Skuggar ásta, blóðs og hefndar

Miller í Þjóðleikhúsinu

Arthur Miller vann árum saman að leikriti sem hann kallaði Ítalska harmleikinn. Hugmyndin að verkinu kviknaði af veggjakroti, sem ítrekað blasti við augum hans þar sem hann skálmaði um götur Brooklyn og gekk yfir brúna til Manhattan vikum saman eftir að leikrit hans, Allir synir mínir, sló í gegn í New York. Sú hugsun, að þótt hann skrifaði aldrei framar eitt einasta orð myndu drjúgar tekjur af þessu verki tryggja honum sjálfum og fjölskyldu hans framfærslu um ókomin ár, olli honum óróa og hugur hans leitaði ákaft að efni í nýtt leikrit. Víða í skúmaskotum Brooklyn mátti sjá spurninguna Dove Pete Panto? – Hvar er Pete Panto? – páraða á veggi og torg. Smám saman breiddist þessi áleitna fyrirspurn um hvað orðið hefði af Pete Panto út um borgina og blasti einnig við augum vegfarenda á Manhattan. Við eftirgrennslan komst leikskáldið að því að Pete Panto var af ítölskum uppruna og hafði verið leiðtogi hóps hafnarverkamanna sem leitaði leiða til þess að stöðva alla þá margháttuðu misnotkun sem þeir máttu þola af þeim sem ráðskuðust með vinnu þeirra og innheimtu drjúgan skatt af hverju senti sem þeir unnu sér fyrir – oft án landvistarleyfis í Bandaríkjunum. Nýkominn heim af kajanum eitt kvöldið fékk Pete Panto símhringingu og var kvaddur á fund. Illu heilli varð hann við kvaðningunni, brá yfir sig jakkanum, fór á þetta óvænta stefnumót og mætti örlögum sínum sem enginn veit nákvæmlega hver voru. En beint liggur við að álykta að einhver sem Pete Panto þekkti og treysti hafi svikið hann í óvina hendur.

Miller sóttist seint að semja ítalska harmleikinn enda ekki vandalaust að senda frá sér nýtt verk eftir að hafa lagt leikhúsheiminn nánast að fótum sér með leikritunum Allir synir mínir og Sölumaður deyr. Nornaveiðaleikritið um brennandi glóðir fordóma, haturs og hefnda, The Crucible, jók enn á hróður hans, ekki síst í Evrópu. Óameríska nefndin og yfirheyrslur náinna vina og loks hans sjálfs frammi fyrir henni kostuðu einnig orku og einbeitingu sem hlaut að tefja leikskáldið frá harmleikjaskrifum. Og nokkru eftir að hann hóf að semja Ítalska harmleikinn hafði Miller kynnst nýrri konu, Marilyn Monroe, viðkvæmum og næmum listamanni og sterkasta kyntákni tuttugustu aldar Það samband var afar krefjandi svo leikskáldið hafði sitt hvað að sýsla annað en að sitja við skrifborðið. En fáir hafa hlotið fegurri eftirmæli fyrrum elskhuga og maka en þau sem Miller hefur um Marilyn í sjálfsævisögu sinni, Timebends, sem út kom árið 1987.

Miller sagði sjálfur að eftir að hann hafði sniðið af Öllum sonum mínum hvern hnökra svo leikritið var orðið svo grísk-ibsenskt að því mátti líkja við geirnegldan smíðisgrip hafi hann verið orðinn örþreyttur á því formi og fundið sig knúinn til að skrifa allt annars konar leikrit. Hann setti sér það markmið að í stað einbers raunsæis og rökfestu Allra sona minna skyldi hann semja verk sem lýsti því hvernig hugur mannsins starfar í raun. Úr varð Sölumaður deyr, sú mikla minningamessa og dánaróður. Og síðar á höfundarferli sínum átti Arthur Miller eftir að semja leikrit sem voru mun fjölbreyttari og ríkari að efni og formi en almenn alhæfing Melkorku Teklu Ólafsdóttur í leikskrá sýningar Þjóðleikhússins nú gefur til kynna.

