Málverk James Northcote af Ríkharði II og Bolingbroke.

Á kolli mínum geymi ég gullið

For God’s sake, let us sit upon the ground+
And tell sad stories of the death of kings …

Ríkarður II var fyrsta leikrit Shakespeares sem ég las.

Þannig var að á unglingsárum mínum höfðu föðurforeldrar mínir fyrir sið að gefa okkur barnabörnunum peninga rétt fyrir jól og láta okkur sjálf um að velja frá þeim gjafir. Um svipað leyti og þau tóku upp á þessu var ég orðinn sá heiftarlegi lestrarhestur og grúskari sem ég hef verið allar götur síðan, og því var það eitt af ánægjulegum ritúölum aðventunnar að rölta með aurinn niður í Ingvarsbúð og verja þar drjúgum dagparti í að reikna út hvernig hægt væri að fá sem flestar og bitastæðastar síður fyrir féð. Þá var ekki verið að skoða nýútkomnar og dýrar bækur, heldur var farið í hillurnar með fyrningum liðinna ára, þar sem einatt leyndust áhugaverðar skruddur á fortíðarverði. Ein afdrifarík jól kom Hundrað ára einsemd upp úr slíkum sjálfvöldum jólapakka (já, að sjálfsögðu pakkaði ég bókunum inn, og stakk þeim undir jólatréð. Við Húsvíkingar erum ekki villimenn!). Og ein jólin fann ég tvö fyrstu bindin af heildarútgáfu Helga Hálfdanarasonar af leikritum Shakespeares.

Milli jóla og nýjárs las ég formála Helga, sem er ágætis inngangur og innblásið aðdáandabréf, og fyrsta leikritið: sem einmitt var fyrsta verkið, krónólógískt séð, í átta verka samfelldri seríu Shakespeares um konunga Englands frá 1377 til 1485.

Það skal viðurkennt að The Tragedy of Richard II er ekki heppilegt fyrir fyrstu kynni og ólíklegt til að skapa ævilanga tryggð við höfundinn, sé því mætt á unglingsárum. Engar orrustur, varla mannfall, heldur formlegheit og hirðsiðir út í eitt. Ekkert „comic relief“ að kalla. Enda heillaðist ég ekki mjög. En fældist heldur ekki alvarlega, þó ég legði brúnu bækurnar frá mér í nokkur ár. Enda nóg annað að lesa. Marquez til dæmis.

Um svipað leyti og þetta var hóf Ríkisútvarpið (síðar RÚV) að sýna á tyllidögum verk úr heildarútgáfu BBC á leikritunum, og eitt hið fyrsta var einmitt Richard II, með Derek Jacobi í titilrullunni og stórstjörnurnar John Gielgud og Wendy Hiller í smáhlutverkum sem þau hefðu aldrei nennt að sinna á sviði. Ríkarður er eitt af „signature“ hlutverkum þessa dáða leikara en ekki dugði það til að gera unglinginn áhugasaman að heita mátti.

Sennilega er það ekki fyrr en ég las fræga bók Jan Kott, Shakespeare Our Contemporary, að ég fæ alvöru áhuga á þessu leikriti, sem æ síðan hefur verið hátt skrifað hjá mér, eins og það er hjá Kott, kannski hreinræktaðasta dæmið um valtarahjól sögunnar sem hann notar til að skilja erindi Shakespeare við alla tíma, ekki síst nýliðna öld.

Einn þráður í endurnýjuðum kynnum (og fyrsta lestri á frumtextanum) eru eilítil vonbrigði. Aðallega með það hvað framvindan, gangverk leikritsins er, tjah, klunnalegt, frumstætt, á köflum.

Dæmi. í öðrum þætti er Ríkarður farinn að berja á Írum og föðurbróðir hans, hertoginn af York, leysir af. Fréttir berast af hinum útlæga Bolingbroke á heimleið með her sinn.


DUKE OF YORK

Sirrah, get thee to Plashy, to my sister Gloucester;
Bid her send me presently a thousand pound:
Hold, take my ring.

