Dómurinn um Blómið

Verulega óþolandi bók, villandi

Áður en ég geri nokkuð annað langar mig að hreinsa andrúmsloftið varðandi tvö atriði. Hið fyrsta er að lesendur muna líklega flestir hvernig ég lýsti sjálfum mér almennt sem „hatara“ þegar ég skrifaði um plötuna hans Snorra Helgasonar fyrir nokkrum mánuðum. Margir kunna spyrja hvar allt hatrið sé, nú þegar komið er fram í þriðju umfjöllun mína fyrir fuglinn og ekkert bólar á neinu nema bullandi ánægju með stórt og smátt. Ég hef líka fylgst með umræðum og umfjöllunum undanfarið þar sem gagnrýnendum er legið á hálsi að vera of „mærðarlegir“, allt að því meðvirkir með listamönnunum sem eru til umfjöllunar. Annarstaðar sá ég grein á ensku þar sem greinarhöfundur spurði sig hvað væri orðið af svokölluðum „hatchet job“ umfjöllunum, þar sem gagnrýnandinn gjörsamlega slátrar viðfangsefninu (sjá t.d. hérna).

Ég tek það sjálfur mjög alvarlega að fjalla um bækur og plötur fyrir vefmiðilinn Starafugl og finnst ég beinlínis hafa skyldum að gegna gagnvart mínum lesendum og öllum almenningi, ekki ósvipað starfsheiðri blaðamanna sem taka þjónustu sína við samfélagið, sannleikann og lýðræðið að minnsta kosti jafn alvarlega og þann hluta starfsins sem heldur blaðamanninum réttum megin við hið þunna haft milli borgaralegs lífs og hreinnar örbirgðar. Ég hinsvegar myndi held ég ekki nenna að skrifa langa umfjöllun um bók sem mér þætti leiðinleg og léleg. Munurinn á tónlist og bókum í þessu tilliti er þá einna helst sá að maður er líklegri til að heyra öll lögin á leiðinlegri plötu heldur en að lesa allar blaðsíðurnar í leiðinlegri bók. Þegar það svo gerist að maður klárar leiðinlega bók þá verður maður bæði forvitinn og einhvernveginn heillaður af því hvað það var sem dreif mann til að halda áfram lestrinum þrátt fyrir allt. Dæmi um svona bók er Chronicles bókin hans Stephen Fry sem ég stútaði um daginn á hljóðbók. Hún fór ótrúlega í taugarnar á mér en samt hélt hún mér við efnið eins og djöfullegur kláði. Ég gat ekki hætt að hlusta og kortleggja í huganum nákvæmlega hvað það var sem irriteraði mig svona; var það þessi uppskrúfaði gáfumannastíll, sem er óþolandi hjá öllum nema sjálfum mér, eða voru það öll skiptin þar sem maðurinn setti þrjú samheiti í röð, stundum stuðluð? Ég veit það ekki. Hitt veit ég að í þetta skipti langar mig að fjalla um nýjustu skáldsögu Sölva Björns Sigurðssonar, Blómið. Fyrst ég var að nefna þessa Stephen Fry bók þá langar mig að fá að láni úr henni stílbragð sem var ekki síður þreytandi en sjálfur stíllinn, nefnilega sá háttur höfundar að láta alla kafla byrja á stafnum C. Í þessum anda ætla ég að láta mína kafla byrja á stafnum V. Af hverju? Ég veit það ekki.