Í Ítalska harmleiknum vildi leikskáldið semja tragedíu að grískum sið en með hafnarsvæðið í Brooklyn og lífið sem þar var lifað að sögusviði. Úr varð einþáttungur sem hann kallaði A View from the Bridge, og var sýndur í New York árið 1955. Þar hefur Pete Panto umbreyst í Eddie Carbone, eiginmann og fósturföður, hafnarverkamann ættaðan frá Sikiley. Carbone skýtur skjólshúsi yfir tvo ólöglega ítalska innflytjendur, náfrændur konu sinnar og sú ráðstöfun á eftir að ógna öllu lífi fjölskyldunnar og hafa hörmulegar afleiðingar. Ég þekki ekki þessa frumgerð Brooklynbrúarleikrits Miller nema af afspurn en sumir kunnáttumenn um verk hans telja að þessi einþáttungur, fjarri öllu raunsæisformi, sé hans allra besta leikrit. Það þótti ekki gagnrýnendum stórblaðanna í New York þegar leikritið var frumsýnt þar og ítalskur harmleikur Millers naut ekki hylli fyrr en hann hafði farið um hendur Peters Brook sem leikstýrði honum í London árið eftir að frumgerðin var sýnd vestra. Þeir Miller og Brook unnu saman nýtt tveggja þátta leikrit úr einþáttungnum og gerðu það mun raunsæislegra en fyrri gerð þess hafði verið. Mikið var um dýrðir við frumsýninguna í London. Marilyn Monroe mætti við hlið leikskáldsins íklædd skarlatsrauðum kjól og athygli blaða um allan hinn vestræna heim beindist að þessari konu, manninum hennar og leikritinu hans.

Í þessari nýju gerð fór leikrit Millers um ástir, sæmd og hefnd sigurför víða um Evrópu, var meðal annars sýnt í Þjóðleikhúsinu strax árið 1957 og þá kallað Horft af brúnni. Hlutverkaskipan í þeirri sýningu var ekki af verri endanum. Róbert Arnfinnsson lék Eddie Carbone, Regína Þórðardóttir Beatrice konu hans, fósturdóttirin Katrín var trúi ég fyrsta stóra hlutverk Kristbjargar Kjeld í Þjóðleikhúsinu, Helgi Skúlason lék Marco, Ólafur Þorsteinn Jónsson óperusöngvari Rodolfo og Haraldur Björnsson var Alfieri. Hljóðritun þessarar sýningar er varðveitt á Safnadeild Rúv og þar getur hver sem þess óskar fengið að hlýða á frábæran flutning á verkinu. Við eigum nefnilega Safnadeildina í Efstaleitinu saman eins og Þjóðleikhúsið.

Margrætt og grípandi

horftafbrunni4Síðan þessi sýning Þjóðleikhússins á Horft af brúnni var á fjölunum bæði við Hverfisgötuna og í samkomuhúsum og félagsheimilum í leikför vítt og breitt um landið eru bráðum liðin sextíu ár og harmleikurinn um örlög Eddie Carbone hefur síðan verið leikinn bæði hjá Leikfélagi Akureyrar og í Borgarleikhúsinu. En nú má aftur sjá þetta magnaða leikrit á stóra sviði Þjóðleikhússins. Sigurður Pálsson þýddi það fyrir sýningu Borgarleikhússins undir lok síðustu aldar og kallaði það Horft frá brúnni og svo heitir það einnig nú í Þjóðleikhúsinu. Mér finnst nánast sársaukafullt að finna nokkuð að því sem Sigurður Pálsson segir eða gerir en ég viðurkenni að mér hugnast betur hinn fyrri titill – Horft af brúnni – og leyfi mér að nota hann hér. Ekki orð meir um þýðingu hans á leikritinu – nema að hún er ekki hnökralaus frekar en önnur mannanna verk.

