Ritstjórnarpistill: Maðurinn er alltaf drasl

Á Kraumsráðstefnu tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem haldin var síðastliðinn páskasunnudag var talsvert rætt um það hvernig hægt væri að gera tónlist (og aðra list) að vænlegri söluvöru – að fallegum hlut sem einhver vildi kaupa frekar en einhverju óefni, því fólk ber hvorki væntumþykju né virðingu fyrir mp3 og epub – hvort sem það væri með framúrstefnulegri framsetningu (einsog nýrri plötu Skakkamanage sem kemur út á krossviðarplötu) eða bara með því að láta fylgja með veglegan bækling og gera flott kover eða jafnvel framleiða alltsaman sem einhvers konar handverk eða heimaföndur – þið vitið, alúðin skilar sér og það allt saman.

Um miðja ráðstefnu, eftir mikið mas og mörg heilabrot, sló mig skyndilega hvort þetta væri ekki klikkun. Að við, þessir meðvituðu miðstéttar vinstrihipsterar sem við erum, skyldum sitja þarna með sveitt ennið að brjóta heilann um hvernig í ósköpunum við gætum fengið fólk til að kaupa MEIRA drasl, fylla heimili sín af fleiri hlutum úr trjám og plasti og guðveitekkihverju, þegar okkur væri í lófa lagið að sleppa því og koma „vöru“ okkar (tónlist, bókmenntum, myndlist o.s.frv.) til skila umbúðalaust. Í stíl við það hvernig við rífum plastið utan af paprikunum okkar í búðinni og berum allt heim í umhverfisvottuðum hemppoka. Af því við vitum að það er rétt. Og við vitum að draslið er óþarfi.

Ekki bara er öll þessi neysla ósmekkleg heldur göngum við (alltof) hratt á gæði heimsins á sama tíma og við – mannfólkið – eyðum miklu meiri tíma í (framleiðslu)störf en við þyrftum (og eigum þar af leiðandi minni tíma aflögu til að horfa á hafið, fara á tónleika, spila Tetris og/eða knúsast – já eða lesa bækur og hlusta á mp3-fæla og streymi (og já ég veit að raftæki eru ekki umhverfisvæn en það er hægt að nota þau fyrst þau eru þarna og þau eru ekki á leiðinni neitt)).

Ég varpaði spurningunni auðvitað fram en svörin voru svona einsog við er að búast af stórum hópi fólks á öðrum til fimmta degi í þynnku – og mín vel að merkja ekki hótinu skárri en hinna. Og kannski verður þessu bara ekkert auðveldlega svarað.

Búinn til úr hlutum

Ég kaupi samt hlutablætið. Ég „elska“ bækurnar mínar og geisladiskana og ég „elska“ meira að segja pottana mína og pönnurnar og símann og tungusófann og bakpokann minn og jógadýnuna og hlaupaskóna að ónefndum öllum höttunum. Og ég hef verið að reyna að sætta þessa mótsögn í höfðinu á mér síðustu vikuna en gengið lítið, þótt rómantíkin sé ljóslifandi fyrir augum mér.

Árið 2012 flutti ég til Íslands aftur eftir fimm og hálft ár í Finnlandi og Svíþjóð og skildi þá eftir megnið af bókunum sem ég hafði keypt á þessum árum en átti þeirra í stað gamlar bækur í kössum uppi á lofti: bókasafnið mitt einsog það leit út snemma árs 2007. Mitt fyrsta verk heimkominn var að opna kassana og raða aftur í hillurnar. Í stað þess að finnast einfaldlega gaman að róta í „gömlum vinum“, einsog ég hafði átt von á, var upplifunin hálf óeðliblandin. Einsog þarna stæði ég 34 ára í húð 28 ára manns. Léti einsog ekkert hefði gerst. Ég hefði aldrei gift mig eða eignast börn eða dömpað dagvinnunni. Ég væri enn sá sem ég var áður. Alltaf sami gamli þorparinn. Eiginlega leið mér einsog ég hefði dregið úreltan líkamning af sjálfum mér upp úr formalíni og slengt honum hlandvotum á borðið til uppstoppunar. Einsog hverju öðru spesímeni.

Þegar ég var unglingur safnaði ég líka geisladiskum. Það var aldrei neitt risasafn en nokkur hundruð stykki samt og fjölbreytt – ég náði að byrja að kaupa mér diska þegar hármetallinn var að klárast (fyrsti diskurinn minn var OU812 með Van Halen), færði mig svo smám saman í þyngra efni þar til ég var kominn í dauðarokkið, spólaði aftur til baka í gruggrokk og Rage og fór á hjólhestaspyrnu inn í gítardjass – Django og Wes – og svo söngkonurnar, Billie, Ella, Nina … gerðist heittrúaður á fönktónlist áður en ég fékk blúsbólu og hipphoppbólu, köntríbólu, pönkbólu og meira að segja adult contemporary bólu (sem fólst aðallega í nokkurra vikna dellu fyrir John Cougar Mellencamp og Billie Joel). Öll eru þessi skeið órjúfanlegur hluti af æsku minni. Af lífi mínu.