 Vinátta, að vanta e-ð, veiði

Ég, rafvirkinn, á marga vini. Flestir hringja þeir aðeins í mig þá sjaldan að þá vantar eitthvað, oftast rafvirkja. Sumir þessara vina hringja líka stundum þegar þá vantar félagsskap í veiðiferð og eigna sér þannig sérstakan stað í rafvirkjahjartanu. Mig langar að koma því frá sem fyrst að Sölvi Björn, höfundur Blómsins, og ég erum svoleiðis vinir. Það er svo mín einlæga von að þetta atriði geri umfjöllunina mína betri en ekki mærðarlega, meðvirka og spillta. Ég vil meina að vinátta okkar geri mér kleift að fjalla um höfund og bók af meiri þekkingu og dýpt heldur en næsta manni. Vinátta okkar hefur ekki síst byggst upp kringum sameiginlegt áhugamál okkar, veiðina. Það er í þessu samhengi leitt að stangveiðin hefur gegnum tíðina fengið á sig stimpil sem sérstakur vettvangur spillingar. Laxveiðiferðir koma upp í hugann þar sem pólitíkusar og einhverjir drullusokkar plotta eitthvað saman. Stundir okkar Sölva við bakka ýmissa hálendisstöðuvatna hafa þvert á móti verið alþýðlegar, göfugar og hreinar. Við höfum rætt saman um bókmenntir, sem er annað sameiginlegt áhugamál, og þannig kem ég að þessu verkefni núna hafandi fylgst með Sölva sem rithöfundi síðustu fimmtán árin eða svo.

Virtúósó, vinnusiðferði, viðfangsefni

Sölvi telst því miður ekki enn meðal þekktustu höfunda Íslands en nýverið var honum að minnsta kosti lýst sem fjölhæfasta höfundi Íslands af Agli Helgasyni, sjálfum Stephen Fry Íslands. Það er vissulega mikið til í þessu en höfundarferill Sölva telur allt frá ljóðum og ljóðaþýðingum yfir í skáldsögur, ritstjórn og fræðirit. Hann hefur meðal annars spreytt sig á að skrifa ljóð í stíl Dantes og svo samdi hann sonnettur eftir pöntun fyrir síðustu jól. Ég ber persónulega mikla virðingu fyrir manni sem nær að þýða frá bundnu máli yfir í bundið mál almennt, en þýðingar Sölva á sonnettum Keats á sínum tíma voru mikið þrekvirki, ekki síst með tilliti til þess að þýðandinn var 21 árs þegar þetta kom út. Ég læt þetta dæmi flakka með:

Ein nótt í draumi

Hve heitt ég kysi að vikan væri öld,
hver viðskilnaður boð um nýjan fund;
svo ársins gæfa yrði þúsundföld,
og endurfunda að vænta hverja stund.

Hve lengi við í láni ættum þá
slíkt líf, að tíminn sjálfur yrði ei neitt,
en dagsstund hver í draumi liði hjá
sem dýrðleg gæfa yfir lífsskeið breitt.

Ó, hversu ljúft að sigla um heimsins höf
og halda á hverjum degi í fjarlæg lönd.
að lifa allt, án þess að þola töf,
og þétta um líf vort saman eilíf bönd.

Í nótt, ó ástin mín, ég ljóst hef lært
að líf sem slíkt er hverjum manni fært.

(45)

Svo má líka nefna þýðingar Sölva á ljóðum Rimbauds sem hann vann með Sigurði Pálssyni og komu út fyrir þessi jól. Ég á reyndar eftir að lesa þær en get að minnsta kosti dáðst að því í bili að hér er ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Og vissulega er Sölvi fjölhæfur, hann bregður sér í allra kvikinda líki í skáldsögum sínum sem spanna uppvaxtarsögur, sögulegar skáldsögur á gamaldags íslensku og svo ýmsar gerðir af nútímalegra efni. Sú hlið af rithöfundinum Sölva Birni sem hefur oftast fengið rafvirkjahjartað til að slá örar er vinnusemin. Rafvirkinn laðast öðru fremur að listaverkum sem bera vinnustundirnar utan á sér, Eiffelturninn endurskapaður úr milljón eldspýtum, málverk Eggerts Péturssonar og svoleiðis. Þannig lýsti Sölvi því fyrir mér í einni veiðiferðinni að hann hefði áhuga á að skrifa bók um stangveiði á Íslandi, öll vötnin, allar árnar, allar gerðir stangveiði. Viðfangsefnið skyldi ekki takmarkast sérstaklega að neinu öðru leyti. Fyrir mér hljómuðu þetta eins og hálfgerðir órar, ein af þessum hugmyndum sem maður fær öðru hverju og afgreiðir einhvernveginn um leið. Ég hugsaði með mér að annaðhvort yrði ekkert úr þessu eða það kæmi eitthvað brotabrot eftir 20 ár. Ég varð því heldur en ekki hissa þegar verkið kom út tveimur árum seinna í tveim stórum bindum; öll vötnin í öðru og öll stangveiðin í hinu. Svona almennt séð þá hlýtur þetta að vera ótrúlega dýrmætur kostur fyrir rithöfund að búa yfir, að hafa einfaldlega dug í sér til þessa að framkvæma það sem honum eða henni dettur í hug.