Hlutverkaskipan í nýrri sýningu Þjóðleikhússins á Horft af brúnni, sem frumsýnd var 30. september, er ágætlega af hendi leyst og að mörgu leyti kannski ekkert síður en var fyrir sextíu árum. Nú leikur Hilmir Snær Guðnason Eddie, Harpa Arnardóttir konuna hans, Beatrice, Lára Jóhanna Jóhannsdóttir leikur Katrínu, Stefán Hallur Stefánsson Marco, Snorri Engilbertsson Rodolfo, og eftir meira en fimmtíu ár í Þjóðleikhúsinu stendur Arnar Jónsson enn á sviði þess, nú í hlutverki amerísk-sikileyska lögmannsins Alfieri. Baldur Trausti Hreinsson, Baltasar Breki Samper og Hallgrímur Ólafsson fara með minni hlutverk í leiknum.

Peter Brook, sá er leikstýrði Horft af brúnni í London fyrir sextíu árum, segir í nafntogaðri bók sinni, Auða rýmið, að leikgagnrýnendur hafi af því sérstaka nautn að sjá eftirlætisleikritunum sínum misþyrmt í slæmum sýningum. Eftir að hafa orðið vitni að þvílíkri útreið á meistaraverkum í leikhúsinu komi þeir glottandi út og með sigurglampa í augum því að þeir hafi fengið enn eina staðfestingu á því hvað leiklistinni hnigni með hverju árinu.

Horft af brúnni er uppáhaldsleikritið mitt. Fyrir því eru að hluta persónulegar ástæður en einnig faglegar, því að þetta verk er að mínum dómi afskaplega vel samið og grípandi. Það er einnig mun margræðara en virðist við fyrstu sýn. Einn af helstu kostum þess er að þrátt fyrir raunsæisaðlögun Peters Brook árið 1956 lifir enn í glóðum klassísks harmleiks í leikritinu. Blóðið er við suðumark í Eddie Carbone og í honum býr hinn banvæni breyskleiki sem hann á sameiginlegan með sönnum grískum harmleikshetjum. Formið er líka að hluta til sótt í gríska harmleikinn þar sem Alfieri birtist á sviðinu og segir að hætti grísks harmleikjakórs tíðindi og ótíðindi af söguhetjum og sögusviði, einkum Eddie Carbone og lífi annarra ítalskra innflytjenda í New York. Og eldforn hefndarskylda Sikileyings sem er eitt af grunnminnum leikritsins fellur einkar vel inn í þennan samtímaharmleik Millers.

Um sigurgleði

horftafbrunni3Horft af Brúnni er semsé það leikrit sem ég held hvað mest upp á af öllum þeim leikverkum sem ég hef séð og lesið. En leikhópurinn í sýningu Þjóðleikhússins á þessu Millerleikriti og listrænir stjórnendur hafa unnið sitt verk með þeim hætti að sigurglampinn í augum mínum þegar ég gekk út úr leikhúsinu kviknaði ekki af því að ég hefði séð þessari gersemi misþyrmt. Mín sigurgleði stafar af því að sýningin staðfestir að Horft af brúnni er meistarasmíð og verður áfram mitt uppáhald.

Sviðsetning Stefans Metz í leikmynd Sean Mackoui og lýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar er að mínum dómi ekki bara áhugaverð heldur mjög vel af hendi leyst. Það tók mig raunar örlitla stund að sættast við epísk-brechtíska lýsinguna, en um leið og ég vandist þeirri hugsun að hér var með býsna áleitnu film noir-ívafi brugðið ljósi á hina innri menn persónanna og hjörtu þeirra gegnumlýst, gladdi lýsingin augu mín og huga. Lifandi leikararnir vörpuðu skuggum á þil og juku á ógnarþungann í undirtexta verksins. Kostir leikrýmisins og hringsviðið eru nýttir af innblæstri og innsæi þar sem hreyfing og hrynjandi fylgir efni leikritsins og framvindu sögunnar svo oft er unun á að horfa. Leiksviðið verður eins og lifandi lunga sem hefst og hnígur í takt við andardrátt leikritsins og vandlega unnin hljóðmynd Elvars Geirs Sævarssonar slær þennan sama takt. Leikhúsið bendir aftur og aftur á sjálft sig í þessari sýningu. Ljósamenn eru sýnilegir þar sem þeir beina kösturum að leikurunum og fylgja þeim eftir á sviðinu. Ljósaskilti bendir til þess að við séum stödd baksviðs í leikhúsinu og í upphafi sýningarinnar er Alfieri stillt upp eins og hann sé leikstjórinn í þessari dökkleitu bíómynd. Það var hins vegar eina framandgervingarbragðið sem mér hugnaðist ekki enda fannst mér þessi sviðsetning á opnunaratriðinu tefja fyrir því að hún færi á flug.