En skömmu eftir tvítugt bjó ég í síðan Reykjavík á námslánum í tíu fermetra kompu og alltaf blankur og losaði mig við diskana einn af öðrum í safnarabúðirnar. Fyrir slikk. Fyrir kaffibolla og sígarettur, hrísgrjón og pasta, bókasafnsskuldir og strætisvagnafargjöld. Einu sinni fór ég með fullan poka til að eiga fyrir herbergisleigunni (sem var 10 þúsund kall).

Og þar með hvarf einhver hluti af mér. Ég lít ekki lengur upp í hillu og man skyndilega eftir Brides of Funkenstein, Söruh Vaughan eða Stone Temple Pilots og hugsa: djöfull er langt síðan ég skellti þessu á fóninn. Þetta er allt á Spotify, það er ekki málið, en hið óefnislega eintak – sérstaklega streymið, þar sem maður á ekki einu sinni óefnislegt eintak heldur leigir aðgang sem maður svo glatar strax og maður hættir að borga leigu, án þess að fá neitt upp í kaffi og sígarettur, pasta og hrísgrjón – er eter sem minnir alltof sjaldan á sig. Einsog að búa með vofu.

Líku máli gegnir síðan um bækurnar í kindlinum mínum og lögin á iTunesinu mínu – þær eru bókasafn í öðrum skilningi en bækurnar í hillunum. Ég man yfirleitt ekki hvar ég keypti þær (í amazonbúðinni, á forlagið.is, dito.se o.s.frv. – en ekki hvar ég var staddur fýsískt sjálfur), skoða þær sjaldan og monta mig aldrei af þeim við gesti, og einhvern veginn renna þær allar saman í einn generískan font, generískt lúkk, generískan rafbleksskjá. Ég er með þær allar í einu tæki en samt er einsog ég hafi aldrei farið með þær neitt. Einsog ég er hrifinn af rafbókavæðingunni fyrir alla sína kosti þá skortir hana einfaldlega rómantík hlutablætisins. Og rómantík er ekki óraunverulegri eða ómerkilegri eða óáþreifanlegri en til dæmis bara internetið. Ég veit ekki hvort ég lifi án hennar.

Vellíðunarstunur og vestrænt frekjugarg

En auðvitað er þetta miðstéttarsnobb og sjálfsdekur. Auðvitað er plastið í geisladisknum engu minna drasl en plastið utan um paprikuna í Bónus – engu þarfari gripur. Engu meiri alúð í plasthringnum en plastpokanum. Pappírinn í nýju ljóðabókinni er engu þarfari en pappírinn í Fréttablaðinu, þótt við geymum ljóðabókina lengur. Kannski er ljóðabókin jafnvel óþarfari einmitt vegna þess að hún þvælist fyrir okkur alla ævi og bindur okkur við fortíðina í einhvers konar skilgreiningarfangelsi, eilíf áminning um að já einmitt ég er týpan sem les Diddu og Davíð Stefánsson, les Lars Gustafsson og Fernando Pessoa (ég man ekki hver það var sem sagði að maður ætti aldrei að lesa höfunda sem væru eldri en maður sjálfur en stundum finnst mér það hljóma einsog góð hugmynd – og kannski ætti maður að henda öllum bókunum sínum strax og hugsanlega bara lesa bækur á tungumálum sem maður skilur illa eða alls ekki). Við tölum af ástúð um rætur en gleymum því að maður er annað hvort með rætur eða fætur – mér vitanlega eru engin dæmi um slíkan óskapnað að hann hafi hvorutveggja.

Bóka- og tónlistarsöfn eru plássfrek – safnarinn sem getur lifað á 40 fermetrum þarf a.m.k. 10 fermetra til viðbótar undir draslið sitt sem hann hleður upp meðfram öllum veggjum og treður inn í alla skápa. Ég hef auk þess ábyggilega borgað bókasafnið mitt nokkrum sinnum upp í topp bara við að flytja það á milli staða fyrir tugi þúsunda í hvert skipti. Fyrir utan áhyggjurnar. Hverjum lánaði ég Málsvörn mannorðsmorðingja skömmu fyrir aldamót (skila, takk)? Hvar fékk ég þetta sérrit Bjarts og frú Emilíu – Robert Walser? Ég keypti það ekki. Hvað ef ég missi áritaða eintakið mitt af Ytri höfninni í baðið? Fyrsta útgáfan af Honey by the Water er svo illa farin í kjölinn að blaðsíðurnar detta úr henni þegar ég ætla að sýna hana gestum.

Og kannski er fyrst og fremst bara eitthvað ómóralskt við að eyða lífinu í að sanka að sér drasli, jafnt þótt það láti manni „líða rosa vel“ – jafnt þótt maður noti þetta drasl til að skilgreina sjálfan sig sem manneskju og þá skiptir kannski minnstu hvort það er Pajero jeppi eða risavaxin tónlistar- og bókasöfn sem eiga að skilgreina mann. Það er eitthvað sjúkt við þessa hlutafrekju í heimi sem einkennist af skorti.

Ekki það ég sé ekki á báðum áttum og skrifi þetta ekki af stynjandi samviskubiti hins ofdekraða vesturlandabúa – og ekki mér sé ekki sömuleiðis óeðlileg fró í siðferðislegri sjálfspíningunni.