Ég leitaði einskis… og fann

Nokkur orð um Ég leitaði einskis … og fann eftir Hrafnkel Lárusson

eftir

Þorgeir Tryggvason

Ljóðin í þessari fyrstu bók Hrafnkels Lárussonar eru afrakstur langs tímabils og bera þess einhver merki. Eins og höfundur rekur reyndar sjálfur í formála. Hann talar um að í þeim elstu sé „melankólískt tilfinningarót“ kveikja skáldskaparins, en „hugleiðingar um tilveruna“ einkenni nýrra efnið. Engin ástæða til að rengja það.

Í meirihluta ljóðanna vinnur Hrafnkell með rím og stuðla. Á persónulegan hátt, fátt er hér um hefðbundna “bragarhætti”. Ég tel mig svo sem ekki hafa neina yfirsýn yfir íslenska ljóðakurinn, en einhvernvegin grunar mig að tryggð við þessa hefð, eða í það minnsta ívitnun í hana og úrvinnsla úr, sé útbreiddari en einfeldningslegasta gerð bókmenntasögunnar bendir til.

Ég kann ágætlega við margt af því sem ort er á þennan hátt. Mikilvægt er þó að skáldið láti aðferðina ekki taka af sér völdin. Stundum finnst mér Hrafnkell fara halloka í formglímunni. En þegar best tekst fáum við svona:

HVAÐ

Hvað get ég sagt
um gleði og glaum
Hvað get ég sagt
um gráan straum
Hvað get ég sagt
um sorta sandsins
Hvað get ég sagt
um stjórnun landsins

Hvað get ég sagt
við fjölda flóða
Hvað get ég sagt
við firrtum gróða
Hvað get ég sagt
við hrylling heimsins
Hvað get ég sagt
við huldum geimsins

Hvað get ég sagt
er festan fellur
Hvað get ég sagt
er flautan gellur
Hvað get ég sagt
er lygi lýkur
Hvað get ég sagt
er lífið svíkur

Ég veit ekki betur en Hrafnkell hafi sjálfur fundið upp og sett sér þær lúmskt ströngu reglur sem þetta ljóð lýtur. Úr verður einhver þulukenndur seiðandi sem vegur á móti því að það er svo sem ekki verið að “segja” mikið. Og ég er ekki að meina að skáldið sé að „fela“ mögulegt innihaldsleysi – miklu fremur að hann sé að halda á lofti öðrum verðmætum sem ljóðformið, sérstaklega það háttbundna, geymir og býr eitt að.

Ekki fjarskylt þessu er þetta fallega vögguvísukennda smáljóð, sem kallar á lag, finnst mér:

ÓSAGT

Dveldu hjá mér
dag og nótt
Drúpum höfði
allt er hljótt
Hlýja tælir
hug minn blítt
Hjartað tifar
ótt og títt.

Þetta tekst ekki alltaf jafn vel. Ég get til dæmis ekki fellt mig við þetta:

Sölnað lauf
í sólu lá
svefnrof í dormandi borgum
gleymd er í húmi
gæskan svo há
— veröld þín sekkur á morgun

Og svo þrjú erindi í viðbót þar sem m-i miðlínunnar er teflt gegn n-inu í viðlaginu „veröld þín sekkur á morgun“. Hátimbrað en ójarðtengt tungutakið hjálpar ekki, en það er þetta skrítna hálfrím/popprím/Bubbarím/Einarsbárðarrím sem fer alveg með mig.

Annað er lausara í reipunum hér.

Ætli mér finnist ekki lokakafli bókarinnar bestur. Þar er stutt ljóðasyrpa með viðbrögðum Hrafnkels við hruninu. Nefnist „Talað við samtimann 2009“ og byrjar svona:

I – Útrásin
Hér áður fyrr. Það er satt, ég skálmaði um hlaðið
Hvarvetna reis græðgin á ógnarlegt stig
Ég var montinn og siðlaus og átti fríkeypisblaðið
og hélt að allur heimurinn dýrkaði mig

En eitthvað er breytt …

Það er alltaf betra að liggja eitthvað á hjarta og þó þetta sé kannski hvorki hyldjúpt né ýkja háfleygt þá finnst mér eins og Hér nái Hrafnkell vopnum sínum að talsverðu leyti. Það verður fróðlegt að sjá hvert formþreifingar leiða skáldið í framhaldinu. Vonandi verður næsta bók ekki tvo áratugi í smíðum eins og þessi.

Þorgeir Tryggvason