Dylan er ekki bara söngvaskáld; hann er líka liðtækur bassaleikari.

Bob Dylan, nóbelskáld

Það er ekki áhugavert að velta því fyrir sér hvort Bob Dylan sé góður tónlistarmaður eða ekki, hvort hann sé rödd kynslóðar eða ekki, hvort hann sé verður allrar viðurkenningar eða ekki. Augljóslega er ekkert mál að finna ótal dæmi um skáldskap frá honum sem virðist klaufalegur, sem og skáldskap sem hefur haft djúpstæð áhrif á marga aðdáendur hans – raunverulega borað sér leið inn að kviku. Margt er áreiðanlega bæði vont og gott, eftir því hvern maður spyr. Og ég veit ekki hvort ég nenni heldur að velta því fyrir mér hvort hann hafi verið vondur við Joan Baez, eða hvort skárím sé ásættanleg bókmenntataktík. En það er samt margt við þennan debatt sem mér þykir áhugavert að ræða.

Einsog flestum finnst mér Dylan bara fínn. Ég dýrka hann ekkert og hata hann enn síður. Hins vegar á ég pínku bágt með að stór hópur sænskra jafnaldra hans hafi valið að veita honum nóbelsverðlaun í bókmenntum. Mér finnst það vandræðalegt svona einsog mér finnst það vandræðalegt þegar menn af sömu kynslóð leka dick pics í fjölmiðla. Það er eitthvað fáránlega narsissískt við að fagna svona æsku sinni. Sérstaklega þegar það gerir sjálfhverfasta kynslóð samtímans – sú sem beinlínis fann upp sjálfhverfuna einsog við þekkjum hana í dag. Fer þetta ekki að vera komið nóg? Er hálf öld í kastljósinu ekki nægur fögnuður?

En það er ekki Dylan sjálfum að kenna, vel að merkja. Hann er ekki nærri því jafn vandræðalegur og kynslóðin sem gerði hann að fánabera sínum.

Spurningunni um það hvort Bob Dylan sé ljóðskáld er auðsvarað: söngvaskáldskapur er undirgrein ljóðlistarinnar, jafn rétthár og rapp, rímur, sonnettur, konseptskáldskapur, hljóðaljóð og allt hitt. Sara Danius, fastaritari akademíunnar, lagði Dylan einmitt að jöfnu við Sapfó og Hómer, sem skáld söngs og fluttra kvæða frekar en bókarinnar, þótt hún hafi reyndar líka nefnt að maður gæti lesið hann, og að hann yrði sjálfsagt lesinn þegar fram liðu stundir (nja).

Fram til þessa hafa fyrst og fremst þrjár tegundir rithöfunda fengið nóbelsverðlaun – ljóðskáld, leikskáld og skáldsagnahöfundar – en greinar skáldskaparins eru fleiri og hafa alltaf verið.

Ég veit ekki hvort mér finnst rétt að tengja Dylan við Sapfó sérstaklega. Söngvaskáldskapur 20. aldarinnar verður ekkert rétthærri við að maður reki rætur hans með stórfenglegum hoppum og gloppum aftur til fornaldar. Dylan er hluti af tónlistarhefð upptökualdarinnar og hefur ekki meira með munnlega geymd að gera en bara Davíð Stefánsson. Dylan er skáld hljómplötunnar, af hefð Woody Guthrie og Leadbelly. Ég finn heldur enga ástæðu sem ég er sáttur við til þess að dæma skáld úr leik fyrir að hann syngi frekar en þylji, taki upp frekar en skrifi niður. Og ætti kannski ekkert að vera að leita.

Skáldskapur Dylans er heldur ekkert verri fyrir að vera á slangri, talmáli; eða fyrir að vera að miklu leyti stolinn. Allur skáldskapur er að miklu leyti stolinn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem nóbelsverðlaunin eru umdeild. Almenn umkvörtun, sem beinist yfirleitt ekki að neinum sérstökum, er sú að nefndin fíli fyrst og fremst eigin elítisma – og verðlauni þá helst höfunda sem enginn þekkir, undir hinu alþekkta prinsippi hipstersins um að maður sé svalari fyrir að hafa fílað höfundinn áður en hann var vinsæll. Nefndin er þannig alltaf svölust allra. Og velur oft höfunda sem eru þekktir fyrir að vera alls ekki allra – þótt á því séu mikilvægar undantekningar (Saramago, Lessing, Munro o.s.frv. vs. Modiano, Müller, Jelinek o.s.frv.).

Sjálfur er ég hrifnastur af því einmitt þegar verðlaunin fara til einhvers sem ég hef aldrei heyrt nefndan – og það jafnt þótt ég nái síðan engu sambandi við höfundinn. Það opnar samt á eitthvað; og það þurfa ekki allir hlutir að vera ætlaðir mér, þeir rata vonandi til einhvers annars. En tilfinningin er svolítið sú að þá hafi heimurinn – heimsbókmenntirnar – eignast nýjan höfund. Tilfinningin gagnvart Dylan er þá svipuð því að maður hafi fengið eitthvað í jólagjöf sem maður átti fyrir. Takk, en þú hefðir að minnsta kosti getað beðið um skiptimiða.

