MUCK fremja list.

Tónlist vikunnar: MUCK er fágætt og dýrmætt rokkband

Ef einhver myndi spyrja mig einhverntíman hver mér þykir vera mest spennandi, mest ögrandi rokkhljómsveit Reykjavíkur, þá myndi ég örugglega segja eitthvað svona:

„Það er góð spurning. Það er að mínu viti fátt sem skiptir meira máli en góð, spennandi, kraftmikil og ögrandi rokkhljómsveit. Þær fremstu fela í sér einhvern sameiningarmátt, eitthvað afl sem getur bundið saman heilt (og stundum stórt) herbergi af ólíku fólki í kvöldstund, þannig að allar verða saman í liði, þannig að allar trúa á það sama og elska hvora aðra. Mínus var svoleiðis mikilvæg, spennandi, kraftmikil og ögrandi rokkhljómsveit. Ég fékk alltaf smá í magann þegar ég sá þá spila, ég kiknaði alltaf pínu í hnjánum og stundum varð maður pínu skelkaður. Singapore Sling er önnur svoleiðis hljómsveit. Þær hafa verið nokkrar. Rokkhljómsveitir. Skátar líka. Ég reyni að vera í svoleiðis hljómsveit með vinum mínum. Og það tekst stundum“

„En, það er oft langt milli svoleiðis hljómsveita. Það er fullt af frábærum rokkböndum sem ná ekki því marki að vera svoleiðis hljómsveitir en skila samt sínu 100%. Þetta ögrandi, spennandi rokkband er fágætt, dýrmætt; það þarf stuðning úr umhverfinu og heppni og hroka.“

„Í dag, þá þykir mér tvær Reykjavíkur-rokksveitir erta mig þannig að ég gæti orðið hræddur á tónleikum með þeim, þannig að ég finn mig í einhverri stærri hreyfingu þegar ég smeygi mér inn í áhorfendahópinn (það eru nokkrar fleiri, við dyrnar). Önnur er fyrirsjáanlega Grísalappalísa, sem hefur tekist með blöndu af ærslagangi, tækninördisma, hroka og melódísku skynbragði að veiða alla listrokkpésa eins og mig sjálfan í eitthvað net.“

„Hin er svo hljómsveitin MUCK. Hún hefur búið í hjarta mínu og lendum um langt skeið—frá því ég datt fyrst óvænt inn á performans um mitt ár 2009—og skapað miklar væntingar. Það var undireins greinilegt að MUCK höfðu mikið að bjóða, að þarna var ástríðufullur kjarni sveittra ungra manna samþjappaður í þéttasta rokköfgajúnit sem Íslendingar höfðu séð síðan Halldór Laxness-Mínus var upp á sitt besta. Berir að ofan, glaðir í bragði, háværir, síðhærðir og ófyrirleitnir, þrumandi út taktföstu surgi og öskrum yfir gleraugnagláma og listaspírur.

Þeir veiddu mig strax.“

Þetta myndi ég semsagt kannski segja einhvern daginn. Það er allavega engin lygi að ég hef mikið yndi af hljómsveitinni MUCK, og óska liðsmönnum hennar alls hins besta. Hún eru óumdeilanlega ein af þessum hljómsveitum sem Skipta Máli, eða hafa allavega færi á því að gera það, ef meðlimirnir eru duglegir og sannir. Af því tilefni þótti mér kjörið að reyna að fá að gefa lesendum Starafugls ókeypis lag með MUCK, og að reyna kynna þeim hljómsveitina með smá viðtalsbrögðum.

Þegar mér datt þetta allt í hug var sá eini í hljómsveitinni sem var vakandi á Facebook trommarinn Ási Þórðarson. Þetta var síðla kvölds hjá mér í Ameríku, en Ási var í Berlín (hvar hann gerir út með hljómsveitinni FM Belfast, en hún hefur þar beis meðan herjað er á Evrópu) og þessvegna var hann nývaknaður og ferskur. Mér tókst að véla hann til að gefa okkur lag til niðurhals (tilvalið á iPodinn!) og það er hér.

Og svo spurði ég hann hvað hann hefði verið að bauka upp á síðkastið:

„Ég fór á geggjaða tónleika í gær, með bandi sem heitir Rah Rah frá Kanada,“ segir Ási. „Þetta var eitt af skemmtilegri læv böndum sem ég hef séð í langan tíma. Annars geri ég mikið af því að ganga og hlaupa og borða góðan mat. Svo er ég að lesa Mánastein eftir Sjón [athugasemd greinarhöfundar: þegar viðtalið var klárt var Ási ekki í Berlín, heldur í Barcelona, hvar hann var niðurkominn til að spila á Sónar hátíðinni með FM Belfast. Hann var nýkominn af leyni-bransatónleikum með Massive Attack þegar hann svaraði síðustu spurningunum].“

Hvað heitir lagið sem ég plataði þig til að gefa Starafuglum? Og hvernig lag er þetta, hvað geturðu sagt mér um það?
Lagið heitir TIME og er af internetútgáfu sem við gerðum fyrir nokkru. Það verður líka á plötunni okkar, sem er væntanleg í október. Ég dýrka þetta lag ótrúlega mikið. Skemmtilegt, short and sweet svona. Fjallar um að segja bara „fokk it!“ og láta verða af hlutunum einhvernvegin.

Nú segirðu að lagið fjalli um að segja fokkit og kýla á hlutina—mjög góð skilaboð og ég tek glaður undir þau. En ég hérna er búinn að hlusta á lagið alveg frekar oft, og hafði ekki hugmynd um þetta. Því ég heyri ekkert textann. Hvernig er það með svona rokkmúsík eins og þið gerið, þar sem menn öskra svona mikið, er textinn til einhvers? Kemst hann til skila? Heyrir fólk hann?
Ég veit það ekki. Við höfum verið að láta texta á netið til að hjálpa fólki að syngja með og skilja betur um hvað þetta snýst. Ég veit samt ekkert hve margir hafa lesið eða reynt að hlusta ítarlega. Ég held að tilfinningin sem maður fær af því að hlusta á tónlist sé ofsalega mismunandi, eftir því hvað tónlistarmennirnir eru að hugsa, hverju þeir eru að reyna að koma á framfæri. Þannig getur textinn haft mikil áhrif, jafnvel þó hann heyrist ekki greinilega. Það á við um pönk og hardkor músík eins og annað.

Af hverju veist þú um hvað lagið er?
Ég hef verið að skoða alla textana okkar og reynt að setja mig inní þá. Vera búin að lesa yfir og svona þegar við tökum upp. Það mælir fyrir um heppilega stemmningu í laginu, býr til einhverja orku. Þegar við vorum að byrja að spila á sínum tíma lagði ég meira að segja nokkra lagatexta til; ég hef alltaf haft áhuga á þessari hlið lagasmíða.

Hljómsveitin MUCK kann að gleðjast, eins og aðrar manneskjur

Hljómsveitin MUCK kann að gleðjast, eins og aðrar manneskjur

En varðandi að geta heyrt textana, er þetta kannski svipað og gerist með rappmúsík (eða gerðist allavega hjá mér)? Lærir maður hægt og rólega á hrynjandina og framburðinn, þannig að maður fer á endanum að greina orðaskil?
Já, ég held að það sé stundum þannig. Sum bönd skilur maður síður. Ég á til dæmis mun erfiðara með að átta mig á því hvað fólk er að segja í dauðarokki og svartmálmi en í hardkormúsík, það hefur mikið með raddbeitingu að gera býst ég við. En ég les texta í músík sem ég fíla eða kemur við mig. Textarnir skipta miklu máli, þeir dýpka skilning á hugverkinu og gefa samhengi í tónlistina.

Þannig að maður þjálfast í að hlusta á svona hardkormúsík?

Já, ég held þetta sé eins og með allra aðra músík, maður lærir að hlusta á hana og greina núansa og smáatriði sem skipta máli og auðga heildarverkið. Þetta snýst allt um að taka sér tíma til að meta það sem maður er að hlusta á, að vanda sig, stunda virka hlustun, gefa orku. Sama hvað maður er að gera, það skilar sér alltaf ef maður vandar sig. Sýn manns á veruleikann dýpkar og maður lærir betur að meta allar hliðar hans.

