Ritstjórnarpistill: Opið bréf til gagnrýnenda

Kæru gagnrýnendur.

Mig langar að biðja ykkur að vera afdráttarlaus í skrifum – ekki í þeim skilningi að þið eigið að vera dónaleg eða að allt þurfi annað hvort að hefja upp til skýjanna eða rakka niður í skítinn, heldur í þeim skilningi að þið gangist við hugsunum ykkar og tilfinningum gagnvart verkunum undanbragðalaust, sýnið enga feimni og hikið hvergi. Menningarrýni sem heldur aftur af sér er á endanum verri en engin – hlandvolg afstaða til listaverka er yfirleitt ekki til marks um metnaðarleysi í verkinu, heldur ástríðuleysi í viðtökunum (sem útilokar ekki metnaðarleysi í verkinu – en það þarf ástríðulausa manneskju til að hafa hlandvolga afstöðu til metnaðarleysis).

Ég vil biðja ykkur um að leyfa ykkur að vera mótsagnakennd – eitt pínulítið verk getur í senn verið stórkostlegt og ömurlegt, vont og gott, fallegt og ljótt, og svo auðvitað allt þar á milli. Enn fremur finnst mér ástæða til að fara fram á það við ykkur að þið fagnið óvenjulegri og jafnvel óforskammaðri framsetningu á hugsunum ykkar og tilfinningum. Textarnir sem þið skilið þurfa alls ekki að vera textar, og þeir sem eru textar þurfa ekki að vera meira en eitt orð og mega vera öll orðin í bókinni – internetið er stórt og ég get kópípeistað hraðar en skugginn, munar ekkert um þetta.

Fyrst um sinn mun ég ekki geta greitt neina þóknun fyrir skrif í Starafugl. Það stendur vonandi til bóta. Ég mun persónulega standa straum af kostnaði við vefinn – sem er ekki mikill – og fari svo vel á endanum að nægir peningar fáist til að allir liðsmenn geti notið mannsæmandi þóknunar fyrir störf sín mun ég hugsanlega taka af tekjum fyrir kostnaði eða þiggja eitthvað fyrir mína vinnu. En það er ósennilegt og ég reikna ekki með því að svo verði nokkurn tíma – í bili þori ég ekki að vona annað en að ég hafi einhvern tíma efni á að greiða ósanngjarna hungurlús fyrir skrifin. Ég segi þetta bara svo þið áttið ykkur á forgangsröðuninni. Ég veit það er ekki sjálfsagt að biðja neinn að vinna kauplaust – það er meira að segja skammarlegt. Ég skammast mín. En hafandi ekkert startkapítal verð ég að treysta á að gott efni muni laða til sín traffík af netinu og traffíkin muni skila athygli sem aftur skili auglýsendum og styrkjum.

Það sem ég býð strax frá upphafi er metnaðarfull ritstjórn. Ég lofa að lesa innsenda texta vel og gera við þá athugasemdir – og við munum ræða endanlega útgáfu textans. Það eru alltaf þið sem eigið síðasta orðið, með þeirri undantekningu þó að ég mun ekki birta óáhugavert efni. Rýni, sem og annað efni á Starafugli, á ekki bara að vera fræðandi og uppljómandi innlegg – heldur líka skemmtilegur og áhugaverður texti. Starafugl er í smelludólgabransanum, þótt hann hafni einfeldningslegum hugsunarhætti. Þetta er internetið og við viljum lesendur.

Þá hvet ég ykkur til að skila af ykkur aukaefni með rýninni – ljósmyndum, hljóðbrotum, myndböndum, kroti og svo framvegis. Þetta er internetið og internetið fílar svoleiðis. Þið megið þess utan vera eins persónuleg og þið viljið – og hafa í huga að gagnrýni er aldrei bara um listaverkið sem hún tekur fyrir, gagnrýni er að endingu innlegg í samfélagið, ávarp til heimsins og ákall til fegurðarinnar og lýtur í sem skemmstu máli öllum sömu reglum og listin sjálf (og má brjóta allar sömu reglur).

Allt er tækt til menningarrýni – 50 ára gömul klassík, 25 ára gömul plata sem gleymdist, fermingarmessan sem þú lentir í fyrir kurteisis sakir, jólabókin frá því í fyrra, ljóðið sem þú lagðir einu sinni á minnið en manst ekki hver orti, sjónvarpsþættir og bíómyndir, matur, vín, vatn og djús, bloggfærsla sem þú staldraðir við, önnur menningarrýni, frumvarp til laga, lagið sem þú ert með á heilanum, grín og glens og dauðinn sjálfur og svo framvegis. Það sem hreyfir við ykkur. Það sem er í deiglunni. Hið vanmetna. Hið ofmetna. Dásemdin og ljótleikinn. Á meðan engir peningar eru í ævintýrinu kemur varla til greina að ég sigi ykkur á tiltekin verk, nema þið farið fram á það. Ég mun sjálfsagt stinga einhverju að ykkur, ef mig þyrstir í ferskt sjónarhorn – en til að byrja með er það sem sagt undir ykkur sjálfum komið að velja verk (og á ykkar ábyrgð að velja ekki bara það sem þið getið hafið upp til skýjanna, heldur það sem vekur með ykkur áhugaverðar hugsanir, jákvæðar eða neikvæðar eða bara hvorugt, eitthvað lýsandi frekar en dæmandi). Ég skal reyna að redda ykkur frítt í bíó, redda ykkur kynningareintökum og leikhúsmiðum. Ég skal meira að segja reyna mitt besta.

Ef rýnideild Starafugls á að eiga sér mottó þá væri það að vel heppnuð menningarrýni kalli bæði svar og andsvar, að hún hafi fyrst heppnast þegar hún verður til þess að hefja samræðu.

Þeim sem vilja melda sig til leiks er bent á að skrifa undirrituðum á ritstjorn@starafugl.is og láta vita af sér – ég mun þá hnippa í ykkur annað veifið svo þið sofnið ekki fram á lyklaborðið. Alla sem hafa komist þetta langt í textanum bið ég að deila honum áfram – þetta er ákall og það er til einskis ef það berst ekki áfram. Því fleiri sem skrá sig til leiks – því fleira fólk á ólíkum aldri og með ólíkan bakgrunn – því ríkulegra verður þetta samfélag, því ríkulegri menningarumfjöllunin.

Innvirðulegast ykkar einlægur, að eilífu og eilífu,
Eiríkur Örn

ps. Hafi einhver ykkar auk þess áhuga á að skrifa annars konar umfjallanir, fréttir, taka viðtöl og/eða sinna öðrum ritnefndarstörfum gilda sömu lögmál og sama netfang: ritstjorn@starafugl.is