If you only knew. Mynd: spectacular.is

Göngutúrinn: listform 21. aldarinnar

Um Everybody's Spectacular, seinni hluti

Göngutúrinn er listform 21. aldarinnar. Eða eitthvað í þá áttina gæti manni dottið í hug að lokinni Everybody´s spectacular þar sem þó nokkrar sýningar gengu einmitt út á að ganga. Þær voru þó nokkuð ólíkar, og þær tvær sem ég nefni hér og sá sama dag eiga fátt annað sameiginlegt en landfræðilega staðsetningu á Skólavörðuholtinu og vissa leikgleði.

Í sýningu Magneu Bjarkar Valdimarsdóttur, If you only knew, er gengið í gegnum miðbæ Reykjavíkur og sögu hans, a.m.k. hluta hennar. Þetta er þó ekki nein sögusýning þótt hún sveipi sig nostalgískum blæ. Við erum leidd áfram af krökkum sem eru klædd eins og nítjándu aldar sveitafólk, og ávarpa okkur á afar virðulegri og góðri íslensku. Gestir sýningarinnar halda í reipi og eru teymd í einni torfu frá Njálsgötunni og í átt að sundlaug Reykjavíkur. Á leiðinni mætum við lúðrasveit og fimleikastúlku, heyrum eintal Birgittu Birgisdóttur sem gengur frá þvott út í garði, við erum greinilega stödd á stríðsárunum því hún segir okkur frá stúlku sem giftist dáta og konu sem gerir út á að þvo af breskum hermönnum til að hafa í sig og á. Hún gerir það vel á meðan ung stúlka leikur sér í garðinum. Að lokum komum við niður í sundhöll þar sem gamalmenni dansa í lauginni og krakkar syngja lag.

Við erum semsagt ávallt á milli hins gamla og nýja. Æska og aldur, og ekkert á milli. Sýningin kallast á mörgu leyti á við aðra sýningu sem var einnig á Lókal fyrir nokkrum árum og ég átti þátt í að skapa, en þar leiddi sviðslistakonan Aude Busson krakka í gegnum miðbæinn, og sagði á ærslafullan máta frá uppskálduðum sögum úr fortíð og nútíð, á meðan við reyndum að fá krakka til að hugsa um borgina og húsin í henni. Ef sú sýning hefur heppnast vel dreymir eflaust einhverja krakkana enn þann dag í dag um að vinna í deiliskipulagi, en það er ekki markmið þessarar sýningar. Markmiðið er þegar ég velti því fyrir mér ekki alveg augljóst, en lýsingin á verkinu segir að það gangi út á að kynnast hverfinu betur. Sem maður vissulega gerir.

Það er eilítið farið út í afleiðingar túrismans og í einni senu horfir leikkonan Margrét Guðmundsdóttir um öxl meðan hún prjónar og rifjar upp að einu sinni hafi engin hús staðið þarna. Síðan röltum við í átt að Austurbæjarskóla og horfum á krúttlegan breikdans. Sem upplifun, sérstaklega í svona góðu veðri, er sýningin frábær, en ég myndi ekki segja að hún væri beinlínis fræðandi. Blessunarlega var hún þó laus við blæti gagnvart gömlum húsum, og fyrir mitt leyti er stundum gott að leikhús reyni að skemmta mér frekar en að segja mér hvernig ég eigi að vera. Maður gekk af sýningunni kátur og uppfullur vonar, allar sögur af dauða miðbæjarins verulega ýktar miðað við það líf og fjör sem var í gamla fólkinu og barnabörnum þeirra. Bestu senurnar voru svo þær sem mynduðust óvart, þegar maður vissi ekki hvort að einhver væri hluti af verkinu, eins og týndur bakpokaferðalangur sem fylgdi okkur stóran hluta af leiðinni, unga parið með rykgrímurnar og borvélarnar, og unglingsstrákarnir sem þóttust vera í símanum og öskruðu flissandi á okkur þegar við komum út úr sundhöllinni.

