Mynd: Málverk eftir Ásgrím Jónsson.

Samkomulagið

Jólasaga eftir Snæbjörn Brynjarsson

1.

Sækja Samkomulagið
sem rafbók:

kindleepubPDF
Snjónum kyngdi niður. Yfirleitt fylgdu hvassir vindar slíkum snjóþunga en þetta kvöld var stillt og hljóðlátt, svo snjórinn hrannaðist þögult upp í blauta og þunga skafla. Fjörðurinn hafði þegar verið einangraður í heilan mánuð sem var ekki svo skrítið á þessum tíma árs, enda var hann umlukinn bröttum fjöllum sem meira að segja á sumrin voru snævi þakin. Tindar þeirra gnæfðu yfir allt og hver svo sem leit upp í átt til þeirra fann hversu smáar og ómerkilegar manneskjurnar bjuggu þennan fjörð voru. Áhorfandinn gat um leið fullvissað sig um að almættið sem skapaði fjöllin hlaut að vera máttugt. Að minnsta kosti voru fjöllin það, því ekki einu sinni sólin náði með geislum sínum yfir tindanna heldur urðu íbúar fjarðarins að láta sér myrkrið nægja á veturna og vera þakklátir fyrir þá örfáu sumardaga sem ekki voru huldir þoku. Þoku sem rétt eins og snjórinn virtist kæfa allt hljóð.

Sveinn og foreldrar hans bjuggu þarna í skugga fjallana, innarlega í firðinum, í litlu koti í skjóli hárra kletta. Það virtist nánast samgróið klettinum en drengurinn vissi að hægt var að smeygja sér milli húsveggjanna og klettsins ef maður vildi. Þar gat hann klifrað og falið sig þegar faðir hans reiddist, þó að á endanum yrði hann alltaf að gefa sig fram þegar hungrið fékk hann til að yfirstíga óttann. Hann var eini sonur þeirra. Eina barn eftir að systir hans Hanna dó í pestinni og eldri bræður hans tveir hurfu sporlaust. Þau töluðu aldrei um það. Í firðinum var ekki talað um svo margt en allra síst fólkið sem hvarf og hvað hefði orðið af því. Einungis amma drengsins, sem ruglaði Sveini saman við eldri bræður hans leyfði sér að hafa orð á því en það sem hún sagði var slitrótt og órætt, og með tímanum eftir því sem hún hafði misst meira og meira af minni sínu og viti taldi drengurinn minna að marka það raus. Bræður hans höfðu horfið, móðir hans nefndi þá aldrei á nafn og faðir hans var þögull sem gröfin. Höfðu þeir ákveðið að yfirgefa fjörðinn dag einn og leita að betra lífi í kaupstaðnum, fjarri hrörlega hreysinu þar sem þeir höfðu alist upp? Sveinn vildi gjarnan trúa því. Hann gat séð fyrir sér Óla og Snorra niðri við höfn að bera strigapoka upp úr skipslestum yfir á land eða mögulega úti á sjó að eltast við hvali og fisk. Sveinn gat jafnvel ímyndað sér að þeir hefðu fundið pláss á erlendu kaupskipi. Þá var víst að hann myndi aldrei sjá þá aftur en það hindraði ekki drenginn í því að dreyma að einn sumardag myndu þeir koma siglandi inn fjörðinn og bjóða honum pláss um borð líka.

Þetta var auðvitað tóm ímyndun. Afskekktur fjörðurinn var langur og það komu aldrei skip þangað inn. Sést höfðu frönsk og ensk hvalveiðiskip við mynni fjarðarins en þar sem enginn kaupstaður var fyrir botni hans höfðu þau lítið erindi í firðinum sjálfum. Einu aðkomumennirnir sem komu með reglulegu millibili inn í fjörðinn voru flækingar sem álpuðust yfir fjöllin og betluðu, eins og Ásgrímur Grái. Annars bárust engin tíðindi til fjarðarins og engin tíðindi frá honum.

