Það er hægt að ræða fram og aftur um Halldór Kiljan Laxness og fá fram nokkuð heilsteypta mynd af honum og störfum hans án þess að minnast einu orði á Íslandsklukkuna eða Jón Hreggviðsson. En Jón Hreggviðsson á sér hinsvegar varla sjálfstæða tilvist. Um hann verður ekki rætt án þess að Laxness komi þar einhversstaðar við sögu. Ég heyrði því fleygt í pottunum í Vesturbæjarlaug að þetta væri bíómynd. Ég tók því með fyrirvara, en vitaskuld benti staðsetningin til þess að um einhversskonar bíómynd er að ræða. En Síðbúin rannsókn er sviðsverk. Vissulega fáum við að sjá búta úr mynd en verkið er ekki þessi bíómynd, heldur hverfist um þessa mynd. Svo staðsetningin er nokkuð viðeigandi – salur tvö í Bíó Paradís.
Þrír menn leggja af stað með rannsókn sem á að leiða í ljós í eitt skipti fyrir öll hvort Jón Hreggviðsson drap mann eða hvort hann drap ekki mann. Til þess fara þeir til sérfræðinga, setja sér atburðina fyrir sjónir, fara á vettvang glæpsins og gera allt það sem þeim dettur í hug til að komast að hinu sanna í málinu. Sviðsverkið sem slíkt er sett upp eins og kynningarkvöld á hálfkláraðri heimildarmynd. Þeir standa frammi fyrir eilífðarvandamálinu – það vantar meiri peninga. Fyrr komast þeir ekki lengra með myndina. Á yfirborðinu er sýningin grunnhyggin og sjálfmiðuð. Karakterar verksins eru uppfullir af eigin hugmyndum og vilja verða merkilegir. Þetta er gamanleikur og persónurnar óttaleg fífl sem gera allskyns tilraunir til að komast að hinu sanna. Þetta er vitaskuld grín. Eitthvað létt svona. Smá djók. Við getum skilið við sýninguna þannig og látið þar við sitja því þannig er hún svosem ágæt kvöldskemmtun. En það er miklu meira í henni. Undir gríninu eru allskyns spurningar um lífið og heiminn.
Þeir eru að reyna að komast undan persónu bókmenntaverksins. Þó svo að Íslandsklukkan – sem Friðgeir telur vera krimma – sé kveikjan að leit þeirra að hinum sanna atburði þá vilja þeir komast undan nóbelsskáldinu – svo mjög að það er lagt blátt bann við að nefna skáldið. Hver sem segir nafn þess þarf að borga 100 kall í sekt, 50 kall fyrir að nefna verk Halldórs og 40 krónur fyrir að tala um ritgerðasöfn. En það er sama – Jón Hreggviðsson sjálfur er aukaatriði. Hann verður alltaf aukaatriði. Þó svo að gerð sé mynd af honum eftir lýsingum þá hverfur sú mynd í skuggann af sögupersónunni. Því Laxness er á Íslandi eins og Shakespeare í Englandi. Það er ekki hægt að flýja hann. Hann varð við það eitt að fá sænsk verðlaun að alfa og omega íslenskra bókmennta; íslensks listalífs. Þetta er tilraun til að flýja ofurraunveruleikann. Við erum í honum miðjum og komumst ekki burt. Þeir ganga jafnvel svo langt að búa til eftirmynd af Jóni Hreggviðssyni í raunstærð, sem minnir á kortið af heiminum í raunstærð í skrifum Baudrillards. Þeir telja sig hafa komist að hinu sanna útliti Jóns en hafa hannað nýjan ofurraunveruleika. Þeir notast við eigin nöfn en eru þrátt fyrir það tilbúnar persónur fyrir sviðsverkið eins og hvert og eitt okkar notast við sviðspersónu á fésinu. Þeirra raunveruleiki er jafn mikið feik og hvað annað. Hvenær er einstaklingurinn hann sjálfur og hvenær ekki?
Þetta er gamanleikur. En kannski ekki víst að gamanið sé allra. Á frumsýningunni var hlegið hér og hvar um salinn, en varla hægt að segja að salurinn hafi verið samtaka í hlátrinum. Kannski er það af því að frumsýningargestir eru sér hópur. Hæsta máta virðulegir margir hverjir og hlæja ekki að hverju sem er.
Ég hitti einn slíkan sem þótti ekki mikið til koma og fannst þetta ekki góður performans. Meðan mér sjálfum þótti þetta ágætt. Skemmtileg sýn á gamalkunnugt efni sem skaut nokkrum skotum að menningunni og gerði sitt ítrasta til að búa til einhverskonar mynd af þessum rúmlega 300 ára gömlu atburðum. En það að þeir segðu þennan tiltekna glæp vera stærsta óupplýsta glæp íslandssögunnar vakti strax upp hugmyndir um annað mál sem enn er verið að vinna í að fá tekið upp að nýju. Það mál er heldur meira aðkallandi en mál Jóns Hreggviðssonar. Þar eru sakborningar flestir enn á lífi. Svo ég þóttist sjá í þessari rannsókn vísun í Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Nútíma réttarmorð þar sem atburðarrás er með ólíkindum og valdhafarnir taka ákvörðun um sekt og sakleysi án þess að fyrir því liggi fullnægjandi rök. Því vissulega var það þannig í máli Jóns. Hann var sekur fundinn en eingöngu af því að það var möguleiki á því að hann gæti hafa framið glæpinn. Þá voru engar krufningar sem hægt var að grípa til svo dómurinn byggði á ágiskun nokkurra manna frekar en staðreyndum málsins. Mál Jóns Hreggviðssonar studdist við lík böðulsins. Hann var vissulega dauður. En í máli Geirfinns er ekki einu sinni hægt að benda á lík.
Það er kannski svolítið erfitt að flokka þetta verk. Þetta er bíó en samt ekki. Þetta er sviðsverk en samt ekki. Þetta er leikrit en samt ganga sviðspersónurnar undir eigin nöfnum svo þeir eru hvorttveggja í senn skáldskapur og raunveruleiki. Þetta kallast allt á – hinn sögulegi Jón og hinn skáldaði, mynd og ekki mynd, skáldskapur og ekki skáldskapur, hvenær maður drepur mann og hvenær maður drepur ekki mann. Sannleikurinn er þarna einhversstaðar á milli. Og þó – kannski er hann órafjarri og kemur okkar hugmyndum ekki við. Það er ekki lengur á okkar færi að nálgast hið sanna, hvorki í þessu máli né mörgum öðrum.
Ég tel að það fari mjög eftir áhorfandanum hvernig hann upplifir sýninguna. Ef hann er að koma á kynningarkvöld á heimildarmynd í framleiðslu þá er þetta kynningarkvöld hreint út sagt skelfing. Ef hann er að koma að sjá gamanleik þá er þetta vissulega fyndið og skemmtilegt en hætt við að hlegið sé á mismunandi stöðum eftir áhorfendahópum. En ef maður horfir dýpra þá er verkið með háalvarlegum undirtóni – enda viðfangsefnið í sjálfu sér háalvarlegt. Svo verkið er marglaga, hefur bæði dýpt og þunga undir grínyfirborðinu.
Það vakti að minnsta kosti með mér spurningar, gaf tilefni til heilabrota. Sem er gott.
Síðbúin rannsókn er ágætis grínleikur með mikilli dýpt.