Þegar ég byrjaði að hlusta á hardkor höfðaði fyrst krafturinn til mín og táldróg mig, hann er svona skínandi yfirborðið, en með tíma lagði ég mikið á mig að skilja hvað verið var að tala um og hvað var að gerast í músíkinni. Ég áttaði mig smám saman á allskonar smáatriðum sem voru í gangi, litlum hlutum. Nú elska ég alla músik og sama hvort það er öfgarokk eða indípopp, önnur þriðja eða fjórða hlustun er það sem skilar mestri upplifun, þá tekur maður kannski eftir ógeðslega næs trommubreiki, eða dúndrandi bassalínu, eða textabroti—þessir núansar sem ómeðvitað draga mann að lagi eða hljómsveit. Eins og til dæmis [hardkorbandið] Converge; þeir eru með ótrúlega sérstakan hljóðheim sem tilheyrir þeim einum—þeir hafa þróað hann áfram og eru enn að, með organdi gíturum, öskrinu hjá Bannon… Þessir mismunandi þættir gera tónlistina að því sem hún er.

Nú má ætla að margir lesendur þessarar annars ágætu greinar séu ekkert sérstaklega kunnugir um hardkormúsík . Gætirðu gefið góðar uppástungur um hentuga inngangspunkta?
Ef fólk vill koma sér inn í hardkor, þá held ég að það gæti verið kúl að hlusta á plötur eins og

Witness, með Modern Life is War


(þetta er lagið Martin Atchett)

Jane Doe, með Converge

(Þetta er lagið Heaven in her Arms)

Damaged, með Black Flag

(Þetta er lagið Six Pack)

Out of Step með Minor Threat

(Þetta er lagið Out of Step)

OK, hér að ofan eru nokkur lög sem ég fíla ótrúlega mikið og held að ættu að duga til þess að koma fólki inn í stefnuna. Í framhaldinu má náttúrulega fara skoða hina ýmsu króka og kima þessara stefnu, því núansarnir eru margir. Það er svo margt í þessu sem er svo ótrúlega gott.

Spila Muck fyrir ákveðna tegund af fólki? Getur Muck raunsætt vonast til þess að höfða til allra?
Nei, ég held ekki. En ég veit það ekki. Það er kannski ógeðslega mikill einfeldningsháttur, en ég held að fólk geti fundið eitthvað sem það fílar allsstaðar, ef það gefur séns og er opið. Þú átt auðvitað aldrei eftir að þola allar gerðir tónlistar, en ef þú ert forvitinn og leggur þig eftir því að skilja, þá verður þér verðlaunað.

Þið eruð samt svona að spila fyrir tiltölulega afmarkaðan hóp. Af hverju viljiði ekki höfða til allra?
Við viljum auðvitað höfða til sem flestra, og reynum að spila fyrir mismunandi krád að því marki sem við getum. Við spiluðum mikið á dauðarokkstónleikum þegar við vorum að byrja, en við virtumst reyndar alls ekki ná til þess hóps. Það er auðvitað ákveðinn besserwissaháttur alltaf í svona litlum samfélögum öfgamanna. Þetta er sterkt í BNA, ég tók eftir því þegar við vorum þar. Við hittum fullt af fólki sem fílaði bara kröstpönk. Eða bara deþþmetal. Eða bara líkkistumússík. Almennt finnst mér samt öfgamenn á Íslandi rólegastir í þessu.

Þegar við vorum að byrja þá fann maður að við vorum hardkor band og settir í hóp með slíkum böndum, I Adapt, og þeim. Það var ákveðin stemmning tengd þeim hópi, PC og jákvæð. Dauðarokkararnir vildu meira svona Severed Crotch fíling, blastbeats og dauða.

Þannig að við spilum vissulega fyrir ákveðinn hóp, en á sama tíma viljum við auðvitað ná til allra. Kreðsan sem við höfðum til er stór, en ekki topp-fjörutíu stór. Það væri gaman að leyfa sem flestum að heyra og taka afstöðu. Mér finnst það skemmtilegt langtíma markmið, að ná til allra með því að spila öfgarokk, líka þeirra sem fíla bara popp.

Að því öllu slepptu samt, þá byrjar bandið af því að okkur finnst gaman að spila saman og hanga saman í bílskúr og spjalla saman og skapa eitthvað. Þó við viljum auðvitað að sem flestir heyri, þá erum við fyrst og síðast saman af því að það er gaman að skapa í góðum hópi.

