Mynd: © Meðgönguljóð/Gulli Már

Ætar kökuskreytingar

Þriðja ljóðabók Emils Hjörvars Petersen, Ætar kökuskreytingar, kemur út næstkomandi fimmtudag, 4. september 2014. Forlagið Meðgönguljóð er útgefandi bókarinnar.

Ætar kökuskreytingar er ljóðabók fyrir fólk sem leitar að sannleik og fegurð í samfélagi sem telur hamingjuna felast í veislum þar sem boðið er upp á kökur með ætum skreytingum.

Aetar_kokuskreytingar-forsidaBókin er sú sjötta í kaffibollaseríu Meðgönguljóða—grasrótarforlags sem sérhæfir sig í útgáfu efnilegra skálda sem flest eru að stíga sín fyrstu opinberu skref á ferlinum. Bækurnar í flokknum kosta á við einn kaffibolla og eru ætlaðar sem jafn sjálfsagt veganesti út af kaffihúsinu. Eins og aðrar bækur í seríunni er Ætar kökuskreytingar prentuð í takmörkuðu upplagi og er hver bók einstök, tölusett og handsaumuð. Ritstjóri bókarinnar var Kristín Svava Tómasdóttir og kápumynd teiknaði Katrín Helena Jónsdóttir.

Emil Hjörvar Petersen (f. 1984) ólst upp í Kópavogi. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi, námi í almennri bókmenntafræði og íslensku við Háskóla Íslands, mastersnámi í hagnýtri ritstjórn við HÍ og mastersnámi í bókmennta- og menningarfræði frá Lundarháskóla í Svíþjóð. Emil hefur áður gefið út ljóðabækurnar Refur (2008) og Gárungagap (2007) sem og skáldsögurnar Saga eftirlifenda I: Höður og Baldur (2010) og Saga eftirlifenda II: Heljarþröm (2012) undir merkjum höfundaforlagsins Nykurs. Síðasta bók skáldsagnaþríleiksins, Saga eftirlifenda III: Níðhöggur, er væntanleg í haust.

 

Áður hefur komið út í seríunni:

Neindarkennd (2014) eftir Björk Þorgrímsdóttur

Stofumyrkur (2013) eftir Bergrúnu Önnu Hallsteinsdóttur

Unglingar (2013) eftir Arngunni Árnadóttur

Herra Hjúkket (2012) eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur

Þungir forsetar (2012) eftir Valgerði Þóroddsdóttur og Kára Tulinius