Auðvitað búa Eddie Carbone og fjölskylda hans í miklu minni húsakynnum en sviðsmyndin gefur til kynna en mikið er ég þakklátur fyrir það að lausnir listrænna stjórnenda í þessari sýningu eru leikhúslegar en ekki raunsæislegar. Það verður einhvern veginn ekkert eðlilegra en að Alfieri skuli eiga samtal við Eddie á baðherberginu hans og mér fannst gott að hlusta á raddir leikara hljóma þótt þeir sæjust ekki á sviðinu. Það er oft langt á milli fólks tilfinningalega í þessu leikriti, þótt nándin og skaphitinn séu einnig mikil, og þetta var þannig útfært á sviðinu að úr varð samstilling ólíkra listmiðla í einni allsherjartjáningu. Og allt tekst þetta svona vel að mínu mati vegna þess að stöðugt er verið að rjúfa raunsæisrammann og stíga upp úr þreytandi ládeyðusjó natúralismans í íslensku leikhúsi.Vissulega ber leiksýningin með sér ákveðinn andblæ frá Brooklyn, hafnarsvæði New Yorkborgar, brúnni yfir á Manhattan, og þeim tíma þegar leikritið var skrifað. En um leið er þessi sýning á Horft af brúnni ótrúlega óbundin tíma og stað svo margur getur þarna þekkt sjálfan sig og rennt huganum til þeirra mörgu sem í lífi sínu standa í sporum tragísku hetjunnar sem einungis á tvo kosti – og báða slæma.

Ólöglegir innflytjendur, hinn pólitíski og félagslegi bakgrunnur leikritsins, á sér einnig marga ógnvænlega hliðstæðu við veröld okkar tíma. Ógnin af því ástandi er raunar mun stærri og meiri en nokkurn tímann var á MacCarthyárunum í Bandaríkjunum – og hún nær til heimsins alls, ekki bara Brooklynborgar og hafnarinnar í New York. Í sýningu Þjóðleikhússins er blessunarlega ekkert gert til þess að ýkja eða gera óþarflega mikið úr stöðu ólöglegra innflytjenda sem leggja mikið undir til þess að halda hagkerfinu gangandi, enda er það alger óþarfi, því að þetta er svo augljós og mikilvægur hluti af sögunni sem sviðsett er. Hér er þó einn misbrestur á að því er mér finnst. Leikritið hefur verið stytt nokkuð frá Brook/Miller-gerð þess. Oftast kemur þetta lítið að sök en það hefði að mínum dómi styrkt upptakt sýningarinnar hefðum við fengið að sjá meira af fyrsta atriði leikritsins, eins og það er frá hendi höfunda, sem einmitt undirstrikar þann bakgrunn sem verkið er sprottið úr. Ég saknaði þess líka að það voru ekki fleiri leikarar á sviðinu til þess að verða vitni að harmleiknum í lokaatriðinu. Ég veit þetta hefði kostað tvo til þrjá leikara í minni hlutverk til viðbótar við þá Baldur Trausta, Baltasar Breka og Hallgrím, en það hefði aukið víddir upphafs- og lokaatriða sýningarinnar. Þessi tvö atriði voru eftir sem áður falleg á sviðinu, einkum atriðið á undan epílóg Alfieri, þar sem líkamar og hjörtu þeirra Hörpu og Láru Jóhönnu blæddu út í salinn, ekki ólíkt því og þegar Natalie Wood harmar á hvíta tjaldinu veginn elskhuga í New-Yorkdrama allra tíma, West Side Story. Það leikatriði sem mér fannst mestur missir að í sýningunni á Horft af brúnni nú var saumaskapur Rodolfo og Katrínar. Sviðsetning á því hefði gefið leikurunum tækifæri til þess að auðga túlkun sína á hlutverkum unga fólksins – undirstrika að í hjörtum sínum er þetta par saklausir unglingar sem líða fyrir afbrýðisemi og ástríðu annarra í skugga tragískra aðstæðna og banvænna siðvenja.

