Luca Belgiorno-Nettis. Mynd: Transfield Holdings.

Stjórnarformaður Sydneyjartvíæringsins segir af sér

Luca Belgiorno-Nettis, stjórnarformaður Sydneyjartvíæringsins og forstjóri Transfield Holdings, sagði af sér fyrir helgi í kjölfar afdráttarlausra mótmæla ótal listamanna vegna reksturs Transfield Services, eins af undirfyrirtækjum Transfield Holdings, á búðum fyrir hælisleitendur, meðal annars á Manuseyju. Transfield Holdings hefur verið aðalstyrktaraðili tvíæringsins frá upphafi en nú hefur verið skorið á tengsl við fyrirtækið. Mótmælin birtust fyrst sem yfirlýsing frá ríflega 40 af þeim listamönnum sem boðin hafði verið þátttaka og svo sem afsögn níu þeirra – þar af fulltrúum Íslands, Ólafi Ólafssyni og Libiu Castro. Málefni búðanna komust í kastljósið eftir að hælisleitandi lét lífið í óeirðum á búðunum og tugir annarra slösuðust. Belgiorno-Nettis fjölskyldan hefur verið helsti bakhjarl hátíðarinnar frá því hún var sett á fót árið 1973 af föður Luca, Franco Belgiorno-Nettis, sem einnig stofnaði Transfield Holdings.

Að því er fram kom í yfirlýsingu frá stjórn tvíæringsins var afsögn Belgiorno-Nettis tekið með tregðu og var honum þakkað persónulegt framlag sitt síðustu 14 árin. Þá var fjölskyldunni einnig þakkað fyrir sitt gríðarmikla framlag í 41 ár. „Við höfum hlustað á listamennina sem eru hjarta hátíðarinnar og ákveðið að binda endi á samstarf okkar við Transfield þegar í stað.“

Í yfirlýsingu frá Luca Belgiorno-Nettis sjálfum viðurkenndi hann að sniðganga listamannanna væri aðalástæðan fyrir brotthvarfi sínu úr stjórn. „Nú þegar margir þátttakenda eru klofnir í afstöðu sinni vegna hollustu við listrænan stjórnanda hátíðarinnar annars vegar og andstöðu sinnar við stefnu ríkisstjórnarinnar hins vegar, hvílir dökkt ský yfir anda hátíðarinnar“, sagði hann.

Í viðtali við Books and Arts Daily í Ástralíu í dag var meiri þjóstur í okkar manni. Sagði hann meðal annars að stjórnin hefði ekki þvingað hann til afsagnar. „Þetta var mitt val og ég valdi þetta vegna þess að ég gerði mér grein fyrir skriðþunga þessara radda sem héldu áfram að gegnsýra og eitra hugi listamannanna … nú getur enginn haldið því fram að óorð sé á tvíæringnum“. Hann bætti því við að hann hefði ekkert á móti aðgerðastefnu „en þegar hún grípur til meiðyrða og fólk heldur áfram að segja að við séum „siðferðislega spillt“ lít ég á aðgerðirnar sem siðferðislega óverjandi.“

Í yfirlýsingu þeirra fimm listamanna sem fyrst sögðu sig úr hátíðinni sagði meðal annars:

Við höfum afturkallað verk okkar, aflýst opinberum uppákomum og afsalað okkur þóknun. Sem þátttakendur í Tvíæringnum höfum við leitað leiða til að koma á framfæri mikilli andstöðu okkar við stranga stefnu ástralskra yfirvalda í málefnum hælisleitenda og komist að þeirri niðurstöðu að uppbyggilegasti kosturinn í stöðunni sé að hætta við þátttöku. Við samþykkjum ekki þann vettvang sem Transfield býður á Tvíæringnum til gagnrýni. Við sjáum þátttöku okkar í Tvíæringnum sem virkan hlekk í keðju hugrenningatengsla sem leiðir til mannréttindabrota. Fyrir okkur verður þessu hvorki neitað né það varið.

Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa á ensku á Starafugli.

Mynd: Transfield Holdings.