Mynd: Sigurður Gunnarsson.

Hið einstaka er illfáanlegt

Viðtal við Arngunni Árnadóttur, höfund Að heiman

Ein af áhugaverðari skáldsögum jólabókaflóðsins er skáldsagan Að heiman eftir Arngunni Árnadóttur. Þetta er fyrsta skáldsaga hennar – og sömuleiðis fyrsta skáldsagan sem forlagið Partus Press gefur út, og með því fororði að hér sé komin ein eftirtektarverðasta „frumraun íslenskra bókmennta á þessari öld“. Hvorki meira né minna. Starafugli lék eðli málsins samkvæmt forvitni á að vita meira og varð sér úti um bókina.

Að heiman fjallar um unga konu sem heitir Unnur (og er þar með hálfnafna höfundar). Sú hefur verið búsett í Berlín um stundarsakir en snýr aftur til Íslands og flytur atvinnulaus inn á foreldra sína. Í hversdegi sem virðist kannski fremur letilegur og ófullnægjandi en beinlínis leiðinlegur eða erfiður ákveður hún að skella sér með í ferð „út á land“ ásamt vinkonu sinni, Láru, og vini hennar, Sveini. Þau byrja í Vestmannaeyjum og þræða svo hringinn – að Vestfjörðum og Vesturlandi undanskildu. Bókin – sem gerist að hluta á fylleríi á Kaffibarnum – kallast þannig skemmtilega á við tvær aðrar bækur, 20 ára gamlar, sem gerðust líka að hluta á fylleríi á Kaffibarnum. Í fyrsta lagi kynslóðarrómaninn 101 Reykjavík, eftir Hallgrím Helgason – í því að hún reynir að fanga einhvers konar umkomuleysi ungs fólks á tækniöld (þótt ofsinn og villan eigi sér aðra birtingarmynd hjá Unni og félögum); en hins vegar Góðir Íslendingar, eftir Huldar Breiðfjörð, þar sem söguhetjan – Huldar Breiðfjörð – fer hringinn í kringum landið, í leit að einhvers konar sannleika um bæði sig, land og þjóð.

Stíll Arngunnar er nær Huldari en Hallgrími – og þó afar ólíkur báðum. Arngunnur flakkar með talsverðu öryggi og án sviptivinda milli þess að skrifa þokkafullar lýsingar á fremur átakalausri tilvist, yfir í næstum barnabókalegan stíl þegar persónurnar – sem eru að leita að fullorðnum sjálfum sínum, á einum tímapunkti horfir Unnur niður á loðinn líkama sinn og trúir því vart hún sé kona – ræða saman um allt og ekkert, yfir í einhvers konar ölvaða höfgi:

Í árdaga þegar hún sveif um í þyngdarleysi og málleysi fundu hendur hans hennar. Með fingurgómunum snerti hann alla veru hennar og augu glenntust upp. Sprengingar margfölduðust á sólinni, sólstormur geisaði. Lofsteinar fuðruðu upp og stjörnur hröpuðu.

Starafugl hitti Arngunni á internetinu.

Ritstjóri og skáld skiptast á tölvupóstum

EÖN: Hæ. Takk fyrir skemmtilega bók. Hún vakti ansi mörg hugrenningatengsl og við náum sjálfsagt ekki að tala um nema brot af því sem mig annars langar. Ég er auðvitað fanatískur á allt sem hefur að gera með samband borgar og annars þéttbýlis á Íslandi. En ég vil samt byrja á að spyrja þig út í meginþema bókarinnar, og það sem er bundið í titilinn. Hvað það þýði að vera „heima“ – hvar maður eigi heima og hvað það þýði þá að yfirgefa heimahagana og fara „að heiman“?

AÁ: Sæll og þakka þér fyrir að lesa. Ah þetta er góð spurning. Tilfinningin er sprottin af því að vera milli heima, búa í tveimur löndum og finnast maður vera hvorki hér né þar. En kannski er „heima“ bara tálsýn? Ætli mér finnist það ekki í grunninn. Sennilega er þessi tilfinning – að vera „að heiman“ – bara partur af því að fullorðnast, gera sér grein fyrir einmitt því, að „heima“ er tálsýn. Allt er í heiminum hverfult eins og skáldið sagði. En Unnur finnur leið út úr krísunni í lokin. Það eru hins vegar engin gríðarstór loforð fólgin í endinum enda er ég á móti slíkri stærðargráðu. Það er ekki gengið svo langt að lofa henni samastað, heldur finnur hún sér áfangastað, og hún hlakkar til að fara þangað. Hún finnur von í vonleysinu.

