„Skáldsagnahöfundar og ljóðskáld mega vera viðkvæm“, skrifar bókmenntarýnirinn Michael Dirda í nýjasta tölublað TLS, „en flestum finnst að gagnrýnendur eigi að vera jafn kaldrifjaðir og Lafði Makbeð og jafn sadískir og Mike Hammer“. Í kjallarapistli útlistar hann síðan aum örlög dagblaðagagnrýnenda sem „alvöru“ blaðamenn líti niður á og séu illa launaðir, illa liðnir og húðstrýktir ef þeir geri minnstu mistök (honum varð sjálfum eitt sinn á að segja brúðarmarsinn koma úr Tannhäuser en ekki Lohengrin og í heila viku var einsog heimurinn hefði breyst í pirraða Wagnersérfræðinga).
Sumt í pistlinum kemur að vísu íslenskum menningarrýni spánskt fyrir sjónir. Þótt grimmd hafi oft þótt skemmtilegur eiginleiki í fari gagnrýnenda – sem öðlast vinsældir lesenda með því að missa ekki úr tækifæri til að taka djúpt í árinni – þá held ég að henni hafi aldrei verið jafn fagnað í íslenskri menningarblaðamennsku og í enskri. Englendingar eiga sér ríkari hefð af kaldhæðni og tíkarskap og Íslendingar eru nógu fámennir til að þurfa þá alltaf að tala svona beint hver við annan, verandi alltaf í sama herberginu. Enda sýnir það sig að þá sjaldan einhver fær kvikindislegan dóm þá eru það yngstu höfundarnir – þessir sem maður þarf ekki að hafa áhyggjur af að birtist í kokteilboðunum – og eru þeir sem kannski síst þurfa á slátrun að halda.
Listamenn mega vera viðkvæmir og tryllast, fá jafnvel respekt fyrir að vera þannig ástríðufólk. Gagnrýnendum er hins vegar uppálagt að sýna hlutleysi og jafnvel vísindaleg vinnubrögð. En þótt það sé auðvitað ágætis eiginleiki að sýna nærgætni og hlutleysi verður líka að segjast að skortur á huglægu mati – þessu mér finnst – er nokkur plága í „faglegri“ gagnrýni, og ekki síst þegar spurt er stærri fagurfræðilegri spurninga – einsog hvort manni finnist tiltekin tegund af bókmenntum yfir höfuð eiga sér nokkurn tilverurétt eða tilgang annan en að drepa mann úr leiðindum. „Faglegur“ gagnrýnandi dæmir bókmenntaverk einungis út frá því sem bókmenntaverkið ætlar sér – hvort því takist það – en tekur ekki til þess aðra afstöðu.
Þegar Dirda segir síðan aumingjans gagnrýnendurna stundum mega þola að stytta 1200 orða gagnrýni niður í 800 orð liggur við að manni svelgist á kaffinu sínu. Íslensk dagblaðarýni er sjaldan meira en 400 orð – með þeirri undantekningu þó að þegar skrifað er um leikhús fara dómar iðulega yfir 1000 orð. Ég velti því fyrir mér á dögunum hvort að sú staðreynd ætti hlut í því hversu ríkuleg og frjó umræðan um leikhúsið getur orðið – þessu að gagnrýnendur fá rými til að pústa, til að láta hugann reika, en þurfa ekki að einskorða texta sinn við allra mikilvægustu lykilatriðin, sem svo verður til þess að „staða leikhússins“ sem slík er alltaf til umræðu.
Stundum er spurt um tilgang tíkarskapsins eða neikvæðninnar í listrýni – hvort ekki sé réttara að hlúa einfaldlega að listamönnunum og sýna þeim stuðning – og það eru nýleg dæmi um að stórir miðlar taki upp þá meðvituðu stefnu að birta einfaldlega ekki neikvæða dóma því þeir séu ekki bara óþarfir heldur hreinlega illmennska og „einelti“. Líklega sprettur sú afstaða af þeirri hugmynd að listrýni sé til staðar til stuðnings listinni eða listamönnunum – og sé ekki einmitt sjálfstætt markmið í sjálfri sér. Listamenn taka sér fullkomið bessaleyfi til að sýna grimmd í verkum sínum – og myndu aldrei taka í mál að ríða um ritvöllinn með þau óbrýndu og oddlausu stílvopn sem gagnrýnendum er gert að berjast með. Listrýni er umfjöllun um heiminn – innlegg í samræðuna um mennskuna – og þarfnast ekki réttlætingar við frekar en listin sjálf.