Þetta kvöld lá Sveinn upp í baðstofunni og vafði ullargæru þétt að sér. Amma hans lá við hlið hans og hraut. Gamla konan var með ófáar hrukkur, hafði misst bæði tennur og hár, og því miður hafði vitið farið með. Hún hafði ekki sagt mikið þennan vetur og heldur ekki sýnt neinu því sem sagt var við hana áhuga. Þegar Sveinn leit í augu hennar sá hann ekki sama glampa og þegar hann var yngri, það var líkt og hún hefði týnt sjálfri sér þarna inni. Hann hélt samt áfram að sofa við hlið hennar. Þau hlýjuðu hvort öðru jafnvel þótt að þau héldu hvort öðru ekki félagsskap lengur.

Sveinn sofnaði ekki sama hvað hann reyndi. Það hlaut eitthvað um að vera, hann heyrði á ómnum í röddum foreldra fyrir neðan að það var eitthvað sem þau voru ekki sammála um. Það var sjaldan sem þau kveiktu kerti og töluðu saman undir þiljum, svona löngu eftir háttatíma.

Að lokum varð forvitnin yfirsterkari óttanum við hvað faðir hans myndi gera ef Sveinn hleraði tal þeirra. Hann vissi að það var rangt en smeygði sér samt undan gærunni og lagði eyrun upp að gólffjölunum.

„Það er kominn tími,“ heyrði hann föður sinn segja.

„Látum einn vetur enn líða. Barnið er ennþá ófermt,“ sagði rödd móður hans.

„Það er kominn tími. Við höfum rætt þetta.“

„Hvað með Véstein. hversvegna getur Nökkvi ekki séð af syni sínum?“

Sveinn greindi óvenju mikla heift í rödd móður sinnar. Hún líkt og faðir hans sýndi sjaldan á sér nokkurn veikan blett. Áður fyrr hafði þetta ekki alltaf verið þannig. Áður fyrr hafði hún verið hlý og hláturmild kona. Kona sem gat sagt gamansögur meðan hún strokkaði smjör, drukkið með körlunum þegar heyannir voru að ljúka og dansað langt fram á nótt. Og leyft Sveini og systur hans að koma með. Hún hafði breyst og nú var sú bjarta kona bara óljós æskuminning. Hún hló aldrei og reiddist ekki heldur.
Ólíkt föður Sveins. Reiðin var eina tilfinningin sem hann átti eftir.

„Vésteinn er níu vetra,“ sagði hann og barði í borðið þannig að hjarta Sveins tók kipp. „Það kemur að honum dag einn.“

„En þú. Getur þú ekki gert eitthvað? Getur þú ekki …“

Faðir hans þagði sem gaf til kynna að hann heyrði hvað hún sagði en myndi ekki skipta skoðun. Í næstu andrá heyrði Sveinn fótatak hans í tröppunum og smeygði sér undir gæruna eins fljótt og hann gat. Hann klemmdi augun saman og vonaði að samtalið myndi halda áfram, að hann fengi að heyra meira um hvað það var sem þau vildu honum eiginlega.

En samtalinu var lokið. Þögnin hafði sigrað.

Eins og hún gerði vanalega í firðinum.

2.

Næsta kvöld lagði faðirinn hönd á axlir sonar síns og sagði einfaldlega:

„Það er kominn tími. Við förum upp á fjall.“

Fyrir utan kotið voru samankomnir nærri allir karlmenn fjarðarins yfir þrettán vetra aldri. Þar var presturinn, feitlaginn með sitt gráa næfurþunna skegg, og svarta hempuna sem lyktaði af brennivíni og svita. Þar var Jói Sel svokallaði með sitt rauðleita nef og feitlagna andlit ásamt Vilhjálmi syni sínum. Sveinn fann hvernig græn og greind augu Vilhjálms störðu á hann, vógu og mátu, meðan hendur hans skulfu af kulda. Vilhjálmur glotti sjálfsöruggur þegar Sveinn mætti augnaráði hans líkt og hann byggi yfir einhverju leyndarmáli. Hinir bændurnir í dalnum, Þorlákur, Þorsteinn og Gísli voru líka þarna, allir eins, með grá skegg sem féllu fullkomlega í einsleit ullarföt. Það eina sem skildi Gísla frá hinum tveim var að hann teymdi af einhverjum ástæðum kolsvartan sauð sem kærði sig síður en svo um að vera þarna út í kuldanum og jarmaði viðstöðulaust. Þeir virtust allir stara á Svein eitt andartak og það fékk drengnum til að líða illa, næstum jafnilla og sauðinum.

