Úr sýningunni Milk. Mynd: Sally Jubb.

Edinburgh Fringe: Uppgjör 1 af 3 – Ástin (er kannski sturlun)

Það er ekki hægt að sjá allt á stærsta listviðburði í heimi. En það er hægt að sjá fullt samt. Þó maður sé meira og minna ekki á landinu og með vesen. Hér er umfjöllun um það sem tókst að sjá, því hitt getur maður víst ekki tjáð sig um. Þó maður kannski vildi. Á hátíðinni í ár fannst mér vera þrjú aðal þemu. Fyrsta lagi Ástin (er kannski sturlun), öðru lagi Pólitísk heróp (út í tómið?) og í þriðja lagi Afbygging raunveruleikans (og annað sem erfitt er að festa reiður á). Byrjum á ástinni, hún dugir jú að eilífu. Meira síðar.

Milk eftir Ross Dunsmore – séð 6a ágúst og 24a ágúst

„Love is milk.“ Það er undirtitill, eða slagorð, sýningarinnar Milk eftir Ross Dunsmore. Hvað á hann við? Jú að ást sé næring. En er það nóg? Næring er umfjöllunarefni sýningarinnar sem fylgir þremur pörum, einu um 14 ára, einu um þrítugt og einu um áttrætt. Þau 14 ára eru að reyna að finna útúr þessu með að vera kvenleg eða karlmannleg og hvað hitt kynið sé að leita eftir eiginlega. Er nóg að éta fullt af kjúkling og massa sig til að vinna hjarta stelpu sem heldur að það sé ást ef maður rífur utan af henni fötin fyrir framan alla og finnst maður gay ef maður segist fíla andlitið á henni? Þau um þrítugt eiga von á barni og hlakka mikið til en svo þegar það kemur þá getur hún ekki gefið því brjóst. Er hún þá mamma? Ef faðirinn hefur aldrei átt séns á að gefa barninu næringu er hann þá minna foreldri? Gamla settið hefur einangrað sig, þorir ekki út í unglingahafið sem er eflaust vopnað og á hunda og kemst því ekki út í búð. Hann var einu sinni hermaður og hræddist ekkert en nú sitja þau og dreymir um heitan mat og dagana áður en sonur þeirra dó. En draumar eru ekki nema stundarfró og þau verða að borða á endanum. Hvað nærir okkur í samskiptum okkar við fólk? Hvað er eitur? Og hvað er það sem okkur hungrar virkilega í?

Milk er rosalega vel leikstýrt, hún flæðir vel á milli sena og dansar fallega á línunni milli þess að gefa sig á vald expressionisma og þess að verða hefðbundið drama. Sýningin er “urban” í útliti sínu, neon ljós og steypa, en samt myndast tilfinning fyrir samfélagi, fyrir heimilum og götum og almenningsgörðum. Verkinu tekst að minnast á stór samfélagsmál – kröfur til kvenna á mismunandi aldri, og svo fátæktar og vanrækslu samfélagsins í málum aldraðra, sérstaklega ef þau eru barnlaus – án þess þó að gerast pólitískt verk. Þetta er persónudrama (og þar af leiðandi pólitískt). Sýning sem nartar í hjartað, þrátt fyrir að vera rosalega heteronormatív og hvít (eins og flestir í salnum).

Denton and Me eftir Sam Rowe – séð 25a ágúst

Denton-and-MeRétt upp hönd ef þig langar ekkert að sjá samkynhneigða ástarsögu sem talar bara um það hvað það sé erfitt að vera samkynhneigð/ur! Ég, ég, ég! Denton and Me er einmitt ekki svoleiðis, hún fjallar um líf, list og ástir tveggja karlmanna, einn er skáldið og leikarinn á sviðinu Sam Rowe og hinn er Denton Welch. Báðir segja frá lífi sínu í einhverskonar dagbókarstíl og Sam leikur bæði sjálfan sig og Denton og teiknar upp aðrar persónur af vild, annaðhvort með einföldum brögðum eins og því að setja mismunandi krukkur á borð eða með miklum leikrænum tilburðum. Þeir eru báðir hommar en þeir eiga fleira sameiginlegt, þó annar hafi verið uppi og að skrifa um 1944 og hinn sé þarna lifandi á sviðinu. Þeir leita ástarinnar. Þeir leita samastaðs á nýjum stað. Þeir leita þess að vinna þeirra beri ávöxt, að listin skili sér. Hvorugur talar um að koma út úr skápnum eða fordóma í garð sinn eða elskendur sem neita að viðurkenna kynhneigð sína. Þeir eiga bara sína elskhuga eins og allir og sumir eru þeim kærari en aðrir. Ástin er aldrei borðleggjandi en hér er ekkert sem æpir æ mig auman heldur. Afhverju finnst mér það mikilvægt? Því það að segja hinsegin ástarsögur án þess að einblína á hversu hinsegin þær eru hlýtur að vera merki um að við séum að komast eitthvað, að regnboginn sé orðinn hluti af hinu eðlilega litrófi sem listin málar með.

