Úr Notre musique, í Sarajevo

Bíó vikunnar: Yfir óbrúanleg bil

Palestína og Ísrael í tveimur myndum frá J.L. Godard

Kvikmyndin Notre Musique, eða Tónlistin okkar, eftir Jean-Luc Godard, var frumsýnd árið 2004. Myndin er að miklu leyti tekin í borginni Sarajevo í Bosníu-Herzegóvínu, og felur í sér, meðal annars, tilraun til úrvinnslu á hugleiðingum um stríð, í kjölfar átakanna í Júgóslavíuríkjunum.

Eins og í mörgum verka Godards eru hér vaktar spurningar með hliðstæðum. Það er, hann leggur ekki samasemmerki á mili ólíkra átaka, en ber þau hvert upp að öðru, í spurn, með áhorfandanum, um hvað er líkt og hvað er ólíkt með þeim. Þannig koma meðal annars við sögu landnemar í Ameríku, Ísrael-Palestína og ofsóknir á hendur gyðingum.

Godard skiptir myndinni í þrennt með skírskotun til Dantes: Helvíti, hreinsunareld og himnaríki. Stærsti hluti myndarinnar á sér stað undir merkjum hreinsunareldsins og fjallar um tvær ungar konur sem ferðast til Sarajevo til að taka þátt í listráðstefnu. Önnur þeirra, frönskumælandi gyðingur af rússneskum ættum, tekur, í atriðinu sem hér fylgir, viðtal við palestínska ljóðskáldið Mahmoud Darwish, í eigin persónu. Þau eiga samræðu sem annars virðist oft ómöguleg. Í þessu broti birtist samtalið í heild:

Átökin í Palestínu hafa áður komið við sögu í verkum Godards. Árið 1970 hugðist hann gera baráttumynd í þágu palestínskra uppreisnarmanna og ferðaðist til svæðisins til að safna myndefni. Verkið tafðist í fjögur ár, því honum þótti hann hafa mætt flóknari stöðu en hann gerði ráð fyrir. Ekki bara pólitískt, heldur snerist flækjustigið líka um myndir sem slíkar: hvað kemst fyrir í þeim, hvað er hægt að birta, hvað er hægt að sjá gegnum þennan miðil. Verkið sem átti upphaflega að heita „Til sigurs“ varð að endanum að myndinni Hér og þar, eða Hér og annars staðar: Ici et ailleurs. Ef marka má orð þular í myndinni, var það sem flækti málið helst þó ef til vill að horfast í augu við dauða. Að uppreisnarmennirnir sem Godard tók viðtal við, og studdi, voru margir hverjir fallnir frá þegar hann settist við klippiborðið skömmu síðar.

Líkt og í verkinu Notre musiqe, og ekki síst í samræðunni hér að ofan, verður viðfangsefni þessarar myndar hið óbrúanlega bil. Bil á milli fólks já, en líka bil á milli myndar og veruleika, bil á milli merkingar og raunar. Eins og í samræðunni hér að ofan vaknar von um að leika megi á slík óbrúanleg bil með því einmitt að játast þeim, með því að gera þau sjálf að viðfangsefni. Í þessu tilfelli, meðal annars, með því að sýna ekki bara myndir heldur viðtakendur og viðtökur myndanna. Brotið hér að neðan er úr upphafsatriði myndarinnar: