Tómas Jónsson: Sterkur frumburður

Tómas Jónsson er að góðu kunnur fyrir hljómborðsleik með mörgum af helstu tónlistarmönnum landsins síðustu ár. Hann gaf nýverið út sína fyrstu plötu undir eigin nafni. Tómas sér sjálfur um mest allan hljóðfæraleik. Hann fjármagnaði verkið með söfnun á Karolinafund, þar sem hann náði 109% af markmiði sínu.

Platan er svo gott sem öll instrumental, fyrir utan eitt lag þar sem upptaka af Sigfúsi Daðasyni skáldi að lesa ljóð sitt Að komast burt – The City of Reykjavík er notuð. Til þess að auðvelda mér greiningu á verkinu hef ég skipt því í þrjá hluta. Sá fyrsti á við fyrstu þrjú lögin, annar á við næstu fjögur og þriðji á við síðustu þrjú lögin.

Fyrsti hluti plötunnar minnir nokkuð á ambient tónlist og gæti sjálfsagt flokkast sem slík ef vilji væri fyrir hendi. Þessi hluti minnir mig einnig nokkuð á fyrstu plötu hljómsveitarinnar Múm, Yesterday Was Dramatic, Today Is OK. Í annars rólegri og ómþýðri tónlistinni eru alls konar truflanir sem trufla þó ekki of mikið þar sem framsetning þeirra er öll fremur kurteis. Lögin eru einföld og mjög melódísk í uppbyggingu.

Annar hlutinn er nokkuð post rock legur án þess þó að raunverulega vera það. Tónlistin heldur áfram á rólegum nótum en er rismeiri. Jarðarfararlagið sem hefur þennan hluta virkar á mig sem intro fyrir lagið Seiglu sem er líklega besta lag plötunnar ásamt Kúrekalaginu og Að komast burt – The City of Reykjavík. Allt lög af öðrum hlutanum.

En þá er komið að því sem ég tel helsta vankant plötunnar. Mér þykir það afskaplega vafasamt að nota upptökur af látnum listamönnum eins og Tómas gerir í Að komast burt – The City of Reykjavík. Ég geri mér grein fyrir því að Tómasi vill ekki neinum illt hér og varla er hér um gróðavon að ræða. Líklegra þykir mér að hann hafi gert þetta vegna þess að hann er hrifinn af ljóðinu og upplestri þess. En það hefði líklega verið hreinlegra að fá einhvern góðan leikara til að lesa þetta en að nota upptöku af látnum manni sem hafði ekkert um málið að segja.

Þriðji hluti plötunnar minnir mig nokkuð á franska popptónlist í anda Serge Gainsbourg og Air. Væntanlega hefur það talsvert að gera með bassasándið í þeim lögum. Lögin eru sem fyrr einföld í uppbyggingu og sem fyrr gerir það ekkert til.

Platan er heilsteypt og vel gerð í alla staði. Hún fylgir manni eftir að hafa hlustað á hana og fær mann til að hugsa. Einfaldleiki lagana kemur ekki að sök og þó að það fari í taugarnar á mér að nota upptökuna af Sigfúsi Daðasyni þá er lagið svo sterkt að ég næ að leiða það hjá mér. Þegar allt kemur til alls er Tómas Jónsson sterkur frumburður og með betri plötum sem ég hef heyrt í ár.