Sveinn leit til föður síns. Hann var í sínum venjulegu, brúnleitu ullarfötum en í beltinu hafði hann beittan hníf sem glampaði á í myrkrinu. Sveinn hafði aldrei séð þennan hníf og ekki heldur grunað að slíkur gripur væri til í kotinu. Og reyndar ekki dottið í hug að slíkur dýrgripur væri til í firðinum ef út í það var farið.

Mennirnir nikkuðu til þeirra en enginn sagði neitt. Það eina sem rauf næturþögnina var hljóðið sem kom þegar skinnskórnir mörðu snjóinn undir sér og jarmið sem inn á milli heyrðist frá sauðnum. Þorlákur og Þorsteinn hjálpuðu Gísla, granna þeirra, að ýta sauðnum áfram, en hann festist reglulega í háum snjósköflunum og streyttist reglulega á móti húsbónda sínum.

Sveini langaði að sjálfsögðu til að spyrja hvert þeir væru á leiðinni með sauðinn. Hann fann til smæðar sinnar, ekki bara innan um alla þessa skeggjuðu karlmenn sem voru höfðinu hærri en hann, og virkuðu jafnvel enn hærri þegar hann sökk ofan í mjúkan snjóinn, heldur gagnvart nóttinni, þögninni og háum fjallhömrunum.

Móðir hans hafði kysst hann á báðar kinnarnar með tár í augum. Hann langaði að spyrja hvenær að hann kæmi til baka en vissi einhvern veginn að hann fengi enginn svör. Að hann myndi bara græta hana aftur. Konuna sem aldrei grét. Kvíðahnúturinn í maganum hertist bara þegar hún faðmaði hann að sér. Hún hafði ekki faðmað hann svona síðan hann var smábarn.

Það var stutt til jóla og í dag var myrkasti dagur ársins. Þrátt fyrir kuldann og smæðina fann Sveinn til stolts yfir að vera dreginn út núna, þennan dag, í þessa för. Hann vissi ekki hvað þeir þyrftu að gera, en vissi að það hlyti að vera karlmannsverk. Það væri verk sem krefðist þess að allir karlmenn fjarðarins héldu út í myrkrið, og að hann væri einn þeirra. Einn af þeim sem tók þátt í að virða samkomulagið.

3.

Það var ekki faðir Sveins sem hafði sagt honum frá óvættinum. Það hafði amma hans gert um það leyti sem vit hennar byrjaði að fjara út. Hún þekkti sögur um hvern klett í firðinum, vissi nöfn allra álfa og dverga og annarra vera sem aldrei sáust með berum augum en þurfti samt að virða. Hún hafði jafnvel sagt Sveini sögur um marbendla og sæskrímsli, þó að hún minnti drenginn á að velta ekki of miklum vöngum yfir þeim. Sæskrímslin voru langt úti á hafi og þeim varðaði ekki um það sem bjó fyrir utan fjörðinn, það var vandamál þeirra, ensku og dönsku. Meira að segja sögurnar um álfana voru sagðar með vissri léttúð því þótt hún varaði við því að ganga í klettana og segði frá mönnum og konum sem misst hefðu vitið, þá var einhvern veginn ekki um raunverulega ógn að ræða. Boðskapurinn var sá að ungir strákar ættu ekki að klifra í klettum, og að á jólanótt ætti maður að ganga til kirkju, auk þess sem óskynsamlegt væri að dansa á nýársnótt. Allt eitthvað sem Sveinn hafði í hyggju að fara eftir hvort sem er.

Söguna um tröllið hafði Sveinn þurft að draga upp úr ömmu sinni. Henni var þvert um geð að ræða óvættinn.

„Það eru til ýmsar sögur væni minn, um hvernig óvætturinn kom til fjarðarins eða varð til, en þær tel ég ekki mikið að marka. Vissulega sagði móðir mín mér frá því að óvætturinn hefði komið með landnámsmönnunum og hefði verið í trjálíkneskjum þeim er þeir höfðu með sér frá Noregi. Og að Þangbrandur trúboði hefði með brennandi krossi rakið það út úr stærsta líkneski heiðingjana þar sem það flúði til fjalla. Jú, sú saga var mér sögð og því bætt við að tröllið væri hér enn sem refsing fyrir syndir forfeðra okkar.“

Sveinn kinkaði kolli án þess að skilja fullkomlega hvað amma hans væri að tala um.