SERVANT

My lord, I had forgot to tell your lordship,
To-day, as I came by, I called there;
But I shall grieve you to report the rest.

DUKE OF YORK

What is’t, knave?

SERVANT

An hour before I came, the duchess died.

2.2.90–97

„I had forgot to tell your lordship …“ Þarna hefði rauði penninn farið á loft í leiktextasmiðju Hugleiks, t.d.

Já og er þessi forsmekkur af atburðum næstu (og þarþarnæstu) verka í kóngaröðinni ekki dálítið mikið kjánalegur? Hér er nýkrýndur Hinrik IV að tala um son sinn:

As dissolute as desperate; yet through both
I see some sparks of better hope, which elder years
May happily bring forth. 

5.2.20–22

Almennt má segja að leikritið sé ögn þreytandi þegar Ríkarður er ekki á sviðinu. Sem er pínu fyndið því leitun er að meira þreytandi persónuleika. Taumlaus sjálfhverfan, barnaleg dramaköstin og siðblind sýn hans á allt og alla er vægast sagt ógeðfelld. Jájá, hann er búinn að vera kóngur síðan hann var níu ára, en gat virkilega enginn af þessum föðurbræðrum hans reynt að siða strákinn til? Jú, auðvitað, Gloucester reyndi það. Og var drepinn á dularfullan hátt í varðhaldi. Sem er einmitt kveikjan í tundrinu sem sprengir undan honum hásætið, þó hvorki sé ljóst í sagnfræðinni né leikritinu hvern þátt Ríkarður sjálfur átti í þessu morði.

Shakespeare vinnur mjög kreatívt úr heimildum sínum, eins og Charles R. Forker útlistar af mikilli íþrótt í formála sínum í útgáfu Arden. Oft skerpir skáldið og einfaldar atburði og rætur þeirra, sem bæði eykur spennu, en líka tvíræðni – ástæður þess að helstu persónur breyta eins og þær gera. Allt miðar þetta að því að halda fókus á aðalatriðinu: andstæðum öflum í persónuleikum frændanna og fjendanna Ríkarðs Plantagenet og Henry Bolingbroke.

Meðal þess sem Shakespeare tjúnar má nefna að drottning hans þessi síðustu ár var barn að aldri, en ekki þroskuð og ástrík kona. Þar slær höfundur saman fyrri og seinni eiginkonu Ríkarðs. Eins er tilfinningin sú að Bolingbroke sé yngri en Ríkarður, þegar í raunheimum var hann ári eldri. Hér eru líka lögð drög að öðru frægu andstæðupari sem birtist í næsta leikriti: garpinum Henry „hotspur“ Percy annarsvegar og syni Bolingbroke, sem síðar verður Henry V hinsvegar. Þessir tveir Hinrikar eru hinsvegar af ólíkum kynslóðum: Hotspur var í raun eldri en faðir hinnar tilvonandi þjóðhetju.

Kannski er samt veigamesta „úrvinnsla“ Shakespeares fólgin í þeirri heildarlögn Ríkarðs að þar fari maður grunlaus um vélar raunheimsins, svo öruggur um krúnu sína að hann sjái það sem náttúrulögmál að hún hvíli einmitt þar sem hún gerir. Vissulega er hann búinn að bera hana frá barnsaldri og krúnan gengið rétta kallleggsleið fimm ætliði og 150 ár, en hann hafði þurft að glíma við valdagíruga „verndara“ öll sín fullorðinsár og vissi alveg hvernig klukkan sló í sölum valdsins. Í meðförum Shakespeares verður aflvaki alls þess, sem gerir leikritið jafn heillandi og það er, einmitt þessi árekstur viðhorfa til valdsins. Is this the Realpolitik? Is this just Fantasy? Eins og Drottningin sagði. Næstum.

