Veggmynd Errós afhjúpuð að Álftahólum í Breiðholti, laugardaginn 6. september kl. 14

Listasafn Reykjavíkur býður til formlegrar afhjúpunar á vegglistaverki Errós á Álftahólum 4-6 í Breiðholti laugardaginn 6. september kl. 14 að viðstöddum listamanninum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpar veggmyndina. Sama dag verður sýning á verkum Errós opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi kl. 16 ásamt sýningu á verkum Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur og Mojoko & Shang Liang frá Singapúr. Allir velkomnir.

Erró er heiðursborgari Reykjavíkur og hefur í gegnum tíðina sýnt Reykjavíkurborg og Listasafni Reykjavíkur rausnarskap með því að gefa safninu verk sín. Verk eftir Erró hafa verið sýnd á mörgum helstu söfnum Evrópu og víða um heim. Veggmyndir hans prýða merkar byggingar í mörgum borgum og hafa mikið aðdráttarafl og aukið umhverfisgæði þar sem þær hafa verið settar upp.

Erró útfærði teikningu sína í samráði við Listasafn Reykjavíkur á tvær byggingar í Breiðholti, annars vegar á Álftahóla og hins vegar á íþróttamiðstöðina við Austurberg. Lagt var upp með að efri hluti myndarinnar á Álftahólum sæist úr mikilli fjarlægð. Neðri hlutinn birtist svo þegar komið væri nálægt myndinni. Hugmyndin er að láta listaverkið kalla fólk langt að og bjóða því inn í hverfið til að njóta heildarmyndarinnar. Fígúrur úr myndinni verða svo stækkaðar á bogadreginn vegg íþróttahússins við Austurberg.

Borgarráð ákvað á síðasta ári að fjölga listaverkum í opinberu rými í Breiðholti og er verkið hluti af því átaki. Verkefninu er ætlað að breiða út list í opinberu rými utan miðborgarinnar, fegra hverfið og skapa umræðu. Um er að ræða fimm stórar veggmyndir eftir listamennina Erró, Theresu Himmer, Söru Riel og Ragnar Kjartansson auk minni veggmynda eftir unga listamenn úr frístundamiðstöðinni Miðbergi. Verk Theresu Himmer var afhjúpað síðasta haust á húsgafli við Jórufell og í sumar var afhjúpað verk eftir Söru Riel á fjölbýlishúsi við Asparfell. Keramikmynd eftir Erró verður síðar sett á vegg við íþróttahúsið við Austurberg og á döfinni er að hefja gerð veggmyndar Ragnars Kjartanssonar á Krummahólum en hún verður afhjúpuð laugardaginn 20. september kl. 14.

Listasafn Reykjavíkur hefur haft umsjón með verkefninu sem hefur verið unnið í samráði við íbúa í Breiðholti og hverfisráð.

Boðið verður upp á tónlist og veitingar við afhjúpun verksins.

via Veggmynd Errós afhjúpuð að Álftahólum í Breiðholti, laugardaginn 6. september kl. 14.