Muck taka því rólega í New York

Muck taka því rólega í New York

Hver eru átrúnaðargoð hljómsveitarinnar MUCK, hverja myndirðu telja fyrirrennara sveitarinnar?
Maður verður náttúrulega að segja I Adapt, sú hljómsveit tengdi okkur saman. En það er kannski erfitt að tala um átrúnaðargoð, held að þarna sé meira um að ræða hljómsveitir sem við fíluðum allir. Loftur var í Fighting Shit og það á stóran part í bandinu. Og ég veit það ekkki, þungarokkssenan á íslandi 2000-2005 á stóran part í bandinu. Celestine. Það band á til dæmis stóran part í þessari hljómsveit.

Hvaða plötur hafiði gefið út?
Við gáfum út plötuna VULTURES árið 2009 minnir mig. Þá vorum við með söngvara. Sama ár gáfum við út lítið fjögurra laga demó, í tilefni af því að við bókuðum reyndar strax lítinn túr þá um sumarið. Sá túr varð til þess að MUCK byrjaði að spila hraðar, því við spiluðum með grindcore böndum útum alla Evrópu. TOUR EP hét það.

Síðan kom SLAVES út árið 2012.

Hvernig hafa þessar plötur selst?
Eina sem hefur selst af viti var SLAVES sko. Kongó og Kimi dreifðu henni og hún seldist í einhverjum, ég veit það ekki alveg… Við gerðum allavega 1000 eintök og svona rúmlega helmingurinn af þeim hefur selst.

En á netinu?
Við erum með sterkt internet presens, en erum ekki að selja músík þar, nema á Bandcamp. Við erum ekki á iTunes eða Spotify eða neitt svoleiðis. En á Bandcamp eru alltaf að detta inn 7-8 dollarar af og til.

Hefurðu einhverntíman þénað af því að spila músík?
Nei. Sko. En það er samt oft sem ég hef ekki komið út í mínus. Og það er ákveðinn sigur. Við höfum aldrei hagnast held ég, allt sem bandið þénar fer í kostnað, en erum samt rosa heppnir að fá borgað fyrir að spila. Við spiluðum reyndar á Listahátíð og fengum fín laun fyrir það. En, aftur, þau fóru auðvitað öll í kostnað.

Gerirðu engar kröfur af lífinu, um að geta unnið fyrir þér með því að spila músík?
Auðvitað langar mig að geta lifað af tónlist, og eins og við gerum núna þá erum við allavega að mestu hættir að þurfa borga með okkur í bandinu. Það er mikill sigur fyrir rokkband. Í kjölfarið þurfum við kannski að gera meiri kröfur um að fá borgað fyrir að spila, þegar við erum að spila á stærri tónleikum og svona. Það hefur verið að virka, en óverheddinn er mikill, það tekur tíma að byggja sig upp í þetta.

Akkurat núna er ég ánægður þó ég komi út í mínus, meðan við erum að byggja þetta upp og á meðan við skemmtum okkur konunglega. Einhvern daginn á ég svo kannski eftir að eiga fyrir góðum falafel eftir tónleika.

Hvar er metnaðurinn? Ég meina, ef þú værir að sækja um vinnu, værirðu til í að fá bara borgað einhverntíman…?
Sko, ef maður horfir á band eins og til dæmis, Sólstafi, sem hefur tekist að gera sína sköpun að lífsviðurværi með þrotlausri vinnu, þá finnur maður von. Þeir eru vissulega að spila aðgengilegra form öfgarokks en MUCK, en það er samt sem áður öfgarokk. Það er séns að það takist hjá okkur að safna nægu liði til að geta sinnt þessu í fullu starfi, og það er það sem ég hef metnað til.

En það mikilvægasta er alltaf tilfinningin sem kemur þegar maður stígur á sviðið, þegar maður stígur af því; þegar allt er brotið og bramlað fyrir framan mig, allir sveittir og krádið búið að vera magnað.

Það gefur brjálað endorfín kikk, það engu líkt.

Það er ógeðslega gott og það er þessvega sem ég spila. Ég átti í smá rökræðum við sjálfan mig nýverið, um hvort ég ætti kannski bara að reyna að byrja í kóverbandi sem spila reglulega á Hressó til að geta fengið greitt fyrir músík og auðveldað lífið. En það er ekki það sem ég vil.