„Svo eru sumir sem segja að tröllið hafi alltaf verið í firðinum. Það hafi verið hér er landnámsmennirnir komu til Íslands. Alveg eins og fjöllin, þokan og vindurinn hafa alltaf verið hér.“

„Hvort er rétt?“ spurði Sveinn í einfeldni sinni.

Þá hló amma hans og hristi hausinn.

„Það skiptir engu máli Sveinn minn. Það skiptir engu máli hversvegna tröllið er hérna eða hvaðan það kom. Það sem skiptir máli er að það er hérna. Og það er ekki að fara neitt.“

Síðan sagði hún Sveini hræðilegar sögur af hlutskipti þeirra manna sem gengið höfðu á rétt tröllsins. Helmingaskiptin kallaði hún það. Helmingur fjarðarins tilheyrði mönnum og helmingur fjarðarins tilheyrði tröllinu, og vei þeim sem vogaði sér að beita fé sínu á landi þess. Vei þeim sem hættu sér of nærri hellinum. Þeim sem voguðu sér að ögra því á nokkurn hátt. Hefnd tröllsins gat verið ægileg, svo ægileg að best var að hafa sem fæst orð um það. Og einmitt þegar Sveinn reyndi að hafa meira upp úr ömmu sinni hristi hún höfuðið og sagði ekki meir.

4.

Drengurinn blés á ullarvettlinga sína til að hlýja sér. Hann taldi sér trú um að höndin skylfi af kulda en ekki af einhverju öðru. Það var erfitt að sjá framfyrir sig og loftið varð einhvern veginn sífellt kaldara og þynnra. Eins og hann fengi sífellt minna út úr hverjum andardrætti.

Að lokum blasti hellirinn frammi fyrir þeim eins og vígtennt gap. Eina ljósið sem mennirnir höfðu með sér voru tveir lýsislampar, einn sem Vilhjálmur hélt á og hinn í höndum föður hans. Týran var dauf frá þeim báðum.

Það var fýla af hellisopinu með súrum keim. Maður gat næstum smakkað hana.

Á sama tíma stafaði vissri hlýju þaðan, líkt og örlítill straumur af lofti kæmi neðan úr iðrum jarðar og bræddi snjóinn við útjaðar hellisins. Vatnsdropar héngu ofan úr hellisþakinu og duttu til jarðar með stuttu millibili. Það var skýr lína sem snjórinn náði ekki inn fyrir næstum eins og veturinn þyrði ekki inn fyrir hellisopið.

Þegar Sveinn steig inn fyrir þá línu ásamt mönnunum fann hann fyrir heita gustinum sem gerði gráleitum mosanum kleift að vaxa í þessari hæð og þessu vetrarmyrkri. Það sást varla í steinana sjálfa fyrir þessum grágræna mosa sem sleikti allt með blautri slykju. Hellirinn var loðinn og hlýr.

Hvaðan kom þessi fúkkakenndi gustur? Sveinn gat nánast ímyndað sér að hellirinn, eins langur og hann var, teygði sig niður fyrir rætur fjallana alveg að forgarði helvítis með sínu brennisteinsbáli og æpandi, syndugum sálum. Hann gat ímyndað sér að þessi hellir leiddi til annarra heima, inn um ein göng væru hallir huldumanna og um hin smiðjur dverga. Það var eitthvað þarna sem tilheyrði ekki fyllilega heimi manna.

Það heyrðist ekki mikið inn í hellinum, droparnir sem féllu ofan úr hellisþakinu smugu hljóðlaust niður í mosann og fótatak mannanna dó út á mjúku hellisgólfinu. Mosinn gleypti meira að segja hljóðið af andardrætti þeirra. Sveinn leið eins og að undir þessu sleipa mosagólfi lægi einhver ljót og djúp sprunga sem gæti gleypt hann ef hann hrasaði. En á sama tíma fannst honum sem hann gæti sökkið niður í mosann sjálfan og drukknað ef hann gengi ekki nógu hratt.

