Ljósmynd: Sigurður Gunnarsson.

Gæskan má aldrei vera feik

viðtal við Sölva Björn Sigurðsson, höfund Blómsins

Fimmta skáldsaga Sölva Björns Sigurðssonar, Blómið, gerist á afmælisdegi athafnamannsins Benedikts Valkoff  árið 2015. En kjarni hennar – eða hvatinn að baki flestum atburðum bókarinnar – er dularfullt hvarf systur hans, Margrétar, sem á sér stað nákvæmlega 33 árum fyrr. Á tæpum 300 blaðsíðum grefur Sölvi síðan dýpra og dýpra í þennan fjölskylduharmleik þar til mann sundlar, veruleikinn tekur að dofna og eitthvað annað tekur við. Blómið er í senn falleg bók og skelfileg bók, en umfram allt einhvern veginn nístandi – einsog tinnitus. Maður leggur hana frá sér og heyrir í henni lengi á eftir.

Starafugl heyrði í Sölva Birni í síðustu viku.

EÖN: Ég kláraði bókina í gær og hún er eðli málsins samkvæmt enn að setjast – það er margt í henni, víddir af þráðum og þræðir af víddum – en ef ég ætti að súmmera það upp fyrir mér í örfáum orðum myndi ég segja að Blómið fjalli um upplifun einstaklinga – eða jafnvel heimsins, í það minnsta Valkoff-fjölskyldunnar – á fortíðinni og tráma. Og hvernig við dröttumst um með þann farangur, sem verður sífellt þyngri eftir því sem á líður, og breytir um lögun, tón og áferð. Nú veit ég vel að maður á ekki að spyrja höfund þannig, en ég geri það kannski bara samt: er ég nokkuð alveg úti á túni?

SBS: Nei, ég myndi segja að þú farir í raun mjög nærri kjarna verksins með því að orða þetta svona. Aðalpersóna bókarinnar, Benedikt Valkoff, vaknar bara eina nóvembernóttina og fer að brjóta saman þvott. Hann hefur sumpart gengið sigurreifur í gegnum lífið, svona út á við, aflað sér efnislegra gæða og á góða konu og gott barn, en stendur svo allt í einu frammi fyrir því að þurfa að líta af meiri einbeitingu en stundum áður framan í spegilinn. Spyrja sig að því hver hann í raun og veru er og hvað hefur mótað hann dýpst.

Þá opnast eins og þú nefnir gátt inn í fortíðina og gamalt og óuppgert tráma frá því er systir hans hvarf þegar hún var barn að aldri. Vafningurinn er orðinn þykkur og lagskiptur og það kann að vera að á bakvið hinn persónulega harm í fjölskyldu Benedikts liggi annað og enn stærra tráma sem á sér kannski rætur, eins og þú nefnir, í harmi heimsins alls…

EÖN: Það er líka mystísk stemning yfir bókinni og viðstöðulítil tilfinning fyrir því að veruleikinn sé ekki allur þar sem hann er séður. Hlutirnir leysast mestmegnis á yfirborðinu en hér og þar sér maður glitta í eitthvað órökrænna, eitthvað villtara sem sögupersónur eiga erfiðara með að hafa áhrif á í sinni litlu tilvist. Þessari dulrænu er líklega jafnt skipt á milli sovéska heimsveldisins, lyfjamóks og handanheima. Hvaða tilgangi þjónar dularfulla hlið Blómsins, fyrir þér? Hvað segir hún?

SBS: Það er kannski að vissu leyti einhvers konar hliðstæða þarna við það sem þú nefndir áðan um einstaklinginn og heiminn. Maður á sína smækkuðu mynd af heiminum, í hlutunum sínum og hversdagsleikanum, en yfir þessu öllu er stærra svið sem maður er alltaf að reyna að skilja og þráir að samsama sig. Mann langar að fylla út í veruleikann og vera heill í heiminum en það er ómögulegt því heimurinn er ekki heill og maður er það á endanum ekki sjálfur.

Fyrir mér er viss útópía að ætla að ná endanlegri sátt við tilveruna, það jafngildir því á vissan hátt að gefast bara upp. Ég er ekki að segja að maður eigi ekki að hafa ró í eigin skinni; maður verður bara að búa yfir smá forvitni gagnvart því sem ekki er hægt að skilgreina ofan í grunninn til að hafa orku og kraft til að takast á við hversdagsleikann.

