Hörmungar – ljóð

Að drukkna.
Að drukkna í legi.
Að drukkna í uppþvottalegi.
Að drukkna í svefni.
Að drukkna í uppþvottasvefni.
Sofandi í uppþvottalegi.
Móðuharðindin. Móðuharðindin.
Að drukkna í móðuharðindum. Móður af harðindum.
Að drukkna í móðuharðindum með lekanda og ilsig.
Með lekanda, ilsig, lús og gyllinæð.
Sofandi.
Að drukkna sofandi í gyllinæð, vakandi í móðuharðindum og uppþvottalegi.
Að kafna í fjarðarbotni. Blána og hvítna.
Verða úti á Kanarí. Þegar það er kalt á Kanarí.
Að gleyma að skipta um nærföt.
Að gleyma að taka með sér smokka.
Að gleypa munnskolið.
Að drukkna í munnskoli með magasár og fótaóeirð.
Að liggja andvaka með opið beinbrot á upphandleggi, ígerð og brostið hjarta.
Að liggja andvaka með brostið hjarta marínerað í uppþvottalegi.
Að drukkna í blóði. Uppi á heiði. Að drukkna uppi á heiði.
Að fá matareitrun og gubba alla nóttina.
Að gubba alla nóttina. Gubba smokkum. Að hlusta á ungabörn gráta alla nóttina á meðan maður gubbar gyllinæð, munnskoli og smokkum.
Að drukkna í kæstri skötu, drukkna í brennivínsstaupi og súrsuðum hákarli.
Að verða úti uppi á heiði á sólríkum degi. Að verða úti og drukkna. Að verða úti og kafna. Að fá hjartaáfall í sundi.
Að fá sinadrátt í sundi.
Að fá krampa í sundi.
Að festast í ristinni. Í sundi.
Að fá lost.
Að fá flog.
Í sundi.
Að drukkna í miðju flogi. Að kafna í miðju flogi. Roðna, blána, hvítna og kafna í miðju flogi.
Að lenda í aðkasti á internetinu.
Að verða fyrir árásum á internetinu.
Að verða fyrir einelti.
Að lenda í einelti. Á internetinu. Í sundi á internetinu.
Að ná honum ekki upp. Á versta tíma.
Að ná honum ekki niður. Nokkurn tíma.
Að elta hann. Að láta elta hann. Að fá illt í hann. Að fá drep í hann.
Að fá drep í rassgatið. Að drepast úr hungri. Að svelta einhvern. Fá spark í punginn og svelta einhvern.
Að liggja andvaka vegna pungsparks, vegna gyllinæðar og rifins smokks. Að liggja andvaka út af höfuðverki. Að liggja andvaka af eineltismartröðum. Að verða fyrir einelti á meðan maður liggur andvaka. Að verða fyrir einelti á meðan maður stendur í skilnaði. Að verða fyrir einelti á meðan maður er að reyna að fæða barn. Að verða fyrir einelti á meðan maður er að sofa hjá. Að verða fyrir einelti á nóttunni. Að verða fyrir einelti frá foreldrum sínum. Að eiga ekki í nein hús að venda. Að eiga hvergi stað til að halla höfði sínu. Að geta ekki kúrað því þá verður maður andvaka.
Að drepast.
Að drepast úr samviskubiti.
Að drepast úr krabbameini.
Að drepast í hnénu.
Að drepast í báðum hnjám.
Að drepast fyrir neðan mitti.
Að drepast fyrir neðan háls.
Að drepast fyrir aldur fram.
Að drepast of seint. Að hjara. Að hjara með gyllinæð og kalka. Að hjara og kalka og geta ekki sofið. Að hjara og láta dónalegar hjúkkur skeina sér og grafa í rotnuðum legusárum með litlum stálskóflum. Að drepast. Þá er betra að drepast. Þá er betra að vera ungur og liggja andvaka af áhyggjum. Þá er betra að ná honum ekki upp. Þá er betra að drepast.
Að syngja falskt. Það er vont að syngja falskt. Sker í eyrun.
Það er vont að káfa á einhverjum sem vill það ekki. Það er vont að láta káfa á sér þegar maður vill það ekki. Vont, vont, vont.
Það er vont að verða fyrir bíl. Það er vont að keyra á einhvern. Það er vont að þurfa að horfast í augu við aðstandendur. Vont að þurfa að útskýra það fyrir börnunum sínum. Að pabbi sé morðingi. Að mamma sé morðingi. Að við séum morðingjar, við foreldrarnir. Það séu ekki allir morðingjar en við séum morðingjar. Það er vont að hafa drepið einhvern með hníf. Vont að hafa skotið einhvern í hausinn. Eða kviðinn. Vont að hafa kyrkt einhvern, vont að hafa handleggsbrotið einhvern, vont að hafa brotið í einhverjum hnéskeljarnar, matað hann á saur, nauðgað mömmu hans og smitað hana af eyðni. Það er vont að detta og meiða sig. Vont að hrinda. Það má ekki hrinda. Má ekki smita af eyðni.
Það er vont að fá eyðni. Vont að fá ebóla og svínaflensu, vont að fá stóru bólu og spænsku veikina, vont að fá mislinga, vont að fá rauðu hundana og svarta dauða. Ekki fá rauðu hundana og svarta dauða. Ekki verða þess valdur að neinn annar fái rauðu hundana eða svarta dauða. Vertu góður og vandaðu þig. Það er auðvelt að vera vondur óvart.
Að drukkna og liggja andvaka ólétt með blóðkreppusótt. Að liggja andvaka af áhyggjum og niðurgangi. Að komast ekki lengra í Tetris, Candy Crush og Angry Birds. Að vera alveg að missa vitið. Bara á nippinu. Að vera afundinn. Að komast ekki lengra en 5 kílómetra á hlaupum. Að geta ekki lyft meira en 70 í bekkpressu. Að fá illt í bakið af kóbrastellingunni. Að geta ekki snert á sér tærnar. Að fitna. Að fitna. Að fitna. Að eldast og fitna og fá alls kyns húðkeppi og drepast síðan ósjálfbjarga aumingi. Ósjálfbjarga feitur aumingi. Með hor. Og sýfilis eftir hjúkkuna sem rotnar vonandi í fangelsi. Að rotna í fangelsi. Að rotna á elliheimili. Að rotna í gröfinni. Að drepast í svefni. Að kafna í svefni.
Að kafna á geðsjúkrahæli. Að halda að maður sé að kafna á geðsjúkrahæli þegar maður er alls ekkert að kafna á geðsjúkrahæli. Að komast ekki út af geðsjúkrahæli. Komast ekki út um rimlagluggana. Komast ekki gegnum stálhurðina. Öskra af lífs og sálar kröftum án þess að nokkur heyri til manns. Að gefast upp. Að geta ekki meira. Hlaupa á bólstraða veggi og nudda blóðinu í roðið og bólgið holdið.
Að fróa sér grátandi. Að ríða grátandi. Láta ríða sér grátandi. Láta fróa sér grátandi. Að fá grjót í höfuðið. Að vera vondur við aðra. Að leyfa öðrum ekki að vera með í leiknum. Að hrinda öðrum niður af hól. Að ýta þeim af rólunni. Grátandi. Að troða upp í þá sandi. Troða sandi í buxurnar þeirra. Að fróa sér einn. Einn. Einn. Fitna og fróa sér einn. Yfir sjónvarpinu. Yfir Facebook. Á klósettinu. Við opinn glugga svo maður heyri í vegfarendum. Stynja lágt og velta því fyrir sér hvort nokkur heyri til manns. Standa nakinn við gluggann í eitt augnablik í von um að æsast en æsast ekki. Æsast aldrei.
Að hafa engar langanir. Að hafa engar þrár. Að elska ekki og hata ekki og finna ekki yfir höfuð til. Að drepast úr löngunum og þrám. Drepast úr æsingi. Fá hjartaáfall í miðjum samförum. Að fá hjartaáfall við upphaf samfara. Fá hjartaáfall að þeim loknum. Fá hjartaáfall einn heima. Yfir sjónvarpinu. Yfir Facebook. Á klósettinu. Með gyllinæð og fótaóeirð, andvaka á gamlárskvöld, hundur nágrannans búinn að missa vitið og allir á hvínandi fylleríi nema þú, sem finnst ekki fyrren mörgum dögum síðar. Kannski ekki fyrren á Þrettándanum.
Að ganga asnalega. Að líta asnalega út. Með skarð í vör. Með sprungna vör og glóðarauga. Með valbrá. Með ör og vörtur. Með visinn handlegg. Vagl í auga. Misstór brjóst. Bogið typpi. Siginn rass. Klumbrufót. Skakkar hnéskeljar. Risavaxið nef. Hökulaus með skakkt bit. Að vera aumingi með rass fyrir andlit. Siginaxla með pectus excavatum og inngróin punghár.
Með rakaða píku og spaslað andlit. Með rakað andlit og spaslaða píku. Í alltof dýrum fötum og alltof gömlum fötum og alltof stórum fötum og alltof eitthvað akkúrat. Alltof vinalegur. Alltof brosmildur. Alltof alvarlegur. Alltof kjánalegur. Alltof tilgerðarlegur. Alltof háfleygur. Alltof lágkúrulegur. Alltof ör. Alltof hægur. Alltof uppgefinn og ofvirkur. Það er vont að vera alltof ofvirkur. Ekki samt gefast upp, ekki missa vonina. Það geta allir farið í ræktina. Allir farið í jóga og hugleitt fyrir götin á sálinni. Stoppað í götin. Það geta allir fengið sixpakk. Það geta allir misst kíló. Það geta ekki allir eignast börn en það geta allir misst kíló. Það geta ekki allir spilað á píanó en það geta allir komið sér í form.
Við hljótum öll að vera sammála um að eymdin er engum að kenna nema okkur sjálfum. Syndin er engum að kenna nema okkur sjálfum. Við höfum kallað þessar hörmungar yfir okkur. Þetta er engum að kenna. Engum. Nema okkur sjálfum.

Eiríkur Örn Norðdahl