Norska verkið, Beat the drum, eftir Verk produksjoner var talsvert meira inn á við. Rétt eins og verk Magneu hófst það með göngutúr (að vísu var stuttur skype-fyrirlestur á undan sem útskýrði hversu góður göngutúrinn er fyrir hugann og hugmyndaflæði), en það var göngutúr í þögn þar sem fólk fékk ákveðna spurningu: „hvað viljum við sjá?“ til að velta fyrir sér.

Að lokinni hálftíma hugleiðslu settumst við niður og fengum að hlusta á samtöl leikhópsins, eða samtöl sem þau miðluðu að handan. Að handan = endurtóku gömul samtöl upp úr ipod sem myndaði undarleg og fjarræn samtöl. Flestar vangaveltur voru siðferðilegar eða fagurfræðilegar og veltu upp spurningunni um hvort við gætum nokkurn tímann losnað úr okkar eigin kúlu. Þ.e.a.s. horfst í augu við óþægilegan sannleika, sett okkur raunverulega í spor annarra þjóðfélagshópa, áttað okkur á „raunveruleikanum.“ (Já, raunveruleikanum innan „gæsalappa,“ þetta var það háfleygt). Meiningin með göngutúrnum á undan var þá sennilega að koma hugsanaflæði okkar af stað og opna upp á gátt.

Virkaði það? Já. A.m.k. fór hugmyndaflugið í fullan gang. Flestar sýningar sem segja að markmiðið sé að „spyrja spurninga“ eða „fá fólk til að hugsa“ eru yfirleitt frekar misheppnaðar og slíkir frasar einungis tilraun til þess að breiða yfir afstöðuleysi höfundanna og/eða skort þeirra á hugrekki. Ætli það megi ekki segja að Beat the drum sé í alvörunni sýning sem fær fólk til að hugsa. En það er reyndar yfirleitt ekki markmið leiksýnininga, heldur upplifunin. Og kannski er ekki raunverulegt markmið neins listforms að fá fólk til að „hugsa.“ Miklu metnaðarfyllra markmið er auðvitað að slökkva alfarið á hugsuninni því nútímamaðurinn hugsar of mikið (eins og reyndar Beat the drum heldur fram á tímabili).

En aftur að göngutúrnum. Einn af listamönnunum sem heimsótti hátíðina án þess að vera með verk til sýnis, Svisslendingurinn Jessica Huber, tók listafólk með sér í göngutúra vítt og breitt til að ná dýpri samræðum. Lokamarkmið þessa göngutúra og þessara „dýpri“ samræðna er að mynda tengslanet og þó, mögulega verk líka, byggt á þessum samtölum. Án vafa munu fleiri göngu-verk skjóta upp kollinum (það voru fleiri í þeim dúr á hátíðinni sem ég missti af) og það er enn nóg svæði á Íslandi sem ekki er búið að þramma um í listrænum tilgangi. Þrátt fyrir fámennið er Reykjavík með gífurlegt flatarmál, en eflaust væri þægilegra og skemmtilegra að fara út fyrir borgina og ráfa um þorpin. (Það er líka hentugra upp á þann 60-90 mínútna ramma sem fólk vill oft gefa sér).

Að því sögðu eru að sjálfsögðu ógrynnin öll af performönsum í þessum stíl, sem enginn lítur á sem listform enn sem komið er. Að sjálfsögðu er ég að tala um íslenska leiðsögumanninn, sem vafalaust segir sögur í hraunum, fossum og rútum landsins fyrir fleiri manneskjur árlega en öll leikhús landsins samanlagt. Og ég hef heyrt að sumir þessara sögumanna séu býsna skapandi vægast sagt, og lýsi allt öðru landi en því sem ber fyrir augu. Sem er auðvitað hið besta mál, því við erum í raun aldrei að sækjast eftir upplýsingu, einungis upplifun, hvað svo sem við teljum okkur trú um.