Breski heimspekingurinn Rosalind Hursthouse hefur sagt að sum störf leggi þannig skyldur á herðar fólki að það sé beinlínis ætlast til þess að viðkomandi nái ekki siðferðisþroska, verði dygðug manneskja. Miðaldakonungur er örugglega eitt þeirra. Sjáum bara fyrsta þátt. Ríkarður styttir útlegðardóm Bolingbroke úr tíu í sex ár við að sjá tár á hvarmi föður hans, sem er föðurbróðir konungs. Hundrað og sextíu línum síðar fréttir hann að sá gamli sé við dauðans dyr. Fyrstu viðbrögð:

Now put it, God, in the physician’s mind
To help him to his grave immediately!
The lining of his coffers shall make coats
To deck our soldiers for these Irish wars.
Come, gentlemen, let’s all go visit him:
Pray God we may make haste, and come too late!

1.4.59–64

Kaldlyndur og sentimental. Útsmoginn og bernskur. En alltaf mælskur. Eitthvað fyrir alla í þessum marglita konungi. Uppáhöldin eru of mörg til að telja þau upp. Hér er eitt:

O that I were a mockery king of snow,
Standing before the sun of Bolingbroke,
To melt myself away in water-drops!

4.1.260–261

Ætli þetta sé ekki eini snjókallinn í verkum Shakespeares? Hann er frábær fulltrúi síns kyns.

Er tragísk veila Ríkarðs að trúa eigin kjaftæði? Allt talið um hinn smurða kóng sem Guð mun ekki leyfa að verði settur af. Sama hugsun og sú sem stýrir miðaldaritúalinu í upphafi þar sem Mowbray og Bolingbroke eiga að útkljá deilu sína með burtreiðum. Nokkuð sem hvílir á þeirri hugsun að sá sem vinnur slíkan bardaga hafi notið fulltingis Drottins, sem þannig hafi dæmt í málinu. En þá verður líka að athuga að upphaf endalokanna (eitt þeirra) fyrir Ríkarð er einmitt þegar hann stígur inn í það „réttarkerfi“, stöðvar einvígið og dæmir sjálfur, ef dóm skyldi kalla.

Víglínur hugmyndafræðistríðsins í verkinu eru skýrar, en allt sem sagt er og gert orkar tvímælis, ótal túlkunarleiðir opnar. Það er kannski ekki uppskrift að æsilegri atburðarás, en gangur mála við valdatöku Bolingbroke er magnaður á sinn yfirvegaða, áreynslulausa og „friðsæla“ hátt. Ríkarður veit að krúnan er honum glötuð án þess að neinn orði það, án þess að neinn hóti honum. Og þó Ríkarður telji sig yfir realpólitík hafinn þá er hann með á hreinu hvernig hún virkar strax og hann hefur lent undir valtaranum sjálfur

Northumberland, thou ladder wherewithal
The mounting Bolingbroke ascends my throne,
The time shall not be many hours of age
More than it is ere foul sin gathering head
Shalt break into corruption: thou shalt think,
Though he divide the realm and give thee half,
It is too little, helping him to all;
And he shall think that thou, which know’st the way
To plant unrightful kings, wilt know again,
Being ne’er so little urged, another way
To pluck him headlong from the usurped throne.
The love of wicked men converts to fear;
That fear to hate, and hate turns one or both
To worthy danger and deserved death.

5.1.55–68

Hinn ljóðræni stíll Shakespeares í kringum 1595 gerir svo aríur Ríkarðs auðvitað að ómótstæðilegum skáldskap, jafnvel þó viðhorfin sem að baki búa séu í okkar eyrum hræðilegt bull.

So, weeping, smiling, greet I thee, my earth,
And do thee favours with my royal hands.
Feed not thy sovereign’s foe, my gentle earth,
Nor with thy sweets comfort his ravenous sense;
But let thy spiders, that suck up thy venom,
And heavy-gaited toads lie in their way,
Doing annoyance to the treacherous feet
Which with usurping steps do trample thee:
Yield stinging nettles to mine enemies;
And when they from thy bosom pluck a flower,
Guard it, I pray thee, with a lurking adder
Whose double tongue may with a mortal touch
Throw death upon thy sovereign’s enemies.

