Annar árgangur 1005

Annar árgangur tímaritraðarinnar 1005 lítur dagsins ljós í dag, laugardaginn 10. maí. Af því tilefni efnir 1005 til útgáfuhátíðar á BSÍ (þ.e. Umferðarmiðstöðinni) í Reykjavík kl. 16.00 þennan sama dag. Þar gefst bókmenntaunnendum kjörið tækifæri til að njóta stundarinnar og bókmenntanna.

1005 færir lesendum sínum að þessu sinni fjórfaldan glaðning, alls um 400 síður. Þetta eru: i. Styttri ferðir, safn ferðaþátta eftir dularfullan hóp höfunda og þýðenda, erlendra og innlendra. ii. Rússneski þátturinn, smásagnasafn eftir Braga Ólafsson. iii. Hjarðljóð úr Vesturbænum, safn fimmtíu smáprósa eftir Svein Yngva Egilsson. iv. Uppfinning Morels, sígild vísindaskáldsaga eftir argentínska rithöfundinn Bioy Casares í þýðingu Hermanns Stefánssonar.

BSÍ (þ.e. Umferðarmiðstöðin) þótti kjörinn vettvangur fyrir þennan árlega viðburð með tilliti til þema heftisins Styttri ferðir. Frá þeim stað hafa kynslóðir ferðlanga lagt af stað í eða endað sínar styttri (og lengri) ferðir. Á útgáfuhátíðinni verður boðið upp á léttar veitingar, lesið verður úr nýju verkunum fjórum, Óskar Árni Óskarsson les enn fremur ljóð um BSÍ (þ.e. Umferðarmiðstöðina) og Húsbandið treður upp. Síðast en ekki síst verður frumfluttur ópusinn „Styttri ferðir“ eftir Jón Hall Stefánsson.

Saurblöð heftisins í ár eru unnin af myndlistarmönnunum Hildigunni Birgisdóttur og Önnu Hrund Másdóttur.

Þeir sem ekki sjá sér fært að heimasækja BSÍ síðdegis á laugardag en vilja gerast áskrifendur að tímaritröðinni geta haft samband við ritnefnd 1005 í netfanginu 1005.timaritrod@gmail.com.