Það sem ég vil er að njóta samvista með þremur af mínum bestu vinum, að lenda í ævintýrum með þeim og stunda óhefta sköpun.

Lífið er of stutt til að hengja sig á meikið. Það á bara að vera ógeðslega gaman.

MUCK hafa alltaf verið ákaflega duglegir að fremja varning. Hér er MUCK varningur.

MUCK hafa alltaf verið ákaflega duglegir að fremja varning. Hér er MUCK varningur.

Umhverfið krefur þig heldur ekkert um að þurfa meika það, er það nokkuð? Enn er á Íslandi nokkuð öflugt félagsnet og aðgengi að þjónustu og lífsgæðum fyrir fólk sem þénar ekkert sérstaklega vel. Og þið vinnið auðvitað allir utan hljómsveitarinnar. Einhverntíman heyrði ég talað um Íslendinga sem „a nation of dabblers,“ ég skildi punktinn á þann veg að vegna góðra aðstæðna hér á landi gæti fólk vesinast í hinu og þessu—ritstörfum, tónlist, íþróttum—af gamni sínu, af ánægju, án þess að þurfa leggja líf sitt og viðurværi að veði. Mér þótti þetta skemmtilegur punktur.
Nákvæmlega. Það er þægilegt hérna og við búum við góðar aðstæður til að gera ögrandi list.

En varðandi tónlistarhark er líka annar faktor sem má ræða, með tónleikastaði og þeirra viðleitni til að halda niðri tónlistarfólki með því að borga almennt léleg laun og gefa lélega díla.

Maður finnur fyrir því. Það eru þó blikur á lofti og ég bind vonir við nokkra tónleikastaði í Reykjavík sem hafa verið að spretta upp.

Heldurðu að það sé markmiðið, að halda niður böndum?
Neinei. En maður veltir vissulega fyrir sér forsendunum þegar maður spilar á einherjum stað kvöld eftir kvöld og fær alltaf bara einn og hálfan bjórmiða fyrir—meðan fjöldi manns stendur í salnum og nýtur tónlistarinnar ásamt drykkjarfanga sem staðarhaldarar selja með fínni álagningu.

En er ekki á hljómsveitanna ábyrgð að segja stopp?
Jú vissulega. En það eru allir svo komplexaðir og skitsó í þessum músíkheimi. Allir svo til í að spila fyrir ekkert, allir með efasemdir um eigin virði.

Það sýnir sig samt líka hversu komplexaður maður er sjálfur að ég tala hér áðan um að vera sáttur við að koma út á núlli, en svo þarf maður náttúrulega peningana til að lifa

En nú fóru Monsters og Men örugglega strax að biðja um pening fyrir sína tónleika, er það ekki? Eiga böndin á jaðrinum erfiðara með þetta? Og er það kannski fyndið, því þau í raun halda uppi senunni með stöðugri virkni—það er spurning hvort að stærri bönd sem þéna vel hefðu sama tilverugrundvöll ef ekki væri fyrir öll litlu jaðarböndin sem spila vikulega fyrir einnoghálfan bjórmiða?

Og ertu kannski að gleyma kostnaðinum sem felst í því að halda tónleika, leigja græjur, borga laun og svona? Þarf það ekki að koma einhversstaðar frá?

Já ég veit það ekki. En samt. Ef band púllar inn áhorfendur sem allir kaupa einn eða tvo bjóra á áttahundruð kall þá kemur innkoma. Böndin hafa vanalega verið að taka kostnaðinn á hljóðmanninum á sig svo það minnkar svosem overheadið sem staðurinn þarf að leggja út fyrir.

Þetta er erfiður bransi samt, hvort sem það er fyrir tónleikahaldara og tónlistarmenn. Maður óskar samt kannski aðeins meiri samvinnu og að fólk beri meiri virðingu fyrir hvort öðru.

En hvernig er þetta, með samband jaðarbandanna og stærri artista? Ég hef svoldið verið að velta því fyrir mér upp á síðkastið. Til þess að stærri konsertbönd, eins og ég veit ekki Retro Stefson eða eitthvað, hafi tilverugrundvöll og hóp aktívra tónleikagesta að leita til, þá þarf að vera öflugur jaðar sem sér um að það sé alltaf eitthvað í gangi? Svona einhverskonar ekólógía tónlistarsenunnar. Er þetta einhver pæling heldurðu?

