Prins Póló, hann bregður á leik

Tónlist vikunnar: „París norðursins“ – Lag sumarsins er fundið!

Lag sumarsins er svo sannarlega fundið.

Ekki ætti að dyljast neinum að undirritaður er mikill aðdáandi Svavars Péturs Eysteinssonar og hans verka, bæði þeirra er Svavar gerir á eigin spýtur sem þeirra sem hann vinnur í samstarfi við ýmsa vini og kunningja; konu sína Berglindi Häsler, Árna Rúnar Hlöðversson úr FM Belfast og gítarleikarann knáa Örn Inga Ágústsson svo dæmi séu tekin. Enda engin ástæða til að skammast sín fyrir blygðunarlausa og opinminnta aðdáun á því sem frá honum hefur komið og óþarfi að tíunda það frekar að sinni (áhugasamir geta lesið viðtal  sem Tónlist vikunnar átti við Svavar Pétur síðla síðasta vetrartil að fræða sig frekar).

Því kom ekki sérstaklega á óvart að þegar besta lag sumarsins fannst, þá var það úr fórum Svavars, þá í gerfi Prins Pólós.

Lagið heitir París norðursins og er af sándrakki samnefndrar kvikmyndar, sem mun koma út í haust. París norðursins fór í spilun um daginn og eftir að hafa heyrt það  óma tvisvar eða þrisvar úr eldhúsinu sannfærðist ég sannarlega um gæði þess. Laglínan er skemmtileg og hressandi, bítið dansvænt og textinn er með því betra – og alvarlegra – sem Svavar hefur sent frá sér („Frændi – rændi mig æskunni“!). Hygg ég að flestir þeir, sem hafa alist upp í sjávarþorpum landsins, kannist við viðfangsefnið af eigin raun og úr miklu návígi.

Svavar var svo góður að deila með lesendum Starafuglsins niðurhali af laginu sjálfu, auk texta þess, sem má lesa hér að neðan.

Njótið vel!

PRINS PÓLÓ – PARÍS NORÐURSINS (hægri smella og ‘save-as’)

Fögur fyrirheit á blússandi siglingu
á ullarnærfötum í grenjandi rigningu
stími heim í heiðardalinn
góður strákur og vel upp alinn.

Mikið verður gott að knúsa kerlu
Erlu, Erlu, Erlu, Erlu góðu Erlu
sem giftist mér því ég kunni að skaffa
sjómaður og sonur hans Haffa.

Hlakka svo til að hitta börnin
Maríu Hænu, Hafþór og Örninn
vinna upp tíma, klippa smá og líma
í eltingaleik fram að háttatíma.

Hafið – Ég þekki ekki annað
Afi – var harðmenni annálað
Mamma – sultuslök nunna
Systir mín – Gunna þunna
Brósi – var örugglega vangefinn
Frændi – rændi mig æskunni

En þegar heim er komið bíður mín flaskan
og á tröppunum stendur ferðataskan
Erla góða, fór með vini á hestbak
síðsti túr hann keyrði um þverbak.

En þegar botni er náð er bara að standa upp aftur
þetta veit hver heilvita raftur
batnandi mönnum er best að lifa
hinir geta bara étið hundaskít og slefað.

Hafið – Ég þekki ekki annað
Afi – var harðmenni annálað
Mamma – sultuslök nunna
Systir mín – Gunna þunna
Brósi – var örugglega vangefinn
Frændi – rændi mig æskunni