EÖN: Það er kannski áhugavert að velta því fyrir sér að hversu miklu leyti áfangastaðurinn er þá faðmur einhvers annars? Sögupersónurnar í bókinni eru allar meira og minna einhleypt ungt fólk sem hefur ekki fundið sér aðsetur – þau eru í viðstöðulausu tilhugalífi, allir eru möguleg viðföng ástarinnar. Nema þeir sem eru ómöguleg viðföng ástarinnar.

AÁ: Hmmm. Að áfangastaðurinn sé faðmur annars segirðu. Það má að einhverju leyti líta á það þannig. Mikið hefur verið talað um að manneskjan sé fyrst og fremst orðin einangraður neytandi. Það er kannski þrátt fyrir allt eitthvert gildi fólgið í því að tengjast annarri manneskju? Á hinn bóginn eru tengslin sem Unnur opnar á í lokin partur af hennar persónulega þroska – hún virkjar loksins eigið frumkvæði, eigin sköpunarkraft. Að opna á þessi tengsl felur í sér fyrir henni „möguleika á að búa eitthvað til í sameiningu“ og að „breyta heiminum“. Þannig er þetta tilhugalíf í kontrast við ástarævintýrið fyrr í bókinni, sem og algenga framsetningu ástarævintýra í skáldskap: Ástin er ekki passíf heldur aktív, ekki holskefla eða hörmung heldur róttækur verknaður. Annars er þessi sýn líklega innblásin af frönskum exístensíalisma.

EÖN: Það er kannski hættulegt að ræða of mikið um endann – en hún flýr samt af hólmi og lætur elta sig uppi, áður en hún svo tekur af skarið sjálf. En það eru kannski vatnaskilin?

AÁ: Jújú það er alveg rétt, þetta með að hún flýi af hólmi fyrst. Hún á engu að síður frumkvæðið í lokin, tekur skrefið sem þarf að taka til að eitthvað gerist. Þar eru vatnaskilin.

EÖN: Sástu bókina fyrir þér sem einhvers konar kynslóðarsögu?

AÁ: Sko. Já. Mín tilfinning er sú að ákveðið stefnuleysi fylgi þessari kynslóð. En það er erfitt að negla nákvæmlega niður hvers vegna og eflaust hætta á að maður fari að segja einhverja vitleysu. En sennilega kristallast það í þessu … þessi kynslóð hefur meira val en kynslóðirnar á undan. Hvað varðar menntun og hvers kyns lífsreynslu eða neyslu. Og ég held að þessi lúxus, að lifa við þetta val, geti verið íþyngjandi og valdið því að fólk verði ógurlega týnt. Ég þykist hafa séð þetta víða í mínu umhverfi.

EÖN: Það hefur verið talað um að þúsaldarkynslóðin sé fyrsta kynslóðin til að hafa aldrei lifað ótengd. Sem gerir líka alla ferð að heiman ólögulegri. Þegar ég – sem er fæddur 78 – var í svipuðum sporum og Unnur, að flytja til útlanda í fyrstu skiptin, þá fylgdi því ákveðin einvera. Að heyra ekki í mömmu sinni í mánuð. Að vita ekkert hvað væri að gerast í íslenskri pólitík eða menningu í hálft ár, nema einhver hefði fyrir því beinlínis að leita mann uppi og segja manni af því. Af því maður sá ekkert blöðin í Berlín. Ég sakna þess oft að komast aldrei að heiman. Að þótt ég fari til Víetnam þá missi ég aldrei af jólunum á Ísafirði.

AÁ: Einmitt. Heimurinn heldur alltaf áfram að skreppa saman. Unnur finnur líka fyrir því um leið og hún kemur heim frá Berlín að margir kunningjar hennar eru annað hvort nýbúnir að vera þar eða á leiðinni þangað og þylja upp það sem þeir vita nú þegar að er eftirsóknarvert í borginni. Reynslan sem hún kannski upplifði sem einstaka verður strax almenn.

EÖN: Og kannski merkileg sú tilhneiging að leita til sífellt stærri stórborga, þegar maður er á höttunum eftir einstakri reynslu?

AÁ: Já þú segir nokkuð. Ætli það sé ekki vegna þess að í stórborgum finnur maður einna helst fjölbreytileika mannlífs á einum stað. Stórborgum fylgir líka nafnleysi og möguleiki á að týnast í fjöldanum, svona burtséð frá því sem við vorum að tala um – nálægð alls fyrir tilstilli internetsins.

