Við erum öll hafmeyjur

Áður en ég las ljóðabókina Gárur eftir Elfi Sunnu Baldursdóttur varð mér hugsað um hafmeyjur. Á forsíðu bókarinnar má finna ýmis fyrirbæri úr fjöruborðinu; kuðung, ígulker og fjöður ásamt ál sem virðist vera að reyna að lauma sér burt. Út um fyrirbærin stingast svo mennskir fætur og hinni hefðbundnu goðsögn um konuna með fisksporðin og flaksandi hár er snúið á hvolf.

Öldum saman hafa menn talið sig vera með einhverju móti einstakt náttúrufyrirbrigði eða jafnvel sköpun æðri máttar og við höfum litið á samband okkar við náttúrunnar með augum ljónatemjarans. Verk okkar virðist alltaf vera að fletta ofan af leyndardómum náttúrunnar og sigrast á þeim fremur en að lifa með þeim. Með vísindum og heimspeki hefur okkur tekist það að einhverju leyti, við skiljum sífellt betur virkni umhverfis okkar og sköpum betri tækni til að gera okkur betur í stakk búin til að takast á við harðneskju náttúrunnar. En það breytir aftur á móti ekki hlutskipti okkar gagnvart henni.

Ljóðin í Gárum eru stuttar en kjarnaðar vangaveltur um sjálfsþekkingu, skynjun og tímann en rauði þráðurinn er hin sterka þrá um að tengjast náttúrunni. Ef til vill er sú þrá sprottin af rofi á milli manns og náttúru en einnig er hugsanlegt að slíkt rof sé ekki til og við einfaldlega hætt að gefa því gaum hve náin við erum hinu náttúrulega. Í upphafsljóðinu „Ár“, sem telur fjögur ljóð, er þráin tjáð með afar myndrænum hætti og í öðru ljóðinu stendur beinlínis: „Hverf/ ofan í hvíta mjöllina“ og snjó er sveipað um axlir ljóðmælanda eins og klæði. Hann verður þó afar berskjaldaður á endanum því „[á]breiðan raknar upp og eftir stend ég/ nakin.“ Í þriðja ljóðinu renna fætur með æðahnúta saman við loftmynd af hálendinu:

Bergvatnsár.
Fagurbláar æðar
sem hlykkjast um skjannahvítar hnésbæturnar.
Loftmyndir af hálendinu.
Krækja í hver aðra.
Á stöku stað
hnýttar saman.
Holdið gúlpast umhverfis hnútana.

Við flýjum ekki náttúruna. Jafnvel í ljóðinu „Þig setur hljóðan“, innan um manngerða hluti í manngerðri íbúð, ryður sólin sér leið inn um kámuga glugga og kaffið í bollanum myndar gárur eins og þögul áminning um náttúrulögmálin. Þráin um að tengjast náttúrunni er ekki eins áþreifanleg og í Ummyndunum Kafka, þegar sögumaður vaknar í rúmi sínu sem skordýr heldur er það þrá um að skilja hana betur eða tala við hana.

Undir lok bókarinnar eru vangaveltur um leit að hinu einstaka í manninum. Hversu vel getur maður þekkt aðra manneskju eða sjálfan sig? Í ljóðinu „Sitúasjón“ er næmur maður sem skynjar ef til vill of vel hið einstaka líf:

Í einrúmi
myndir þú segja
að það væri alltaf mandarínulykt af mér
þegar líða færi að jólum

Þú værir allt í senn
eftirtektarsamur,
lyktnæmur,
ástríkur,
póetískur.

Þetta myndir þú segja
og nefna svo
hvern einasta lítinn fæðingarblett
og staðsetningu hans í beinu framhaldi.
Þú myndir þekkja mig of vel.

Gárur leitar að merkingu hins einstaka á yfirvegaðan hátt og í því samhengi mætti nefna titil bókarinnar. Gárur á vatni eru aldrei eins, rétt eins og menn eða tré eða fjöll eru aldrei eins. Allt á það þó sameiginlegt að verða til í samspili náttúrunnar. Kyrrstætt vatn bregst við áreiti með því að hreyfast og það sama á við um allt líf sem nærist á því. Menn fá aðeins örstuttan tíma til að átta sig á veröldinni og svara spurningum um hana en þeir hlaupast aldrei undan þátttöku sinni í hringrás náttúrunnar.

Þá komum við aftur að hafmeyjunni. Þrá hennar til þess að storka örlögunum og gefa tilfinningunum lausan tauminn er fullkomlega skiljanleg í ljósi þess að við menn eru tilfinningaverur sem þurfa framþróun í stað stöðnunar. Grasið er alltaf grænna hinu megin en það er ekki þráin um grasið sem flytur okkur þangað heldur þráin um að þrá. Goðsögnin um hafmeyjuna er í raun mynd af okkur sjálfum, sem myndum fórna okkur í krafti þrárinnar jafnvel þótt við höfum oft ekki hugmynd um hvert það leiðir okkur.

Í síðasta ljóðinu hittum við tímann í líki úrsmiðs, rétt áður en hann stingur sér til sunds (ef til vill með sporð) og rennur út. Tíminn er það sem við erum í sífelldu kappi við og þegar hann rennur út fáum við kannski að sjá grænasta grasið af þeim öllum.