Sviðsetningin er sniðug, það sem í fyrstu virðist eðlilegt er notað á leikrænan máta og gætt töfrum, eins og þegar hillur lýsast upp og verða klúbbur í London að næturlagi eða þegar fígúra sem sýnir hlutföll mannskepnunnar og er venjulega notuð við teiknikennslu verður ein persónanna og garðkanna gerist regnið og allt í einu stendur viðkomandi í dembunni og horfir til himins, ljóslifandi í gegnum þessi einföldu tákn. Textinn er mjög ljóðrænn og leikurinn svoldið yfirdrifinn til að halda í við textann en það venst fljótt og allt er snyrtilega gert og skýrt.

Það gerist svo sem ekkert merkilegt en manni leiðist ekkert heldur. Þetta er bara svona saga sem segir frá fólki eins og það er og eins og það upplifir samskipti sín við annað fólk. Engin epík, ekkert rosalegt drama, bara gluggi inn í annað líf. Gott ef það er ekki bara svolítið hressandi.

My Eyes Went Dark eftir Matthew Wilkinson – séð 26a ágúst og 28a ágúst

Mynd: Sally Jubb.

Mynd: Sally Jubb.

Talandi um drama. Hér sé drama. Dramarama. Ókei. Eruði til? Maður finnur konu sína, son og dóttur dána í skógi eftir flugslys. Hvað gerðist? Mannleg mistök. En maðurinn sem gerði mistökin er ekki fundinn sekur fyrir dómi. Hvað gerir rússneskur arkítekt sem hefur tapað öllu þá? Er hægt að komast yfir missi án þess að fá einhverskonar hefnd fram gegnt? Nei segir verkið, það er allavega ekki hægt að láta sem ekkert sé. Best er að koma fram hefndum, hvernig sem er. En hver er sök manns sjálfs? Og hver hefnir fyrir hefndina?

Leikskáldið leikstýrir verkinu sjálfur og gefur því enga sviðsmynd, einn búning á hvern leikara (þau eru bara tvö, arkitektinn og allir aðrir sem leikkonan Thusitha Jayasundera fer frábærlega með að skilja á milli) og tvo stóla, hliðarlýsingu og tvö spot. Áhorfendum er komið fyrir beggja vegna sviðsins, leikararnir í miðjunni. Þessi naumhyggja fellur verkinu ágætlega, stokkið er milli staða og fram og aftur í tíma og gefið til kynna með hljóði og stíliseruðum hreyfingum það sem vantar upp á í leikmynd og propsi. Hreint teater. Engir stælar. Þetta þjónar sögunni vel en leikarinn sem fer með aðalhlutverkið, Cal MacAninch, er óþarflega hreinn og beinn í sinni túlkun á persónunni. Rússinn verður of kaldlyndur og köld hefnd hans hryllir frekar en vekur með manni samúð. Textinn er eins og pappír í munni hans og má sýningin einfaldlega ekki við meiri minimalisma. Ástin verður honum að sturlun, en við sjáum of lítið af heilbrigðum karakter til að geta borið saman hvað er honum eðlilegt og hvað er klikkun.

Diary of a Madman eftir Al Smith upp úr verki Gogols – séð 25a ágústDiaryOfAMadman

 
Sagan segir frá málaranum Pop Sheeran sem fær til sín lærling, ungan dreng, sem á að prufa með honum nýja og endingarbetri málningu á Forth Rail Bridge sem Sheeran hefur málað áratugum saman, og hjálpa til, en sonur hans er á hæli og getur því ekki verið honum innan handar eins og hann er vanur. Sheeran fjölskyldan tekur drenginn inn, ein er þó vingjarnlegri en aðrir, heimasætan fellur fyrir unga manninum og hann að einhverju leyti fyrir henni. Vinkona hennar er fengin til að gera búning á pabbann fyrir aðalpartí sumarsins, en áður en að því kemur hefur sá gamli ekið útaf sporinu og leitar nú sönnur þess að hann sé þjánn eins og nágranninn segist vera samkvæmt appi og talar við tuskudýr í líki Grayfriar’s Bobby um svik unga drengsins, þessa nýju málningu og það hvort að eigi að selja brúnna. Allt í einu virðist allt vera að leka úr höndunum á honum, eins og handfylli af málningu.