Gusturinn hlýi sem kom neðan frá hætti inni á milli og byrjaði svo aftur þannig að Sveinn vandist aldrei fullkomlega lyktinni. Það var stundum eins og hellirinn drægi loft inn, stundum eins og hann blési því út. Var fjallið sjálft á lífi? Var slímkenndur mosinn bara bifhár í koki þess? Var súr, stundum fúkkakennd lyktin sem minnti á bæði þvagi og hálfrotið kjöt, einungis andremma? Ef Sveinn hefði ekki verið of upptekinn af því að hrasa ekki, of upptekinn af því að leyna ótta sínum, hefði hann kannski velt slíku fyrir sér. Drengurinn þorði ekki einu sinni að taka af sér ullarhúfuna þótt sviti læki niður enni hans af ótta við að koma upp um skelfingu sína. Hann leit til föður síns og fannst sem hann sæi svita leka líka undan húfu hans. Andlitssvipurinn var jafnstífur og ávallt og Sveinn gat ekki lesið neitt úr honum.

Að lokum staðnæmdust mennirnir við dimmt gap. Þeir höfðu gengið í þó nokkra stund og Sveini leið eins og þeir hefðu gengið fjörðinn þveran og endilangan. Presturinn tók upp skinnbundna biblíu sína, þá sömu og Sveinn hafði séð hann nota í ótal messum, og fletti lengi. Að lokum las hann með rámri röddu:

„Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams og mælti til hans: „Abraham!“

Hann svaraði: „Hér er ég.“ Hann sagði: „Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til.“

Sveinn hafði oft heyrt lesið úr biblíunni, hann fór með foreldrum sínum til messu á hverjum Sunnudegi líkt og ætlast var til. Hann hafði samt aldrei heyrt prestinn lesa einmitt þennan kafla.

„Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman. Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn:

„Faðir minn!“

Hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn!“ Hann mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“

Sveini varð litið yfir á föður sinn og mennina. Faðir hans hafði dregið fram langan hnífinn. Sviti lak af ennum allra sem stóðu í hlýjum andvara hellismunnans og sumir héldu fyrir nefið á meðan aðrir fitluðu órólega við föt sín og störðu fjarrænt út í loftið. Sjálfum var Sveini nokkuð óglatt af lyktinni þarna inni en hann greip ekki fyrir nef sitt. Hann leit til föður síns og í átt að Vilhjálmi sem enn hélt á lýsislampa sínum, en inni í hellinum logaði hann ekki rauður heldur gaf frá sér grænleita birtu. Birtan kastaðist af hnífnum beint í augu Sveins.

„Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum.“

5.

„Mun tröllið þá aldrei deyja?“ spurði drengurinn ömmu sína.

Amma hans hélt áfram að hekla. Sveinn hélt lopanum uppi fyrir hana.

„Tröllið hefur kannski aldrei lifað. Ef það hefur aldrei lifað hvernig getur það þá dáið. Átti það móður, föður, ömmu? Kannski fæddist það aldrei. Kannski var það bara skapað.“
Sveinn skildi ekki alveg.

„Hversvegna ætti Guð að skapa tröll?“

Amma sleikti þær fáu tennur sem enn sátu í góminum áður en hún svaraði.

„Það sagði hún amma mín mér og amma hennar henni að almættið skapaði allt í sinni mynd. Manninn, sauðkindina, þokuna og fjöllin. Alveg eins og við vorum sköpuð í guðs mynd þá voru martraðir okkar það líka. Og allt sem er.“

6.

Hnífurinn fór á loft. Hárin risu á höfði Sveins þegar drengurinn fann beitta og kalda eggina snerta barkakýlið. Faðir hans mætti ekki spyrjandi augnaráði Sveins heldur starði beint áfram. Beint inn í myrkrið.

„Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham! Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nu veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir honum ekki um einkason þinn.“

Án þess að segja orð sneri faðir Sveins hnífnum við og rétti drengnum.

Sveinn tók í skaftið skjálfandi. Hann hafði að sjálfsögðu ekki búist við því að faðir hans myndi skera hann á háls og hella blóði hans yfir hellisgólfið, en beitt og köld eggin hafði þó fengið hjarta hans til að hamast, sem og órólegar augngotur mannanna í kring. Það var einhver undarlegur og magnþrunginn kraftur í loftinu. Vanalega hálfmuldraði presturinn allt, og sumir sögðu að þar bæri messuvínið sök, en þessa nótt var rödd hans styrk og ströng. Eins og rödd manns sem boðar orð almættisins ætti að vera.

„Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns.“

Þorsteinn bóndi rétti Sveini tauminn sem svarti sauðurinn var bundinn í. Augu hans voru samúðarfull, nánast sorgmædd eða sakbitin, en svipurinn harður. Það voru engin frekari orð sögð áður en Sveinn hikandi lagði af stað út í myrkrið með lýsislampann í hendi.

7.

Það varð sífellt hlýrra eftir því sem myrkrið varð meira. Sauðurinn streittist á móti og jarmaði en Sveinn hélt eins fast um tauminn og hann gat. Líf hans hékk á þessum snærisspotta. Ef sauðurinn næði að flýja yrði maðurinn fórnin.

Myrkið var skelfilegt og innilokunarkenndin jókst með hverju skrefi en samt var Sveinn þakklátur. Myndi nokkur maður lifa það af að bera tröllið augum? Ef ég lifði það af, myndi ég þá halda vitinu? Eins og amma hans hafði sagt þá eru sumir hlutir betur sveipaðir myrkri og duldir mönnum.

Engu að síður var drengurinn ekki laus við alla forvitni. Hann hafði aldrei séð álíka helli. Stundum fannst honum sem hann gengi neðansjávar því að grágrænn mosinn teygði sig upp líkt og þang og fálmaði eftir honum, eða öllu heldur ljóstýrunni sem lampinn gaf frá sér. Á svörtum hrafntinnulegum klettavegg höfðu beittar klær krafsað og skilið eftir hvítt pár sem minnti helst á hrafnaspark. Sumstaðar líktist þetta nánast teikningum, teikningar af mönnum með arnarnef sem báru langa báta á herðum sínum undir skínandi sól, þeir virtust blása í lúðra og dansa í kringum vagna sem dregnir voru af nautgripum eða hrossum. Nei það er ég að ímynda mér, sagði Sveinn þegar hann starði fast á svart bergið og gaf sér tíma til að hrista höfuðið. Vitaskuld hafði enginn klórað þessa hluti í vegginn, það var bara súr lyktin sem fékk hann til að svima og ímynda sér hluti um leið.

Sveinn hóstaði og hélt áfram. Á öðrum stöðum í hellinum glitraði bergið og þar þagnaði sauðurinn. Drengurinn og dýrið virtust jafnheilluð af þessu kristalsundri, og Sveinn batt tauminn í belti sitt og lagði lýsislampann á gólfið svo hann gæti þreifað á berginu með berum höndum. Hann tók af sér ullarvettlingana og lagði lófana upp að steininum og fann umsvifalaust kaldan straum renna um æðar sínar og hvísla að sér sínum hræðilegu leyndarmálum. Þegar hann loks losnaði grét hann dágóða stund og skalf af kulda. Ef sauðurinn hefði ekki gengið af stað og fengið hann til þess að ranka við sér þannig hefði hann kannski legið þar grátandi og veslast upp. Svo mikið var víst að hann var örmagna þegar hann hélt aftur af stað, þreyttur, svangur og þyrstur, en inni í veggnum sá hann brotabrot af sínum eigin skugga sitja eftir og brosa til hans.

Nei, ég ímynda mér þetta allt saman, sagði Sveinn sér. Það var lyktin, loftið og myrkrið sem lék sér að huga hans. Hann mátti ekki láta þetta á sig fá. Hann varð að halda áfram niður inn að innsta hjarta myrkursins til að virða samkomulagið og færa fórnina. Þegar maður og dýr kom út úr kristalsalnum önduðu þau bæði léttar. Sauðurinn jarmaði og maðurinn hló feginn því að vera aftur nánast alblindur.

Í langan tíma gengu þeir í myrkri.

Loks steig Sveinn ofan í djúpa drullu og varð svo bylt við að hann öskraði næstum upphátt. Hann skrikaði fótur og haltraði aftur upp úr en við það missti hann skóna. Drullan kjamsaði á feng sínum með löngu soghljóði en Sveinn vissi að án þess að hafa skinnskóna og ullarsokkana myndi hann missa tærnar í frostinu á leið af fjallinu. Hann stakk höndum sínum ofan í leðjuna og þreifaði eftir skónum.
Í sömu andrá heyrðust miklir skruðningar og svarti sauðurinn gaf frá sér hávært jarm. Sveinn fann hvernig taumurinn losnaði frá beltinu. Hann mátti ekki vera að því að troða sér aftur í skinnskóna heldur hljóp upp á eftir sauðkindinni með aðeins annan þeirra í hendi. Hin höndin fálmaði örvæntingarfullt út í loftið. Sveini leið eins og hann væri að drukkna þarna í myrkrinu, eins og sleipt gólfið undir berum iljunum væri draga hann til sín. Það kitlaði.