Ég veit ekki hvort það sé alveg svo einfalt. Allir byrja náttúrulega að einhverju leyti á jaðrinum og með tíð og tíma verða aðdáendahópar til, sumir stórir og sumir litlir. Ég held að á Íslandi séum við með sérstaka og jafnframt frekar flókna tónlistarsenu og því erfitt að ræða þetta á slíkum forsendum.

MUCK njóta sín í heimi listarinnar.

MUCK njóta sín í heimi listarinnar.

Nú MUCK hefur haft talsverða tengingu við heim listarinnar. Geturðu sagt mér aðeins frá því?
Já, þetta er fyrst og fremst af því að bæði Kalli [söngur, gítar] og Indriði [söngur, gítar] stunduðu nám við LHÍ og eru viðloðandi allskonar listaverkefni. Við einhvernveginn duttum hægt og rólega inn í að spila með allskonar indíböndum svo að spila á listasýningum—ogsvo að taka þátt í gjörningum og slíku. Þetta vatt rosalega upp á sig.

Ég held að öfgarokk og svona abrasive tónlist henti mjög vel fyrir marga anga myndlistarinnar, sérstaklega jaðarmyndlist.

Af hverju?
Mikið sem fólk er að gera á þeim sviðum gengur oft út á að vekja fólk til umhugsunar, sjokkera eða kveikja í því hreinlega. Þá held ég að sé ógeðslega gott að hafa pönkband á kantinum sem spilar geðveikt hátt og keyrir skilaboðin inn.

Sjokkerar pönk og harðkjarni einhverja ennþá? Eru ekki allir orðnir vanir svona látum?
Já, það er spurning? Kannski stemmningin núna snúist meira um að gera fólki bara illt í eyrunum? Sjokkið er kannski fyrir mér meira en bara andlegt ástand, það getur líka verið

Talandi um að vekja fólk til umhugsunar… Er hljómsveitin MUCK í uppreisn gegn einhverju? Er hún brjáluð útí eitthvað?
Við höfum ekki ákveðið neitt með að við séum í uppreisn, ég man allavega ekki eftir neinum svoleiðis hljómsveitarfundi. Hljómsveitin hefur aldrei verið pólitísk, það má raunar segja að það sé yfirlýst markmið okkar, að vera ekki pólitískir.

Af hverju?
Sem einstaklingar erum við auðvitað pólitískir. Við ræðum málefni liðandi stundar og skiptumst á skoðunum. En hvað varðar hljómsveitina, þá viljum við ekki takmarka listsköpun okkar við pólitískar upphrópanir. Það er takmarkandi, okkar sköpun snýst um annað og meira held ég. Ég veit ekki alveg hvernig ég get lýst því, en það er staðan.

Er þetta ekki bara koppát?
Hahahaha. Jú kannski er þetta koppát en við höfum allavega viljað halda þessu frá bandinu. Að minnsta kosti hvað varðar textagerð og svona.

Er það meðvituð ákvörðun
Allavega textalega. Við reynum að hafa þetta opnara.

Af því ykkur langar að höfða til Sjálfstæðis- og Framsóknarfólks eða hvað?
Alveg jafn mikið til þeirra eins og allra annara í heiminum held ég. Þú þarft ekkert endilega að vera últra PC straightedge vegan warrior til að mega hlusta á þungarokk.

MUCK fremja oft öfgatónlist

MUCK spila oft öfgatónlist

Það hljómar kannski rosalega passíft, en það sem ég tók með mér úr hardkor/pönk senunni sem ég tók þátt í þegar ég var yngri var að bera virðingu fyrir manneskjum og mínu umhverfi. Það gerir engum gagn að útskúfa, við verðum dálítið að sjá og viðurkenna að allir eru mismunandi. Það eru engar reglur sem þú verður að uppfylla til þess að mega fíla eitthvað eða finnast eitthvað áhugavert… allavega hugsa ég ekki þannig. Ég fíla ekki Sjálfstæðisflokkinn eða Framsókn, en það gerir mig samt ekkert að einhverjum einvaldi yfir því hverjir „mega· fíla tónlistina sem ég skapa.

Meikar þetta sens? Er ég kannski bara orðinn algjör lúser? Hahahah

Alls ekki. Þú ert alltaf #winning.