blomidAð sama skapi er ekkert sérstaklega sjarmerandi heldur að hefja allt upp til skýjanna á kostnað litlu tilverunnar manns. Ættfaðirinn í bókinni, Pétur Valkoff, gefur hið persónulega upp á bátinn fyrir stærra sviðið, en það reynist honum ekki mjög vel. Hann fer til Sovétríkjanna til að berjast fyrir betri heimi en gleymir svo að hugsa um heimilið sitt og fólkið sitt því hann er með hugann við annað. Hann er með hugann við alla, því hann vill bæta veröldina í heild sinni. Svo situr hann, orðinn gamalmenni, með hugann fastan í fortíðinni og við æskuástina sína, hana Önnu Pavlovu, sem er með kalt blóð og eldist með öðrum hætti en aðrir. Hann finnur hana aftur orðinn gamall maður og hún er ennþá tuttugu og fimm ára, eða svo telur hann sér að minnsta kosti trú um. Er það röfl í gömlum manni eða hefur Pétur Valkoff rétt fyrir sér, að heimurinn sé miklu stærri en við litla hversdagsfólkið skiljum? Lesandinn verður nú eiginlega bara að fá að ákveða það fyrir sig.

Málin flækjast hins vegar svolítið í miðju þessarar hálfrar aldar sögu þegar raunveruleg stúlka sem er ást og yndi allra í kringum sig hverfur haustið 1982.  Og svo vaknar bróðir hennar um miðja nótt haustið 2015 og fer að velta þessu öllu fyrir sér. Bernsku sinni og kalda stríðinu og sambandinu við konuna sína og púströrið í bílnum, sem er bilað. Ætli það sé ekki þessi tveggja heima núningur hversdagsleikans og sögunnar með stóra S-inu sínu sem hlutverk hins dulræna gegnir í Blóminu, svo ég reyni að koma einhverjum orðum að því.

EÖN: Bæði stóra Sagan og fjölskyldusagan – og jafnvel í einhverjum skilningi lausn hennar – virðast vera knúnar áfram af gæskunni. Bókin er í þremur hlutum – og þar af er sá þriðji mjög stuttur – en annar hlutinn heitir beinlínis „Góða fólkið“. Í honum lætur Valla móðan mása um þetta svonefnda góða fólk:

„[Valla] var hætt að pirra sig á því að tilheyra góða fólkinu, eins og hún var víst skilgreind á netinu. Það þótti hallærislegt enda hafði góða fólkið áhyggjur af börnum í öðrum heimsálfum og var fúlt yfir nauðgurum. Það kunni ekki að fyrirgefa og vildi heldur kynda bálið kringum vonda fólkið með gömlum Þjóðviljum og nærbuxunum af ömmum sínum og illa lyktandi aulasokkunum af öfum sínum þar til sársaukinn náði svo langt aftur að honum hefði betur verið almennilega sökkt í Drekkingarhyl, eða hvað þessi helvítis pyttur hét sem maður fékk ekki að veiða í.“

Sjálf vinnur Valla á Landspítalanum og er þannig viðstöðulaust að berjast fyrir hinu góða – fyrir lífinu og gegn sársaukanum – og talar um fórnirnar, að hún geti ekki skilið hvernig fólk (í hennar stöðu) geti gert kröfur um „eðlileg frí“. Sams konar fórn má líka finna hjá Pétri – sem svíkur hið smáa fyrir stóru gæskuna, svíkur fjölskylduna fyrir sósíalismann. Allir vilja gera gott, og flestir leggja talsvert á sig til þess, en þeir láta misgott af sér leiða. Maður fær það næstum á tilfinninguna að stundum sé gæskan stærsta hindrun sjálfrar sín – að í háleitum markmiðum sínum flækist hún fyrir sjálfri sér?

solvi-4

Ljósmynd: Sigurður Gunnarsson

SBS: Þetta er ansi stór spurning, en svo við byrjum nú bara á hugtakinu, góða fólkið, þá segir það kannski eitthvað um samfélag upplausnar og brostinna gilda að það sé notað sem háðsyrði. Hvað þetta varðar hins vegar sem þú segir um gæskuna og að hún geti orðið að eigin hindrun, þá held ég að það eigi alveg tvímælalaust við um ættföðurinn Pétur Valkoff. Hann er að uppleggi „góður maður“ sem fer út í heim með háleitar hugsjónir en reynist svo um megn að fylgja þeim öllum eftir því últra-egóið sem sýrir heiminn, djöfullinn í teboði gæskunnar, ef svo má segja, hann þjösnast á honum og tekur af honum völdin.

Manni finnst stundum eins og illskan sé gerð úr sterkara efni en gæskan að því leyti að það þarf miklu minna af illsku en gæsku til að skemma góðar fyrirætlanir. Illskan er eins og of mikið salt í vöffludeigi þar sem gæskan er hveiti – það þarf að henda því og byrja upp á nýtt. Þess vegna erum við líka alltaf að byrja upp á nýtt. Kjósa upp á nýtt og nálgast hvert annað upp á nýtt í von um að ástin og gæskan sigri. En í því felst líka kraftur ástarinnar og kærleikans – við höldum áfram, við byrjum upp á nýtt, og við látum ekki buga okkur.