Með tárin í augunum gekk hann á eftir sauðnum. Hann heyrði jarmið rétt fyrir ofan sig.
Sveinn faðmaði hlýja ullina og fann fyrir innilegu þakklæti til skapara allra hluta. Það verður sauðurinn en ekki ég.

Aftur heyrðust skruðningar og dýrsleg hljóð sem Sveinn kunni enga skýringu á.

Ef þetta var tröllið að vakna og teygja sig, hvernig hljómar það þá reitt og í hefndarhug? Hann hafði engan áhuga á að fá svar við spurningunni og ákvað að fara ekki dýpra heldur fálmaði eftir hnífnum í belti sínu. Ég vona bara að þetta sé tröllið sjálft en ekki eitthvað annað sem deilir hellinum með því, hugsaði drengurinn.

„Það er best að ég slátri þér hér,“ hvíslaði hann að sauðinum ekki án vorkunnar.

Sauðurinn streittist á móti en Sveinn var vanur því að rýja og slátra sauðfé. Hann náði góðu taki á honum áður en hann stakk hnífnum í hálsinn og fann hlýtt blóðið gusast út.

Kjötið í honum var eflaust feitt og gott. Gísli gaf sinn besta sauð. Og faðir minn, sinn eina son.

Skruðningar heyrðust í þriðja sinn og í þetta sinn heyrði Sveinn í einhverju ganga yfir drulluna. Slímugt og þungt fótatak ásamt dýrslegri stunu bergmálaði í hellinum. Sveinn fann fyrir andardrætti tröllsins á andliti sínu en hann vissi ekki hversu langt hann stóð frá. Hann vissi ekki hvort það væri handan við heilt drulluhaf enn á leiðinni eða hvort það væri nægilega stórt til að teygja sig til hans nú þegar.

Hann bakkaði frá sauðnum með hnífinn á lofti vitandi vel að hnífurinn yrði engin vörn á móti þessari veru. Hann gat skynjað í gegnum loftið illsku hennar og grimmd.

Veran var ekki bara risavaxin heldur ógurlega snögg. Í einni andrá hafði hún gripið sauðinn, lyft honum upp og klofið í tvennt. Sveinn heyrði hvernig hold sauðsins rifnaði þegar bein brotnuðu. Hljóðin sem fylgdu minntu hann svo á slafrandi hund. Veran lapti blóðið sem rann úr hræinu.

Hvernig getur slík vera látið einn sauð duga? Hversvegna étur hún ekki alla sauði í firðinum og fólkið með? Þetta hefði Sveinn getað hugsað ef hann hefði getað hugsað nokkuð meðan hann klöngraðist hægt aftur á bak upp klettinn. Skólaus að sjálfsögðu. Hann lét ekki augun af þeim punkt í myrkrinu sem hann hélt að óvætturinn gæti leynst. Kannski hugsaði hann ómeðvitað að ef hann sneri baki í það myndi það kannski reiðast og ráðast á hann. Kannski var það bara forvitni en ekki ótti um að móðga hellisbúann.

Þetta snýst ekki um sauðinn … Það getur ekki verið. Einn sauður væri aldrei nóg. Þetta snýst um fórnina. Þetta snýst um að fara hingað niður … Ég hlýt að hafa eitthvað meira að gera … Sveinn hætti að hörfa og beið.

Þögn. Það seinasta sem Sveinn heyrði var þegar lærbein brotnaði í því sem hann ímyndaði sér að væri kjaftur skrímslisins. Hann vissi að núna hefði hann óskipta athygli tröllsins. Ef það sæi í myrkrinu þá sæi það hann liggja þarna grafkyrran og bíða dóm þess.

