Niður í ókannað myrkrið – um Bláskjá í Borgarleikhúsinu

Síðastliðið sunnudagskvöld upplifði ég einhverjar undarlegustu en jafnframt skemmtilegustu 75 mínútur sem ég hef upplifað á lífsleiðinni. Leikhús fáranleikans leiddi mig um allan tilfinningaskalann. Það er töfrum líkast að upplifa eitthvað svo sterkt að maður getur ekki með nokkru móti fest hönd á hvað það er nákvæmlega sem hreyfði við manni. Hvað það er nákvæmlega sem manni finnst, hvað manni á að finnast eða hvað manni finnst manni eigi að finnast. Bláskjár hefur varla vikið úr huga mínum, hvorki í svefni né vöku, síðan sýningu lauk.

Sýningin er gallsúrt gamandrama með blöndu af kabarett og búffonum. Búffoninn er túlkaður með yfirdrifnum leikstíl, bregður fyrir sig kjánalegri rökfræði og snertir á viðkvæmum samfélagsmeinum og bendir á fáránleika samfélagsins á skilvirkan og uppbyggilegan hátt. Þegar fáránleikin keyrir um þverbak og áhorfendur veltast um af hlátri þá réttir búffoninn úr sér og snýr speglinum að áhorfendum. Áhorfendum verður þá óþægilega ljóst að þeir eru að hlæja að sjálfum sér.

Nektin, valdið og tilbreytingarleysið&lt

Á sviðinu birtast okkur systkinin Valter og Ella. Þau eru mætt á undan áhorfendum og á meðan salurinn fyllist ráfa þau um sviðið og drepa tímann. Þau búa í kjallara í húsi föður síns. Faðirinn er nýlátinn og á efri hæðum er yngsti sonurinn, óskabarnið Eiríkur, einn eftir. Systkinin Valter og Ella láta sig dreyma um þær jákvæðu breytingar sem föðurmissirinn getur haft í för með sér. Þau sjá fram á að geta rutt litla bróður úr vegi og vilja sjálf færa sig upp úr kjallaranum. Tilbreytingarleysi lífsins sem þau lifa verður manni greinilegt strax í upphafi sýningar þegar innihaldsrýrar vangaveltur þeirra eru endurteknar með örlitlum blæbrigðamun.

Þau Valter og Ella hafa ekki stigið út úr húsi í 7 ár. Þau hafa lokað sig af í kjallaranum þar sem þau láta sig dreyma um betra líf. En þau mega ekki vera að því að gera eitthvað í sínum málum. Þau eru of upptekin við að gera ekki neitt. Valter má ekki einu sinni vera að því að fara á klósettið því þá gerði hann fátt annað en að kúka. Í staðinn fabúlera þau um graða leigubílstjóra og óútgefnar skvísubækur. Eiríkur brýtur upp daginn þegar hann birtist og reynir að fá þau með sér í jarðarför föður þeirra. Þau mega ekki vera að því enda upptekin við að ræða skipulag erfisdrykkju sem þau munu ekki einu sinni halda.

Óskabarnið Eiríkur er verndaður dekurdrengur sem vill reisa gullstyttu föður sínum til heiðurs. Eldri systkinin eru meðvirkir þolendur kúgunar, ofbeldis og valdníðslu.  Í verkinu kristallast úr sér gengið yfirvald, flokkurinn og þjóðin. Þjóðin sem  gerði uppreisn gegn gömlu og spilltu valdkerfi. Hún stóð nakin frammi fyrri valdhöfum og krafðist breytinga. En þegar nýtt Ísland var í sjónmáli þá var þjóðin ekki alveg tilbúin.

Átakafullar túlkanir

Arndís Hrönn Egilsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson stóðu sig frábærlega í hlutverkum Valters og Ellu. Ólíkar túlkanir þeirra kölluðust á og mynduðu skemmtilegan kontrast á sviðinu. Hjörtur var dásamlega búffonískur í gervi sínu og leikstíl. Í meðförum hans var Valter í senn aumkunarverður og yndislegur. Arndís túlkaði Ellu af mikilli næmni og sterkri nærveru. Í hvert sinn sem hún tók til máls sogaðist maður inn í hana. Það var ekki annað hægt en að halla sér fram í sæti sínu, loka augunum og hlýða á textann – sem var frábærlega skrifaður – lifna við í flutningi Arndísar.

Arnmundur Ernst Björnsson var ískaldur í hlutverki Eiríks. En þegar Eiríkur fer að missa valdið sem hann hefur fram til þessa reynt að hrifsa til sín þá sér maður hann skreppa saman. Hann blæs svo út á nýjan leik þegar hann ákveður að gera breytingar á sínu lífi og brjótast undan því hlutverki sem honum hefur verið fengið. Arnmundi ferst þetta vel úr hendi.

Í frjálsu falli rússíbanans

Samtölin eru eðlileg og laus við tilgerð. Aðstæður og ástæður, vangaveltur og tilraunir verða allar svo dásamlega absúrd að þegar maður heldur sig vita nokkurnveginn hvert textinn er að leiða mann þá tekur hann skarpa beygju og eftir situr maður alveg ringlaður. Ég naut þess líka í botn. Ég upplifði mig á köflum í rússíbana sem þeyttist upp og niður með tempói verksins. Þegar verkið var svo brotið upp með tónlist og eintölum í míkrófón þá snarstansaði rússíbaninn í fáein augnablik áður en hann kastaðist aftur af stað, í frjálsu falli, niður í ókannað myrkrið. Höfundur verksins, Tyrfingur Tyrfingsson, skrifar afskaplega vel mótaðan og aðgengilegan texta.

Leikstjórinn nálgast verk Tyrfings á ákaflega skemmtilegan hátt og leyfir sér að taka áhættur og hrista rækilega upp í forminu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Vignir Rafn Valþórsson á eftir að halda áfram að gera góða hluti í leikstjórnarstólnum og vonandi verður áframhald á samstarfi þeirra Tyrfings.

Það var með mikilli eftirvæntingu sem ég settist niður í litla sal Borgarleikhússins. Bláskjár hefur verið hlaðinn lofi, fólk keppst við að lofsama verkið. Eftirvæntingin var því dálítið kvíðablandin. Ég óttaðist að hafa gert mér of miklar væntingar. Að í lok kvölds sæti ég einn, hristandi hausinn, veltandi því fyrir mér afhverju öllum þætti þetta frábært nema mér. Hið klassíska anti-klímax.

En allar slíkar áhyggjur voru óþarfar. Sýningin stóð fyllilega undir væntingum – bikar hennar er barmafullur af stjörnum. Takk fyrir mig.