Seint koma sumir en koma KOI

Mér líður svolítið eins og ég hafi farið í geimferðalag og geti notað það sem afsökun fyrir löngum skilatíma, en svo er því miður ekki. Í sumar varð ég þess heiðurs nefnilega aðnjótandi að fara á leiksýninguna Könnunarleiðangur til KOI og svo bara tók sumarið við með öllum sínum sólardögum og snúningum og engin urðu skilin á leikhúsrýninni.

Hér er því mjög síðbúin rýni frá afar þakklátum leikhúsgesti sem bíður spenntur eftir næstu sýningu frá þeim Hilmi og Tryggva. Hinir, sem misstu af KOI nú í sumar, geta hins vegar skellt sér í Tjarnarbíó á aukasýningu á verkinu þann 16. október næstkomandi.

Sýningin er, eins og maður segir, eitthvað til að missa ekki af.

Innihaldsrík fíflalæti = hörkuleikhús

Ég var sumsé svo lánsamur að fá að sjá lokasýningu á verkinu Kynningarleiðangur til KOI sem sýnt var þrisvar sinnum í Tjarnarbíói í apríl og maí. Það var leiktvíeykið Tryggvi Gunnarsson og Hilmir Jensson úr sviðslistahópnum Sómi þjóðar sem stóð að sýningunni og verkið var sjálfstætt framhald af „lo-fi sci-fi“-verkinu MP5 sem sýnt var árið 2015.

Eins og áður hefur komið fram er ég með trailera-fóbíu á frekar háu stigi og reyndi því að vita sem allra minnst um verkið áður ég mætti á svæðið ásamt unglingssyni mínum. Ég vissi það eitt að verkið gerðist að einhverju leyti í geimnum, að það fjallaði um brennandi málefni samtímans, að leikendur og höfundar væru tveir og að þeir hefðu sett sér vinnureglur um að skrifa, æfa, undirbúa og setja upp verkið frá grunni á einum mánuði.

Og jú: Ég vissi að þeir væru klæddir í hvíta spandex-galla.

Strax frá fyrstu mínútu var ljóst í hvað stefndi. Leikararnir tveir (sem ég kunni lítil deili á fyrirfram) tóku þétt utan um einfalda hugmynd sína um geimferðir og „flóttamannavandann“. Þetta er einföld hugmynd: Fregnir hafa borist af mögulegu vitsmunalífi á plánetunni KOI og þeir eru sendir í könnunarleiðangur. Á stuttum tíma ná þeir á sannfærandi hátt að vera fyrst spenntir vísindamenn, svo fullir af góðmennsku og síðar fullir af frumótta um að einhverjir illa skilgreindir aðilar taki af þeim þá paradís sem þeir telja KOI vera.

Þetta er s.s. geimleikrit sem fjallar um málefni flóttamanna, rasisma og ótta.

Í stuttu máli tekst þeim á snilldarlegan hátt að keyra áhorfendur með sér inn í það sem er allra best við leikhúsið – vel virkjað ímyndunarafl. Í fyrirsögninni hér að ofan stendur „innihaldsrík fíflalæti“ og eftir því sem frá líður finnst mér þau orð lýsa sýningunni best. Unglingssonur minn og sessunautur var afar hrifinn; eftir sýninguna sköpuðust miklar umræður um það hversu litla umgjörð þarf til að skapa áhrifaríkt leikhús og ég er þess fullviss að áhugi hans á leikhúsinu jókst umtalsvert þessa kvöldstund.

Eitt markmiðið hjá Hilmi og Tryggva er að taka fyrir umdeild samtímamálefni og vinna úr þeim því sem næst í rauntíma. Þess vegna einsetja þeir sér að fullvinna leikritið – frá fyrstu hugmynd til frumsýningar – aðeins á einum mánuði. Þetta kallar skiljanlega á snarar og ódýrar lausnir og þar liggja töfrarnir. Öll tækniatriði (leikmynd, hljóðmynd, búningar) eru á „barnalegu“ og „heimagerðu“ stigi; að því leytinu til var upplifunin eins og að vera á skólaleikriti á yngsta stigi grunnskóla eða horfa á ódýra sci-fi-kvikmynd frá miðri síðustu öld.

Þar liggur að sama skapi fegurðin. Leikhús þarf ekki meira. Leikhús þarf í raun bara einn leikara og áhorfendur … jafnvel stakan áhorfanda. Allt annað er viðbót. Og með einstakri leikgleði, mikilli og þéttri keyrslu og kómískum tæknilausnum sýndu Hilmir og Tryggvi fram á einmitt þetta. Þetta var hressandi hrátt leikhús sem minnti mann rækilega á það að ljósasjóv og búningar fyrir milljónir eru ekki nauðsynlegir, þótt stundum geti þeir glatt augað.

Óþvinguð pólitík

Hugmyndafræðilega eru þeir Hilmir og Tryggvi á hárréttum nótum. Þeir eru auðvitað að gera hápólitískt leikhús og það er til fyrirmyndar að listamenn vinni svona hratt og örugglega úr siðferðilegum viðfangsefnum okkar sem þjóðar og sem mannkyns. En styrkurinn er sá þeir gera það ekki á kostnað þess sem kallað er „gott leikhús“. Undanfarin ár hafa verið sýndar ótal metnaðarfullar pólitískar leiksýningar hér á landi. Margar þeirra hafa verið stórkostlegar, en sumar hafa verið því marki brenndar að vera ítroðsla skoðana og viðhorfa á kostnað sjálfs leikhússins. Enginn vill láta troða í sig viðhorfum, allra síst í leikhúsi. Með því að láta sjálfa leikhúsupplifunina njóta sín en fjalla á sama tíma um þá hræsni sem einkennir umræðuna um flóttamannamál tekst þessum tveimur öflugu leikurum það sem er svo mikilvægt – að senda leikhúsgesti sjálfa út með eigin siðferðilegu úrvinnslu.

Það er einmitt það sem gott leikhús gerir best.