Við erum flest svona frekar góð, finnst mér, en það er kannski þessi hverfipunktur egósins og samúðarinnar með öðru fólki sem stundum dregur úr okkur máttinn. Maður þarf að læra á þessi mörk. Við viljum geta gert fullt fyrir aðra, og svo þráum við líka hlýju og gleði og nánd fyrir okkur sjálf. Ef jafnvægið milli eigin hamingju og háleitra hugsjóna glatast þá kann að stefna í illt efni. Jafnvel best innréttaða fólk býr yfir sammannlegri sjálfhverfu og er með persónulegt egó og þörf fyrir að það sé nært og því sinnt af öðrum. Ég held að þetta sé í raun drifkraftur allrar sköpunar.

En svo ég haldi nú áfram að tala um þetta í samhengi bókarinnar þá er einfalt að horfa til hjónanna Völlu og Bensa, sem eru kannski að einhverju leyti þetta týpíska „góða fólk“ með ríka samúð fyrir öðrum og löngun til að bæta umhverfi sitt og samfélag. Kannski Valla ekki síst. Mér þykir nokkuð vænt um hana sem persónu vegna þess að hún er heil manneskja og nó-búllsjittari, hún berst fyrir kærleikanum af sannfæringu og helgar líf sitt honum með því að gerast læknir. Og svo á hún sig. Þegar grunnstoðirnar í hjónabandi þeirra Bensa byrja að trosna yfir langan tíma þá hverfur aðeins hljómbotninn í lífi þeirra. Og þeim er skipað að vakna. Þeim er skipað að horfa aðeins inn í sig sjálf í stað þess að horfa á stóra sviðið. Gæskan má nefnilega ekki bara beinast út á við. Hún verður líka að beinast inn á við svo jafnvægið haldist. Gæskan má aldrei verða feik, því þá er hún feig.

EÖN: Að öðru, að lokum. Þú hefur verið að gera það gott með bókina Síðustu dagar móður minnar í heimsveldunum tveimur, Danmörku og Ameríku – hver finnst þér vera helsti munurinn á að gefa út á Íslandi og í þessum löndum? Er krítíkin öðruvísi? Eru aðrar spurningar sem koma upp? Er munur á því hvernig fólk túlkar verkið?

41hcvdtbkolSBS: Það er náttúrlega fyrst og fremst rosalega gaman að sjá bók eftir sig koma út á öðrum málum, ekki síst enskunni. Það eitt að vita að einhverjir milljarðar manna geti tæknilega lesið bókina manns án þess að tungumálamúrinn sé hindrun stækkar sviðið strax til muna. Að útlenskir vinir manns geti lesið eitthvað eftir mann er líka mjög skemmtilegt. Ég hef haft mjög gaman af öllu sem hefur tengst þessum útgáfum, farið nokkrum sinnum út að lesa, bæði til Danmerkur og Bandaríkjanna, og kynnst fullt af fólki í bókabransanum þar. Þetta er frekar faglegt, finnst mér, og opnar líka gáttir til að vinna með þessar bækur manns á stærri markaði. Ég varð alveg smá spenntur til dæmis þegar bandarískur framleiðandi sem hefur staðið á bakvið slatta af Woody Allen myndum hafði samband og var að spá í kvikmyndaréttinum á Síðustu dögum móður minnar. Maður var allt í einu kominn í einhvern allt annan veruleika með þetta en segjum til dæmis í kvöldlestrinum á Hrafnistu. Allt í tengslum við amerísku útgáfuna heppnaðist mjög vel.

Það breytir því auðvitað ekki að maður skrifar bækurnar sínar á íslensku, fyriríslenska lesendur, og þær hefja sitt æviskeið hér. Hvort einhver munur sé á viðtökuaðferðinni er alveg valid spurning en auðvitað byggist þetta allt fyrst og fremst á áhuga lesenda, gagnrýnenda og bókmenntaheimsins í heild. Hér gerist þetta oftast hratt á fáeinum vikum kringum jólin á meðan tíminn virðist aðeins teygjanlegri úti. Þú þekkir þetta auðvitað býsna vel sjálfur.

En þessi brú, að eiga færi á að koma bókum sínum yfir á stærri mál, hún er tvímælalaust hvatning fyrir mann þegar maður skrifar. Bestu bækurnar eru skrifaðar fyrir alla og það er ágætt að hafa það í huga, án þess að láta það stýra sér eitthvað. Þegar húsmóðir í Maine sér allt í einu ástæðu til að setjast við tölvuna sína og blogga um fögnuð sinn yfir skáldsögu um íslensk mæðgin hugsar maður kannski: Þetta er nú alveg einhvers virði. A mother in Maine is worth the whole world, er það ekki?“