Fjarskyldir ættingjar eftir Jón Hall Stefánsson

 

Nokkur eftirminnileg andartök

Annalísa smellir kossi á ennið á mér.
Herbert tekur í höndina á mér og horfist í augu við mig.
Sigurjón blikkar mig um leið og hann kyssir Ernu.
Eiríkur snertir mig einsog óviljandi og brosir.
Axel lítur á mig og hristir höfuðið.
Anna nartar í eyrnasnepilinn á mér og flissar.
Nataníel lítur undan augnaráði mínu.
Andrea þekkir mig ekki aftur.
Kolbrún minnist á skeggvöxt minn.
Sigrún klappar mér hughreystandi á öxlina.

Fermetri

Árni hringir í mig, segist vera skilinn
við Ingibjörgu. Ég hvái, lýsi furðu, tjái
áhyggjur mínar af líðan hans,
spyr hvort hann sé byrjaður að drekka aftur.
Nei, svarar hann, það var bara ekki pláss fyrir sjálfan mig
í lífi mínu, ég þurfti að verða mér út um einsog einn fermetra
ekki endilega af hamingju, heldur bara
grunnflöt til að standa á eigin fótum
og horfa í kringum mig.

Sinnep

Þau keyrðu framhjá enn einum heiðgulum akri.
Þetta eru sinnepsblóm, sagði Karólína.
Og hvenær gerðist þetta? svaraði Benjamín.
Bróðir minn sagði alltaf, hélt hún áfram: Af hverju
eru engir tómatssósuakrar?
Benjamín þagði um hríð en sagði svo:
Af hverju ertu að segja mér þetta núna?
Karólína glotti, svolítið einkennilega, einsog hana
langaði alls ekki að glotta en réði ekki við sig.
Þarna er annar, sagði hún svo, og nú voru gulir akrar
báðum megin við bílinn, sinnepsblóm
svo langt sem augað eygði. Það var þá
sem Benjamín snöggbeygði út á akurinn
vinstra megin við þau
og eftir örlítið hnjask
á kantinum brunaði
bíllinn á fleygiferð
yfir sinnepsakurinn
án þess að hægt
væri að sjá
hvert ferðinni
væri heitið.

Gjöf

Það sló þögn á gestina
meðan Andri virti fyrir sér afmælisgjöfina.
Bókin var rústrauð í litlu broti
titillinn og nafn höfundarins
letruð með stórum stöfum
yfir alla forsíðuna
titillinn svartur
og höfundarnafnið appelsínugult.
Andri var mikill bókamaður
en hann var rétt í þessu að uppgötva
að hann kunni ekki lengur að lesa.
Æðar höfðu sprungið í heila hans
og nú bar hann ekki kennsl á stafina.
Það eina sem hann gat hugsað um
var hvort einhver hefði rekið nagla
í ennið á honum. Ertu ánægður
með hana? spurði Brynhildur.
Hún horfði brosandi á hann. Hann
bar ekki kennsl á hana
en brosti á móti, óviss
um hvort koss væri við hæfi.

Tígulsteinarnir

Úti í horni á bílskúrnum
var kassi með tígulsteinum.
Þar hafði hann staðið
frá því Ástvaldur og Bergljót fluttu inn
átta árum áður.
Steinarnir fylgdu með húsinu
en ekki hugmyndin á bakvið þá.
Ástvaldur hafði tekið upp á þeim óvana
að tína steinana upp úr kassanum
og strjúka þá meðan hann hugsaði um
til hvers þeir væru.
Það var nýlegt bárujárnsþak á húsinu,
tígulsteinarnir
hefðu hvort eð var ekki dugað á þakið.
Stundum taldi Ástvaldur steinana
og reiknaði út enn og aftur
hve stóran flöt steinarnir mundu þekja.
Bergljót stríddi honum á þessu
til að byrja með, kallaði hann
Tígulgosann
eftir gömlu íslensku klámblaði.
En svo fór að hún hætti að hafa orð á þessu
og tígulsteinarnir hurfu
inn í mistur þeirra hluta
sem ekki voru
ræddir á heimilinu.

Moll

Halldór skoðar gítarinn sinn, strýkur verstu
fingraförin af honum með bláa klútnum,
stillir hann vandlega og slær einn hljóm, A-moll
er málið, finnst honum. Og það er nóg.
Hann hefur lagt sitt af mörkum.
Þessi hljómur ómar í sálinni það sem eftir lifir dagsins.
Sendiferðabíllinn stendur úti, það er freistandi
að láta hann bara standa en Halldór
ætlar að standast þá freistingu, þetta
gæti verið hinn fullkomni dagur á bílnum.
Og þá hringir síminn. Hefði hann bara
slegið A-dúr, hugsar hann eftir símtalið
meðvitaður um hversu
fáránleg sú hugsun er.

Tvíbreitt rúm

Finnboga finnst hann heyra andardrátt
í rúminu við hliðina á sér, hann heldur
niðri í sér andanum og hlustar:
hann gæti svo svarið
að það er verið að anda
hægt og rólega
ekki hratt og skrykkjótt,
ekki másandi með stöku stunu
sem mundi rífa hann upp úr mókinu
ef hann þættist sofa.
En hann þykist ekki sofa,
hann er glaðvakandi og hlustar
á þennan andardrátt sem ekki er
en framkallast þó einsog af gömlum vana
á koddanum við hliðina á koddanum hans.
Hann rifjar upp söguna um timbursöluna gömlu
og hljóðin hennar sem hættu ekki að
heyrast þegar hún var rifin. Það voru
stararnir í hverfinu sem gáfu þau hljóð
frá sér. Ef andardrátturinn
á koddanum er í boði staranna
er Finnbogi þeim þakklátur.

Flóð

Í svefnrofunum hélt Brynhildur að það væri kviknað í húsinu en hún vissi að það hlyti að vera draumur því hún fann enga reykjarlykt. Þegar hún vaknaði sá hún varla handa sinna skil. Hún neri augun en það breytti engu. Fálmaði eftir gleraugunum en fann þau ekki. Gripin skelfingu leitaði hún að öxlinn á Guðfinni. Hún sá móta fyrir andliti hans einsog í þoku. – Guðfinnur, það er eitthvað að. Ég held ég sé orðin blind, sagði hún. Hann hrökk upp og bar vinstri höndina strax fyrir munninn um leið og hann fálmaði eftir tönnunum í glasinu á náttborðinu. Guðfinnur vildi ekki láta neinn sjá sig tannlausan, ekki einu sinni hana. – Hver andskotinn er þetta, sagði hann svo og teygði sig í rauða náttlampann yfir höfðagaflinum hans megin. Henni hafði ekki hugkvæmst það. En það gilti einu, lampinn virkaði ekki þótt hún heyrði hann þrýsta á hnappinn. Guðfinnur blótaði aftur, reis upp við dogg og mismunaði fótunum fram af rúmstokknum. Þegar hann snerti gólfið blótaði hann enn einu sinni og kippti fótunum að sér. – Þetta er ekki bara gufa, það er allt á floti í sjóðheitu vatni! sagði hann. Brynhildur saup hveljur af feginleika. Þetta var bara gufa, hún var ekki að verða blind. Augu hennar fylltust af tárum. Hún settist á rúmstokkinn og stakk fótunum varlega ofan í vatnið. Það var ekki óþægilega heitt, svipað hitastig og í venjulegu fótabaði. Hún óð ökkladjúpt vatnið að rúmgaflinum og rétti Guðfinni höndina. Þau leiddust út um dyrnar og fram á ganginn, hann fussandi og sveiandi, hún grátandi af orðlausum fögnuði.