Af búningavali

horftafbrunni2Um búningana í sýningunni á Horft af brúnni eina og sér mætti skrifa langa greinargerð. Þá hefur Sean Mackoui hannað, eins og leikmyndina, og litir þeirra og snið tóna vel við alla heildarmynd og þannig verða þeir órjúfanlegur hluti af sviðsetningunni. En um leið eru þeir að mestu úthugsaðir í smáatriðum eins og rauðu skórnir hennar Katrínar eru kannski augljósasta dæmið um. Frakkarnir sem útsendarar yfirvalda klæddust þegar nær dró lokum leikrits voru líka afar smart og snilldarlega valdir. Ef einhvern langar til að eignast flík af þessu tagi þá leyfi ég mér að benda á gríðarstóra Hjálpræðishersbúðina í Brooklyn. Þar hanga svona frakkar í röðum á ógnarlöngum slám. Og kosta næstum ekki neitt.

Ég varð þó aldrei fyllilega sáttur við jakkafötin sem Arnar var látinn klæðast. Að því er mér finnst hefði Alfieri átt að íklæðast gráum tónum eins og voru svo áberandi í klæðnaði margra annarra persóna leikritsins. horftafbrunni5En þetta er smekksatriði og smámunir. Það sama verður hins vegar tæpast sagt um gervi og búning Hilmis Snæs í hlutverki Eddie Carbone. Í leikriti Millers er Eddie fertugur maður, á sama aldri og höfundurinn var þegar hann skrifaði verkið. Gervi Hilmis Snæs gerði hann miklu eldri á sviðinu en hann er í raun og veru og blóðhita hans ótrúverðugri en ella hefði verið. Hjartað slær ekki alveg eins ört og ákaft í fimmtugum manni og þeim fertuga sem allt er fært. Ást Eddie til Katrínar myndi á eðlilegri hátt ógna þeim náttúrulögmálum sem Alfieri lögmanni verður tíðrætt um væri hann ekki svona miklu eldri en hún. Það hefði virkað allt öðru vísi þegar Katrín fellur í faðm fósturföður síns og snertir hann ef Eddie hefði haft augljósari kynþokka en gervi leikarans gaf til kynna. En Hilmir lék í gegnum þetta gervi, sneri á það og sendi frá sér þau boð sem til þurfti til þess að áhorfendur fyndu fyrir bældri ástríðu Eddie. Svefnherbergissenan milli hans og Hörpu hefði hins vegar fengið allt annað inntak og merkingu hefði maður ekki séð hann fyrir sér eins og mann nokkuð kominn á sextugsaldur.

Á hafnarbökkum heimsins

En mér finnst Harpa og Hilmir Snær eftir sem áður leika Carbonehjónin vel. Af fasi þeirra og hreyfingum má skynja ótal margt og úr verður heildstæð persónusköpun sem veldur því að við vitum miklu meira um þetta fólk en sagt er með orðum. Mjög falleg og sterk túlkun hjá þeim báðum, en mér finnst Harpa reyndar ná hvað bestum tökum leikaranna á þeim semiepíska leikstíl sem mér sýnist leikstjórinn hafa ætlað að laða fram hjá þeim. Um leik Láru Jóhönnu er það að segja að fas hennar og framkoma eru létt og leikandi og túlkun hennar á Katrínu sannfærandi, en það truflaði mig svolítið að Eddie skyldi þrástagast á því að hann hafi í rúm tuttugu ár haft á framfæri sínu stúlku, sem er ekki nema sautján ára. Stefán Hallur leikur einnig vel og stundum mjög vel. Hann var sannfærandi suðrænn á sviðinu þótt frá náttúrunnar hendi sé hann norrænn að sjá. Fýsísk nánd er oft sterkasta hlið Stefáns Halls á leiksviði. Þess naut hann í túlkuninni á Marco og nautaatsbardagasena þeirra Hilmis Snæs var glæstur sviðsperformans af beggja hálfu. Og hér er sjálfsagt að nefna að samkvæmt leikskránni var það Jón Viðar Arnþórsson sem æfði þetta atriði með leikurunum. Líkast til einnig boxsenu Eddie og Rodolfo sem var mjög vel útfærð.

