðum okkur pening vikulega og fórum út í búð með ákveðna fjárhæð og vasareikni, svo vorum við komin upp í upphæðina og gátum þá ekki verslað meira í það skipti.“

En þrátt fyrir sparsemina þurfti fjölskyldan að hjálpa til við kaupin á fyrstu íbúðinni þegar heim var komið: „Við áttum smá sparnað sjálf og síðan eigum við gott bakland og foreldrar okkar og afar og ömmur hjálpuðu okkur til að eiga fyrir útborgun.“

Enda kemur í ljós að þau eiga sér vafasamt leyndarmál úr fortíðinni, þau voru ekki alltaf svona sparsöm: „Þau ráðleggja ungu fólki að byrja strax að spara, jafnvel strax við fermingu þegar mörg fermingarbörn fá mikla fjármuni að gjöf. „Við eyddum öllum fermingarpeningunum okkar um leið,“ segir Sunna Ósk. „Annað en mágkona mín sem ávaxtaði sína fermingarpeninga inni á framtíðarreikningi, sá peningur var síðan byrjun upp í sparnað fyrir hennar fyrstu íbúð sem hún hefur nýlega fest kaup á.“

Þannig að muniði þetta, börnin góð, það er ekki hægt að ætlast til að eignast íbúð án aðstoðar ættingja nema maður byrji að safna fyrir henni ekki seinna en þrettán ára.

Framtíðin þegar börnin greiða leigu

Síðustu tvö leikritin endurtaka þessi þemu: „Faðir minn aðstoðaði mig við að eignast íbúðina með því að lána mér 800.000 kr. sem mig vantaði upp á kaupverðið, en ég tók tvö lán, stærra lánið frá Íbúðalánasjóði og svo viðbótarlán hjá Kópavogsbæ,“ segir útvarpsmaðurinn Heiðar Austmann. Já, það er gott að búa í Kópavogi, þar sem bærinn lánar líka fyrir húsnæði.

Svipaða sögu segir állistamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson: „Við vorum ótrúlega heppin að finna okkar hús. Ég var í miklum samskiptum við pabba sem lánaði okkur það sem vantaði upp á svo við gátum drifið okkur í húsakaupum svo við myndum ekki missa af þessari fasteign.“

En állistamaðurinn bíður þó upp á áhugaverðan snúning á sögunni:

Oddur er búinn að ákveða að láta börnin sín greiða honum leigu þegar þau verða eldri.

„Ef að þau ætla að búa áfram heima þegar þau verða fullorðin, þá verða þau að greiða mér leigu, sem ég mun síðan setja á sparnaðarrreikning fyrir þau.

Oddur er nefnilega maðurinn sem sér framtíðina, mögulega með góðan álhatt á höfði. Hann er af kynslóð sem gat leitað til foreldra með aðstoð, en samt kynslóð sem þurfti að setja allan sinn pening í íbúðakaup (eða vera öreigar á leigumarkaði). Auðvitað mun sú kynslóð ekki getað lánað næstu kynslóð neitt, því það verður ekkert eftir til að lána. Það er bara vonandi að hann geti raunverulega látið þessar leigutekjur inná reikning barnanna og þau fari ekki bara í að borga útborganir fyrir íbúðina sem mun á endanum sjálfsagt hýsa 3-4 kynslóðir af állistamönnum framtíðarinnar.

Fjölskylda, samfélag og bankamenn

Hvað kennir þessi gjörningur okkur svo?

Ekkert að þessu fólki er að gera neitt rangt (þótt það sé vissulega aulalegt að koma í svona kostað viðtal), það er bara að lifa af, og fæst virðast þau vera af neinum stórbokkaættum. Þau hafa það samt betra en margir, sem eiga mögulega foreldra sem eiga ekkert afgangs – og mögulega verða slíkir foreldrar reglan frekar en undantekningin eftir eina kynslóð í viðbót af svona húsnæðismarkaði.

Það er ekkert að því að fá aðstoð frá fjölskyldu, það er ekkert að því að fjölskyldur standi saman – það er þvert á móti falleg og djúpstæð hjálpsemi sem er innbyggð í okkur sem dýrategund.

En það er vont að vera háður þessu  og þetta ætti ekki að vera frumskilyrði, vegna þess að til þess er samfélag.  Samfélög sem eiga að vera stærri en fjölskyldur, samfélög sem eiga að geta hjálpað öllum og gefa þeim sanngjarnan séns á að geta átt mannsæmandi líf þar sem allir, ekki bara fjölskyldumeðlimir, hjálpast að. En líka samfélag þar sem fólk lífið snýst ekki bara um brauðstrit og bankalán, af því samfélag á ekki að snúast um öll þessi fyrirtæki og stofnanir sem gera sitt besta til að gera fólki hlutina erfiðari.

En aftur að Santiago Sierra; þegar hann var á Íslandi tókst honum ekki ætlunarverk sitt. Jú, hann sýndi verkið „No“ á nokkrum stöðum – en hann ætlaði líka að finna bankastarfsmann með samviskubit sem væri tilbúinn til að standa úti í horni á galleríi og skammast sín. Hann var ekki búinn að finna neinn – en mögulega er hann fundinn núna, einhvers staðar á bak við þetta margslungna gjörningalistaverk leynist mögulega bankamaður sem starir á vegg.

En svo er líka möguleiki að þetta verk sé bara til marks um að sumum þurfi ekki að borga neitt fyrir að fróa sér á almannafæri.