Viska, völd, víma

Blómið ber undirtitilinn „saga um glæp“ sem staðsetur söguna nokkuð meðvitað í flóru glæpasagna en það er form sem ég hef mikið hugsað um síðustu ár og þá sérstaklega samband þess við hefðbundnar fagurbókmenntir. Gjarnan er sagt að glæpasagan eigi sér ákveðið upphaf í smásögunni „Stolna bréfið“ (e. “The Purloined Letter”) eftir Poe, en þar var sögunni mjatlað gegnum, Dupin, snjallan rannsakanda sem gjarnan er sagður vera forveri snjalla ransakandans í milljón öðrum glæpa- og spæjarasögum. Það má lengi deila um bókmenntalegt gildi glæpasagna almennt og það viðfangsefni er álíka mikið kviksyndi og deilan um hvað er há- og lágmenning. Klassísk tónlist er til dæmis hámenning alveg þangað til að Pavarotti tekur sig til og syngur einhverjar lummur fyrir milljón manns í Hyde Park, þá hún allt í einu lágmenning. Í þessu samhengi má nefna að japanir hafa hugtökin bungaku (bókmenntir) og jun-bungaku („hreinar“ bókmenntir, mætti jafnvel útleggjast sem fagurbókmenntir) en gráa svæðið þarna á milli er líklega stærra en báðir flokkarnir samanlagt. Til dæmis kemur New York trílógían hans Paul Auster uppí hugann sem glæpasögur sem voru að minnsta kosti lesnar sem merkilegar bókmenntir, hvað svo sem fólki finnst.

Það sem mér hefur venjulega leiðst við hefðbundnar glæpasögur er hve formið er í raun stíft. Maður getur þannig nokkurnveginn hvenær sem er klipið blaðsíðurnar sem eftir eru milli fingra sér og mælt af nokkurri nákvæmni hvar maður er staddur í plottinu. Allur frumleiki innan formsins verður einhvernveginn hjákátlegur. Er aðalsöguhetjan kannski þrívíð andhetja eða andfélagslegur sérvitringur? Nau!

Blómið reyndar fylgir í grunninn hefðbundinni forskrift glæpasögu og lýsir sögu fjölskyldu sem hefur aldrei náð sér eftir barnshvarf 30 árum áður. Við upplifum söguna mest gegnum soninn Bensa, móðurina Guðrúnu og svo Völlu sem er kona Bensa. Sagan gerist að stórum hluta nóttina áður en fjölskyldan hyggst hittast og borða saman kvöldmat í tilefni þess að 30 ár eru liðin frá hvarfi dótturinnar.

Þó söguefnið sé grafalvarlegt og andrúmsloftið bæði tregafullt og beinlínis þrúgandi á köflum, þá finnst manni sagan alltaf drifin áfram af þessu sem gamli kennarinn minn kallaði playfulness á ensku–orðin sköpunargleði og gáski lenda einhvernveginn sitthvorum megin við það–og vildi meina að þar væri sjálf uppspretta ímyndunaraflsins. Stundum er Blómið aflestrar eins og X-files þáttur með lýsandi kakkalökkum, hálfdulrænum kaldastríðstilraunum og frosnu fólki í Rússlandi, en í næstu andrá er sagan komin í röðina fyrir utan Dunkin Donuts og ein allra harmrænasta persóna sögunnar búin að vinna ársbirgðir af kleinuhringjum.

Höfundurinn gefur sér algjört frelsi til að fara með söguna hvert sem er en nýtir sér svo hið hraðsoðna tempó glæpasagna til að koma sér alltaf nokkurnveginn beint að efninu.