Það er hins vegar miklu sjaldgæfara að obskúr höfundar jaðarþjóða – einsog Laxness – fái nóbelsverðlaun en maður ímyndar sér. Stóru tungumál evrópsku nýlenduherranna – enska, franska, þýska, spænska, sænska (!), ítalska og rússneska – hafa átt næstum öll verðlaunin frá upphafi. 86 af 109, hvorki meira né minna. Þetta er auðvitað dálítil einföldun – einhver verðlaunanna tilheyra þjóðum utan Evrópu og Ameríku, en þá eru það líka oft hvítir afkomendur evrópumanna sem hljóta verðlaunin. Og trendið stendur af sér umtalsverða rýrnun.

Önnur almenn gagnrýni snýr að kyni – síðustu 20 árin eru 15 höfunda karlmenn – og sú þriðja að evrósentrisma almennt. Bæði eru fullkomlega valid.

Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem nefndin fer út fyrir hinn stranga ramma þríeinna bókmennta, ljóða, sagna og sviðs.

Svetlana Alexevitsj, sem hlaut verðlaunin í fyrra, skrifar fyrst og fremst viðtalsbækur eða vinnur með fundna texta. Það var víða tekist á um það hvort hún teldist fagurbókmenntahöfundur (eða blaðamaður), þótt það færi ekki jafn hátt og umræðan um Dylan (enda hún ekki súperstjarna).

Dario Fo var fyrst og fremst leikstjóri – og þess utan alvöru róttæklingur, anarkisti – þótti alls ekki nógu fínn pappír, gróteskur satíristi.

Ég hef aldrei áttað mig á því nákvæmlega fyrir hvað Winston Churchill fékk bókmenntaverðlaunin, og er of áhugalítill um þann mann til að nenna að fletta því upp, en við gefum okkur bara að það hafi verið fyrir Seinni heimsstyrjöldina (hann hefði a.m.k. áreiðanlega ekki fengið verðlaunin án hennar).

Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem nefndin er sökuð um popúlisma í vali – að velja ófínan kandídat fólksins. Þar er sjálfsagt efst á blaði John Steinbeck – sem er í einhverjum skilningi Bob Dylan skáldsögunnar, íkon fyrir brauðstritið á fyrri hluta 20. aldar, skáld hinna þjáðu og útskúfuðu, og óviljugur heiðursmeðlimur hippahreyfingarinnar (Steinbeck stimplaði sig að vísu rækilega út með því að styðja stríðið í Víetnam). Og einhvern veginn alveg rosalega hvítur, þrátt fyrir allt. Hann þótti líka úreldur – tákn um horfna tíma, nostalgíu – rétt einsog Dylan.

Mér finnst sjálfum mikilvægt að ímynda mér að Dylan hafi alls ekki fengið verðlaunin sem „textasmiður“ – altso, ekki fyrir textana per se – heldur fyrir sönginn, fyrir lagið, fyrir heildina. Kannski vegna þess að mér finnst svo ægilega lítið til verksins koma ef það er slitið í sundur – svona einsog hann fengi Grammyverðlaun fyrir hljómaganginn einan og sér; en ég kaupi að gæðin séu á heimsmælikvarða ef verkið hangir saman (þótt ég sé enginn sérstakur „Dylan-maður“ sjálfur; en einsog áður segir þarf ekki allt að tilheyra mér og ég samgleðst innilega aðdáendum mannsins).

Það er líka áhugavert að velta því fyrir sér hvaða múra er verið að brjóta – hvað nóbelsverðlaunin í bókmenntum geta þá náð yfir, fyrst Dylan gat fengið þau. Það er til dæmis engin ástæða til að skilja undan þá sem skrifa fyrir sjónvarp eða bíómyndir – frekar en leikskáld sviðsins – og engin ástæða til þess að ætla að hópar geti ekki fengið nóbelsverðlaun í bókmenntum, rétt einsog hópar fá iðulega nóbelsverðlaun í læknavísindum, friði og eðlisfræði. Þannig gæti hópurinn á bakvið sjónvarpsþáttaseríuna The Wire hæglega búist við að vera með í menginu; nú eða Coen bræður. Ef maður gengur út frá því að múrinn hafi einfaldlega verið brotinn – nú séu öll skrifuð orð bókmenntir – þá veltir maður því fyrir sér hvort nokkur blogg verði lögð fram til íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár, hvort að nokkur leikrit verði lögð fram, auglýsingar, sjónvarpsseríur, og hvað um nýju plötuna með Skálmöld?

Þetta er ný vídd og þótt hún sé að mörgu leyti gleðileg (þessir múrar eru feik, þeir voru aldrei þarna) þá er hún líka uggvænleg og popúlísk. Hinar klassísku bókmenntir – skáldsagan, ljóðið og leikritið – eiga nefnilega í vök að verjast; og í popúlískum slag eiga þær ekki séns í vinsældarisa tónlistar og kvikmynda, ekki frekar en menningargagnrýni keppir við slúðurfréttir í smellum. Þótt þetta opni dyrnar fyrir öllum, þá opnar þetta meira fyrir þeim sem eru stærstir og sterkastir. Og nú verða ljóðskáldin ábyggilega lamin í klessu af einhverjum rapparathugz (Kött Grá Pje, ég er að horfa á þig).

En svo stendur Bob alveg fyrir sínu; hvað sem heiminum líður; og hefði gert það án nóbelsverðlaunanna.