Og þá gerðist það. Augu óvættarins opnuðust löturhægt. Risavaxnar skálar, rauðar á lit en samt undarlega kattarleg augun opnuðust rétt fyrir neðan Svein. Hann taldi eitt, tvö, þrjú, fjögur augu. Svo opnuðust fleiri og að lokum gafst hann upp. Það var best að skilja ekki of mikið. Hvort þetta væru eitt skrímsli eða fleiri. Lögun þess eða fjöldi var ekki lengur atriði. Þessi vera var æðri honum á alla vegu, alveg eins og köttur var æðri mús og maður æðri þeim báðum.
Augun störðu öll á sama einbeitta máta. Þau boruðu sig ofan í sál Sveins.

Hann fékk aftur sömu köfnunartilfinningu, en í þetta sinn leið honum eins og lungun væru að brenna. Hann gat ekki dregið andann.

Augun störðu þar til þau fengu nóg og eitt af öðrum lokuðust þau svo. Þegar myrkrið var aftur skollið á náði drengurinn andanum aftur og löng hóstakviða byrjaði.

Ullarvettlingarnir fylltust blóði þegar hann bar þá fyrir munn sinn. Blóðug tár láku niður kinnar hans.

Var þetta bölvun eða blessun? Sveinn vissi svo sannarlega ekki hverju skrímslið hefði merkt hann en hann var án nokkurs vafa merktur því.

Honum sveið ennþá í kokinu og fyrir brjósti. Fingurnir voru stífir og sumir liðir gátu alls ekki hreyft sig. Smám saman þó, losnuðu beinin og hann fór að geta skriðið aftur upp á við. Hann hafði ekki heyrt í skrímslinu fara tilbaka gegnum leðjuna en hann skynjaði ekki lengur nærveru þess. Og hann var óendanlega þakklátur fyrir það.

8.

Sveini var létt þegar hann steig út í snjóinn aftur í nýjum ullarskóm. Kuldinn hafði nánast græðandi áhrif á sálu hans en hvað sem þeim græðandi áhrifum leið var hann viss um að á henni væri komið ör á sálu hans sem myndi aldrei aftur fara.

„Pabbi…“ hvíslaði hann að föður sínum.

Faðir hans leit til hans. Snjóflyksur lituðu svart skeggið hvítt, og kinnarnar voru rauðar af kulda.

„Þegar þú fórst niður… Sástu tröllið?“

Faðir hans kinkaði kolli.

„Það eru núna meir en tuttugu vetrar liðnir síðan faðir minn rétti mér hnífinn og ég var látinn teyma svartan sauð niður. Og ég hef reynt að gleyma því síðan. Eina sem ég veit er að við þurfum að virða samkomulagið og gjalda tröllinu því sem tröllsins er.“

Þeir gengu saman menn fjarðarins, hver til síns heima, hver og einn í kot sitt til að halda heilög jól. Þeir þögðu meðan þeir tróðu snjóinn og þegar leiðir þeirra skildust rétti faðir Sveins, Vésteini af eyrinni hnífinn. Vésteinn kinkaði kolli en Sveinn sá að hann bældi einhverja grettu og skildi hann vel. Sonur hans Nökkvi myndi þurfa að taka gönguna næsta vetur ef halda ætti samkomulagið. Og það varð að haldast.

Sveinn sagði ekkert þegar hann kom inn. Öllum spurningum hafði verið svarað jafnvel þótt þeir hefðu gengið í þögn og þeim mun minna sem móður hans vissi því betra. Að vísu gat verið að mæður og dætur fjarðarins vissu meira en þær sögðu til. Var ekki eitthvað um að konur fjarðarins gengu fjallshlíðina sömu leið þegar sólin reis sem hæst?

Sveinn lagðist við hlið ömmu sinnar og vafði ullargærunni utan um sig þótt dagurinn væri enn ekki liðið. Hann velti fyrir sér þegar hann horfði inn í tómleg augu ömmu sinnar hverju hún hefði gleymt gegnum tíðina. Hvað hún hefði getað sagt honum um hefnd tröllsins þegar helmingaskiptin voru ekki virt, þegar mennirnir sviku samkomulagið og færðu engar fórnir eða yfirgáfu fjörðinn. Gátu þau yfirhöfuð yfirgefið fjörðinn líkt og Sveinn hafði séð fyrir sér bræður sína gera í dagdraumum sínum. Hann vissi að hann myndi aldrei yfirgefa fjörðinn.

Sveinn lokaði augunum og felldi eitt lítið tár áður en hann sofnaði. Og sem betur fer dreymdi hann ekki neitt.