Stóra atriðið í þessu öllusaman er einfaldlega það að þó Blómið sé „Saga um glæp“ eins og undirtitillinn segir berum orðum, þá er þetta metnaðarfyllri bók en flestar hefðbundnar glæpasögur, og sjálf frásögnin og atburðarásin bera uppi stærri hugleiðingar heldur en einfaldlega hvað varð um þessa stelpu. Hér speglast nútíminn í fortíðinni, stærri abstrakt hugmyndum er stillt upp hlið við hlið og lesandanum látið eftir að hugleiða samhengið á milli. Hvað hefur hefur viska að gera með kulda og við hvernig kulda er átt? Er það halda að maður búi yfir einhverjum dýpri skilningi eins konar vímuástand eða er það víman sem skapar einhverskonar falska visku? Sókn í peninga og völd spila þarna inní líka, pólitískar hugsjónir og svo á illmenni bókarinnar risastóra hálfniðurgrafna höll einhversstaðar á Öræfum (sem höfundur lýsir sem fallegustu sveit landsins) og minnir mann óneitanlega á eitthvað risahús sem Bakkavararbræður byggðu sér í Fljótshlíð.

Einhverskonar spenna milli gæsku og eigingirni er annað þema og þar blandast kalda stríðið inní sem risastór metafóra (þessi atriði eru rædd í nýlegu viðtali Starafugls við Sölva, sjá hér). Svo má endalaust velta vöngum yfir smærri atriðum s.s. kynleiðréttingum, lyfjaframleiðslu og svo þessari frosnu konu sem minnti mig á múmíuna í Spöksonaten eftir Strindberg. Þetta er ekki tæmandi listi yfir þær hugmyndir sem sóttu á mig að lestri loknum en þessi atriði eru í hinu stóra samhengi eins konar bónus; óleysanlegar gátur sem höfundur lætur flakka með þessari meira hefðbundnu.

Fyrir mér er raison d’être skáldsagna einfaldlega það að lýsa hvernig það er að vera í ákveðnum sporum á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma. Þetta litla atriði hjálpar svo til við að dreifa samkennd, dýpka gagnkvæman skilning og skapa með tíð og tíma paradís á jörðu fyrir öll guðs börn. Það er þetta atriði sem er líklega helsti styrkur Blómsins. Að lestrinum loknum finnst manni maður hafi eytt heilmiklum tíma í tveimur húsum við Sjafnargötuna og upplifað heil ósköp, horft yfir umliðna ævi í sporum þriggja mismunandi persóna. Tilfinningin er ekki ólík því og þegar að mann dreymir eitthvað og er svo á eftir ekki viss hvort að draumurinn hafi verið draumur eða bernskuminning sem er eins og brunnin föst í meðvitundina í daufum útlínum.

Vinsældir, fagurbókmenntir, að brjóta upp mynstrið 

Það má kannski lesa það milli línanna hjá mér að ég sé ekki mikill aðdáandi svona meginstraums glæpasagna og eflaust eitthvað til í því. Það fer almennt séð svolítið í taugarnar á mér hvað þær taka mikið pláss og hve margir virðast lesa sömu tvær bækurnar eftir sömu tvo höfundana ár eftir ár og ekkert annað. Hinsvegar þá er það að láta vinsældir glæpasagna fara í taugarnar á sér álíka gagnslaust og heimskulegt og að láta Justin Bieber fara í taugarnar á sér og því nenni ég ekki. Mér finnst Blómið þó vekja mann til umhugsunar um eitt atriði. Í bókinni fær maður að sjá höfund sem hefur gefið sér algjört frelsi til þess að segja stóra sögu, fara út og suður, og kafa svo djúpt inní sálarlíf persónanna að maður veit ekki á eftir sitt rjúkandi ráð. Þetta algjöra frelsi sem Sölvi gefur sér innan glæpasöguformsins fær mann til þess að spyrja, hversvegna reyna glæpasöguhöfundar ekki oftar að skrifa eitthvað í ætt við fagurbókmenntir? Svarið við því er líklega það að til að skrifa svona bók þarf hugmyndaauðgi, tillfinningalegt innsæi og vald yfir hinu skrifaða orði sem ekki allir búa yfir á sama hátt og Sölvi Björn Sigurðsson. Umfram allt þarf kjark til þess að fullvinna svona brjálæðislega hugmynd, taka stefnuna á jun-bungaku og stað sem er ofar öllum kröfum um vinsældir eða velgengni.