Diary of a Madman er ein af bestu „hefðbundnu“ leiksýningum hátíðarinnar að mínu mati, fimm manns á sviðinu sem öll leika óaðfinnanlega, sagan er þétt, vel sögð og vel sviðsett, tónlist og sviðshreyfingar efla sýninguna og þó áhorfendur séu vel utan fjórða veggsins er þeim engu að síður aldrei gleymt, sýningin breiðir anga sína út í salinn og dregur þá inn, trekk i trekk og heldur þeim í tæpa tvo tíma án hlés. Staðsetning verksins í Skotlandi er gáskafull og skemmtileg, líkt og aðstandedur hafi viljað blikka áhorfendur. Svo langt er gengið að láta persónur sjá sýningu á Edinburgh Fringe. Ég hef mjög gaman af slíku meta-gríni. Helsti gagnrýnispunkturinn er að mögulega sé verið að gera umræðunni um geðræna kvilla óleik með svo vægðarlausri frásögn, þar sem maðurinn tapar fyllilega sönsum að lokum og telur sig vera Braveheart og hagar sér á mjög ýktan og agressívan máta – en á móti kemur að leið hans þangað er þannig sett fram að hver sem er getur fundið sjálfan sig í henni. Hver hefur ekki verið abbó? Hver skilur ekki að það er erfitt að heyra að það eigi að gera útaf við starfið manns? Hver myndi ekki vera óánægður ef starfsmaður manns sem maður hefur gefið húsaskjól færi að sofa hjá unglingsdóttur manns? Hver vill ekki vera Braveheart? Hver vill að leiksýningar séu fullkomlega sannar raunveruleikanum?

In Fidelity eftir Rob Drummond – séð 26a ágúst

Mynd: Eoin Carey.

Mynd: Eoin Carey.

Ókei. Það er þrennt sem er algjörlega uppáhalds. Þátttaka áhorfenda. Sjálfsævisögulegt efni á sviði. Áhætta eða erfiðar spurningar. Þetta er allt þrennt að finna í verki Rob Drummonds, In Fidelity, sem er deit-þáttur á sviði spunninn saman við áhuga Robs á Darwinisma og eigið hjónaband sem er nú tíu ára langt og er sýningin einhverskonar brúðkaupsafmælisgjöf til konu hans. Fyrst af öllu býður hann þeim sem eru einstæðir og til í að taka þátt upp á svið. Eftir röð spurningar velur hann saman par og það sem eftir er af sýningunni er það par á fyrsta deitinu sínu (og þarf að sinna ýmsu eins og að horfa í augu hvorrar annarrar í eina mínútu, leika Darwin og konu hans og svara þónokkrum spurningum Robs og hvorrar annarrar, allt fyrir framan áhorfendur, spennan en áþreifanleg). Hann segir okkur einnig af Darwinískum ástæðum fyrir því að vera með einni manneskju, hvar ástin á heima í heilanum og hvernig hann rannsakaði það hvernig best væri að velja fólk saman samkvæmt stefnumótasíðum. Hann veltir upp vandanum við að vera trúr einni manneskju ævilangt listilega og áhorfendur eru með í hverju skrefi. Hverjir hér eru í sambandi, spyr hann og við svörum? Hverjir hér hafa haldið framhjá? Afhverju gerðir þú það? Er það framhjáhald að skrá sig á stefnumótasíðu ef það er fyrir sýningu og konan þín veit af því? En ef þú hittir einhvern af síðunni án þess að segja henni frá því? En ef þú hugsar um að sofa hjá einhverjum öðrum? Við svörum með hjartað í buxunum. Á meðan er parið að reyna að finna út úr því hvort það ætli að hittast aftur.

Svona sýning virkar bara ef aðstandendur vita hvað þeir eru að gera og vissulega getur margt farið úrskeiðis. Kannski kemur enginn sem er singúl og vill vera á sviðinu. Kannski eru það allt gagnkynhneigðir einstaklingar af sama kyni sem gefa sig fram. En þegar ég sá sýninguna gekk allt upp. Og sagan af Rob og konunni hans er svo falleg að mann langar til að gráta stórum brúðkaupsgestatárum og brosa. Parið á sýningunni sem ég sá voru tvær ungar bi konur, greinilega opnar fyrir möguleikanum að þetta væri eitthvað og sammála um svo margt. Þær stóðu lengi við barinn eftirá með mat og bjór. Ég vona að þær eigi tíu ár af því að vera hvor annarri trúar framundan. Og konan hans Robs var þarna og grét og brosti og beið eftir honum við barinn eftir sýninguna. Lengi lifi ástin, þó hún sé bara Darwinískt tæki til að búa til og vernda afkvæmi.

