New York Fringe; Dagbók (dagur 2)

New York City; Dagur 2, 14i ágúst

Heitt. Sveitt. Sturta. Sumarkjóll sem fær aldrei annars að njóta sín og hárið sleikt aftur eins og á Argentískri flamenco dansmær. Tek þá leikmuni sem ég þarf. Leita að vínglasi en finn ekki. Verður að hafa það, verð að stökkva, annars verð ég of sein.

Fringe4Lest A á Jay St. Lest F á 2nd Ave. Vinstri, vinstri og þá er ég komin fyrir utan Downtown Arts, Alpha Omega danshúsið. En hér er enginn. Og garnirnar gaula. 7 Eleven, bananar og bakarísjukk. Enn enginn fyrir utan. Laumast inn og finn rýmið okkar. Emily er hvergi að finna. Tæknirennsli á verki með engri tækni er vita gagnslaust án leikkonunnar. Hún birtist loks í lyftunni með borð og stól og restina af leikmununum. Í landi byssunar er byssa Ríkharðs í lófastærð, eldrauð og augljóslega úr plasti. Má ekki hræða áhorfendur (sem geta allt eins verið með alvöru skammbyssur í töskunni).

Við stillum upp þannig að áhorfendur eru í tveimur röðum sem vísa að hvorri annarri og leikið er í miðjunni. Samið hefur verið um að skrifstofustóllinn megi rúlla upp og niður dúk sem verndar dansdúkinn. Við megum líka vera með vín fyrst þetta er svona. Allt sem var áður ómögulegt og bannað er sem sagt ekkert mál. Fjúkket.

Við rennum í gegnum allt verkið fyrir tæknifólkið,  sem er mis-áhugasamt en leikur þó rullur sínarFringe1 af innlifun þegar þess gerist þörf. Síminn deyr, Emily gleymir línum sem hafa búið í hausnum á henni í eitt og hálf ár – allt eins og maður vill hafa það á general prufu. Þetta virkar nefnilega soldið eins og frumsýningin sé á morgun en ekki í maí á síðasta ári. Stressið maður, það er óútreiknanlegt helvíti.

Við pökkum saman og kíkjum upp í Lounge, þar sem allir virðast þekkja alla og við erum nýju krakkarnir í bekknum á fyrsta skóladegi. Étum nestið okkur úti í horni og þykjumst vera kúl. Förum loks í tíma, þurfum að læra að vera miðaskannarar og upplýsingamiðstöðvar fyrir sýningu. Hér er ekki starfsfólk nema það sem nauðsynlegt er og allir verða að leggja sitt af mörkum. Mér finnst þetta krúttlegt. Hef stjórnað miðasölu á stærsta listviðburði í heimi í einu af vinsælustu leikhúsunum. Þó að 200 sýningar (1100 performansar) á tveimur vikum sé fullt þá er það ekkert miðað við Edinburgh Fringe (yfir 3000 sýningar sýndar yfir þrjár vikur í um 350 leikhúsum). En vissulega mikilvægt að þetta gangi vel hér eins og þar og ég glósa samviskusamlega.

Fringe4Við förum á Rosie’s í síðbúinn hádegismat. Tacos bragðast vel og sódavatnið er frítt og umfram allt er wi-fi og loftkæling. Við ákveðum að labba rólega í átt að leikhúsinu sem á að heimsækja í kvöld, Here á 6th Ave. Google maps segja að þetta sé hálftími, við þolum það ef stoppað er til að finna vatn af og til.

Við segjum við hvora aðra ‘við erum í New York’ eins og það sé ótrúlegt en bíómyndafílingurinn er farinn, núna er þetta alvöru borg og við eigum erindi eins og allir aðrir. Union square tekur á móti okkur með brosi, ung kona réttir Emily hvíta rós. Við hugsum um leið um rósastríðið. En gjörningurinn er gerður til að gleðja ókunnuga og Emily gefur hana áfram til ungs manns með afró og bætir flyer við. Hann veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið.

Við fáum aftur rós, Emily hvíta en ég gula og sú hvíta lendir hjá ungri konu sem klædd er eins og hún sé aukaleikari í Gone With The Wind. Hún er djúpt snortin og fær ekki flyer, bara bros. Þegar glyttir í Empire State gef ég þá gulu til konu sem brosti til mín á gatnamótum.

Fringe3Við finnum 6th Ave en helvítis Google hefur sent okkur í vitlausan enda og nú er hálftími í sýningu og hálftíma labb á áfangastað. Við spyrjum til vegar en lítum upp til að finna húsnumerið. Blasir þá Shakespeare sjálfur við okkur og brosir.

Við hálf hlaupum seinasta spölinn í 34° og fögnum eins og ólympíumethafar þegar við hlaupum í mark í Here leikhúsinu. Það eru þrjár mínútur í sjö og okkur er boðið að setjast.

Macbeth 3 er aðlögun á verki Shakespeare, sviðsett í borgarrústum með þremur leikurum, tveim konum og einum karli, sem öll leika hlutverk sem ætluð eru hinu kyninu. Aðlögunin er snörp en skemmtilega sett saman, línur færðar til til þess að setja áherslur á kynuslann og maður saknar þess ekki að hafa fleiri leikara á sviðinu. Sú sem leikur Macbeth er yfirgengilega karlmannleg, meðan þau hin leyfa áhorfendum að lesa sjálfir í kyngervin með því að leyna eigin kyni ekki beint. Sýningin býður upp á fjölmargt sniðugt og frumlegt í sviðsetningu sinni en sagan um hvernig metnaður getur ýtt fólki fram af brúninni týndist aðeins.

Fringe2Okkur er boðið í lokahóf sýningarinnar, vín og osta og Lisa Wolpe sem bauð okkur er dugleg að segja fólki að sjá okkur í vikunni sem er fallega gert. Við ræðum við leikarana um Shakespeare, uppeldi, norðurljósin, Donald Trump og hvernig maður heldur áfram að gera það sem maður brennur fyrir þrátt fyrir harkið.

Um níu finnum við mexikóska veitingastað númer 2 þann daginn og borðum okkur saddar. Þreytan læðist yfir og við störum tómum augum undan bleiku neonskiltinu á ‘Lupe’s’. Við finnum út hvaða neðanjarðarlestar leiða heim og leiðir skilja.

Nema ég finn ekki mína lestarstöð og labba að því virðist endalaust niður á Bowery. Þar er hægt að taka lest J til Fulton og skipta yfir í A. Nema ég er nýbúin að missa af henni og stari í gaupnir mér í hálftíma. Á Fulton er korters bið. Svo kemur lestin, en þetta er þessi sem stoppar á hverri einustu stöð. Karlmenn standa og biðja um pening til að éta fyrir eða lýsa því yfir að þeir séu Guð almáttugur. Farþegar láta eins og ekkert sé, hrista í mesta lagi hausinn og hverfa svo inn í eigin heim.

Þegar ég kem heim tekur kakkalakki á móti mér en annars er íbúðin tóm. Það eru tæpar þrjár klukkustundir síðan ég lagði af stað heim.