Snorri Engilbertsson leikur hlutverk Rodolfo sem kannski er það erfiðasta í sýningunni vegna þess að það getur alveg verið rétt hjá Eddie að ekki sé sérstaklega auðvelt að átta sig á þessum gæja. Í fyrstu innkomu Snorra brá mér svolítið og fann fyrir ótta við að það ætti að fá fólk til að hlæja að þessum dreng – sem kannski er samkynhneigður. Það var nú ekkert grín að ganga með slíkar hneigðir innan brjósts og líkama árið 1956. Og er trúlega ekki enn þrátt fyrir allt sem breyst hefur í þessum efnum síðustu þrjátíu ár eða svo. En ótti minn reyndist að mestu ástæðulaus og meintir hommataktar hurfu mikið til úr túlkun Snorra á Rodolfo eftir því sem á leið og hann birtist meira og meira eins og óspilltur piltur sem langar til að lifa lífinu. Það varð meira að segja trúlegt að hin fagra madonna, Katrín, yrði skotin í honum í fullri alvöru. Enn trúlegra hefði það þó orðið ef dregið hefði verið úr ýktum hátónum í raddbeitingu hans. Fleiri slíka smámuni sem betur mættu kannski fara væri hægt að nefna en þeir verða ósköp léttvægir miðað við þá stóru og miklu kosti sem sýningin hefur í heild.

Það er afar erfitt fyrir mig að skrifa nokkuð hlutlægt um leik Arnars Jónssonar í Horft af brúnni. Fáa leikara hef ég séð ná þvílíkum tökum á list sinni og hann og minningarnar um glæstan leik hans í öðrum hlutverkum geta auðveldlega orðið þess valdandi að það verði erfitt að segja nokkuð ólitað af þeirri reynslu um túlkun hans á Alfieri. Mat á listaverkum verður reyndar alltaf að stórum hluta til huglægt, hversu mjög sem krítíkerar reyna að sýnast vera objektívir. Túlkun á listaverki ræðst ekki af tommustokkskvarða heldur af þekkingu, innsæi, skilningi – og smekk á listgreininni sem um ræður, eiginleikum sem eru oft býsna óáþreifanlegir en lærast með árunum og ástundun, og slípast síðan í viðfangi við túlkun á þeirri list sem fyrir augu og eyru ber.

Ég hef áður minnst á að mér líkaði ekki búningur Arnars í sýningunni á Horft af brúnni. En eins og hvað varðar Hilmi Snæ þá kastaði Arnar þessum slæma ham, ef svo má segja, og lék Alfieri af öryggi og trúmennsku við heildarkonsept sýningarinnar; minningarnar um góðan dreng sem verður áskapaður breyskleiki að fjörtjóni. Og það þarf mjög svalan hug og hálfkalið hjarta til þess að komast ekki við af lokaorðum sýningarinnar og þeirri aristótelísku hreinsun skelfingarinnar sem þar er nefnd í blálok verksins. Efirmálinn er lagður í munn Alfieri. Í honum er fólgin niðurstaða leiksins og tjáður harmurinn sem að mörgum hetjum hversdagsins er kveðinn á hafnarbökkum heimsins. Arnar túlkar þann boðskap af þeirri kostgæfni að maður heldur niðri í sér andanum og harkar af sér að fella ekki tár.

Takk Þjóðleikhús fyrir þessa sýningu á uppáhaldsleikritinu mínu. Og til hamingju þjóðleikhússtjóri að hafa þarna hitt á að stefna saman listamönnum sem minna íslenska leikhúsgesti á það hvers leikhús getur verið megnugt þegar staðið er að verki með heila hugsun í farteskinu. Einnig þakkir til allra sem að sýningunni unnu fyrir að ekki bara þyrma uppáhaldsleikritinu mínu heldur sýna fram á að það stenst fyllilega þá raun að farin sé áleitin, áhugaverð, stílfærð og bíóleikhúsleg leið í sviðsetningu þess.