Daffodils eftir Rochelle Bright – séð 26a ágúst

Mynd: Sally Jubb.

Mynd: Sally Jubb.

Leikrit með lögum. Er það ekki bara söngleikur? Jú, kannski er Daffodils söngleikur með fundnum lögum en það eru engar dansrútínur og hamingjusamur endir er ekki niðurstaðan sem þessi annars fallega ástarsaga leitar að. Tvær manneskjur eru á sviðinu ásamt hljómsveit, standa við míkrófóna og beina öllum sínum samskiptum til áhorfenda og syngja lög sinnar kynslóðar eins og við á. Hljómborðsleikarinn kynnir þau sem staðgengla foreldra sinna, þetta sé sagan þeirra og hún sé sirkabát sönn. Rose og Eric kynntust við fíflana niðri við vatnið þegar hún var 16 og hann 18 og þegar hann var búinn að ferðast um heiminn eins og hann ætlaði sér giftust þau. Því miður var kreppa á Nýja Sjálandi skollin á og hann fékk hvergi vinnu nema hjá pabba sínum. Pabba sínum sem er kvennaflagari og nýtir næturvaktirnar í hjásofelsi hjá húsfrúm bæjarins meðan Eric vinnur. Rose er þess viss að Eric sé pabba sínum líkur og elur með sér afbrýðissemi um árabil en segir ekki orð og Eric ekki heldur um hvað þetta hjásvæfelsi föður hans syrgir hann. Hér er saga um kreppu, um kynslóð sem ræddi ekki tilfinningar sínar og leyfði samböndum sínum að rotna þar af leiðandi, af sannri ást eyðilagðri með ósannindum og um tíðaranda á stað sem við þekkjum ekki vel til, Nýja Sjálandi. Hún er ekki allra, útsetningar laganna eru samblanda af 60s poppi og nútímatónlist, þessi stíll að leika allt út frekar en til hvors annars böggar suma en heillaði mig og sagan hryggbrýtur mann sem sumum þykir miður en mér þykir gott. Annars væri þetta bara sykurleðja. Ef þig langar í happy-go-lucky ástarsögu skaltu leita annað. En ef þú vilt í staðinn nokkuð einlæga sýn á ástina, ástina sem sögumaðurinn, barnabarnið, forðast vegna þess hve ömurlega hún getur leikið fólk, og ert ekkert of snobbuð á tónlist, þá gæti Daffodils rifið úr þér hjartað eða kannski bara skemmt þér í um klukkustund.

Frankenstein, aðlögun eftir Canny Creatures – séð 29a ágúst

FrankensteinTalandi um að rífa úr fólki hjörtun… Það eru tvær leiðir til að sviðsetja Frankenstein finnst mér: í B myndastíl með dash af gríni eða með það fyrir augum að hræða líftóruna úr fólki með blóði og viðbjóði. Canny Creatures hafa ákveðið að gera hvorugt heldur einblína á Victor og hans sálarkvöl yfir að hafa skapað skrímsli (sem sleppur frá honum næstum strax og hann þekkir ekki baun). Victor Frankenstein er hugsanlega áhugaverð persóna en ekki í leikstjórn Susönnuh Cavill, textinn er stirður og honum komið illa til skila. Skrímsli Frankenstein er áhugaverð persóna en fær hér engan tíma á sviði nema til að segja okkur hvað við séum heppin að vera venjuleg og geta átt okkur félaga til að elska. Hann nær þó ekki að vera brjóstumkennanlegur og vekur engan ótta í brjósti áhorfenda. Elizabeth er ágæt en ástarsaga þeirra Henry´s verður að engu þótt þónokkrum tíma sé varið í hana og þegar Beta fær loksins djúsí texta kemur skrímslið og rífur af henni andlitið (sem væri kúl ef það gerðist á sviðinu en svo er ekki). Ekkert blóð slettist, skrímsli Frankenstein er hávaxinn maður með gráa málningu, Victor er algjörlega snauður persónutöfrum og Henry er til einskis nýtur ef ástarsaga hans skiptir áhorfendur engu. Brúður Frankenstein er í flottum búning og það eru fallegar teiknaðar myndir sem varpað er á bakvegg sviðsins en þar eru upp taldir kostir þessarar sviðsetningar. Hryllingsstimpillinn á að vera merki um að áhorfendur hræðist, ekki að sýningin sé hryllilega vond.