Hin hræðilegu örlög Melpomenus Jones

Sumu fólki – ekki mér eða þér, því við erum jú svo upptekin af okkur sjálfum – en sumu fólki finnst afar erfitt að kveðja þegar það er í heimsókn eða kvöldverðarboði. Eftir því sem stundin færist nær að gestinum finnst orðið í lagi að fara stendur hann upp og segir skyndilega, „Jæja, ég held ég…“ Og þá segir fólk, „Æ, verðurðu að fara núna? Það er nú ekki svo framorðið!“ og við tekur hláleg glíma.

Ég hygg að sorglegasta dæmið sem ég hafi nokkru sinni vitað um slíkt hafi verið greyið vinur minn, hann Melpomenus Jones, djákni – hvílíkt gull af manni, og ekki nema tuttugu og þriggja ára! Honum var lífsins ómögulegt að skilja við fólk. Hann var of hógvær til að segja ósatt, og of trúaður til að vilja vera dónalegur. Nú vildi svo til að hann sótti heim vinafólk sitt, allra fyrsta daginn sem hann átti sumarleyfi. Hann gat eytt næstu sex vikum að vild – hann hafði ekkert fyrir stafni. Hann hjalaði við þau um stund, drakk tvo tebolla, en svo herti hann sig upp og sagði snöggt:

„Jæja, ég held ég…“

En húsfreyjan sagði, „Æ, nei! Herra Jones, gætirðu ekki verið aðeins lengur?“

Jones sagði alltaf satt. „Ja, jú,“ sagði hann, „auðvitað – öh – gæti ég það.“

„Gerðu það þá að fara ekki.“

Hann var kyrr. Hann drakk ellefu tebolla. Það leið að kvöldi. Hann stóð aftur á fætur.

„Ja hérna hér,“ vogaði hann sér að segja, „Nú held ég að ég ætti að…“

„Verðurðu að fara?“ spurði frúin kurteislega. „Ég hélt þú gætir kannski verið fram yfir kvöldmat…“

„Ó, jæja, ég held ég gæti svo sem,“ sagði Jones, „ef…“

„Gerðu það vertu þá lengur, ég er viss um að maðurinn minn verður afskaplega glaður.“

„Allt í lagi,“ svaraði hann af vanmætti, „ég skal vera lengur,“ og hann sökk aftur ofan í stólinn sinn, vansæll og barmafullur af tei.

Pabbi kom heim. Það var kvöldmatur. Meðan á honum stóð lagði Jones drög að því að fara klukkan hálfníu.

Öll fjölskyldan velti fyrir sér hvort herra Jones væri heimskur fýlupoki, eða bara heimskur.

Eftir kvöldmat ákvað mamma að „draga hann út úr skelinni“ og sýndi honum ljósmyndir. Hún sýndi honum allt fjölskyldusafnið, hátt á annað hundrað myndir – af frænda pabba og konu hans, og bróður mömmu og litla stráknum hans, afskaplega áhugaverða ljósmynd af vini frænda hans pabba í riddarabúningnum í Bengal, afskaplega vel heppnuð mynd af hundi félaga afa hans pabba, og ein afskaplega prakkaraleg af pabba í gervi djöfulsins á leið á grímudansleik. Klukkan hálfníu var Jones búinn að skoða sjötíu og eina ljósmynd. Hann átti enn eftir um það bil sextíu og níu. Jones stóð á fætur.

„Nú verð ég að bjóða ykkur góða nótt,“ sagði hann.

„Góða nótt!“ sögðu þau, „já en klukkan er ekki nema hálfníu! Ertu að fara að gera eitthvað?“

„Ekki neitt,“ játaði hann, og sagði eitthvað um sex vikur, og skellti svo upp úr með vansæld í rómnum.

Einmitt þá kom upp úr dúrnum að augasteinninn í fjölskyldunni, algjört rúsínurassgat, var búinn að fela hattinn hans herra Jones, svo pabbi sagði að hann yrði að vera um kyrrt og bauð honum að fá sér í pípu með sér og spjalla. Pabbi tók til pípuna og spjallaði við Jones og hann var um kyrrt. Á hverri stundu var hann kominn á fremsta hlunn, en fékk sig ekki til þess. Þá varð pabbi mjög þreyttur á Jones, hann varð eirðarlaus og sagði loks hæðnislega að það væri eins gott að Jones gisti yfir nóttina, þau gætu dregið út gestabeddann. Jones misskildi hann og þakkaði fyrir með tár í augum, og pabbi bjó um Jones í aukaherberginu og bölvaði hressilega.

Að loknum morgunverði daginn eftir fór pabbi til vinnu í borginni og skildi Jones eftir niðurbrotinn til að leika við smábarnið. Hann var endanlega farinn á taugum. Allan daginn ætlaði hann sér að fara, en hann var kominn með meinloku fyrir því og hreinlega gat það ekki. Þegar pabbi kom heim um kvöldið komst hann að því sér til óvæntrar gremju að Jones var þarna ennþá. Hann gældi við einhverja glettnislega leið til að narra hann í burtu og sagðist þurfa að fara að rukka hann fyrir uppihaldið, he! he! Vansæli ungi maðurinn góndi eitt andartak á hann eins og naut á nývirki, svo greip hann um hendur hans, borgaði honum mánaðar uppihald fram í tímann, missti sig svo og grét eins og barn.

Næstu daga var hann hann afundinn og erfiður viðtals. Hann hélt sig vitaskuld eingöngu í betri stofunni og skorturinn á útilofti og hreyfingu fór að hafa sín áhrif á heilsuna. Hann eyddi tímanum í að drekka te og skoða ljósmyndirnar. Hann stóð löngum stundum og glápti á ljósmyndirnar af vini frænda hans pabba í Bengalbúningnum sínum – talaði við hann og bölvaði honum stundum í sand og ösku. Hann var greinilega að að glata geðheilsunni.

Þar kom að að hrunið skall á. Þau báru hann upp tröppurnar, í óráði og hitamóki. Í kjölfarið fylgdu skelfileg veikindi. Hann þekkti engan lengur, ekki einu sinni vininn frænda pabba í Bengalbúningnum. Inn á milli reis hann upp við dogg og hrópaði, „Jæja, nú held ég að ég…“ og svo féll hann aftur niður á koddann og hló geðsýkislega. Svo reis hann aftur upp og veinaði, „Annan tebolla og fleiri ljósmyndir! Fleiri ljósmyndir! Haha! Haha!“

Löngu síðar, eftir mánuð af þjáningum, á síðasta degi sumarleyfisins, þá gaf hann upp öndina. Sagt er að þegar stundin kom, þá hafi hann sest upp í rúminu með himneskt bros á vör og sagt, fullur sjálfsöryggis, „Jæja, nú kalla englarnir á mig, ég er hræddur um að ég bara verði að fara núna. Verið þið sæl.“ Og önd hans hraðaði sér úr prísund sinni eins og köttur á flótta yfir limgerði.

Stephen Leacock – The Awful Fate of Melpomenus Jones
Hjörvar Pétursson þýddi