EÖN: Það verður líka vandamál þegar þau fara út á land og ætla að upplifa náttúruna að þau eru ekki ein í henni. Túristarnir eyðileggja einhvern veginn allt – líka hver fyrir öðrum. Það vilja allir fara eitthvert til að upplifa eitthvað ekta og einhvern veginn erum við þannig gerð að okkur finnst það ekki mjög ekta ef áhorfið er orðið of skipulagt. Það er ekki fyrren félagarnir komast í var – við á nálægt bensínstöð – að Unnur leggst í grasið og „finnst hún vera gerð úr sama efni og jarðvegurinn“ og hana „langar að sameinast landinu“. Hún meira að segja tárast. En frammi fyrir Jökulsárlóni (sem mér finnst sjálfum fallegasti staður á landinu – en upplifði einmitt fyrst í einrúmi með fáeinum vinum, rétt áður en túristabylgjan hófst af viti) góna þau bara í bláan ísinn og malda í móinn: „Ísland er klisja.“. Hvers vegna finnst þeim/okkur að „almenn“ reynsla sé óekta – að við og líf okkar/þeirra þurfi að vera einstök einsog snjókorn? Hvers vegna einblínum við svona á okkur sjálf og sjáum lítið gildi í sameiginlegri reynslu?

AÁ: Einmitt, túristar skemma fyrir öðrum túristum, margir reyna eins og þeir geta að fela það að þeir séu túristar þegar þeir ferðast, sjálf er ég alveg stundum í þeim hópi. Túrismi er svo furðulegur „veruleiki“. Það er eitthvað pínlegt við þennan ýkta hliðarheim. Hvað varðar Ísland, þá gerðist þetta svo ofboðslega hratt hérna og ég held það séu fyrst og fremst þessar hröðu breytingar sem valdi ákveðinni furðutilfinningu. Það er til dæmis ekkert rosalega langt síðan fólk tjaldaði í fámenni við vatnsbakkann á Þingvöllum.

Sjálfri finnst mér Jökulsárlón auðvitað ofboðslega fallegur staður og viðbrögð Láru í bókinni eru að mínu mati ekkert endilega rasjónal. Ég held að vandamálið snúist frekar um einhvers konar menningarlegt samhengi…vandamálið er ekki það að reynslan tengd náttúrunni sé sameiginleg, heldur það að náttúran hefur verið notuð á ákveðinn hátt. Að því leyti tapar sambandið við náttúrufegurð sakleysi sínu því hugurinn leitar ósjálfrátt í myndirnar á auglýsingaspjöldunum, ímyndarsköpun vörumerkisins Íslands. Um leið er þetta partur af stærra vandamáli, því að gildi fyrirbæra í sjálfu sér dugi ekki og að það þurfi að setja verðmiða á allt. Hugmynd um hálendisþjóðgarð hlaut til dæmis meðbyr úr óvæntum áttum vegna vaxtar ferðaþjónustunnar.

Þrá eftir prívat eða einstakri reynslu sprettur sennilega fram af þeirri einföldu staðreynd að hún er illfáanleg. Sennilega er þráin fyrst og fremst eftir frumstæðari reynslu og því að losna við einhvern menningarlegan bagga.

EÖN: Já – en að sama skapi eru þetta sennilega menningarlega „þyngstu“ tímar sem við höfum lifað. Það hefur aldrei verið jafn mikil skylda að gæða líf sitt viðstöðulausri merkingu. Allur hippsterisminn snýst um þetta – það er ekki lengur hægt að hella sér upp á kaffi eða stíga upp á reiðhjól eða fara út að hlaupa án þess að það sé einhvern veginn þrungið reynslu, viti og sögulegri þekkingu. Ég tók viðtal við Sölva Björn Sigurðsson um daginn – í Blóminu hans stendur einmitt:

Það var virðingarvert að borða hollan mat og rækta hann í garðinum en það var samt eitthvað bælandi og heft við það að fylla alla daga svona mikilli dýpt.

Það er eitthvað þarna.

AÁ: Já, þarna er stóra mótsögnin. En þessi merking sem þú talar um er alltaf út á við. Hún er einmitt aldrei prívat. Vegna samfélagsmiðlanna verður hið „einstaka“ strax að trendi, hið einstaka verður strax almennt. Þránni eftir hinu einstaka eða frumstæða verður því illsvalað. Þetta eru erfiðir tímar. ; )