3.2.10–22

Ég nefndi BBC-myndina með Derek Jacobi hér ofar. Önnur sjónvarpsgerð birtist fyrir nokkrum árum og rataði á RÚV í fyrra eða hittifyrra. Hollow Crown serían fer yfir öll átta kóngaleikritin og fyrir minn smekk hefst hún á hápunktinum. Ben Wishaw er stórkostlegur sem Ríkarður og hæfileg stílfærsla og smekkleg hönnun fellur vel að þessu ljóðræna og heimspekilega verki.

Núna horfði ég svo á tvær nokkuð ólíkar túlkanir. Michael Pennington er Ríkarður í kraftmikilli sýningu English Shakespeare Company frá 1989. Þar er teflt á tæpasta vað með að gera Ríkarð að grimmum harðstjóra, næstum sadískan, í fyrri hluta verksins. Nokkuð sem hinn einarði sósíalismi sem lá ESC til grundvallar undir stjórn Penningtons og leikstjórans Michael Bogdanovs á örugglega stærstan þátt í. Hér dregur það nokkuð úr trúverðugleika vegferðar Ríkarðs þegar á líður, en aftur á móti verður pólitík seinni hlutans og þáttur Bolingbrokes sterkur.

Og svo horfði ég á Fionu Shaw. Það olli allnokkrum usla árið 1995 þegar Deborah Warner setti verkið upp með sinni nánu samstarfskonu í titilrullunni í breska Þjóðleikhúsinu. Á sama tíma, eins og bæði Shaw og Warner benda á í viðtölum, er það mjög algeng túlkunarleið karlleikara sem glíma við Ríkarð að finna kvenleg einkenni í karakternum og draga þau fram. Allt um það þá er kvikmyndagerð þessarar umdeildu sýningar algerlega frábær. Fiona Shaw er stórkostleg leikkona og er algerlega sannfærandi, sem og allir aðrir í leikhópnum. Útlitshönnun Hildegard Bechtler er algert æði, kvikmyndun og lýsing skapar magnað miðaldaandrúmsloft í þessari leiftrandi nútímalegu túlkun sem kemst inn í sálrænan kjarna um leið og hún er skáldleg og leitandi.

Talar þetta gamla leikrit, um enn eldri atburði í samfélagi gerólíku okkar, enn við okkur? Tími Elísabetar var gerólíkur tíma Ríkarðs, en samt talaði meðferð Shakespeares á falli þessa miðaldakóngs svo sterkt inn í ritunartímann að verkið var notað í áróðursskyni fyrir fyrirhugað valdarán, sem frægt er. Í dag er konungdómur fyrst og fremst skoplegur, og Guð dauður fyrir mörgum. En samt. Á endanum er Ríkarður bara maður og þarf að horfast í augu við að sérstaða hans er hjóm og ímyndun. Og þar sem Bubbi Morthens lét sér nægja að segja „Þið munuð öll deyja“ setur Shakespeare í mælskufluggírinn, og talar fyrir hönd okkar allra:

… within the hollow crown
That rounds the mortal temples of a king
Keeps Death his court and there the antic sits,
Scoffing his state and grinning at his pomp,
Allowing him a breath, a little scene,
To monarchize, be fear’d and kill with looks,
Infusing him with self and vain conceit,
As if this flesh which walls about our life,
Were brass impregnable, and humour’d thus
Comes at the last and with a little pin
Bores through his castle wall, and farewell king!
Cover your heads and mock not flesh and blood
With solemn reverence: throw away respect,
Tradition, form and ceremonious duty,
For you have but mistook me all this while:
I live with bread like you, feel want,
Taste grief, need friends: subjected thus,
How can you say to me, I am a king?

3.2.160–177

Ríkarður II óx í áliti hjá mér við að horfa á það, frá því að vera ögn erfiður lestur. Það sama má segja um síðasta leikrit, Love’s Labour’s Lost, en ekki að sama skapi verkin sem á undan komu. Þó Shakespeare sé staddur þar í ferli sínum að vera ekki síður skáld en leikritasmiður þá lofar þessi tilfinning góðu um framhaldið.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Textinn.